<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 29, 2004

Neibbz, það er eins og ég gat getið fyrir um. Dagurinn í dag hafði ekkert upp á að bjóða. Enda er sunnudagur í dag. Ekkert merkilegt sem gerist venjulega á þeim degi :S


|
Aftur lendi ég á álagstímabili. Ég fékk skyndilega áminningu þess eðlis að ég þarf að fara að drulla mér í að læra hlutverkið mitt í Hárinu utanað, auk þess sem ég þarf að læra nokkur lög utan að. Ég hlakka svo sem til, en að læra utan að hefur ekki verið mín sterka hlið undanfarið. Auk þess komst ég að því, mér til ama, að æfingar í Hárinu verða líka á sunnudögum alveg þar til við sýnum þetta. Það er gaman á þessum æfingum, en nú þarf ég að fórna hljómsveitaræfingum fyrir þetta. Ætli þetta verði samt ekki þess virði? Ég hlakka geðveikt mikið til að sýna þetta :D

Helgin fór samt aðallega í það að hvíla sig. Ekki mikið um það að segja í rauninni. Mig dreymir aldrei þannig að ég muni eftir því, og þó ég myndi eftir honum væri það ekki frá sögu færandi.

Ætli ég bloggi ekki aftur í dag, þegar eitthvað hefur gerst? En þangað til.....bæbæ


|

föstudagur, febrúar 27, 2004

Dagurinn í dag gekk fremur rólega fyrir sig. Strax eftir skóla lagðist ég til rekkju og svaf úr mér allt vit sem mér hafði tekist að taka inn úr skólanum í dag. Það er ákveðin ánægja sem felst í því að sofa fjóra tíma á dag á virkum dögum og sofa rúmlega hálfan sólarhring um helgar. Ekki mjög heilsusamlegt þó. Ég svaf einu sinni í 16 tíma og uppskeran var eitt stykki flog. Þó hef ég sofið lengur en þetta og sloppið við það. Kannski var þetta bara eitthvert skeið þar sem manneskjan í heild sinni er veik fyrir miklum svefni og fær flog ef farið er yfir venjulegan svefntíma. Eða þá að ég get litið raunsætt á þetta of úrskurðað mig skrýtinn eina ferðina enn.

Ég hef fengið ásakanir frá gelgjum (skemmtilegar gelgjur þó) af því tagi að ég hugsi einhvernveginn undarlega. Ég hef staðið mig að því að hugsa á þannig hátt þannig að ég var ekki að mótmæla þessu. Það sem mér þótti þó skrýtið var að hún þurfti að hafa orð á þessu. Það er hægt að lesa úr þessu þannig að ég ætti að láta minna fyrir mér bera í þessum efnum. Ég er svona heldur undrandi yfir þessu því ég hef trú á því að einstaklingar sem skera sig úr hinu venjulega mannlega atferli geri heiminn öðruvísi. Rökrétt er það ekki?

Þess vegna er ég opinn fyrir öllu og tek mér upp skoðanir og hegðanir rá ýmsum upptökum. Ég líð auðvitað fyrir það og þarf oft að svara spurningum varðandi af hverju ég er hlynntur þessu en ekki hinu.........kannski meira en aðrir :S En mér er sama.

Gaman að fá að hugsa sjálfur hvernig í anskotanum mér tókst að verða svona ruglaður.

Mér tókst annars að skrópa óafvitandi í Menntaskólakynningu upp í MR. Ég hefði farið en ég var því miður sofandi. Mér finnst að þeir hefðu átt að taka tillit til allra nemendanna sem voru að berjast við svefngalsa og hafa kynninguna frekar á mánudegi.......er það ekki mjög sniðugt?

Annars hef ég núna verið að hlæja að þessu. Ég vona að þið getið hlegið að þessu líka ;)


|

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Undarlegt hve það hefur ahrif á mann að þurfa að skilgreina eitthvað sem maður byggir mikið af sínum rökum á.

Það lá við að ég gæti ekki svarað fyrir sjálfum mér lengur hver munurinn væri á vinstri og hægri í pólitík. Eina svarið sem mér tókst að jarma út úr mér sem svar var: „Vinstri eru á móti peningum.“

Ég sé auðvitað strax eftir þessari staðhæfingu þar sem þetta er alls ekki bara svart og hvítt, hlynntur eða á móti.....litirnir eru miklu fleiri og fela í sér ákveðnar aðferðir til að gera samfélagið betra og það er herslumunurinn milli flokka.

Það er gott að til er óupplýst fólk, að því leyti. Um leið og við útskýrum fyrir þeim, minnum vcið okkur sjálf hvers vegna við höfum nákvæmlega þessar skoðanir en ekki einhverjar aðrar.

Ég er anarkisti vegna þess að ég sé það góða í manninum. Ég er hlynntur bæði einstaklingshyggju og hugmyndum sósíalismans um að valdið sé alfarið fólksins. Ég geri mér grein fyrir þessari þversögn og þó hægt væri að finna milliveg, væri sá vegur frekar brothættur.

Ég er ekki ánægður með þá staðreynd að 6% manns í heiminum svo gott sem eigi allan heiminn. Ég er heldur ekki ánægður með það að ríkisstjórn vor taki mikilvægar ákvarðanir án þess að taka tillit til skoðana almennings. Ég er ekki sáttur við það að við erum nauðug til að borga skatta í sumt sem við viljum ekki styðja.

Ég teldi fleira upp ef ég nennti.....læt þetta duga ;)


|

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Ég biðst afsökunar á þessu bloggleysi yfir vikuna. Ég taldi mig ekki vera í nógu góðu ástandi til að blogga vegna bílslyssins sem gerðist síðasta föstudag. Í bílnum voru tvær stelpur sem voru með mér í skóla, auk þess sem ég var einu sinni með þeim í skátafélagi. Eyddi ég meirihluta helgarinnar í að syrgja og vona ég að þið sýnið skilning.

Þess má geta að sett var upp bloggsíða til minningar stúlknanna, Sunnu og Lindu. Hana má heimsækja hér og mæli ég með því að þið skrifið einhver skilaboð í gestabókina ef þið hafið á annað borð eitthvað að segja sem gæti létt á sorginni.

Ég er í rauninni ekki ennþá kominn í bloggstuð.....eina ástæðan fyrir þessari uppfærslu var til að láta fólk vita að ég er ekki hættur að blogga ;)

Ég sé til hvort ég verði kominn í sæmilegt lag á morgunn.


|

föstudagur, febrúar 20, 2004

Loksins glittar í helgina. Ég er búinn að bíða hennar með svolítilli óþreyju. Það hefur verið fremur mikið álag á mér þessa vikuna. Ég sofnaði þegar eg kom heim og ég var dauðhræddur um að missa af öllu sem ég ætlaði að áorka í dag.

Ég hef hugsað út í það fremur lengi hvað veldur því að þegar einstaklingur nær unglingsaldri, þá allt í einu finnst honum foreldrar sínir asnalegir. Er það vegna þess að þau hafa gleymt líkamstjáningu unglinga og skilja ekki hvenær þau hafa áhuga á einhverju sem þau gera eða ekki? Erum við hrædd við þá áhættu sem við tökum þegar við tölum við foreldra okkar fyrir framan vini okkar því þá koma upp ýmis skrýtin sérkenni í samskiptunum sem barn og foreldri hafa byggt upp öll þessi ár. Skömmumst við okkar þá þess vegna fyrir hversu skrýtin við erum og viljum ekki að allir viti af því? Er foreldrið helsta sönnunargagn þess að unglingurinn er skrýtinn?

