<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 31, 2004

Úff....þessu bjóst ég ekki við.

Fyrsta nemendasýningin tókst ekki alveg eins vel og í gær. Einhvernveginn verður maður minna einbeittur á sýningu nr. 2. Mér er sagt að sú sýning er alltaf erfiðust því þá er maður að reyna að keppa við kraftinn úr frumsýningunni. Sýningin í dag sannaði það með ósköpum. Stressið var gjörsamlega að drepa mig, auk þess sem ég var fremur hás og hitti ekki alveg á rétta tónhæð í laginu mínu......samt sem áður ekkert sem fólk tók sérstaklega eftir.

Sýningarnar tvær á morgun verða örugglega miklu betri, að minnsta kosti hefur þessi sýning hvatt mig til að gera betur og einbeita mér betur.

Annars er ég að hugsa um að fara í háttinn, klukkan að nálgast miðnætti og ég er að logna útaf af þreytu.


|

þriðjudagur, mars 30, 2004

Ég vona að þið getið afsakað þessa hálfu viku sem ég bloggaði ekki neitt. Ég hef verið á fullu með leikhópnum að fínpússa fyrir sýninguna að allt hefur mætt afgangi. Ég t.d. rétt svo komst í að læra heima á þessum dögum. En nú er allt stress farið því frumsýningin var í kvöld. Vá hvað það var gaman!

Allt gekk eins vel og átti að verða og allir voru einbeittir.....merkilegt hvernig fólk verður alvörugefið án þess að hafa sýnt vott af því á æfingum.

En þó að sýningin hafi tekist vel upp þá hef ég nokkra bakþanka. Ég hélt alltaf að mér hefði tekist ágætlega upp í sambandi við alla tilgerð.....sem sagt, að mér hafi tekist að lifa almennilega í karakterinn. En ég er frekar ósáttur með mig. Ég hefði alveg getað sungið miklu betur ef ég vildi en mér barst svo hugur að karakterinn ætti að vera hrárri.....en nú þegar ég sá upptöku af þessu sé ég að ég verð að vanda mig betur við þetta. Kannski er það svo að ég er of gagnrýninn á mig, má vera.....en ég hef ekki alfarið rangt fyrir mér.

Annars finnst mér gaman að leika. Ég sé fátt því til mótstöðu að gerast atvinnumaður í leiklistarbransanum. Ég verð núna að finna leið til að sameina ritlistina, leiklistina og tónlistina þannig að mér takist þrátt fyrir þetta að hafa einkalíf. Það gengur auðvitað ekki að ég drepi mig úr álagi við að svala mínum listarþorsta. Mig langar bara ekki að lenda í því að velja og hafna :'(

Allavega.....ég er farinn í háttinn.


|

laugardagur, mars 27, 2004

Það á afmæl'í dag
Það á afmæl'í dag
Það á afmæli það suicidal-superpuppy.blogspot.com
*langt hlé til að anda* Það á afmæl'í dag


Ég hefði haldið að líðan mín á afmælisdegi bloggsins yrði einhvernveginn frábrugðin. Álag vegna heils söngleiks og samræmdu prófanna hafa þó haft þann galla í fari sér að ég get ekki borið tilfinningar til þess konar. Mér finnst líka töluverð synd að ég hafi verið svo upptekinn í dag að ég hef ekki komist til að skrifa fyrr en það vantar korter í miðnætti.

Þrátt fyrir hve mikið var að gera í dag gerðist lítið frétt næmt. Á þeim dögum er ekki gaman að blogga. Ég myndi örugglega ekki blogga á svoleiðis dögum en þá liti bloggsíðan ekki sérlega vel út.....þrátt fyrir hversu óhefðbundinn ég er þá vil ég hafa reglu á bloggið mitt. Skrýtið.


|

föstudagur, mars 26, 2004

Ég veit ekki hversu langt bloggið mitt verður að þessu sinni þar sem ég er algjörlega tómur og í örlítilli tímaþröng.

Orsökin er auðvitað Hárið (þó ég kvarti nú ekki svosum) en í kvöld verða líka úrslitin í Músíktilraununum og er ég búinn að tryggja mér sæti það :D Svona er nú þægilegt að geta nýtt sér sambönd.

