<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 29, 2003

Mér finnst að það ættu að vera lög gegn því að taka samræmt próf á afmælisdeginum sínum. Ég þarf að fórna gleði og hamingju þess að verða 16 ára fyrir eitthvert próf sem á að dæma um hvernig ég get lifað lífinu mínu í framtíðinni. Hverju skiptir eitthvert próf þegar um er að ræða jafn flókið fyrirbæri og manneskju? Á ekki að prófa mann úr öllum þáttum? Það er vel kunn staðreynd að margir eru ekki sterkir í hinu bóklega námi, en hafa síðan notið sín í því verklega. Ég er ekki sáttur.

Annars þá hef ég verið að kvíða þessa dags í þónokkurn tíma. Afmælisdagsins þar sem ég á erfitt með að vakna því ég hef verið vakandi alla nóttina við að lesa undir prófið svo ég kunni það skikkanlega upp á pottþétta 9 eða yfir. Ég er nefnilega búinn að setja mér það markmið að ná yfir 9 í öllum prófunum. Þetta á eftir að reynast nær ómögulegt, en mig langar að halda að ég geti þetta, ég held að ég eigi góðan séns.....:)

10.bekkur er þvílíkt þrælahald :(


|

mánudagur, október 27, 2003

Á meðan ég lifi í kapitalískum heimi verð ég að fylgja þeirra reglum, en ég neita að gera neitt mikið umfram það. Ég ætla ekki að einhverju megacorp. sem vinnur hreint út sagt við að framleiða hræsni og ómannúðlega græðgi. Með þessu er ég að tala um EMI plötuútgefandann sem á aðra hönd gefa út friðarsöngva Elton Johns og á hinn bóginn eru í stöðugum viðskiptum með hernaðarvopn. Coca Cola fyrirtækið sem réð dauðasveitir í S-Ameríku til að halda vinnufólkinu í skefjum þegar þau mótmæltu og þeir eiga líka sök á því að taka allt vatnið frá fólkinu sem eiga heima í þriðja heiminum. Bændur geta ekki lengur nýtt sér uppskeruna og hreint vatn er mjög takmarkað. Margir kaffiframleiðendur sjá til þess að neytandinn geti keypt kaffið sitt á viðráðanlegu verði. En til þess að verð kaffisins sé svona lágt þarf framleiðandinn að svindla á kaffibændunum víðsvegar um heiminn. Og það gera þeir óspart.

Á meðan kapitalismi ríkir munu alltaf verða til ríkt og fátækt fólk sem á ekki skilið þann lífstíl. Hinir ríku munu alltaf nýta sér veikleika hinna fátæku til að auka eigin styrkleika. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir hvern þann sem er andkapitalíksur að sýna skoðun sína í verki og kaupa vörur sem hafa ekki verið fengnar með því að svindla á seljandanum. Jesús sagði: "Leitið og þér munuð finna" og það á mjög vel við hér.


|

sunnudagur, október 26, 2003

Ég rakst á litla klausu í mogganum í dag sem fjallaði um skattskýrslur í Noregi sem voru gerðar opinberar öllum ótakmarkað á netinu. Þetta gekk svo langt að sumir skólabekkir í grunnskóla voru farnir að setja upp lista og börnin voru flokkuð í 10 efstu og neðstu miðað við skatta foreldra sinna og tekjur. Börnunum í neðstu sætunum hafa sagt frá því að hafa lent í einelti vegna þessa. Auk þess hefur þessi nýjung að setja allar skattskýrslurnar á netið leitt til þess að þjófar misnoti þær til að velja fórnarlömb sín útfrá þessum skýrslum.

Mín pæling er þessi. Hversu heimskt þar fólk að vera til að hafa ekki getað búist við þessu? Nú hafa nokkrir kvartað við fjármálaráðuneytið í Norgi og vilja að þeir takmarki aðgang að þessum skjölum með einhverju móti. Hefði ekki verið nær lagi að gera það strax og hindra óþægindi sem mjög líklega kæmu upp?

Fólk er fífl.


|

laugardagur, október 25, 2003

Ég var á balli í gær, þar spiluðu tvær hljómsveitir, ein frá MH sem heitir Svitabandið og hin heitir Doctuz og eru þeir allir í Hagaskóla fyrir utan trommarinn sem kemur alla leiðina frá Mosfellsbæ ef ég skil það rétt.