Síðan er auðvitað einn möguleiki í viðbót. Við öfundum þau af öllu sjálfstæðinu sem þau hafa í fari sér. Þess vegna viljum við rakka niður ímynd þeirra og upphefja okkar eigin til að ganga í augun á jafnöldrum.

Eflaust verð ég talinn mjög asnalegur þegar ég verð hlustandi á minn deathmetal í framtíðinni. Sonur minn/dóttir mín mun skammast mín svo mikið fyrir það að ég geti ekki drullast til að hlusta á tónlistina sem tíðkast......síðan þegar ég fer að fíla einmitt þá tónlist sem tíðkast líta þau á það sem sorgleg afturhvörf til æskunnar. Foreldrar eiga ekki séns gegn áliti unglingsins. Það er ekki til það foreldri sem kemst upp með það að hegða sér eins og hann sjálfur án þess að vera litinn hornauga af barni sem er eldra en 13 ára.

Foreldrahlutverkið er vissulega mest krefjandi starf í heimi. Þú ert skyldugur til að ala upp einhvern aðila sem gerir ekkert annað en að skíta á sig (allavega til að byrja með) Þar til þess að verða fyrir hálfgerðu skítkasti frá því þegar það fær einhverja sjálfstæðiskennd.

Síðan auðvitað lagast þetta.....annars væri ekki eins miki af börnum til, held ég.


|

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Úff, erfiður dagur í dag. Skóli, leikæfing, skátafundur og á eftir að læra heima og æfa mig á gítarinn......busybusy :(

Ég var ekki sérlega sáttur með úrval hrósa sem ég fékk......aðeins þrjú hrós :( En ég held að hún Elín fái efsta sætið.....segi ekki hverjir fá nr.2 og 3 því þá verð ég laminn :P

En......til hamingju Elín ;)

Ég gaf mér þó tíma til að pæla. Kannski hef ég minnst á þetta í blogginu áður en það sakar þó ekki að pæla oft í sömu hlutunum. Magnús, bekkjarfélagi og ágætur kunningi minn og helsti andstæðingur minn í rökræðum (alltaf gaman að rökræða við hann þar sem hann er mjög ákafur, eins og ég), kom með þá pælingu að það væri ekki hægt að vera alæta á tónlist. Hann viðurkenndi seinna meir að hann heyrði þessa pælingu í sjónvarpinu og ákvað bara að fylgja henni eftir því honum fannst gaurinn sem sagði þau orð eitthvað sannfærandi (Óli Gaukur, djassari). Kannski liggur það í því sem ég er ósammála honum, ég er ekki mikill aðdáandi Óla Gauks.

Hann hélt því fram að alæta þyrfti að hafa heyrt alla tónlist sem til er og fíla hana. Hann dró þetta seinna nokkurnveginn til baka. Hann heldur þó enn í þetta sama consept. Hann telur það hræsni að kalla sig alætu því alæta þyrfti að fíla allar tónlistarstefnur á þann veg að honum ætti að vera nokk sama hvað væri í útvarpinu. Ég, persónulega, tel þetta fremur strangt af honum. Ég lít á mig sem alætu þar sem ég er alltaf að stúdera tónlist, sama hver tónlistarstefnan er. Ég fer ekki eftir tónlistarstefnum, heldur það sem fer vel í eyra mér. Og ég tel mig hafa mjög mjög breitt svið yfir það.

Maggi trúði mér þó ekki og reyndi að styðja sig við það að hann hafi t.d. aldrei séð mig hlusta á klassík....hljómar svolítið creepy þar sem hann ætti samkvæmt þessu að vera að fylgjast með mér 24/7. Hehe.

Mér finnst þetta fremur ósanngjarnt sjónarhorn sem hann hefur á þetta, en ég skil þetta þó vel. Þetta er fremu loðið hugtak, þ.e.a.s. alæta á tónlist og auðvitað umdeilanlegt.

En yfir til ykkar lesendur......endilega commentið ;)


|

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

MSN bindindið búið :D

Ég var næstum því búinn að gleyma því að fara á MSN í dag vegna þess að ég var búinn að venjast þessum MSN-lausa lífstíl *hrollur*. En sem betur fer gleymdist það ekki og talaði ég við alla vini mína í góðum fílíngi. Mér þykir mjög vænt um þann eiginleika MSN hversu óheflaður maður er. Maður getur án nokkurs vafa verið maður sjálfur.....yndislegt.

Davíð, vinur minn og hljómsveitarmeðlimur, nýtti sér tækifærið og sendi mér nokkur lög með Perfect Circle, sem er nýjasta æðið hans, og verð ég að segja að ég hef mjög gaman af því að heyra rödd söngvarans í Tool í svona meinstrímaðri tónlist. Mjög flott.

Ég var á æfingu í gær með leikhópnum. Við vorum að prófa að leika þetta með textanum og ég komst að því að karakterinn minn er alveg sjúklega kúl......hehe.....ég komst síðan að því að það var bara einn gaur sem var búinn að læra rulluna sína almennilega.....hann gat alveg leikið án blaðs, en við vorum alltaf flettandi.....maður hálfskammast sín.

Annars var ég að komast að því að sumar stelpurnar í bekknum mínum gruna mig um að vera hrifinn af tiltekinni stelpu......sem er ekki satt, allavega ekki sama og þær eru að meina. Þetta er fremur nýtt fyrir mér. Ég vissi alltaf að ég væri heldur gagnsær þegar kemur að hrifningu til aðila af hinu kyninu. En það er greinilegt að ég sé soldið falskur líka, nema þá að undirmeðvitundin sé eitthvað að blekkja mig, sem er harla ólíklegt. Það sem ég ætii kannski að gera er að líta stuttlega á hvernig ég haga mér í kringum hana.....og breyta því þá til þess að svona misskilningur komi ekki upp.....því ef eitthvað svona er ekki hrifning, gæti þetta verið talið einhver kynóvissa af einhverju tagi. Ég nenni ekkert að standa í einhverju svoleiðis. Þið lesendur megið þó ekki taka því þannig að ég sé einhver hómófób.....það væri bara of ruglandi ef einhver myndi halda að ég væri hommi :S Annars hef ég oft verið ásakaður um að vera hommalegur......mér finnst svosum ekkert að því......svo lengi sem fólk er ekki að ruglast :P

Æjj, ég er bara eikva að bulla :P


|

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

MSN bindindi - dagur 31 (síðasti dagur bindisisins)

Jæja gott fólk. Brátt kemur að því. Senn mun ég hverfa aftur á vit óslítandi spjallþræði MSN messenger og verða fyrir svefngalsa eins og venjan var áður en ég hóf þetta bindindi. Ég vil þakka öllum vinum mínum, sem vissu af þessu, kærlega fyrir allan skilninginn sem þið sýnduð vegna þessa. þið getið ekki ímyndað ykkur fráhvarfseinkennin sem ég hef þurft að þola síðastliðnu daga......eða.....nei, það er kannski aðeins of ýkt. Engin fráhvarfseinkenni, bara nettur óróleiki og leiði.