Ég man þá í augnablikinu eftir sama atburði í fyrra.........ef þið leitið á svipuðu tímabili árið 2003 sjáiði að ég er ekki að ljúga ;) En eins og í fyrra ætla ég að skrifa rýni yfir allar hljómsveitirnar og solleis voða gaman :P

Annars hef ég verið að hugsa útí það hvernig aðferðir fólk noti við bloggin sín. Þá er ég að meina þá sem eru að skrifa eitthvað að viti............ekki ein til tvær línur um hvað þau fengu sér í morgunmat eða þessháttar.

Þið sem skrifið pælingar í bloggunum ykkar..........hvað geriði? Hugsiði útí það hvað þið ætlið að skrifa og setjist síðan við tölvuna og skrifið niður eða skrifiði bara pælingarnar jafnóðum og þið eruð að blogga?

Þegar ég lít til baka hef ég bara farið eftir þessum tveimur aðferðum. Ég tók mér tíma í að hugsa upp hvað ég ætlaði að skrifa um. Núna koma hugmyndirnar upp á meðan ég er a skrifa. En það bitnar á því að inn á milli kemur smá bull, eins og eitthvað sem ég gerði af mér hvern dag. En kannski eru skiptar skoðanir á hvort það sé leiðinlegt lesefni eða ekki. Fer eftir persónunni. Bæði persónunni sem les og sá sem skrifar.

Allavega..........ég er farinn

Toodles


|

miðvikudagur, mars 24, 2004

Ég er greinilega farinn að slappast í þessu bloggi....tímabilin sem einkennast af hugsunarleysi verða æ tíðari og meiri um sig. Ég veit ekki hvað ég gæti gert til að halda hugsunarhættinum gangandi.

Ég man að um tíma reyndi ég að finna upp á einhverju til að skrifa um á morgnana, á meðan ég bar út moggann. Síðan færi ég í tölvuna og skrifaði minn pistil og færi svo í sturtu og gerði mig tilbúinn fyrir skólann. Mjög kerfisbundið og kannski ástæðan fyrir því að ég hélst ekki lengi í þessu formi. Ég á erfitt með að taka upp á einhverjum venjum. Löstur eða kostur? Það væri hægt að ræða það fram og til baka þannig að mér er svosum sama.

En vegna þess hve ókerfisbundinn ég er tek ég upp á mismunandi venjum og hefðum sem vara mislangt. Vandamálið núna er að ég er að verða uppiskroppa með nýjar hugmyndir sem gætu hjálpað mér í að hafa pistlana mína fjölbreytta......án þess þó að ég fari að markaðsetja mig út á það......mér finnst bara leiðinlegt að fjalla um sama hlutinn aftur og aftur ef þið skiljið mig.

En annars......ofan á allt þetta þjáist ég af ritstíflu! Ég hef ekki getað skrifað aukatekið orð í skáldsögunni minni svo mánuðum skiptir! Ég er við það að lemja mig í klessu og senda sjálfan mig í fangabúðir nasista í örvæntingu minni um að það fokki mér nógu mikið upp.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Bloggið verður eins árs næsta laugardag og ætla ég að blogga extralangt þá........ef ég hef tíma......auðvitað get ég reddað mér tíma, en ég er hræddur að vegna skipulagsleysis í mér bitni það á einhverju öðru sem ég ætla að reyna að fá áorkað. En það verður þá bara að hafa það.

Ég óska hér með eftir hugmyndum til uppbyggingar pistla sem eru í anda fyrri pistla. Hugmyndum sem verða að skemmtilegum textum í næstu uppfærslum fyrir þessa síðu svo þið megið upplifa varanlegan blóma í skrifum þess unga drengs sem heldur þessu bloggi uppi. Ég þarf ÞIG til að hjálpa mér. Hver veit? Kannski verður það ÞÉR að þakka að ég læknist af þessari ritstíflu. Spáðu í það. Sendu inn skoðun fyrir neðan hvern þann pistil sem er efst hverju sinni og ég skal íhuga að nota hugmyndina í næsta pistli.

Tumi

Meðlimur R.S.S.Í. (Ritstíflusjúklingar Íslands)


|

mánudagur, mars 22, 2004

Here we are, children of Sun and Stars
The first to know and to understand
Living by the Law of the Ages
Prophets and sages - forging utopia


Vá....þetta textabrot, sem er eftir Symphony X, finnst mér alveg ógeðslega flott!!!