Svitabandið er svona tíbískt sveitaballaband, coverlög útí gegn. Gítarleikarinn var annars mjög lélegur, hefur tæknina alls ekki á hreinu. Söngvarinn var hinsvegar mjög góður og það var gaman að öskra sig hásan með honum.

Ég og nokkrir aðrir vorum búnir að ákveða að mosha við Doctuz en vokkur tókst ekki að vera lengi að því þar sem það var alltaf einhver sem stoppaði okkur. Þeir skilja ekki mosh. Enginn fer í mosh ótilneyddur og þess vegna meiðist enginn nema hann búist við því.

Þetta er munurinn á yfirborðinu og undergroundinu. Undergroundið er miklu umburðarlyndara í eðli sínu en þetta fólk. Þegar ég fer á underground tónleika þá er alltaf einhver hópur sem moshar, mjög oft sömu gaurarnir í honum. Þetta er orðinn eins stór partur tónleikanna og allt annað sem fer fram. Án moshins væru myndi fólk halda að tónleikarnir hafi verið algjört klúður. þess vegna er mosh mælikvarði á hver vel heppnaðir tónleikarnir eru.


|

fimmtudagur, október 23, 2003

Ég var í tónlistarsögu í skólanum í dag. Við vorum látin hlusta á ....Lifun með íslensku súpergrúppunni Trúbrot. Bestu hljóðfæraleikarar þess tíma saman komnir í eina hljómsveit. Þessi rúmlega hálftíma konseptplata er mjög merkileg í íslenskri tónlistarsögu og mörg lög úr henni eru orðin klassík í dag og hafa borist frá kynslóð til kynslóðar.

Við fyrstu hlustun fannst mér þetta ágætis efni, en þetta hafði ekki mikinn frumleika í sér, þetta var meira svona að reyna að stæla Pink Floyd og þess háttar. Þeir fá þó plús í kladdann fyrir að blanda saman svona mörgum og mismunandi tónlistarstefnum. Einnig var einkennandi hversu mikið og gott flæði var á þessu verki, þetta hljómaði sannlega sem eitt lag, mjög heilsteypt.

Konseptið á plötunni er lífið sjálft, æviskeið einnar persónu, frá því hún fæðist, fer í gegnum gelgjuskeiðið, þar til hún fullorðnast og verður síðan gömul manneskja sem deyr að lokum. Þetta fjallar í rauninni um kreppuna sem við þurfum að berjast við á hverju aldursskeiði fyrir sig. Þegar við erum ung og erum að byrja í skóla þá tökum við eftir heilaþvættinum sem því fylgir. Gelgjuskeiðið og uppgötvun hins kynsins. Hinu öfgakennda hversdagslífs fullorðna mannsins, vinna frá 9 til 5 og horfa síðan á sjónvarpið þar til hann sofnar. Einmanaleiki þess að vera gamall. Dauðinn.

Upptökurnar eru nokkuð flottar, hrátt og ekki of mikil vinna lögð í þetta. Þannig á það að vera :)

Ég mæli með því að þið spujið foreldra ykkar ef til sé eintak af plötunni á heimilinu, því þetta er ágætisplata til nánast hverrar athafnar ;)


|

miðvikudagur, október 22, 2003

Þegar ég ber saman sjálfan mig núna eins og ég er, og aftur til tímans þegar ég var í 1.bekk, þá sé ég hvað augljósustu breytingarnar eru í raun merkilegar. þá er ég að tala um t.d. viðhorf mitt til eldri og jafnvel tímaskyn. Ég leit mjög mikið upp til þeirra sem voru í 10.bekk þegar ég var í fyrsta, aðallega af því að þeir voru svo stórir, svo fullorðnir. Ég hlakkaði til að verða þannig en mér fannst tíminn líða undarlega hægt. Ég kláraði hvern bekkinn á fætur öðrum en samt fannst mér ég ekki vera neinu nær því að vera eins og 10.bekkingarnir, hvað stærð varðaði aðallega.