En það mun breytast fljótlega.

Dagbókin mín sagði mér að biiðja einhvern ókunnugan að skrifa niður álit sitt á mér við fyrstu kynni. Eins konar "first impression" dæmi. Þegar ég mundi eftir þessu hélt ég að það væri of seint. Málið var að flestir vinir mínir voru þá löngu búnir að finna upp á mjög lélegum afsökunum til að koma ekki með. "Ég er í skólanum til hálf-fjögur" og "ég er að fara í fiðlutíma" heyrði ég meðal annarra fráleitra afsakana. Ég ákvað þá að hringja í Adda og Matta (KlumsyTwin Inc.) og þeir félllust á þetta. Ég tók með mér tæplega 3000 kr. til að koma ekki tómhentur heim aftur, þar sem ég eyddi peningnum í tvo geisladiska. Báðir diskarnir voru með hljómsveitinni At the gates; annar hét The red sky is ours og hinn Terminal spirit disease. Með því betra sem ég hef heyrt af Gautaborgarmetal. Geðveikislega flott!!!

En til að halda áfram með söguna þá var ég búinn að ákveða að fá helst álit einhvers jafnaldra, verra væri það ekki ef jafnaldrinn væri af hinu kyninu, bara til þess að rétt ímynda sér hversu ógnandi/skrýtinn/lúðalegur ég er í rauninni. En ég skipti um skoðun á nokkrum sekúndum. Ástæðan fyrir því hafði gengið inn í Skífuna að mér virtist í þeim tilgangi að skipta heyrnartólum. Þetta var enginn annar en Egill Helgason, krullupinninn sem sér um Silfur Egils. Ég greip auðvitað tækifærið og lét hann skrifa það sem honum fannst um mig sem "first impression".

Hann skrifaði:

Ungur maður, sem ég hef aldrei hitt, gaf sig á tal við mig, kurteis, með lopahúfu…

Hann var augljóslega að reyna að komast hjá því að svara því ég hefði getað túlkað það á hvern hátt sem ég vildi svo ég gæti kært hann……held ég. Annars var hann fremur jákvæður gagnvart þessari óvenjulegu beiðni minni þannig að ástæðurnar gætu verið óendanlega margar. Gaman að þessu engu að síður :D

Ef þið vitið nokkuð um heimasíðu Egils þætti mér gott að fá að vita hana...kannski ég hljóti mína 15 mínútna frægð í hugsanlega blogginu hans.......Oh joy.


|

mánudagur, febrúar 16, 2004

MSN bindindi - dagur 30

Úff, ég fæ gæsahúð af tilhugsuninni. Það er svo ótrúlega stutt í það að ég fæ að spjalla við vini mína á MSN. Að vísu er ekkert betra en að tala við vini sína í holdi og blóði. En allt hefur sína galla og eins og ég hef minnst á áður þá er gallinn við þessa samskiptatækni sá að maður getur ekki sleppt almennilega sleppt af sér beislinu, þ.e.a.s. ef maður er pínu feiminn í kringum ákveðna. Þó MSN sé meingallað, uppfyllir þetta þó þessar kröfur. Mjög líklega þess vegna sem þessi tegund samskipta er svona vinsæl.

Ég minni ykkur síðan á hróskeppnina, enn er aðeins eitt hrós komið í keppnina en látið það ekki aftra ykkur......ekki láta hana Hildi Örnu vinna þessa keppni svona ódýrt......sýnið henni að þið getið veitt samkeppni.

Ég kom af æfingu úr HÁRINU í dag og fengu allir að vita hvaða hlutverk það fékk. Eða, allavega aðalhlutverkin. Ég fékk ekki hlutverkið sem ég vonaðist eftir að fá, en ég er nú raunsær og ætla nú ekki að vera fúll útaf þessu. Breki passar hvort eð er betur í hlutverk Bergers. Það kom mér þó á óvart að ég fengi hlutverk Huds......skemmtilegt hlutverk finnst mér. Mjög kúl gaur, enda svartur. Þetta er líka þægilega stórt hlutverk. Ég er partur af aðalgenginu en ég segi ekki allt of mikið. Ég er hvort eð er ekki mikið í því að muna svona stuff þannig að þetta hlutverk passar mér frekar vel. Ég hefði þó viljað fá Voffa frekar því hann syngur lagið "hár" og ég er nú einkar hárprúður maður........

Ég hlakka þó ekki mjög til þess að þurfa að vera málaður. Hvað ef mig klæjar undan þessu? :S Miðað við hörundslitinn minn (ógeðslega sjúklega minnir-á-albínóa-hvítur) þarf svolítið mikið af brúnum.....en ég þarf þó ekki að vera með hárkollu svo ég verð nú ekki ALGJÖRT FRÍK á sviðinu.

Ég veit ekki um hvað annað ég get annars sagt frá í augnablikinu....er fremur hugmyndalaus :S


|

sunnudagur, febrúar 15, 2004

MSN bindindi - dagur 29

Senn líður að því.......eftir þennan dag eru aðeins tveir dagar eftir af bindindinu. Látum oss gleðjast á merkistímum. Ég legg til að þið, sem stundið þá iðn að skrifa í skoðanakerfið hér, skrifið eitt stykki hrós og ég vel það besta. Mun sá hinn sami öðlast þann heiður að mega kalla sig "Fagurgalinn" í skoðanakerfinu í náinni framtíð. Þið megið byrja að finna upp á hrósi og leggja inn þessa síðustu þrjá daga bindisisins. Öll hrós sem koma inn eftir að bindindið hefur endað (0:00 þann 18.febrúar) verða talin ógild.

Ég keypti mér nýjan disk í dag. Still life heitir hann með hinni undursamlegu, sænsku, flottu proggdeathmetal-hljómsveit Opeth. Oft er það nú reyndar með sænskar, framsæknar dauðarokkssveitir að þær eru skilgreindar í svokallaðan Gautaborgarmetal (sumir kalla stefnuna reyndar Svíametal þar sem flestar hljómsveitir af þessari stefnu eru sænskar) en þeir eru ekki að gera sömu hluti. Þeir eru aðeins nær blackmetalnum en svo þannig að þeir eru best skilgreindir sem framsæknir dauðarokkarar. En nóg af nördatali.

Ég átti í erfiðleikum með að finna mér disk til að kaupa og þess vegna ætla ég að fara hið snarasta aftur og kaupa mér tvo diska í viðbót. Ég tók nefnilega ekki með mér nógu mikinn pening, en ég rak nefnilega augun í Director's cut með Fantômas sem einhver kunningi minn mældi mjög mikið með. Hinn diskurinn er af Gautaborgarmetalkyninu og ber nafnið The red in the sky is ours með hljómsveitinni At the gates en þeir hafa skipað sér óumdeilanlegan sess hjá tónlistaráhugamönnum sem áhrifaríkasta hljómsveit þessarar stefnu.

Annars fór dagurinn meira og minna í eintóma tímaeyðslu. Sunnudagar hafa oft tilhneigingu til að einkennast af sjónvarpsglápi, þótt það sé ekkert í sjónvarpinu nema endursýningar. Sem betur fer gerði ég ekki mikið af því, heldur hlustaði ég ótt og títt á Opeth diskinn minn nýja. Ég er að hlusta á hann even as we speak.