En hvað sem öðru líður þá er ný skólavika gengin í garð. Mér finnst hún hafa byrjað eins vel og hægt var að ímynda sér. Eftir tvöfaldan enskutíma fengum við þær fréttir að íþróttir féllu niður vegna veikinda og þess vegna færum við ekki heldur í Líffræði vegna þess að reglan er sú að við eigum ekki að bíða í meira en tvær kennslustundir eftir tíma. Sumir voru þess vegna búnir kl. 9:30. Ég þurfti hins vegar að mæta aftur eftir hádegi í þýsku og frönsku. En vegna þess hversu mikið hlé var á milli, náði ég að sofa alveg út og var þess vegna ekki eins þreyttur og venjulegt er á mánudögum.

Í dag byrjaði ég líka aftur að hlusta á allt það sem ég hlusta á dags daglega.Ég var búinn að hlusta á geisladiskana frá Amazon.co.uk alveg síðan ég fékk þá og ekkert annað, svo ég braut hefðina aðeins upp og hlustaði ekkert á þá allan daginn, heldur rifjaði upp gamla tóna með honum Albert Collins, þeim svakalega blúsara.

---

Ég hef alvarlega verið að pæla í samskiptum kynjanna undanfarið. Þá sérstaklega hvað varðar það sem annað kynið þarf að þola en hitt kynið getur ekki ímyndað sér með nokkru móti hvernig er. Túrverkir. Vel má vera að mörgum verði brugðið við því að ég sé að pæla í svona hlutum. Þetta er auðvitað eitthvað sem enginn karl þarf að standa í og ætti að vera alveg skítsama um þess vegna.

Af hverju er ég þá forvitinn um þetta fyrirbæri? Gæti ekki verið gott að skilja þetta, sem kemur fyrir mánaðarlega hjá kvenkyninu, til þess að við getum verið aðeins umburðarlyndari gagnvart því? Ég hef oftar en ekki lent í skítkasti frá stelpum á túr vegna þess að ég hló að þeim, vitandi ekki neitt um túrverki. Þetta er auðvitað heimspeki hins óupplýsta. Hlæjum að því sem við skiljum ekki. Því miður.

En hvað gerist þegar ég reyni að fræðast um þetta? Stelpan lítur á mig fremur undarlega fyrir að reyna að fá smá innsýn í hversu sársaukafullt það getur verið að vera á túr! Kannski var ég of ágengur í spurningum mínum eða kom þessu vitlaust frá mér, en samt.....það er nú frekar erfitt að spyrja svo nærgöngulla spurninga.Á endanum hló hún að mér og þá gafst ég upp.

Niðurstaðan er sú að kröfurnar sem kynin setja hvor öðru eru að geta sett sig í frekar ómögulegar stöður svo að skilningur nái fram. Við erum allavega ekki tilbúin til að útskýra fyrir hverju öðru hinar daglegu krísur sem verða í samskiptunum. Við verðum bara að treysta því að einhver af kynbræðrum/systrum viti þetta og breiði þetta út. Kannski þess vegna urðu þessi kyntengdu tímarit eins og Cosmopolitan til.

Breytinga er þörf!!!


|

sunnudagur, mars 21, 2004

Sælt veri fólkið.

Ég biðst afsökunar á bloggleysi mínu undanfarna daga en þannig er mál með vexti að ég var andlega og líkamlega óhæfur til tjáningar.Eins og ég skrifaði um í síðasta pistli, var ég í stærðfræðimaraþoni frá föstudagskvöldi til laugardagsmorgunsins.Augljóslega varð ég fyrir miklum áhrifum öfgakennds svefngalsa, svipað og finna svolítið mikið á sér eftir áfengisneyslu. Um fjögurleytið árla morguns þennan umrædda laugardag var ég langt leiddur í þeirri iðju að merkja flesta, sem voru saman komnir til að reikna, með tússpenna. Þið haldið eflaust að við reiknuðum allan tímann, en það er kannski aðeins ýkt. Foreldrafélagið var svo blítt við okkur að það var fyrirfram búið að skipuleggja hvíldartíma fyrir okkur. Við hinsvegar túlkuðum það þannig að þegar við yrðum þreytt, mættum við taka okkur hlé frá reikningi. Þannig hætti ég mestallri stærðfræði í kringum tvöleytið að morgni til.

Annars var þetta maraþon ekki meira frá sögu færandi nema þegar heim var komið. Ég var orðinn svo langt leiddur í svefngalsa að hver sem er gæti úrskurðað mig sem hasshaus. Þess vegna hringdi ég í Gítarskóla Íslands og tilkynnti "veikindi" mín en ég á að mæta kl. 11:20 á laugardögum.

