<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þetta var áhugaverður sálfræðitími í dag. Við vorum látin lesa mismunandi greinar og hópa okkur svo saman og gera grein fyrir öðrum það sem við höfðum lesið. Ég hafði lesið grein um áhrif og þýðingu drauma, sem vakti ekki alveg áhuga minn.

Svo fékk annar í hópnum orðið og fjallaði um muninn á milli sérvisku og geðsjúkdóms. Eitthvað fór að smella saman í hausnum og svo þegar ég kom heim, tók ég mig til og las greinina.

Sálfræðingur nokkur tók sig sem sagt til og gerði könnun á 1000 manns sem á einn eða annan hátt voru flokkaðir sem sérvitringar. Þessi rannsókn spannaði tíu ár. Þessum sálfræðingi tókst að finna 15 einkenni sem gæfu lesandanum hugmynd um hvort hann sé sérvitur. Þeim er raðað upp eftir mikilvægi. Fyrstu fimm atriðin eru mest lýsandi fyrir sérvitring, en hafi maður tíu eða fleiri af persónueinkennunum telst hann sérvitur.

Sérvitringur:

* hundsar viðmið, sérstaklega kirkjunnar (nonconforming, leitið þessu upp)
* er skapandi
* er mjög forvitinn
* er hugsjónalegur (idealistic, fáránleg þýðing, ég veit)
* er heltekinn af tilteknu áhugamáli (oft fleiri en einu) og er stoltur af því
* hefur tekið eftir því snemma í bernsku að hún er öðruvísi en aðrir
* er gáfaður
* hefur skoðanir og er opinskár
* er ekki kappsfullur
* hefur óvenjulegar venjur þegar kemur að mat og búsetu
* hefur ekki áhuga á skoðunum né félagsskap annarra
* hrekkvís kímni
* er einhleypur
* Elsta barn eða einbirni
* er lélegur í stafsetningu

Frægir sérvitringar nefndir í bókinni eru m.a.:

Benjamin Franklin. Hann fór í "loftböð" heilsunnar vegna, þ.e. að standa nakinn við opinn glugga. Hann er, í augum Bandaríkjamanna, þjóðhetja.

Alexander Graham Bell dró fyrir alla gluggana til að verjast geislum frá tunglinu. Hann reyndi líka að kenna hundinum sínum að tala. Hann fann líka upp á talsímanum.

Þegar ég reyndi að telja hve mörg af þessum einkennum væri hægt að heimfæra upp á mig varð ég frekar hræddur því mér fannst allt passa við mig nema þrjú atriði. Út frá þessu ætti aðal hobbíið mitt að vera eitthvað í þá leið að gala eins og hani á hverjum morgni á slaginu sex, í engu nema ballerínukjól.

En svo fór ég í aðeins nánari naflaskoðun og komst að þeirri niðurstöðu að ég er í mesta falli bara einkennilegur. Ég taldi upp á nýtt og það kom heim og saman. Það eru bara svona 9 eða 10 af þessu sem á við mig...

Eða er ég kannski bara í afneitun?


|

föstudagur, desember 15, 2006

Meðal þeirra sem ég kaupi jólagjafir handa á hverju ári skil ég sjálfan mig aldrei útundan. Í ár keypti ég Mokka-könnu þar sem það vantaði eina slíka á heimilið. Nú iða ég allur og klukkan er rétt rúmlega fimm og ég þreyti þreyttur þýskupróf eftir tæplega fjóra tíma.

Ingibjörg, systir mín, átti afmæli í gær. Ég gaf henni jólaplötuna frá Sufjan Stevens. Mér finnst voðalega fúlt að hafa ekki geta farið á tónleikana í Fríkirkjunni.....hreinlega missti alveg af miðasölunni. Rosalega held ég að þessi jólaplata sé ljúf.

Þetta er eiginlega enn eitt dæmið sem styður það að yfirleitt kaupir maður það sem manni sjálfum vantar eða langar í, handa einhverjum öðrum.

tölvan fór næstum því í screen-saver gírinn núna.

Je suis fatigué. J'ai mal au cœur.

21 mínúta er liðin síðan ég leit síðast á klukkuna. Þetta brýtur alveg í bága við þær kenningar að tíminn líði hægar á tímum eirðarleysis.

Ég var að copy-peista það sem ég skrifaði núna undir því yfirskini að ég þyrfti líklegast að logga mig aftur inn á blogger.com til að birta þessa færslu því ég er ekki búinn að gera neirr á síðunni í svo langan tíma.

Bara til að það yrði öruggt að þetta birtist.

Dísus, ég hef aldrei verið svona syfjaður! Ich habe Hunger. Ich habe nichts in sieben Stunden gegessen!

Screen-saver aftur.

L

yklaborðið mitt er ógeðslega skítugt.

Jæja, ég læt þetta gott heita. Þetta eru hugleiðingar manneskju sem hefur orðið tímabundnum andlegum kvillum að bráð sökum þess að neita sér um sjálfsagðar hvatir.

Ég ætla að sofa í smástund og vona að ég sofi ekki yfir mig.


|

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Kominn tími til að uppfæra aðeins þessa síðu.

Ég veit ekki af hverju ég bloggaði aldrei um það, en við erum búin að breyta nafninu á hljómsveitinni. Núna heitum við Gamma Gazette og berum þar með sama nafn og dagblað Gamma-fólksins í sögunni Brave New World eftir Aldous Huxley.