Allavega......ég er að pæla í einu.....er Commentkerfið hér í einhverju rugli? Ég sé það að það hefur enginn commentað nýlega. Kannski er það browserinn, eða að skyndilega og án ástæðu hafi fólk hætt að nenna að lesa bloggið mitt :O

Jæja, hlakka til að blogga á morgunn......því þá er deginum styttra í lok MSN bindisisins :D


|

laugardagur, febrúar 14, 2004

MSN bindindi - dagur 28

Ég veit ekki hvort ég þoli verr, óveður eða öskur í gelgjum seint á kvöldin. Báðir hlutirnir fara nett óþægilega í taugarnar á mér og smjúga gegnum skilningarvitin með þjáningarfullum afleiðingum. Hvorugum hlutnum er hægt að venjast.

Reyndar eru tvær hliðar á því hvernig taka má því að ekki sé hægt að venjast óveðri og gelgjum. Kosturinn er sá að því lengra sem liði á umgengni þessara fyrirbæra því minna færi þetta í taugarnar á manni (þetta er auðvitað sett upp sem dæmi). Gallinn er sá að ef maður venst þessu, þá getur maður varla talist heill á geði, því ef maður þolir eitthvað jafn pirrandi og þetta tvennt, hve lágt setur maður þá mörkin? *Pæling*

Engin hljómsveitaræfing þessa helgina því þeir þurfa endilega að asnast eitthvað í heimsóknir. Ég lái þeim það þó ekki, það er oftar en ekki ágætisafþreying að heimsækja fjölskylduvini, eða eyða helginni í sumarbústaðnum. Það versta er að ég veit ekki hvað ég á þá af mér að gera. Spenningurinn, sem hefur myndast við það að brátt fæ ég að njóta MSN aftur, hefur þá bakþanka að skipulagið mitt fer alveg í kerfi og ég sit uppi eirðarlaus.

Hmm......einhvernveginn minnir þetta mig á það að ég þarf að gera tvö Valentínusarkort fyrir mánudaginn. Og slakið á. Ég veit að dagur heilags Valentínusar er vissulega í dag en ég get nefnilega ekki hitt stelpurnar, sem ég lofaði að gefa kort, fyrr en í skólanum.

Ég var búinn að hugsa upp nokkur vel valin orð og klippa út pappír í hjörtu, hafa það bara soldið einfalt.....Eitthvað flóknara myndi vekja óþarfa grunsemdir.

Spaugstofan í kvöld var óvenjulega léleg, ég held að ég hætti bara að horfa á þættina þar sem þeir eru búnir að valda mér alllt of miklu vonbrigðum margar vikur í röð.

Ég var að líta yfir nokkra gamla pistla síðan ég var í 9.bekk og nýbyrjaður að vera almennilega virkur á blogginu mínu. Ákveðinn nostalgíufílíngur fór um mig þar sem margt af þessu meikar nokkurt sens. Ég er ennþá fremur sammála sumum af þessum pælingum, aðallega þeim sem fjalla um anarkisma og mannlegt eðli. Ég hef þó mýkst með tímanum og ég get alls ekki talið mig vera eins róttækan eða byltingasinnaðan og ég var þá. Ætli það sé góður hlutur? Kosturinn er auðvitað sá að ég er örlitlu umburðarlyndari og tek inn í pælingar mínar miklu fleira en bara það sem er viðurkennt af öfgavinstriheryfingum. En er ég þá kannski verr undir höggi frá þeim sem vilja telja mér trú um að ég vaði í villu?

Mér þykir það ótrúlegt hvernig allt efnislegt og huglægt geti virkað sem tvíeggja sverð. Er virkilega ekki til neitt sem er bara gott? Eða vont?

Hvað finnst ykkur?


|

föstudagur, febrúar 13, 2004

MSN bindindi - dagur 27

Ég hef fremur lítið að tala um....dagurinn leið eins og ég veit ekki hvað. Frekar lítið sem gerðist. Soldið fyndið sem gerðist í skólanum þar sem ég gleymdi að fara í einn tíma......hversu steikt sem það hljómar.....ég var allan tímann inni á bókasafni og síðan þegar ein bekkjarsystir mín sendist til að ljósrita spyr hún mig af hverju ég er ekki í tíma. Og þá kviknar í perunni hjá mér, svo ég loggaði mig út og fór í tíma.....hálftíma of seint......já, svona er lífið.

Það var mikill vindur í dag og ég klemmdi mig á útidyrahurðinni í 10.bekkjarálmunni með þeim afleiðingum að mig verkjar óheyrilega mikið núna, auk þess sem ég braut nögl :( Þvílíkur pirringur í kringum svona meðsli.

Ég tók annars eftir því í dag að ég á það til að slökkva ósjálfrátt á mér í samtölum og svara einhverju bulli. Eins og ég fari í einhverjum villum um hvað ég er að tala um hverju sinni. Vinur minn var nefnilega að tala við mig um hvaða hlutverk ég fæ í Hárinu. Ég svaraði því að ég vissi það ekki ennþá. Síðan spyr hann mig hver sjái um þetta og ég fer allt í einu að svara einhverju sem átti við heimspekiverkefnið sem vi vorum á leiðinni í að fara að gera......en ég var einhvernveginn svo handviss að við hefðum verið að tala um heimspekiverkefnið að ég skil ekki hvernig leiklistardæmið hafði komið upp. Svipað atvik gerðist líka síðastliðið sumar, réttara sagt í unglingavinnunni. Þá vorum við að ákveða að panta pizzu en svo skemmtilega vildi til að við áttum líka að ákveða frídagana okkar. Síðan þegar leiðbeinandinn spurði mig hvernig ég ætlaði að raða frídögunum mínum upp, svaraði ég eins og algjör hálfviti að við strákarnir ætluðum að fá með pepperóní og aukaosti. Þetta olli því að allir fóru að skellihlæja, að sjálfsögðu.

Lífið er skrýtið....


|

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

MSN bindindi - dagur 26

Ó, hversu erfitt það er að vera unglingur. Þegar maður á minnst von á því verðum við fyrir skjótum og áhrifaríkum áhrifum hormóna og lætur okkur oft líða illa. Oftast hefjast þessar arásir innan um aðila að hinu kyninu sem maður er hrifin/n af. Sú vonlausa þrá að vera með honum/henni og þegar maður fattar að hrifningin er ekki engurgoldin, fer maður að fyllast öfund gagnvart þeim sem komust betur út úr þessu.

Kannski ofmat ég viðbrögð deitsins míns á ballinu......en ég fattaði það of seint að hún hafði ekki snefil af áhuga. Auðvitað er þetta eðlilegur hlutur og kemur fyrir alla. En ég er orðinn leiður á því að í öllum þeim tilvikum sem ég reyni að gera eitthvað í ástarmálum mínum, óheppnast það hraparlega og kemur mér aftur á byrjunarpunkt. Hver ætli sé ástæðan fyrir þessu? Ég get útilokað tilviljun því þetta gerist í hvert skipti......ég get í rauninni engum kennt um þetta nema sjálfum mér. Er ég of ákafur? Er ég blindur á líkamstjáningu? Er ég of hallærislegur? Er ég ekki nógu sjarmerandi?