Mér þykir mikil synd að mæta ekki í þennan tíma þar sem skyndilegur námsþorsti í gítartækni og tónfræði hefur gripið mig alveg síðan ég komst að því að ég var nokkurnveginn staðnaður í mínu "sjálfsnámi". En ég einfaldlega varð að sofna því ég þurfti líka að mæta upp í skóla til að æfa leik í Hárinu.

Ég komst ennfremur að því að ég sef heldur fast. Ég vaknaði þegar tveir klukkutímar voru liðnir af æfingunni þrátt fyrir að ég var búinn að stilla vekjaraklukkuna. Ég heyrði EKKERT í henni. Og það sem verra var, ég náði ekki að læra textan sem við ætluðum að fara í í þessari æringu. Og það sem bætti gráu ofan á svart var að enginn annar hafði gert það heldur. Sigga Birna var ekki sérlega glöð með það.....þess vegna er ég búinn að nota tímann síðan ég vaknaði og fara yfir allt sem ég þarf að læra. Enda tími til kominn því núna þurfum við að æfa þetta allt með allri hljómsveitinni uppi á sviði. En núna kann ég þetta vel.

Mér finnst alveg rosalega ömurlegt að geta ekki komist í það að æfa með hljómsveitinni þennan mánuðinn. Ég er með svo mikið af efni sem ég þarf ð koma frá mér og ég einsfaldlega sakna þess að vinna með hljómsveitinni. Skemmtilegir gaurar. En Ég vissi það frá upphafi að ég þurfti að fórna einhverju fyrir söngleikinn og ég sé svo sem ekki eftir því.

Senn líður að því að ég kaupi mér nýjan gítar. Þessi SG sem ég á núna er reyndar mjög góður miðað við verðið. 30.000 kall. Mér finnst samt svolítið pirrandi hvað það heyrist mikið suð í skrúfunum sem halda uppi humbuckerunum. Annars er ekkert að honum. Frábær hljómur og ég get notað hann í hverri þeirri tónlistarstefnu sem ég spila, sem er einkar góður kostur í progmetalgrúppu. Hugmyndir um nýjan gítar leiðast að mestu leyti til Ibanez vegna þess að hálsarnir hjá þeim eru oft 24-banda. Maður þarf því miður að punga út svolítið mikið af peningum til að fá almennilegan gítar, svo að ég held að ég finni mér þá frekar góðan Epiphone Les Paul.......þyrfti ekki að kosta meira en 60-70.000 krónur, ég veit að hann myndi ekki bregðast mér.

Jæja, gott að sinni

bæbæ


|

föstudagur, mars 19, 2004

Eftir einn of hálfan tíma mun ég skunda í skólann minn. þetta þætti harla óvenjulega, þar sem liðið er á kvöldið og helgin blasir við manni. Ástæðan fyrir þessari tilbreytingu er svokallað stærðfræðimaraþon en eins og nafnið bendir til þarf ég að sitja inni og reikna stærðfræði í ákveðinn tíma. Tólf tíma til að vera nákvæmur. Ekki kalla mig masúkista alveg strax, leyfið mér að útskýra.....ég er búinn að safna áheitum eins og reyndar flestir aðrir sem sitja þetta maraþon. Samtals fæ ég 4800 krónur og fer þetta uppí ferð sem allur 10.bekkur fer í til Þórsmerkur strax eftir samræmdu prófin.

Samt sé ég fram á það að ég verði að kaupa mér nokkrar flöskur af Orku til að halda þetta út. Ég vil geta reiknað á meðan ég er nú fenginn til þess. Gott tækifæri til að undirbúa sig fyrir samræmdu prófin. Mér finnst samt harla skrýtið hversu mikið einkunnir mínar í stærðfræði hafa lækkað. Frá 9-9,5 og niður í 7,5-8.....tæplega einn og hálfur! Og ég er ekki sá eini sem kvarta. Það er greinilegt að kennarar ofmeta hæfileika 10.bekkinga. Þetta er samt aðallega erfitt í algebrunni. Allar þessar reglur sem þarf að fara eftir og ef maður gleymir að fara eftir einni af þessum fjölda regla, fær maður vitlaust úr dæminu. Ég veit ekki með ykkur en mér fyndist það gremjulegt ef þetta héldi mig frá því að komast í framhaldsskóla. Hvað eru kennarar líka að hugsa að kenna okkur nýtt efni þegar við erum að fara að taka próf sem hefur varanleg áhrif á líf manns? Ætti 10.bekkur ekki að einkennast af upprifjun? væri það ekki mun sniðugra?