Við vorum öll sammála um að þetta væri skref fram á við, eftir að hafa ítrekað lent í því að fólk mundi aldrei hvernig ætti að stafa nafnið, hvernig ætti að bera það fram og margt fleira sem ætti að vera lykilatriði í hljómsveitarnafni.

Við ákváðum þetta nafn fram yfir mörg önnur, þó munaði litlu að við hefðum endað sem hljómsveitin Bris, sem er ekki einungis líffærið sem útvegar líkamanum það insúlín sem þarf, heldur er þetta nafnið á þeirri athöfn að umskera nýfæddan strák af kyni Davíðs (gyðingaathöfn sem sagt...).

Við ætluðum á öðrum tímapunkti að heita Grass. Það hefði rímað skemmtilega við hljómsveitina Rass, ef við myndum einhvern tímann leiða saman hesta okkar. Hugmyndin var að kalla okkur í höfuðið á Nóbelshöfundinum Günther Grass.....eða var það ekki augljóst?

En já, Gamma Gazette heitum við nú og fer senn að líða að því að við spilum á okkar fyrstu tónleikum sem svonefnd hljómsveit. Það verður á Tónlistarviku í MR seinna í nóvember. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvenær, en það kemur í ljós þegar nær dregur.

Hvassegiði? Hvernig leggst nafnið í ykkur svona fyrst um sinn?


|

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Ég vildi að ég ég gæti stoppað tímann þannig að ég hefði tíma til að klára bókina fyrir þýsku.

Ég vildi einnig að ég gæti gert það sofandi.


|

laugardagur, nóvember 04, 2006

Nöllfest pæling dagsins

Í dag voru verðlaunaafhendingar vegna nýsköpunarkeppni grunnskólanema. Athyglisverðasta hugmyndin að mínu mati var svokölluð „tónfræðireiknivél“. Nokkuð augljóst hvaða hlutverki hún gegnir þar sem oft fylgir tónfræðinni ákveðnir útreikningar.

Tónfræðin er orðin svipuð grein og stærðfræði. Ákveðinn hugsunarháttur til að útskýra abstrakt hluti sem hafa þó áhrif á efnislegt líf á einn eða annan hátt. Greinarnar eru með annan fótinn á sviði raungreinarinnar, á meðan hinn er meira í takt við heimsspekina.


|

sunnudagur, október 22, 2006

Jeminn eini, alltaf kemst maður í sama gírinn þegar ekkert annað er áhugaverðara í sjónvarpinu en kristilega sjónvarpsstöðin Omega. Sú stöð er eiginlega myndrænt jafngildi Bylgjunnar (ath. ég er ekki að tala um hliðstæðurnar, sem eru sjónvarpsstöðin Omega og útvarpsstöðin Lindin).

Ástæðan fyrir því að fólk hlustar á Bylgjuna er að það vill hlusta á útvarpsstöð sem krefst ekki of mikillar einbeitingar, t.d. ef verið er að tefla, diffra eða kljúfa úran með handafli. Ef þú hins vegar reynir að einbeita þér að því að hlusta á Bylgjuna þá slokknar sjálfkrafa á þér, líkt og í baði þegar maður fær allt í einu óbilandi áhuga á sápufroðunni.

Þennan eiginleika er líka hægt að finna á Omega. Ég eyddi tíu mínútum, án þess að blikka auga, í það eitt að fylgjast með laglausum hvítasunnukántríbubba lofa Jesú á krossinum hástöfum fyrir að hafa veitt heiminum alla þá gleði sem fyrirfinnst í honum í dag. Ekki ósvipað því að stara á vegg. En þá aftur vaknar sú spurning hvort ég bregðist ekki öðruvísi við ef ég væri Gunnar í Krossinum. Væri ég ekki öskrandi Hallelúja og Amen við öllu sem falski, sveitti, frelsaði, líklega fyrrum sýrutrippaði tappi segði?

Það eru svo margar spurningar sem vert er að spyrja og hver hefur sína spurningu sem það myndi vilja leggja fyrir Guð. Margir gætu hugsað sér að lifa í eftirsjá og spyrja hana (þar sem mannleg ímynd Guðs er tónlistarkonan Alanis Morrisette) um tilgang lífsins, e.t.v. í þeim tilgangi að eyða himnesku lífi sínu í að ímynda sér hvernig lífið hefði verið á jörðu niðri hefði það haft þessa vitneskju. Ég ætla ekki að spyrja að þessu. Ég er búinn að sjá Dogma og veit allt um það.

Guð, af hverju ertu að láta okkur deyja og fara til himnaríkis? Verður ekki Gunnar á Krossinum þar líka?

Himnaríki er skrautlegt fyrirbæri.


|

fimmtudagur, október 12, 2006

Ég átti leið niður Brautarholtið áðan og rak augun á auglýsingarskilti frá AVEDA með eftirfarandi slagorði:

Prófaðu og þú vilt ekki annað

Ég veit ekki með ykkur en þetta væri persónulegt álit mitt á Euro Shopper hárvörum, ef þær eru til (vonum ekki).


|

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Bráðum verður liðið heilt ár síðan ég sótti um vinnu í Melabúðinni, þar sem ég vinn ennþá. Ég er nokkuð viss um að ég sé tilbúinn að segja skilið við þann vinnustað núna, þetta er komið gott. Ég held að það sé fínt - a.m.k. á meðan maður er ennþá hluti af nýjabrumi vinnumarkaðarins - að kveðja vinnustaðinn sinn á meðan maður ber ennþá hlýju til hans. Ég get án gríns fullyrt að þetta er besta vinnan mín hingað til (í samaburði við vinnuskólann, skátastarfið, blaðaútburð hjá mogganum, DV) en ég er farinn að finna fyrir því að ég get ekki unnið þar mikið lengur.