Nú er ég í 10.bekk og einhvernveginn er ég ennþá að bíða eftir því að líða eins og 10.bekking. Mér finnst ég ekki vera mjög stór, enda er ég það ekki, ég er meira svona meðalstór :)
Hitt er svo annað að mér finnst eins og ég hafi hlaupið gegnum þó nokkra bekki því einhvern veginn finnst mér ég ekki fylla upp í þær "kröfur" sem ímynd 10.bekkings hefur í för með sér. En það er aðallega það sem mér finnst, það má vel vera að 1.bekkingar líti á mig sem 10.bekking án þess að efast. Ég held að það sem hafi aðallega verið að flækjast fyrir mér hafi verið sú rosalega ímynd sem ég hafði byggt upp á þessum skólaárum.

Núna spyr ég: Til hvers? Ég á hvort eð er eftir að vera yngstubekkingur aftur í menntaskóla. Er 10.bekkur þá eitthvað annað en mikilmennskubrjálæði? Má vel vera. Ég held að ég sé ekki hæfur til að svara þessu.


|

þriðjudagur, október 21, 2003

Innlit útlit er eitt af því sorglegasta og tilgangslausasta fyrirbæri sem til er, næst á eftir tilvist bandorma.


|

mánudagur, október 20, 2003

Ég tók málfræðipróf í íslensku í síðustu viku. Þar sem ég er í hraðferðarbekk bjóst ég við og er þess reyndar búist við af okkur að okkur gangi vel í þessu prófi, enda er hraðferð gerð fyrir þá sem hafa góða stjórn á öllum göfunum. þetta var hvort eð er mjög auðvelt próf þar sem þetta var aðeins próf útúr léttri upprifjun síðan í 9.bekk. Reyndar vorum við látin læra svolítið nýtt í bland við það gamla þar sem þetta eru náttúrulega fyrstu mánuðir skólaársins.

Niðurstaðan úr þessu prófi kom mér mjög á óvart.......Margir voru undir meðallagi sem hafði myndast í MIÐFERÐ. Íslenskukennarinn var meira að segja svo svekkt að hún ætlar að setja annað próf fyrir okkur.

Ég er svekktur líka, ég fór í hraðferð til þess að fara í námsefnið á almennilegum hraða en engu að síður næ ég ekki að losna við þá einstaklinga sem hægja fyrir hinum. Ég fékk ágætis einkunn á þessu prófi, 9,2, en vegna þessara blockeringa í bekknum þarf ég að eyða tíma mínum í samskonar próf aftur.

Ætli ég geti samt ekki litið björtum augum á þetta? Ætli ég fái ekki 10 í þetta sinn :)

Og ég nenni ekki að taka við neinum kommentum sem innihalda orð eins og: lúði, nörd, kennarasleikja og þessháttar.


|

sunnudagur, október 19, 2003

Með því sorglegra sem ég hef tekið eftir í daglegu umhverfi mínu eru slúðurblöð sem eru greinilega mjög vinsæl og verða það örugglega áfram. Farið er í gegnum ástarmál þeirra ríku, frægu og fallegu, vinir segja frá áhyggjum sínum sem þau hafa fyrir þeim fræga og þetta gengur stundum það langt að fræðimenn bera saman mismunandi hegðunarmynstur einstaklingsins í mismunandi samböndum.

Þættir sem byggjast á þessu eru ávallt vinsælir. Það er alltaf mjög stór og marktækur fjöldi sem horfir á þetta. Ástæðan fyrir þessu er mjög augljós reyndar. Fólk hefur enga lífslöngun lengur. Það nennir ekki að gera neitt. Og til þess að fylla upp í þetta lífsins tómarúm þá er horft á sjónvarpið. Að setja sig í spor þeirra sem stöðugt eru á forsíðum slúðurblaðanna. Ímynda sér að vera einn af þeim, lenda í svipaðri dramatík.

Það er þó ekki beint okkur að kenna að lífslöngunin er ekki lengur fyrir hendi, eða allavega ekki í eins miklum mæli og ætti að tíðkast. Við verðum fyrir of miklu streituvaldandi áreiti sem við höfum ekki þörf á. Svo ég tali fyrir hönd námsmanna, þá erum við óþarflega lengi í skólanum og þurfum síðan að læra heima heillengi. Þegar við höfum loksins komið þeirri byrði af okkur, þá erum við of þreytt til að gera nokkuð og við byrjum að setja það í vana okkar að horfa á sjónvarpið eða fara á netið. Ég t.d. hangi mjög mikið á netinu og ætti að gera minna af því. Ég get þó huggað mig við það að ég geri miklu meira en það. Mér finnst ennþá gaman að öðru og ég legg rækt við það þegar ég mögulega get. Tónlist og allt sem tengist því er stór partur af því sem ég myndi ekki vilja vera án og ég myndi meira að segja fórna internetinu fyrir tónlistina. Vinir er annar partur sem ég met mjög mikils og ég gæti alls ekki verið án þess heldur.