En jæja, pabbi minn er að kalla mig í mat.

Vi ses


|

fimmtudagur, mars 18, 2004

Ætli ég sé ekki dálítill dellukall. Ég er þó ekki sá sem fæ dellu af einhverju ólíklegu. Einhvernveginn þurfa dellurnar að standast skilyrði áður en ég hugsa alvarlega um að pæla svolítið í að framkvæma tilraunir tengdar þeim, rétt til að sjá hvort þetta henti mér. Skilyrðin eru oftast tengd listinni, sama undir hvaða flokk hún skilgreinist enda stefni ég á að verða eiginlegur listamaður sem geri ekki upp milli listgreina.

Auðvitað get ég ekki dembt mér í allt saman strax frá blautu barnsbeini. Sumt kemur mér heldur náttúrulega eins og tónlist og e.t.v. ritlistin, á meðan myndlist í allri sinni dýrð auk leiklistarinnar kemur mér heldur spánskt fyrir sjónir. Á því vil ég koma breytingu. Ég hræðist þó að ég fari of geyst í tvær síðastnefndu greinarnar. Hræðslan gæti stafað af því að ég vil geta notið þess að tjá list, og ef mér lægi á að stúdera þá tjáningu, næði ég örugglega ekki að koma tjáningunni jafn tært til skila.

Dagurinn í dag var dagur innblástrar fyrir mér. Ég fór með góðum vinahópi niður í Háskólabíó að sjá myndina American Splendor. Einstaklega frumleg blanda kvikmyndar og heimildamyndar og hæfði mig a.m.k. í hjartastað. Líf plebbans er vissulega vanmetið. Enginn vill þó lifa svona lífi enda skiljanlegt, maðurinn þjáðist mestalla myndina. En þetta er vissulega ferskt sjónarhorn á lífið, fært hrátt og eins og það kemur fyrir sjónir. Heimspeki meðalmannsins.........

Eftir þessa mynd greip mig dellan. Mig langar að skrifa myndasögur. Myndasögur myndu gera mér fært að öðlast tilfinningu fyrir myndlist og hugsa sögurnar mínar á miklu myndrænni hátt. Kannski ég fari mér hægt um og byrji að teikna myndasögu byggða á skáldsögunni minni. Kannski það veiti mér aukinn innblástur því ég hef haft svolítið langvarandi ritstíflu.


|

þriðjudagur, mars 16, 2004

Í dag er ástæða til að gleðjast því ég fékk loksins sendinguna frá Amazon!!! :D Þrír frábærir proggmetaldiskar sem ég sé ekki eftir að hafa keypt. Við fyrstu hlustun líst mér best á V: The new mythology suite með Symphony X. Það er reyndar vegna þess að sá diskur kom mér minnst á óvart.....ég fékk það sem ég hélt að kæmi útúr þessari breiðskífu. Pain of Salvation diskurinn, 12:5 var nefnilega live diskur, auk þess að vera acoustic........ekki besta leiðin til að kynnast einum af fremstu progmetalgoðum Svíþjóðar. Og Flight of the migrator með Ayreon er greinilega seinni hlutinn af conseptplötu sem var gefin út á sama tíma en aðskildir. Staðreyndin með tvo síðarnefndu diskana var ákveðið svekk. Samt sem áður líkar mér vel við tónlistina sem þeir buðu upp á. Næst ætla ég þá bara að kaupa mér það sem vantar og þá losnar þessi pirringur í mér að mig vanti að hlusta á fyrri helminginn.

Vorið er komið. Við eyddum ágætishluta af deginum spilandi fótbolta. Sumir tóku upp á því að fá kvef. Þetta er einmitt það sem er mest pirrandi við vorið. Maður er kannski búinn að halda út allan veturinn án þess að vera lasinn, síðan fær maður svo rosalegt kvef strax þegar vorið kemur, tíminn sem beðið hefur verið eftir með óþreyju alveg síðan í nóvember. Ég er reyndar ekki búinn að fá kvefið, en það er bara tímaspursmál. Það væri óskandi að árið í ár væri undantekning frá þeim árlega viðburði þegar ég fæ kvef, en svo er því miður ekki. Held ég.