Það er rosamargt sem ég kann núna, þökk sé Melabúðinni:

Ég:

- kann að afgreiða á kassa.
- skil hugsunina bakvið að setja nýrri vörur aftast í hillur (svona common sense sem enginn hugsar kannski útí).
- þekki muninn á haus og kjamma.
- er farinn að geta séð hvort læri sé af gimbur eða ekki.
- er kominn með óbeit á útvarpsstöðinni Bylgjan.
- get sett plastfilmu yfir flestar tegundir íláts á innan við 5 sekúndum.
- get fundið næstum því hvaða vöru sem er í búðinni án þess að leita að henni.

Leit mín að nýrri vinnu hefst á morgun.

Fila Brazillia rokkar heiminn minn þessa dagana!


|

mánudagur, júlí 17, 2006

Ég las í mogganum mjög upplífgandi ummfjöllun um nýjustu plötu metalmurtanna í Sólstöfum. Ég á eina plötu með þeim – Í Blóði og Anda – og fann mig knúinn af forvitni til að skoða aðeins hvað rýnirinn hafði að segja. Því lengra sem ég las, því betur áttaði ég mig á því hve sammála ég var Heiðu [höfundi], sérsaklega þegar hún bar þá saman við Sigur Rós. Einhverjum þætti það langsótt della. Ekki mér. Báðar hljómsveitirnar byggja lögin sín á endurtekningum, sem þeirra helsti styrkur. Sigur Rós hefur sýnt að það er alveg visst rokk element í þeim, sbr. Glósóli til að nefna eitthvað augljóst, en þess ber einnig að nefna að þeir byrjuðu sem metalgrúppa og mér skilst að þeir séu allir Iron Maiden aðdáendur. Sólstafir á hinn bóginn hafa oft sýnt að þeir hafa mjög hæga og rólega, en kröftuga hlið á sér, sem þeir nota óspart milli þess sem þeir láta drynja í öllu sem þeir hamra á.

Hróarskelda að baki. Reyndar svolítið langt síðan, en einhvern veginn hef ég ekki verið í neinu bloggstuði í núna góðan mánuð. Ég reyni við tækifæri að minnast á hinar og þessar sögurnar í framtíðinni í misgóðu samhengi við heildarefni hverrar uppfærslu. Það sem er mér efst í huga núna tengt Danmerkurfrð mína er kengurukjötið sem ég gæddi mér á á Reef'n'Beef í miðbæ Kaupmnnahafnar kvöldið áður en ég flaug heim. Bragðaðist ekki ósvipað nauti.

Ég er akkúrat núna að reyna að velja einhverjar myndir sem voru teknar af hljómsveitinni fyrir nokkrum vikum síðan. Guðný, systir Magga, tók þær og af einhverjum ástæðum gátum við ekki fundið betri stað en inni í herberginu hennar.


|

fimmtudagur, júní 29, 2006

Fra svo morgu er ad segja ad eg hef ekki hugmynd hvar eg a ad byrja. Thetta er buid ad vera algert brjalædi sidan eg kom til Danmerkur, eg bjost engan veginn vid neinu thessu liku. I stuttu mali tha finnst mer thad sem eg hef sed af Danmorku mjog heillandi og gaman ad geta loksins heimsott thad og spreyta sig pinu i malinu.

Vid lentum a Kastrup flugvellinum um half tiu leytid ad stadartima fyrir fimm dogum, ef eg hef reiknad thetta rett. Vid akvadum, i stadinn fyrir ad reyna ad redda okkur gistingu, ad vaka alla nottina og rolta i bænum til morguns. Margt skedi a theim tima. Eg tyndist tvisvar og that endadi thannig ad eg var a undan vinum minum a Roskilde svædid, an sima thvi Kristjan Skuli baudst til ad hlada hann fyrir mig......

Nu erum vid buin ad koma okkur almennilega fyrir og erum farin ad drekka bjorinn i kassavis eins og eiginlega allir. I dag byrja svo tonleikarnir og eg er mikid buinn ad spa og spekulera hvad eg ætla ad sja adur en eg fer a Sigur Ros.

Eg fila that ekki mikid hversu thurr ferdablogg geta verid. Kannski er eg ekki i besta studinu til ad skrifa. Thetta reddast thegar eg get sett myndir inn a siduna.

Hej


|

fimmtudagur, maí 25, 2006

Ég er byrjaður að lesa Choke eftir dýrlinginn hann Chuck Palahniuk.

Enn sem komið er hefur hann réttlætt og fegrað til muna það fyrirbæri sem klám er, staðfest það sem ég hef alltaf vitað um sápuóperur og gert mér það í skilning, að söfn með visst tímabil sem þema (eins og t.d. Árbæjarsafnið), eru froðan ein ef þau sleppa því að fjalla um rónana, mellurnar og alla umkomuleysingjana, en í staðinn hampa mjaltarstúlkunum og litlu sætu kirkjunum með gras fyrir þak.