Einn vinur minn á barmmerki sem er mjög viðeigandi fyrir þennan póst. Það stendur á honum: "Kill your television". Ég ætla reyndar ekki að ganga svo langt en ég mæli með því að þið sem lesið þetta ættuð að leggja meiri rækt við vini, vandamenn og áhugamál. Þetta hljómar reyndar eins og gagnrýni en það er gott að allir fari eftir þessu því það er enginn fyllilega meðvitaður um umhverfi sitt.

Lifið heil.


|

sunnudagur, október 12, 2003

Það er mjög skrýtið þegar maður hugsar svo til ekki neitt. Hugurinn alveg tómur. Hvað veldur því?

Ég held að ég geti ekki mögulega fundið eina skotheld ástæðu fyrir því. Þetta gæti ekki verið útaf einangrun því ég hef ekki verið félagslega einangraður um tíma. Það gæti ekki heldur verið félagslega virkni því reynslan hefur sýnt mér að ég pæli mjög mikið þegar ég er í þannig ástandi.

Kannski gæti skólinn haft eitthvað að gera með þetta. Ég pæli reyndar mjög mikið þegar ég er í skólanum en ekki í sama mæli og þegar ég er ekki í skólanum. Skólinn gerir mig þreyttan sökum þess að menntamálaráðuneytið bætti við einn óþarfa mánuð inn í skóladagatalið okkar auk þess sem við erum mun lengur í skólanum dags daglega. Hugurinn verður þá að víkja fyrir skólaskyldum eins og heimanámi sem hefur verið "forritað" í okkur frá 6 ára aldur. Eftir það hefur maður ekki orku í meira og stundum fer maður að sofa áður en fréttirnar hefjast. En sem betur fer gerist það ekki oft :P


|
Æjj, einhvern veginn tekst mér aldrei að halda því loforði við sjálfan mig að blogga á hverjum degi, en það verður nú bara að hafa það :/

Annars þá var ég að fá mína eigin tölvu :D Mjög ánægður með það.

hér er mynd af nýju tölvunni minni ef einhver hefur áhuga....;)


|

föstudagur, október 03, 2003

Jæja, nú er næstum því vika liðin síðan ég bloggaði :( Verð að fara að bæta mig.

Ég held að spegúleringin í dag sé í nánu sambandi við Rifrildi Gunnars í Krossinum og Þórhalls miðils (man nú ekki alveg hvað þeir heita fullu nafni). Ég skil ekki hvernig Gunnar geti sagt að túlkun hans á málinu útfrá biblíunni geti verið rétt.

Fyrir það fyrsta þá eru svo margar leiðir til að túlka biblíuna og það er mikið varið í þær allar. Hvernig getur hann ætlast til þess að hans túlkun á biblíunni sé sú rétta, og útfrá því rengt Þórhall svona rosalega?

Annað sem ég vil benda á er að það er ekki hægt að taka Gunnar alvarlega lengur þar sem hann er þvílíkt fordómafullur gagnvart öllu því sem er ekki skýrt og greinilega sagt frá og skilgreint í biblíunni. Vegna þessa galla hjá honum er hann á móti Harry Potter bókunum þótt hann viðurkennir að hafa ekki lesið bækurnar. Þetta fær mann til að halda að hann fylgi ákveðinni tískubylgju sem gengur meðal fanatic trúarleiðtoga og það gæti vel átt við í þessu samhengi.

En ef ég fer nú að gagnrýna Þórhall, þá verð ég að segja að hann hafði ekki góð rök fyrir máli sínu, ég fengi betri svör ef ég spyrði apa hvað 1+1 væri. Hvernig getur hann búist við því að vera tekinn alvarlega þegar rökin hans nægja ekki upp í nös á ketti?

Ég vil taka það fram að ég er hvorki fylgjandi Þórhalli né Gunnari.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?