Músíktilraunirnar fara síðan bráðum að byrja. Ætli maður láti ekki sjá sig á úrslitakvöldinu og hvetji sína menn. Mig grunar samt að ég þurfi að sitja stærðfræðimaraþon þegar Somniferum spila á undanúrslitakvöldi. Þess vegna verð ég að vona að þeir komist áfram svo ég geti séð þá á tónleikum MEÐ SÖNGVARA. Vonandi að það bæti tónlistina þeirra á einhvern hátt, mér finnst þess þörf. En auðvitað get ég ekki dæmt þá eftir að hafa séð þá spila í eitt skipti, sérstaklega þegar þeir voru bara nýbyrjaðir.......

Jæja, segi þetta gott í dag.


|

mánudagur, mars 15, 2004

Af hverju þurfa kynin að vera svona ólík? Af hverju þarf ég að vera uppi á þeim tíma þar sem kynjastríðið er farið útí öfgar og það bitnar á öllu samfélaginu frekar en að bæta það?

Ég spurði feminíska ömmu mína um þetta, en það má taka það fram að ég er líka feministi. Upp úr þessu varð heit umræða en það var greinilegt henni fannst ég hljóma karlrembulega. Hún þurfti ekki að segja það, bara hvernig hún ansaði hverri spurningu benti til þess. Hún leit á mig sem enn einn andstæðinginn sem hakka þyrfti í spað. En ég vildi ekki rökræða þetta við hana til að lítillækka feminisma......þetta voru bara árekstrar innan feminismans, svo einfalt er það.

Verst hvað ég á erfitt með að koma því frá mér. Ég er misskilinn bara vegna þess að tjáningarform mitt er ekki á sama þroskastigi og fullorðinn maður.

Það vill enginn hlusta á mig þessa vegna.

Lífið er skítt á svona tímum.


|

laugardagur, mars 13, 2004

Rifrildin um gæði framhaldsskólanna fara bráðum út í æsar hér hjá okkur tíundubekkingum. MR er best vegna þess að þar er sama fyrikomulag og í Hagaskóla, Verzló er með besta félagslífið, MH veitir mesta frelsið......

Rökræður varðandi eitthvað sem við þekkjum ekki af raun? Er það rökrétt? Getur einhver óreyndur haft vit fyrir öðrum óreyndum bara með vitneskju sem það fær útfrá SKOÐUN einhver sem hann þekkir?

Annars er gaman að lenda í svona rifrildi. Gaman að sjá hversu langt leiddir sumir eru í þessum áróðri frá öllum skólunum. Margir velja EKKI einhvern sérstakan skóla vegna þess að þeir heyra að félagslífið sé ömurlegt......vandamálið er að maður getur ekki vitað þetta fyrir vissu. Maður er ekki búinn aðlæra við þennan skóla!!!

En flestir vona ég að velji skóla sem henti sér best í náminu. Ég valdi MH vegna þess að sá Fjölbrautaskóli sem er í næsta nágrenni við mig. Mér finnst Bekkjarkerfi fremur letjandi og mig langar að pófa annað. Mér finnst líka kostur hversu fjölbreytt val er í þessum skóla.

En nóg um þetta, þetta var entry dagsins ;)


|

föstudagur, mars 12, 2004

Ég hef grun um að ég sé pínulítið uppáþrengjandi. Kannski ekki pínulítið heldur meira svona ROSALEGA. Ég hef oft fengið að heyra það hjá ósátu fólki og hef ég alltaf hlegið að þessu. Ekki í afneitun, heldur hló ég til að deyfa áhyggjur mínar. Hvernig í ósköpunum get ég bætt mig þegar ég hef ekki nema sjónarhorn annarra á galla mína? Til að bæta sig verður maður að vita nákvæmlega hvað er að. Hvað í fari mínu gerir mig uppáþrengjandi? Það er ekki nóg að vita að ég er uppáþrengjandi, ég verð að vita hvernig. En fólk er feimnara við að segja mér það heldur en meginmálið, því miður.

Ég væri svona uppáþrengjandi ekki ef ég gæti virkilega tekið eftir því hvernig ég haga mér í kringum fólk. Augljóslega.

Það er gallinn við alla. Fólk heldur að maður sjálfur hagi sér skikkanlega en það fer alltaf í pirrurnar á einhverjum, réttlætanlega. Aðrir hafa hundsað þessa galla af einhverjum öðrum ástæðum.