Þetta var nokkuð löng málsgrein.

Ég vinn eins og brjálæðingur. Ég verð ríkur um mánaðarmótin býst ég við. Ég sé mér meira að segja kannski ekki unnt til að kjósa á laugardaginn. Hvenær verður kjörstöðvum lokað?

Annars var ég að skoða kosningaáróðursbleðil Sjálfstæðisflokksins, nánar tiltekið frá Heimdalli. Mér finnst ekkert meira koma til þessa flokks en hinna. Kannski geri ég borginni mestan greiða með því að kjósa Framsókn eða Frjálslynda svo að það verði vonandi aðeins meira jafnvægi í borgarstjórn, mér þætti leiðinlegt ef einn flokkur réði öllu. Það viljum við ekki að gerist, er það nokkuð? Það eru allir eitthvað svo ósáttir við þá stjórnareinokun sem var við lýði núna síðustu fjögur árin, ha.......?

Mér finnst líka alveg skína í gegn, þótt sjálfstæðismenn, sérstaklega hinir ungu, munu aldrei viðurkenna það: Þetta er ennþá bara gamla Íhaldið. Heimdallur er búinn að játa, í hljóði, í bringuna á sér, með því að gefa út skítkast á aðra flokka á 12 síðum.

Kosningarloforðin eru líka frekar ruglandi. Þeir lofa m.a. „...að fjölga bílastæðum í miðborginni og bjóða hluta þeirra án endurgjalds í tiltekinn tíma í senn.“ Takið eftir „...hluta þeirra...“. Takið einnig eftir „...tiltekinn tíma í senn.“. Segið mér nú satt, er þetta virkilega loforð sem felur í sér göfgi á nokkurn hátt?

Ég segi bara, kjósum jafnt af öllu. Þetta er hvort eð er allt eins, svona í megindráttum.


|

miðvikudagur, maí 17, 2006

Elsa fer til Burgos að læra spænsku í fyrramálið. Hún verður í fjórar vikur.

Það eru 28 dagar.

672 klukkustundir!

Ég verð dáinn úr elli því tíminn verður svo lengi að líða hjá mér.


|

mánudagur, maí 15, 2006

Last.fm er sá fídus í tölvuheiminum sem ég hef komist næst að elska. Með bara fáeinum klikkum get ég valið hvers konar tónlist ég vil hlusta á og með tímanum fer tölvan að þekkja inn á mig og getur farið að spila eitthvað sem ég fíla en hef aldrei heyrt á ævinni.

Ef þið finnið árangursríkari leið til að komast í tæri við nýja tónlist, látið mig vita!

Bætt við kl. 21:19:

Ég hef ákveðið að flippa svolítið og birta á síðunni það sem ég er að hlusta á hverju sinni, það sem er tónlistarlega á döfinni. Núna er ég t.d. að hlusta á útvarpsstöð sem hefur japanskt þema. Übër töff!

P.S. Davíð: Last.fm > pandora.com = PWN!


|

föstudagur, maí 12, 2006

Ég er alveg asnalega þreyttur. Ég er búinn að hlusta á 10.000 days með Tool þrisvar í einni lotu og spila Bubble Shooter. Allan þann tíma hugsaði ég með mér að það væri kannski sniðugt að fara bara að sofa. Ég túlka það sem svo að Tool hafi haft yfirhöndina, þrisvar.

Ég er byrjaður að fíla hana soldið. Minnir mig svolítið á þegar ég hlustaði fyrst á Lateralus með sömu hljómsveit þegar ég var í 9.bekk. Tekur mjög langan tíma að melta og er í rauninni algert óæti við allra fyrstu hlustun. Kosturinn við hana samt er að hún fer aldrei úr líkamanum. Öll næring nær að meltast og ekkert fer til spillist þannig að að lokum fer ekkert út (þetta er samt alveg frekar lífræn lýsing á plötunni). Núna skemmti ég mér við það að uppgötva alltaf eitthvað nýtt sem einkennir plötuna, það er eins og hún sé óendanleg hvað varðar dýpt og tjáningu.

Nú þarf ég að fara í gegnum það sama með 10.000 days. Tekur mig örugglega þetta marga daga að meta hana almennilega.

Ef ég mætti bara lýsa Tool með einu orði þá væri það lífræn. Örugglega vegna þess hvað mér finnst eins og þeir séu í rauninni að spila á líkama sinn í gegnum hljóðfærin. Kannski finnst mér þetta einum, ég veit ekki hvort fólk tengi Tool á nokkurn hátt við lífrænt fæði...


|

sunnudagur, maí 07, 2006

Hér á eftir fer fram myndræn skrásetning á afmælisboðinu sem ég hélt fyrir hljómsveitarmeðlimi og maka þeirra. Njótið.|

fimmtudagur, maí 04, 2006

Það hefur ekki klikkað að ég blogga á afmælisdeginum mínum. Ég blogga reyndar líka alltaf þegar bloggið á afmæli en ég fattaði það ekki fyrr en seinna að ég skrifaði einhverja þvælu án þess að hafa hugmynd um að bloggið mitt var orðið þriggja ára. En nú lendi ég á þeim tímamótum að ég er sexfalt eldri en bloggsíðan mín (og veröldin verður ekki söm við sig eftir að hafa öðlast þessa vitneskju).