Allir möguleikarnir eru líklegir og meira að segja í bland.....stelpum líkar vel við mig, en greinilega vantar herslumuninn upp á hrifninguna.......kannski maður fæðist með það.....

Ég held að ég láti gott heita af þessu væli, ég veit að þetta hæfir kannski ekki tíðarandanum sem venjulega er yfir þessu bloggi, en það verður að hafa það. Undirritaður hefur líka sína slæmu daga, því miður (eða kannski bara sem betur fer, annað væri óeðlilegt).


|

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

MSN bindindi - dagur 25

Ég sver, ég var svooona nálægt *geri pínulítið bil milli þumals og vísifingur sem mætti mælast sem nokkrir millimetrar* því að gleyma því að blogga. En heldigvis fyrir ykkur lesendurnar mundi ég eftir því.

Þessi dagur fór með erfiðleikum í mig þar sem ég hafði tæplega klukkutíma aflögu til að borða og þess háttar áður en ég þurfti að rjúka á æfingu niðrí skóla. Rétt er það.....fyrsta opinbera æfing Hárleikhópsins. Við fórum yfir handritið í dag og alir fengu að spreyta sig á því að lesa. Alveg hreint bráðfyndið handrit og ég hlakka til að taka þátt í þessu verkefni.

Á morgunn verður meira að segja meira stress á mér því þá verður önur æfing, frá 16:00-18:00 og ballið verður kl. 19:00!!! Ég ætla að reyna eins og ég get til að fá að fara korteri fyrr, bara svo ég þurfi ekki að fara í sturtu í einhverjum flýti, sem mér leiðist að gera þar sem mér finnst mjög þægilegt í sturtu......þið skiljið alveg hvað ég meina ;) En á morgunn verður svolítið mikilvægur partur af þessu öllu saman þar sem við þurfum að syngja, fyrir framan alla í hópnum, eitt lag úr Hárinu og síðan mun Sigga Birna og einhverjir velja í hlutverk.......ég persónulega vona að ég fái George Berger.....annars grunar mig að hann syngi ekki endalagið (Syndir holdsins) svo ég myndi alveg vilja taka að mér það hlutverk en Berger ef teningnum verður þannig kastað.

Eitt sem eldur mér hugarangri, hvernig ætla þeir að leysa þetta með svertingjann? Eitt af aðalhlutverkum er svört persóna og allir í hópnum eru meira og minna bleiknefjar, að undanskildum nokkrum rauðhausum. :P Kannski þarf sá leikari að málsa sig í framan alveg brúnan og solleis, en ég efa það.

Jæja, nóg í bili, endilega kommentið, alltaf gaman að sjá að einhver les þetta, ég veit allavega að þú, Hildur, lest þetta statt og stöðugt. Soldið erfitt að finna upp á einhverju til að segja þér frá þess vegna, því þú lest um það hér. hehe :P


|

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

MSN bindindi - dagur 24

Margt skemmtilegt gerðist í dag sem vert er að segja frá en eins og með svo margt annað þá gleymist margt af því. Hápunkturinn af deginum var þó þegar nokkrir af fyrrverandi bekkjarfélögum mínum úr Melaskóla tóku spjall saman af skemmtilegum minningum frá bernsku. Margt fyndið kom í ljós sem ég hefði alls ekki grunað suma aðila um að hafa haft aðild að. Ástarsambönd sem enduðu vegna kómískra misskilninga, kómískir misskilningar sem leiddu af sér vandræðaleg hözzl........og auðvitað klósetthúmor :P Gaman að hlusta á þetta þar sem ég kom svo seint inn í þann bekk, sumir höfðu verið saman í bekk alveg síða í 1.bekk en ég kom inn í Melaskólabekkinn í 7.bekk.

Eftir skóla lagði ég leið mína niðrí bæ þar sem ég var búinn að panta eitt stykki tíma í hárlitun. Hefði ég haft lakari siðferðiskennd en ég raunverulega hef, hefði þetta orðið eitt af þeim atvikum sem ég hefði hlegið mest af. Sá sem litaði hárið mitt var þó ekki neitt lélegur......alls ekki. Hann var bara skemmtilega klaufskur og ég átti í mestu vandræðum með að hlæja ekki að sumum bráðfyndnu atvikum. Hann m.a. missti pensilinn tvisvar, einu sinni á sloppinn sem hann var búinn að setja um mig til að hindra svona lagað og hitt skiptið endaði pensillinn á gólfið svo grey maðurinn þurfti að ná í nýjan pensil. Það fyndna var þó þegar hann hóf að lita endana á hárinu þar sem hann þurfti að ná í klemmur svo að hárið flæktist ekki fyrir. Þó var hann í mestu vandræðum með að ráða við hárið mitt svo að samstarfskona þurfti að rétta honum klemmu. Þegar hann ætlaði að setja hana á mig skaust hún í burt og féll á gólfið. Hann, ennþá í mesta basli við hárið, biður hana um aðra klemmu og þá tókst honum að festa hárið. Ég reyndi eins og ég gat að hlæja ekki og ég þakka heppni minni þeirri staðreynd að hann var fámáll því þá ætti ég í meiri áhættu með að hlæja.

Á leiðinni heim af hárlituninni akvað ég að skjótast rétt svo í Skífuna og kaupa A night at the opera með Queen sem flestir ættu að hlusta á, þó ekki væri nema bara fyrir Bohemian Rhapsody. Ég persónulega hef alltaf verið veikur fyrir conseptplötum svo ég gat ekki ráðið við mig þar sem hún blasti við mér á 999 kr.

Og ef þið mynduð vilja afsaka mig, þá ætla ég að slaka aðeins á og hlæja að nokkrum ljósmyndum af greppitrýninu honum Freddie Mercury. Það var sko maður sem hafði húmor fyrir eigin ljótleika :P


|

mánudagur, febrúar 09, 2004

MSN bindindi - dagur 23

Alltaf kemst ég nær þeim degi sem ég fæ að fara á MSN aftur. Þetta er það góða við tímann, hve afstæður hann er. Ég hef sem betur fer fundið mér margt til að gera sem heldur mér uppteknum.

T.d. ætla ég að panta mér hárlitun á morgunn svo ég verði sætur með svarta hárið á deitballinu.....sem btw, er búinn að redda mér deiti á ;) Ég held að ég láti hana um að uppljóstra því ef hún vil það á annað borð, ég fer ekki að breiða þetta út í óþökk hennar......er ég ekki sætur í mér? :P

Auk þess var fyrsti fundurinn með leikurum og söngvurum leikhópsins sem ætlar að setja upp söngleikinn "Hárið". Við horfðum á myndina til að fá innsýn á stemninguna....sem var gott. Síðan lét hún Sigga Birna okkur fá disk með lögunum úr söngleiknum og við söngvararnir og -konur eigum að velja okkur lag fyrir áheyrnarpróf þar sem hún á enn eftir að ákveða hver fær hvaða hlutverk. Ég persónulega vona það innilega að fá hlutverk George Bergers.....utanskilið að þetta er eitt af aðalhlutverkunum, þá passar röddin svo vel við tónsviðið mitt.....Gallinn við þetta er þó sá, ef ég á endanum fæ hlutverkið, að ég þarf að vera í sviðsljósinu soldið mikið og ég verð að segja eins og er, þótt sumir trúi því ekki, þá er ég soldið feiminn....ég er alltaf skíthræddur um að klúðra öllu algjörlega :S

En það mun vonandi lagast, sama hvaða hlutverk ég fæ, ég verð ánægður með það :)

Hugmyndin mín um að setja upp söngleik sækir að mér oftar og oftar núna þessa dagana, eflaust að Sigga bekkjarsystir mín hefur verið mér innblástur í þeim efnum. Hún reddaði öllu sem þurfti að redda svo við mættum setja upp Hárið, fyrir ykkur sem vissuð ekki.