Kannski ætti ég ekki að taka þessu alvarlega því enn er þetta bara einn eða tveir aðila sem halda þessu fram. Kannski tek ég þessu of alvarlega því mér líkar illa þegar einhverjum líkar illa við mig án "góðrar ástæðu". "Góð ástæða" verður góð þegar ég hef gert eitthvað í hlut aðila. Ég hef eflaust gert mörgum illan hlut, en skil samt ekki hvers vegna þeim líkar illa við mig. Kannski er ég leiddur of langt í siðblindu og algjörri hundsun á tjáningu umhverfisins.

Kannski er það líka í stöðunni að aðili gerði mikið mál úr einhverju litlu, einfaldlega vegna þess að honum líkar illa við mig. Sakið mig um vænissýki en þetta gæti alveg eins verið meinið stundum. Fólk er mismunandi umburðarlynt gagnvart gjörðum manna og ef ég brýt oft loforð um að hætta einhverju pirrandi í kringum ákveðinn aðila, leiðir þetta rökrétt til þess að honum líki illa við mig.

Þið, sem lesið þetta og vitið um eitthvert atvik þar sem ég var kannski ekki til fyrirmyndar í mannlegum samskiptum (uppáþrengjandi), vil ég biðja ykkur um að taka við afsökunarbeiðni minni og endanlegu loforði um að ég skuli með samvinnu ykkar, bæta mig í þessum efnum. En þá megið þið ekki hika við að segja mér hvenær ég fer yfir strikið.

Tumi


|

miðvikudagur, mars 10, 2004

Ég setti inn myndir á svæði hjá .Mac sem rennur út eftir 50 daga eða svo.............þannig að ef þið viljið halda einhverju af myndunum ættuð þið að stja þær inn á harða diskinn ykkar ;)

En allavega. Myndirnar er hægt að skoða --> hér <--


|

þriðjudagur, mars 09, 2004You're Ireland!

Mystical and rain-soaked, you remain mysterious to many people, and this
makes you intriguing.  You also like a good night at the pub, though many are just as
worried that you will blow up the pub as drink your beverage of choice.  You're good
with words, remarkably lucky, and know and enjoy at least fifteen ways of eating a potato.
 You really don't like snakes.

Take the Country Quiz at
the Blue PyramidÉg læt ykkur um að mótmæla þessu...


|
Sælt veri fólkið.

Ég býst við að það verði einhver töf á þessum blessuðu myndum sem ég tók í skíðaferðinni vegna þess að þær eru svo stórar að allt plássið sem pbase.com lætur mann hafa er uppurið. Ég ætla þess vegna að gera minni afrit af þeim og sjá hvernig það kemur út. Þið getið þó gleymt ykkur við myndirnar inná nfh.is ;)

Hvað sem því líður þá gengur lífið sinn vanagang. Nemendur hafa strax fengið skólaleiða, þrátt fyrir að hefðbundin kennsla hófst aftur í gær. Mesta upphefðin mín í dag er hlustun mín á laginu Japanese Policeman með Kimono.......geðveikt lag!!!

Skólinn í dag var fremur léttur og gekk hratt fyrir sig. Þriðjudagar er mjög þægilegir dagar. Maður er búinn að jafna sig á sjokkinu við að mæta í skólann á mánudegi og getur einbeitt sér í að spjalla við vinina.

Mér finnst ég nýlega hafa verið einhvernveginn andlega.........hvað skal segja.......tómur. Ég hef ekki hugmynd hvers vegna, get ekki getið mér til um aðdraganda þess. Kannski er þetta bara eitt af þessum tímabilum, síðan bráðum mun ég kannski blogga óstjórnlega um eitthvað mjög frumlegt.....tilhlökkunarefni ef ég hefði traustar heimildir fyrir því að þetta muni gerast. Þangað til býst ég við að þíð þurfið að þola bullið sem kemur útúr puttastríði mínu við lyklaborðið.


|

mánudagur, mars 08, 2004

Sælt veri fólkið.

Bráðum líður að því að ég setji myndirnar frá skíðaferðinni inn á netið, að öllum líkindum á morgunn. Ég er líka búinn að setja inn nýtt comentkerfi og þetta SKAL vera varanlegt.

Lítið annars að frétta. Árshátíðin er á næsa leyti og munu 10.bekkingar hittast allir á Hótel Sögu og snæða þar kjúkling og pasta áður en haldið verður í sjálft ballið. Við fáum ókeypis inn vegna þess að skíðalyftugjaldið er nákvæmlega jafnhátt og kostar inn á ballið og þar sem við fengum ekkert að nota lyfturnar fáum við endurgreitt með þessum hætti. Sniðugt.