Ég hef eflaust einum of oft minnst á það hvað mér finnst hálfvandræðalegt að skoða uppfærslur mínar frá hinum myrku árum gelgjuskeiðsins og ég á eftir að bera sama hug til þessarar uppfærslu eftir ár (eða kannski tvö, ég hef nú ekki þroskast það mikið andlega á einu ári). En eitthvað heldur mér við það að skrifa og gera við sætu litlu síðuna mína með langa urlið sem ég fann upp á í 9.bekk. Og ég fann ekki einu sinni upp á því. Þetta er nafn á leik þar sem þú átt að kasta litlum sætum hvolpi með Súperman-skikkju sem lengst og safna stigum. Að sumu leyti er þetta líka hálfgerð þroskasaga, bara ef bloggið hefði komist í tísku fyrr....það má bæði þakka fyrir það og gráta það.


|

mánudagur, maí 01, 2006

Í ysinum og þysinum
sem einkenndi vinnuna í Melabúðinni í dag,
minntist ég þess þegar ég,
á mínu fjóra eða fimmta ári,
hugleiddi í þungum þönkum
fram og aftur
þar til ég loksins spurði móður mína:

„Eru stígvélar vélar?“


|

föstudagur, apríl 14, 2006

Ég upplifði sykursjokk í fyrsta sinn á ævinni um daginn. Reyndar hefur mér áður liðið svipað við sömu aðstæður en ég hef aldrei tengt aðstæður og afleiðingu saman þau skipti. Ástæðan fyrir því að ég veit að ég fékk sykursjokk er sú að Elsa sagði mér það þegar ég var að kveinka mér yfir vanlíðan minni.

Ég hef líka einu sinni farið að skjálfa vegna of mikillar kaffidrykkju. Það var síðasta sumar þegar ég þambaði fimmtán kaffibolla á innan við klukkutíma. Ég vissi að ég skalf vegna kaffisins vegna þess að ég hafði heyrt reynslusögur vina minna af því að hafa drukkið of mikið kaffi og farið svo að skjálfa eftirá.

Ég fattaði ekki að ég væri orðinn fullur í fyrsta sinn sem ég drakk áfengi. Ég spurði sífellt hvort ég væri orðinn fullur. Ég spurði meira að segja hvernig manni liði þegar maður er orðinn fullur og þá fékk ég að vita það að ef þú ert farinn að vagga og farinn að finna fyrir þyngslum í höfðinu þá hefurðu náð takmarkinu. Nú er ég mun næmari á það hvenær ég er byrjaður að finna á mér, þökk sé þessari lexíu.

Ætli það sé ekki nokkuð til í því að fólk tengi ekki endilega aðstæður og afleiðingar saman nema af tilkomu reynslu annarra? Eða er ég kannski bara einn um þetta? Það væri mér líkt.


|

mánudagur, mars 27, 2006

Cynics er komið á MySpace!

Nú þegar er hægt að niðurhala tveimur lögum. Reyndar er annað lagið sama lag og hægt er að ná í á rokk.is en hitt barst mér í gær og er síðan á rokk.is tónleikunum. Lagið heitir Skósóli og er ýkt kúl. Tékkið á því!


|

laugardagur, mars 11, 2006

Ég er á barmi þess að skrifa algjört rusl núna. Reyndar var ég næstum því búinn að því en ég eyddi því á elleftu stundu.

Ég verð 18 ára þann 4.maí. Ég ætla á Hróarskeldu í sumar. Ég hlakka rosalega mikið til.


|

þriðjudagur, mars 07, 2006

Ég furða mig á því að ennþá sé hægt að kaupa TAB sumstaðar, svo ekki sé talað um ef það finnst í hálfslítersflöskum. Ég rak augun því með mikilli undrun á heila röð af hálfslítersflöskum af TAB í Melabúðinni sem við fyrstu ágiskun hélt ég að hefði verið óhreyfð í fjölda ára. Ég freistaðist til að kaupa mér eina flösku þar sem ég hef ekki smakkað þennan forneskjulega sætuefnadrykk í áratug. Svo varð mér litið til flöskuhálsins og ég sá hvenær drykkurinn segir löglega sitt síðasta. Síðasti söludagur þessa gosdrykkjar verðu fimmtudaginn 23. mars 2006, þ.e. eftir tvær vikur og tvo daga. Það sem kom mér meira á óvart var það sem ég sá á miðanum utan um flöskuna: ©1995.

Ég var að enda við að drekka 11 ára gamalt svart sykurlaust rotvarnarefni í vökvaformi. 1 ár í viðbót og þá þætti það ósköp venjulegt, þ.e.a.s. ef þetta væri viskí.

Ég efa ekki að lík mitt haldist óbreytt að eilífu miðað við drykkjarvenjur mínar.


|

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Blikk er 10.heitasta lagið samkvæmt Rokk.is. Mér líður eins og við séum að klífa einhvern metorðastiga en ég held að aðalástæðan fyrir þessu sé sú að flestir opni lagið þónokkrum sinnum áður en það niðurhalar því. Með því móti hafa e.t.v. einungis......segjum 25 manns hlustað á þetta og hver þessara 25 hefur opnað lagið fjórum sinnum og teljarinn er strax kominn upp í 100. Ég er sjálfur búinn að opna lagið fimm sinnum á rokk.is... En eitthvað hlýtur þetta þó að segja um þá litlu athygli sem lagið hefur fengið, a.m.k. eitthvað.