Og ég er ekki að djóka með að setja upp söngleik. Ég er að pæla í því að taka einhverja leiklistarkúrsa í MH í haust auk málabrautarinnar svo ég geti fengið góða hjálp við að semja þetta. Hugmyndin er að byggja heilsteyptan söguþráð í kringum sögupersónuna í plötunni ....Lifun sem Trúbrot sungu um. Ég er búinn að vera ástfanginn af þessari plötu svo mánuðum skiptir að þessi hugmynd verður mögulegri og mögulegri með hverjum deginum sem líður.

En hvað um það. Njótið helgarinnar, verst að það er soldið langt í hana.....


|

sunnudagur, febrúar 08, 2004

MSN bindindi - dagur 22

Hell unleashed er klárað gott fólk!!! Þið megið hoppa hæð ykkar af kæti.......núna.

Reyndar urðum við fyrir smá vonbrigðum því lagið reyndist vera 19:33 mínútur og er það 27 sekúndum of stutt. En, eins og í flestu öðru höfum við ráð á vandanum og erum búnir að lengja ákveðna kafla til að byggja upp flottari stemningu.

Í dag buðum við líka hugsanlegum trommara að koma og hlusta á efnið okkar og tókum við upp fjögur lög í ömurlegum gæðum til að hann geti hlustað og búið til einhverja takta......þ.e.a.s. ef hann ákveður að joina okkur (sem er óskandi).

Ég sagði fyrir ári síðan á þessu bloggi (tékkið á fyrstu pistlunum mínum, hlýtur að vera einhversstaðar þar) að ég ætlaði að taka þátt í Músíktilraununum þetta ár. Nú er svo komið fyrir að við erum ekki með trommara (allavega ekki vissir) og það væri fásinna að keppa án þess að hafa æfingu af því að gigga (spila á tónleikum). Þess vegna ætlum við að fresta þessu um ár í viðbót.....við hljótum þá að verða miklu þéttari við það, hvað haldið þið?

Annars þá er ég fremur hugmyndasnauður í augnablikinu.....hef ekki hugmynd af hverju.

MSN bindindið gengur alveg með prýði......þó ég sakni þess mjög mikið og ætla sannarlega að hanga í því fyrstu daga eftir föstu (hehe). Þið sem hafið emailið mitt í accountinum ykkar....endilega verið online þann 18. febrúar. Ég ætla að reyna að tala við sem flesta....helst í sama glugga.....YAY

Ég kveð að sinni


|

laugardagur, febrúar 07, 2004

MSN bindindi - dagur 21

Dagurinn í dag var í meðallagi viðburðaríkur....ég þurfti að vakna soldið snemma í dag því ég er byrjaður í gítarnámskeiði hjá Gítarskóla Íslands. Það var svosum gaman, en ég get auðvitað ekki dæmt um það, fyrsti tíminn hjá nýjum kennara er ekkert sérstakur.....mest svona að reyna að finna út hvað hann á að kenna mér.

Dagbókin mín fór fram á það ómögulega í dag. Ég á að fara í kirkju. Hér geta sumir misskilið mig og álitið mig einhvern uppreisnargjarnan trúleysingja sem neitar að þroskast. En svo er ekki. Málið er að ég var frekar spenntur fyrir þessu, ég ætlaði meira að segja að bjóða vini mínum með.....en það er greinilegt að kirkjurnar í kring hafa ekkert upp á að bjóða á laugardögum. Mér finnst þetta soldið skrýtið. Það er eins og Guð sé gleymdur öllum á laugardegi.....eins og andi guðs komi í skömmtum yfir vikuna og laugardagur sé mylsnan og það sem ekki tókst að nýtast á föstudeginum.......væri þá ekki sniðugt að minnka vikuna niður í 6 daga? Humm...

Úff.....ég hef í rauninni ekkert merkilegt að tala um.

Ég er annars frekar stressaðr yfir þessu Deitballi á fimmtudaginn nk. Ég komst ekki í það að tala við stúlkuna útvöldu dagana sem ég vissi fyrst af þessu.....að hluta til vegna þagnabindisins og síðan sá ég hana ekkert á föstudeginum :S Ég held þó enn í vonina og ætla að spurja hana á mánudaginn.....ef það verður ekki of seint....


|

föstudagur, febrúar 06, 2004

MSN bindindi - dagur 20

Ertu kennari? Prófaðu þá þetta:

1. Vertu með hettu á hausnum.... en bara með gat fyrir annað augað!

2. Vertu með einglyrni, reiðhjálm og svipu.

3. Talaðu alltaf lærra og lærra en svo í lokin, bentu á einn nemandann og öskraðu : "HVAÐ VAR ÉG AÐ SEGJA!!!??"

4. Kenndu með fingrabrúðum

5. Veldu af handahófi einhvern nemanda, spurðu svo ymsar spurningar og taktu tíman meðan hann svarar... fussaðu svo og sveiaðu þegar hann svarar

6. Segðu nemendunum að kalla þig "Ljómalind" eða "Pétur Pan"

7. Stoppaðu í miðri kennslu alltíeinu, grettu þig og spurðu nemendurna hvort þú sért með feitann rass

8. Spilaðu Kúmbæja á banjó!

9. Syndu nemendum myndband af pyntingaraferðum nasista... hlæðu mikilli innlifun alla myndina!

10. Vertu með speglagleraugu og talaðu bara tyrknesku... láttu sem þú heyrir ekki í nemendum

11. Byrjaðu kennsluna á að syngja og dansa "Sex Machine" eftir James Brown

12. Tautaðu lágt eftir hverja spurningu sem þú spyrð nemanda "líklegt að api einsog þú myndir vita það"

13. Leggðu nemendum fyrir það heimaverkefni að lesa frá Jóhannes til Njörður í símaskránni fyrir næsta tíma... og taktu fram að það verði próf

14. Láttu alltaf tvo nemendur dreifa rósarblöðum á undan þér þegar
þú labbar um stofuna

15. Slökktu ljósin í stofunni, settu í gang kassettu með mávahljóðum og farðu með sálma

16. Biddu nemanda aðeins um aðstoð upp við töflu... láttu þá skrifa undir samning meðan þú græjar á þig stálbrynju og stingur slípirokknum í samband.