Ég ætlaði mér að reyna að skrifa eitthvað að viti í þessa félagfræðiritgerð og jafnvel klára hana fyrir morgundaginn en ég er ekki einu sinni kominn með inngang því hann er vistaður inní tölvukerfi MH. Ég er samt með öll gögn sem ég tel mig þurfa og meira til. Bara fjórar blaðsíður.....ég hef nægan tíma. Skilur einhver hvað ég er að ganga í gegnum? Er einhver annar hérna sem getur bara skrifað ritgerðir á næturna?

Ég lagði leið mína um Kringluna síðastliðinn fimmtudagsmorgun, en ég fékk að skrópa löglega í líkamsrækt til að fara í heyrnarmælingu í Borgarspítalanum (og ég heyri víst býsna vel ótrúlegt en satt). Mamma var svo góð og nennin að skutla mér hingað og þangað og splæsa í mig Kaffi DaVinci á Kaffitár (því allt annað kaffi er hor!). Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég gekk framhjá öllum fatabúðunum að sjá hvað allt var orðið röndótt og ég nýbúinn að kaupa mér röndóttan bol. Eftir þetta hef ég bara séð röndótt, hvert sem ég fer. Heppilegt að tolla í tískunni af svoddan allsvakalegri slysni.

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað blogg er þvílík naflaskoðun. Ég held að akkúrat egótrippið sem fólk fær út úr því að blogga valdi því að þetta er svo lífseigt. Blogg er greinilega komið til að vera.


|

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Tölvan mín er biluð. Ekki það að ég blogga allt of reglulega en þetta er held ég lengsti tími frá upphafi milli uppfærslna síðan ég hóf síðuna í mars 2003. Vá, soldið langt síðan.

Ég er núna búinn að prenta út um 30 síður varðandi giftingu samkynhneigðra og ætla ég mér að skrifa þrusubeitta ritgerð í FÉL 103 án þess að svitna. Ég er kominn á svo rosalegt egótripp með þessa ritgerð að mér finnst ekki lengur að ég þurfi að skrifa hana.......en ég geri það nú samt. Ég hef rosalega gaman af því að skrifa ritgerðir. Ekki eins gaman að skrifa heimildirnar þó, það er meiri handavinna heldur en eitthvert tjáningarform.

Ég frétti svo nokkuð nýlega að við í Cynics erum komin með lag á Rokk.is. Allir að hlusta!. Það skrýtna er að þetta lag var í 13. sæti þegar ég frétti af þessu. Ætli þetta verði vinsælla eftir ég auglýsi þetta hér?

Svo mun þetta líka koma í plasti þegar MH-platan kemur út, hvenær sem það verður.

Ég fór á geðveikt skemmtilegt leikrit í gær.

BÆ!


|

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Ég furða mig endalaust á stemningunni í kringum handboltann. Ég er ekki frá því að engin önnur þjóð utan íslendinga fagni þessari íþrótt jafn mikið. Ég heyrði einhversstaðar að handbolti væri það óvinsæl íþrótt hjá veðbönkum að þessi íþrótt hefur einungis sigurorð af indversku rottukapphlaupi í vinsældum.

Það segir nokkuð!


|
Síðasta þriðjudag lét ég undan gamalli kreddu frá því tímabili þegar ég uppgötvaði anarkisma. Ég sótti um debetkort hjá bankanum mínum (ég á barmmerki sem á stendur "Bankanum þínum er sama um þig"). Ég náði svo í kortið eftir skóla í gær og notaði það í fyrsta skiptið í Shell stöðinni rétt hjá Þjóðskjalasafninu. Hef ennþá aðeins einu sinni notað þetta.

Burt séð frá ákveðnum prinsippum sem ég var aldrei sérlega viss út á hvað þau gengu, var eina ástæða mín fyrir því að fá mér ekki kort sú, að ég hræddist það svo mikið að ég missti tilfinninguna fyrir því hvað ég eyddi miklum pening því hann er ekki lengur í áþreifanlegu formi. En ég býst ekki við því að þurfa að óttast það upp úr þessu. Ég stóðst marga hraðbankana og gríðarfjölda verslana sem ég hefði getað eytt fúlgum fjár í, eins og að drekka vatn.

Það sama hrjáði mig þegar ég var ekki byrjaður að drekka. Ég var svo hræddur um að geta ekki ráðið við mig í þessu annarlega ástandi og færi að rausa á fullu og gera ótal hluti sem ég sæi rosalega eftir þegar ég rankaði við mér. Annað kom á daginn. Ég skemmti mér konunglega og man einungis í móðu það sem í versta falli teldist skrýtið.. Reyndar, ef satt skal segja, þá réð ég ekki við mig, ég rausaði á fullu og gerði ótal hluti sem ég sá eftir......en ég hló bara að því.

Svo er ég að fara að kaupa mér nýjan magnara.


|

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Ég náði rétt í þessu í næstum fullunna demóútgáfu af laginu Blikk sem Magnús Ingi hefur baslað við að klára fyrir okkur í Cynics. Þetta lag mun svo birtast á NFMH safnplötu með lögum eftir MH-inga.

Davíð leyfði mér að heyra þetta fyrst í gærkvöldi og lá nærri við að ég táraðist. Það er eitthvað við það að hlusta á afurð sjálfs síns og sinna í þessum gæðum í fyrsta sinn. Sérstaklega þá að heyra Regínu virkilega njóta sín og sýna hvað hún er mikill engill.

Þetta er allt að gerast. Seglin hafa loksins fengið góðan meðbyr. Þetta eru litríkir tímar. Ég er svo asnalega glaður.


|

þriðjudagur, janúar 10, 2006


Annasöm önn bíður mín óþreyjufull.
Ég bíð eftir kraftaverki til að bjarga mér frá hjartaáfalli.
Prófatörnin verður þjáning.

Allt með bros á vör.


|

mánudagur, janúar 02, 2006

Ég vil bara óska öllum gleðilegs nýs ár og takk fyrir það gamla. Ég nenni reyndar ekki að rifja það upp í nein smáatriði hvað ég gerði þetta árið....en ég fílaði 2005 nokkuð vel.

Ákveðin atriði sem standa upp úr á árinu (ekki í neinni röð):

 • Regína bættist í hljómsveitina Cynics. Sem betur fer spiluðum við ekki á mörgum tónleikum þar sem ég söng áður en hún kom, en treystið mér þegar ég segi að Regína var himnasending.

 • Ég tók mitt fyrsta stigspróf á rafmagnsgítar og fékk einkunnina 8


 • Sigur Rós tónleikarnir


 • Þegar ég heyrði framlag Íslendinga til Eurovision


 • GusGustónleikar á NASA


 • TeBo-ið 16.júní


 • Kvikmyndahátíðirnar sem ég hundsaði vegna blankheita


 • Iceland Airwaves sem ég hundsaði vegna blankheita


 • SAB 1224 (Suður-Amerískar bókmenntir, valáfangi)


 • Elsa


 • Eftir rúms árs leitar fann ég loksins rauðar gallabuxur í Spúútnik


 • Skaupið


 • |

  miðvikudagur, desember 28, 2005

  Það vakti mig til þónokkurrar umhugsunar inn á milli þess sem ég söng með kórnum á miðnæturmessunni í Dómkirkjunni á aðfangardag hvað munurinn sést glögglega á þeim trúuðu og þeim guðleysingjum sem færu ekki í kirkju nema tilneyddir.

  Ég tók ekki eftir neinum í kórnum sem sýndi annað en fulla einbeitingu þegar átti að syngja hina hefðbundnu kirkjusálma auk tveggja verkja sem við æfðum sér fyrir messuna: Exultate Deo og Personent Hodie, en textinn við bæði verkin eru til mikillar dýrðar Guðs og mjög viðeigandi akkúrat á þessum hátíðarhöldum. Það þótti engum kórmeðlimi annað en sjálfsagt að syngja þessi verk, enda gerðum við fátt annað en að æfa stuttu eftir prófin.

  Þegar svo kom að því að fara saman með ýmis messusvör sem sögð voru í talanda eða trúarjátninguna tóku undir þeir sem á kirkjunnar guð trúði en hinir þögðu. Bara horfðu beint fram og voru sviplausir. Eða svo virðist mér, ég get ekki fundið aðra ástæðu fyrir því af hverju þeir létu þetta fara framhjá sér, nema þá að þeir aðilar kunni ekki lengur Faðirvorið. Ég er sjálfur mjög ryðgaður í þeim efnum.

  Ég reyndar gerði þetta mjög mikið sjálfur. Þegar ég fór með fjölskyldunni í messu hjá pabba á jólunum heyrðist ekki hljóð í mér því ég stóð í þeirri trú að ef ég tæki einhvern þátt í messunni væri ég ekki sannur guðleysingi og satt að segja ekkert annað en hræsnari. Ég gerði mér það meira að segja að leik að bæta ekki við alls staðar í trjúarjátningunni þannig að hún yrði að andhverfu sinni:

  Ég trúi á ekki Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar....

  Ég trúi ekki á Jesú Krist, hans einkason...

  ...Ég trúi ekki á heilagan anda...


  Síðar sá ég hvað þetta var asnalegt og eiginlega hálfgerð ókurteisi.

  Ég spyr: Hvaða óöryggistilfinning er þetta í fólki sem telur það skaða sig að þylja fáein orð í guðshúsi af því að það trúir ekki á þennan guð? En síðan í sömu andrá syngja með þvílíkum léttleika nákvæmlega það sem reynt var að hundsa augnabliki fyrr.

  Ég þarf ekki að líta á mig sem homma þó ég sofi hjá karlmanni. Á sama hátt get ég alveg farið með Faðirvorið í messu án þess að kunngjöra að ég sé allt í einu orðinn guðs maður.


  |

  mánudagur, desember 26, 2005

  Nú eru jólin búin fyrir flestum get ég ímyndað mér. Ég býst heldur ekki við því að fólk gæti haldið þessa tíma jafn hátíðlega yfir svo langan tíma. Þannig að það mætti segja að ég er búinn að taka það í sátt að ég þarf að byrja aftur í skólann þegar jólin eru ekki ennþá tæknilega búin.