17. Byrjaðu kennsluna á því að brjóta tappan af vodka flösku og ösra: "TÍMINN ER BÚINN, ÞEGAR FLASKAN ER BÚIN!"

18. Fáðu hljómsveit til að spila Elvis lög allan kennslutímann en láttu einsog þeir séu ekki þarna...

19. Vertu með syndarveruleikahjálm, gúmmíhanska og öskraðu alltaf þegar einhver talar

20. Láttu einsog kennslustofan sé full af vatni og syntu um allt!

21.Urraðu á nemendurna og kallaðu þá alltaf "háseta"

22. Komdu með lítinn hvolp í tíma... alltaf þegar einhver spyr þig spurningu, þá ferð þú og spyrð hvolpinn

23. Vertu í bleikum kjól, með englavængjum og biddu alla að kalla þig "Krúselíus!"

24. Láttu einsog þú sért hæna!

25. Hafðu auglysingahlé með jöfnu millibili

26. Hnerraðu framan í nemendurna

27. Komdu hlaupandi inní kennslustofuna, froðufellandi og öskraðu ! "ERU ÞIÐ Í STUÐI!!!???? ÉG HEYRI EKKI Í YKKUR!!! ERUÐI Í STUÐI!!??!??!"

Hehe......gaman væri að gerast kennari bara til að prófa þetta :P


|

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

MSN bindindi - dagur 19

Vegna þessarar dagbókar sem ég pantaði á Amazon netversluninni hefur þessi dagur verið mjög erfiður. Í dag átti ég að vera í þagnabindindi út daginn.

Þagnabindindi krefst óhemjumikillar einbeitingu, það lærði ég í dag. Ef maður einbeitir sér ekki allan tímann svo ekki skeiki um sekúndu, þá á maður á hættu á að tala þegar yrt á mann. Ég sagði þó þrjú orð í dag, og sé ég eftir þeim nú. Þau orð voru: "flott" og orðasambandið "ég veit". "Flott" sagði ég sem heimskulegt svar þegar Kjartan sagði mér að hann væri að hugsa út í það að fá sér iPod og "ég veit" notaði ég sem svar þegar hún Steinunn sagði mér að það mætti taka með sér textann inn í áheyrnarprófið (sem sagt, maður þarf ekki að kunna lagið utan að til að syngja það, maður má styðjast við textablöð).

Eins og þið lásuð í pistli mínum í gær þá gaf ég mér það að ég mætti syngja, svo lengi sem ég talaði ekki. Það tókst furðuvel, enda get ég aðeins ímyndað mér hvernig sjónarhorn kennarans við svona skrípalátum séu. Viðbrögðin voru þó furðugóð hjá þeim flestum og þurfti ég sem sagt ekki að segja já þegar ég var lesinn upp, né þurfti ég að svara neinum spurningum. Ég var þó tilbúinn með nokkur spjöld:

 • HALLÓ


 • NEI

 • ÞEGIÐU
 • (þessi var ætlaður bekkjarfélögum sem ætluðu að kreista útúr mér fáein orð)

  Og það allra mikilvægasta:

 • ÉG ER Í ÞAGNABINDINDI Í DAG. VINSAMLEGAST VIRÐIÐ ÞAÐ


 • Ég held þó að ég sé kominn yfir erfiðasta hjallann. Núna get ég í rauninni lokað mig af það sem eftir er dagsins. Og auðvitað ætla ég að vaka til miðnættis svo ég geti smitast af munnræpu aftur eins fljótt og ég mögulega get. Eftir að klukkan hefur slegið tólf mun ég tala af mér allt vit, mér er alveg sama hver mun þurfa að vera undir því, bara svo lengi að ég fæ að tala.....ég gæti þess vegna farið að tala við tölvuna mína.....hmmm

  En þessi dagur er mér mjög mikilvægur. Fólk er almennt séð ekki með sérlega góða aðlögunarhæfileika þegar kemur að því að vera í kringum mállausan mann. Reyndar þá er svolítið erfitt að hugsa sér að einn daginn verði altalandi maður allt í einu mállaus og það endist aðeins út daginn, en samt.......ég sé að fólk er alveg hætt að reyna að lesa í líkamstjáningu. Það finnst mér vera mjög alvarlegt og þætti mér mikilvægt að þetta sé kennt. Það hlýtur einhver að geta kennt svoleiðis. Líkamstjáning sýnir svo miklu meira en það sem maður vill segja, einfaldlega vegna þess að maður býst við því að aðili skilji í hvernig ástandi maður er í útfrá líkamstjáningu. Það kæmi mér ekki á óvart þótt þetta sé hæfileiki sem við erfum frá forfeðrum okkar, öpunum.

  Helsta þjáningin mín í dag var þó í þjóðfélagsfræði. Í þeim tímum er ég hvað málglaðastur, þar sem ég er maður með skoðanir. Öll þau málefni sem kommu upp þar sem ég gat ljós mitt skína, öll þau tækifæri sem gáfust mér til að sýna fram á hvað hinn hefur rangt fyrir sér......Ó, þvílík sæla hefði það verið að geta talað þá.

  En jæja, verð að halda áfram í þessu þagnabindindi, held að ég fari bara að sofa núna svo þetta verði mér auðveldara ;)


  |

  miðvikudagur, febrúar 04, 2004

  MSN bindindi - dagur 18

  Í dag sagði dagbókin mín mér að láta fólk fá lítil verkefni (sem voru í litlum miðum á stærð við frímerki).

  Því miður þá voru þetta of margir miðar til að ég geti talið þá upp, auk þess sem þeir útvöldu héldu miðunum sínum.......duhh :P

  Ég get þó talið upp nokkra skemmtilega miða sem ollu athygli. Ég gaf Mist miða sem á stóð að ég ætti að vinna allar rökræður sem við myndum hafa í dag. Það var svosum gaman að því en hún var mjög nærgætin á að hafa umræðuefnin ekki neitt stórtæk......snjöll stelpa hún Mist.

  Kristján vinur minn fékk miða sem á stóð að í hvert skipti sem skóreimarnar mínar losnuðu, þá ætti hann að rima þá fyrir mig. Ég leysti skóreimarnar þrisvar til að tékka á honum og gengdi hann í hvert skipti. Ó, hve gaman það er að hafa einhverja undir sér.......hehe

  Kjartan varð þrællinn minn í dag, en ég var góður við hann og lét það bara gilda í tuttugu mínútna hlénu þar sem hann var flettarinn minn. Það var gaman, þó hann fletti stundum tvennum blaðsíðum í einu sem olli því að ég er ekki fróðari um heimstmet Guinnes og ég ætti að vera ef hann hefði flett almennilega......en það var gaman að þessu.