  Ég fékk margt gjafa. Reyndar hefur þróunin orðið sú að ég hef fengið fleiri gjafir með aldrinum, þrátt fyrir að fá ekki gjafir frá þónokkrum ættingjum sem gefa ekki fermdum börnum. Ástæðan er nokkuð gagnsæ. Ég gef fleirum gjafir en ég hef áður gert. Það er virkilega eitthvað varið í þá klisju. Það er sælla að gefa en þiggja.

  Ég fékk eftirfarandi geisladiska:

  Swallowed a Star - Daníel Ágúst Takk Þjobba og co.
  The Understanding - Röyksopp Takk Regína, vona að gjöfin til þín gladdi þig.
  Phrenology - The Roots Frá Bjarna (við reyndar völdum hvor sinn diskinn í „2 fyrir 2.200“ rekkanum í Skífunni en höfðum fyrir því að pakka fyrir hvor öðrum)
  „Pulsaðu“ þig upp (sumarsmellir síðustu ára) - Ýmsir íslenskir sveitarballaflytjendur Jeminn, ég á ekki orð.

  Ég fékk líka nokkrar bækur og ber þar fyrst að nefna Choke eftir Chuck Palahniuk frá Zakka. Við erum að byrja nýja hefð núna þar sem þetta eru önnur jólin sem við Zakki gefum hvor öðrum bók eftir þennan höfund, enda erum við báðir afskaplega hrifnir af kvikmyndinni Fight Club, sem má segja að sé kveikiþráðurinn að þessum sið. En burtséð frá því, það lítur út fyrir að þessi jól höfum við gefið hvor öðrum sömu bókina. Hefði átt að sjá það fyrir...

  Ma&Pa gáfu mér ljóðabók sem ber titilinn Haiku. Ég er rosaglaður.
  Marta litla systir gaf mér High Fidelity eftir Nick Hornby. Ef mér skjátlast ekki þá á ég að lesa hana í ENS403, ef svo er þá er þetta rosalega hentugt.

  Svo fékk ég Söngbók Gunnars Þórðarsonar. Ég er búinn að eyða dágóðum tíma núna í að gapa yfir öllum þessum heitum yfir hljómana sem þessir gaur notar í lögunum. Í sama dúr þá fékk ég litla sæta klukku sem er í laginu eins og rafmagnsgítar. Klikkar ekki.

  Síðast en ekki síst fékk ég eina þá furðulegustu gjöf sem ég hef nokkurntímann fengið á gjörvallri ævinni. Ég eiginlega get ekki tjáð þetta öðruvísi en myndrænt:

  Það fyndna er að Addi (sá sem gaf mér gjöfina, en ég er aðstoðarforingi hans í skátunum (ég er svoddan lúði)) vissi það á undan mér að ég á duldan hátt langaði í exi. Hann veit það jafn vel og ég að ég hef engin not fyrir hana nema upp á grínið.

  Spes.


  |

  föstudagur, desember 23, 2005

  Ég finn fyrir einkennilegri þörf til að létta á hjarta mér. Láta virkilega allt gossa því ég veit að mér liði svo miklu miklu betur eftir á. Eitthvað andstyggilegt nagar mig innra og bæklar mig á alla vegu.

  Kannski hef ég áhyggjur af því hvað er að koma fyrir mig í sambandi við þetta blogg. Ég man þá daga þegar ég bloggaði á hverjum degi án þess að svitna yfir því og alltaf kom ég með eitthvert efni sem var frábrugðið því sem var á undan, þó oft á tíðum ekki mjög. Nú gleymi ég því allt of oft og þegar mig langar að festa eitthvað í stafrænt form, dettur mér helst í hug að æfa mig í vélritun.

  asdf asdf asdf asdf asdf asdf asdf asdf
  jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ

  Ég einhvernveginn er búinn að missa tökin á þessu tjáningarformi og ég get engum öðrum kennt um en mér. Og ég hef ekki græna glóru hvernig ég fór að þessu.

  Gæti verið að jólatíðin leiki mig grátt á lúmskan hátt. Að minnsta kosti hef ég ekki tekið eftir neinni tengingu milli jólanna og gráleika í fasi en ég hef aldrei getað metið hvað í umhverfinu truflar mig. Margt við jólin gætu hafa sett strik á reikninginn hjá mér. Ég er strax búinn að snúa sólarhringnum við og vakna venjulega um tvöleytið og hef enga nennu til að aðhafast neitt.

  Jólafríið er á marga vegu óvinur minn þegar kemur að hinu félagslega. Þá er skólinn búinn og ég þarf að leggja meira á mig til að hitta þá vini sem ég umgengst í skólanum daglega. Ég veit ekki af hverju ég gefst svo gjörla upp, af hverju þetta eina atriði hindrar mig. Þetta er svosum ekki algilt. Ég hitti mína nánustu vini eitthvað yfir jólin.....eins gott því annars væri ég sturlaður.......sem sagt sko þannig að ég þyrfti að vera lagður inn....

  Ég bæði elska og hata hvernig ég haga mér í kringum fólk. Ég bæði elska og hata hversu opinn/lokaður ég er, byggt á hvaða aðila ég er í kringum.Ég bæði elska og hata að ég er ekki í föstum vinahópi, heldur vel liðin (eða a.m.k. ágætlega) innan nokkurra. Ég bæði elska og hata að vera einfari.

  Ég sakna Elsu.


  |

  This page is powered by Blogger. Isn't yours?