  Gunnar Atli fékk miða sem á stóð: Help me make a baby. Þannig að við tókum okkur blýant í hönd og teiknuðum eitt stykki krakka á vegginn. Ég sá um að gera hausinn og andlitið, en Gunnar Atli sá um hárið og búkinn. Nothing that beats teamwork ;)

  Ásgeir fékk miða sem sagði honum að færa mér oftar blóm. Hann færði mér þess vegna visnað illgresi í bjórflösku.......en þar sem stóð að hann eigi að færa mér oftar blóm þá má ég búast við reglulegum gjöfum frá honum......YAY :D

  Dagurinn á morgunn verður þó miklu skemmtilegri......."Say nothing today" eru fyrirmæli morgundagsins. Reyndar lendi ég í pínu klípu vegna þess að áheyrnarprófið fyrir Hárið er í dag......og mig langar virkilega að næla mér í hlutverk sem einsöngvari. Hey.......ég get það alveg, þegið þið bara, þið eruð bara öfundssjúk >:(

  En.......ég get auðvitað beygt reglurnar pínulítið. Í bókinni stendur "Say nothing today" en það stendur ekkert sem bannar söng :D

  Ég er búinn að velja lag sem ég ætla að syngja......en ég er bara stressaður útí eitt. Ef ég þarf að syngja án undirspils :S Þetta lag er nefnilega svo skrýtið hvað varðar takt enda er það samið af Dream Theater. Ekki misskilja mig samt, ég ætla ekki að syngja heilt 10 mínútna tónverk....ég fann eina flotta ballöðu sem er ekki einu sinni þrjár mínútur.....mjög flott lag :). Það heitir Wait for sleep. Allavega, ég ætla að koma með diskinn til vonar og vara.

  Vá......síðan er það Ástarballið í næstu viku.......hver ætli vilji vera deitið mitt? Hmm......ætli maður leiti ekki? Ef maður vill eitthvað gert þá er náttúrulega best að gera hlutina, eruð þið ekki sammála? Hef svona fremur skýra hugmynd um hverja ég ætla að spurja......vona bara að það endi ekki í einhverjum vonbrigðum :S


  |

  þriðjudagur, febrúar 03, 2004

  MSN bindindi - dagur 17

  Svo verður að segjast að mér hundleiðist. Nú væri gott að fara á MSN......en það verður að bíða betri tíma, eða nákvæmlega í 15 daga.

  Bekkjarmyndatökur voru í dag. Ég tók til uppáhaldsbolinn minn og alles. Þegar ég kom í skólann sá ég að einn bekkur hafði tekið upp á því að mæta í sínu fínasta pússi. Strákarnir í jakkafötum og stelpurnar í pilsi og einhverju fíneríi. Merkilegt.....þetta gerðist ekki í fyrra hjá 10.bekk né í hitt eð fyrra, allavega svo ég viti til. Þetta sýnir bara hversu stórt stökk frjálshyggjan hefur tekið á svo stuttum tíma. Fólk er opnara fyrir öllu nú til dags og það er gaman að lifa vitandi af því.

  Ég var að enduruppgötva eina brilljant hljómsveit í dag. Dire Straits. Ég hlustaði mikið á þá þegar ég var 10-11 ára, en seinna hóf ég mína metalstúderingu og fyrirleit allt sem var ekki harðara en Metallica. Nú gróf ég upp tvo diska með þeim uppúr diskasafninu hans Pabba gamla og lét nostalgíuna leiða mig á vit örvinlunar.

  Endilega tékkið á þessari hljómsveit, hún er reyndar löngu hætt og sumum finnst þetta kannski aðeins og mikið eitís fyrir sig......en það er aldrei að vita, þetta kemur á óvart ;)


  |

  mánudagur, febrúar 02, 2004

  MSN bindindi - dagur 16

  Í dag ákvað dagbókin mín að ég ætti að gerast móðursjúkur gagnvart öllu "paranormal". Mér tókst það með prýði og pældi ég í allan dag hvers vegna ég sá það sem ég sá. Málið er að ég sá Sigga labba inn ganginn, og smástund seinna sé ég hann labba inn sama ganginn. Engin leið að hann hafi farið úr ganginum og aftur inn, held ég. Ég meina, ég hefði tekið eftir því þar sem ég var inn í þessum gangi líka. :P

  Annars gerði ég ekki sérlega margt, eg svaf soldið og síðan fór ég í það að hlusta á lélega upptöku af lagi sem við í Cynics erum að semja. Ég þarf nefnilega að pikka upp sólóið sem ég spann upp........fyndið, ég þarf að læra sóló sem var spilað af mér sjálfum :P Merkilegt.

  Annars verð ég að segja.......ég er ekki sem verstur söngvari......ég held allavega tónhæð auðveldlega :) En vá, rosalega er gaman að syngja :D Yndisleg tilfinning.

  Myndataka á morgun. Er að hugsa í verju ég ætli að vera, svo að næstu kynslóðir geti hlegið að myndinni að vild. Síðan gæti það gerst að ég fari að kenna við þennan skóla......og þá verð ég með mitt eintak af bekkjarmyndinni fyrir alla nemendur mína til að hlæja með mér :P Hmm......

  Jæja, ég ætla að vera stuttorður í dag ;)

  Tumi


  |

  sunnudagur, febrúar 01, 2004

  MSN bindindi - dagur 15

  Ég vaknaði óvenjusnemma í dag miðað við að ennþá er helgi og samkvæmt því væri ég venjulega sofandi til 2 eða 3. Ég vaknaði í kringum 10 leytið hress og kátur (eða ekki, sumir eru morgunfúlir :P).

  Það verður önnur hljómsveitaræfing í dag og stefnum við á að klára Hell unleashed og koma því yfir 20 mínútna múrinn. Hugsa sér, fyrir hálfum mánuði var það okkar draumur að koma því yfir 10 mínútna múrinn og héldum við að það tækist ekki, en núna þegar við erum hálfnaðir með lagið þá er það komið upp í rúmlega 11 mínútur og við erum ennþá að finna upp á nýju efni. Einn galli við þetta lag samt. Vegna þess hversu langt það er þá getum við tæplega spilað þetta á tónleikum nema þetta verði eina lagið á dagskrá hjá okkur. Kannski einhverntímann en við myndum ekki taka það oft live......og alls ekki á Músíktilraunum þar sem við fengjum eflaust feitan mínus fyrir töf.

  Ég las Moggann í dag á meðan ég drakk kaffið mitt og getiði hvað ég rakst á á forsíðu blaðsins. Litla klausu sem fjallaði um það að Evrópuráðið haffi samþykkt að ætla að færa "Óðurinn til gleðinnar" eftir Beethoven yfir í nútímann til þess að vekja áhuga unga fólksins á þessu verki. Ætlunin er að setja verkið upp í nokkrar mismunandi útgáfur, m.a. djass, trans, teknó og hipphopp.

  Mér persónulega finnst þetta fremur slæm hugmynd þar sem þetta verk býður ekki upp á það að hægt sé að setja það yfir í nútímann. Það hreinlega skemmir það algjörlega. Og ekki misskilja mig, ég hef gaman af flestum tónlistarstefnum en ég held að ef þeir ætla að nútímavæða óðinn blessaða þá muni það ekki takast með þessum stefnum. Reyndar þá tókst það vel upp í Sister Act 2 með Whoopi Goldberg þar sem lagið var tekið í Gospelfílíngi.....það var fínt svosum. En ungmenni dagsins í dag munu fúlsa við þessu eins og brokkólí.

  Dagbókin mín segir mér að í dag eigi ég að hugsa um broddgölt, flugvél og dverg og gá hvort þeir komi upp í draumum mínum. Ástæðan fyrir þessu er sú að Freud hélt því fram að draumar væru samsetning af öllu sem við höfum hugsað um yfir daginn. Þess vegna er dagurinn í dag tilraun til að reyna að sanna þessa kenningu.

  Jæja, verið sæl að sinni.

  Tumi


  |

  This page is powered by Blogger. Isn't yours?