Ég lendi í því oftar og oftar að fólk hlær að mér af nánast engri ástæðu. Núna síðast lenti ég undir hlátursárás nokkurra stelpna í mínum bekk vegna þess að ég var með blautt hár (nýkominn úr sturtu). Greinilega hitti þetta hláturtaug og var mér ekki rótt allan líffræðitímann. Er fólk ekki lengur gætt smá vott af umburðarlyndi? Má maður ekki mæta í tíma eins og maður er án þess að tekið er eftir manni á vafasaman hátt (ég segi nú varla óþægilegan, en kommon! Ég leit ekkert fáránlega út)? Piff

Næst fæ ég örugglega ekki að vera í friði vegna trefilsins míns. Fólk er grimmt :P Nei nei, ég er ekkert vænissjúkur......ehemm

En hvað sem því líður þá er árshátíðin á næsta leyti og ætla ég að halda áfram að segja frá því. Stuðmenn munu troða upp. Það getur einungis verið jákvætt því það er ekki möguleiki annað en að allir þekki nokkur lög með þeim, meira að segja utan að. Þetta er einfaldlega besta poppgrúppa Íslands (hehe, ég skrifaði næstum "poop" í staðinn fyrir "popp").

Æjj, hef ekki hugmynd um hvað ég ætti að skrifa.

Bæbæ


|
Jahérna, heil helgi án þess að blogga :S

Ég biðst afsökunar á þessu bloggleysi, ég hef bara verið mjög upptekinn við æfingar í Hárinu. Sýningar verða nefnilega í lok þessa mánaðar og þess vegna verðum við að drífa okkur í þessu.

Komment kerfið mitt er líka komið í rugl og þarf ég að skipta um það braðlega.........þarf alvarlega að finna kerfi sem er algjörlega ókeypis.

Helgin einkenndist því miður aðeins af æfingum. Vissulega er gaman, en þetta tók svo mikið af frítímanum að ég gat ekki gert neitt annað, eða svona næstum því.

Ég blogga meira í dag.......ekki mikið af pælingum í hausnum á mér árla morguns.....


|

föstudagur, mars 05, 2004

Sælt veri fólkið.

Ég er kominn heim frá skíðaferðinni heill og óskaddaður (a.m.k. svo langt sem skilgreiningin nær varðandi hið líkamlega). Margir með mér héldu þó að við myndum öll deyja þar sem Helga kom með andaglasspjald og allir tóku flipp á því og fylltust ofsóknarbrjálæði. Það kaldhæðnislega var að Helga komst aldrei í andaglas sjálf.

Það var um kvöldið fyrsta daginn sem við vorum í skálanum og allir höfðu það huggulegt, að nokkrar sálur lokuðu sig inni í borðtennisherberginu með andaglassspjaldið fyrir forvitnis sakir. Stuttu seinna heyrðist öskur og komu þau öll út askvaðandi eins og þau hefðu séð draug. En þá hafði það gerst að þau voru vitni af því þegar andi fimm ára barns spáði fyrir um dauða 84 persóna í rútuferð eftir skíðaferð. Auk þess voru þau vitni af því þegar andi gamals prests ætlaði að vernda okkur með "djöfulsins blessun".

Líkurnar á því að einhver ýtti eru þess kyns að ég ætla ekki að tala um það þar sem fólk gæti viljað hótað mér lífláti fyrir efasemdir. En staðreyndirnar liggja fyrir. Við lifðum þetta af.

Annars var þetta eiginlega eini svarti punkturinn á ferðinni. Ekki sérlega áberandi og maður gat alveg yfirstigið þetta á fimm mínútum. Yfir kaffibolla þess vegna. En ég eyddi þeim kaffibolla í ýmis spil við ýmsa aðila. Trivial Pursuit, Scrabble, venjuleg spil......aðallega í fatapóker, nema þetta var í rauninni blackjack auk þess sem stelpurnar, eins svekkjandi og það virðist, þorfðu aldrei úr brjóstahaldaranum, hvað þá meira en það. Annars þá kynntist ég full af krökkum sem ég hafði aldrei talað við, rétt svo vissi nöfn þeirra. Það er alltaf gaman.

Á næstu dögum mun ég síðan setja inn fáeinar myndir frá ferðinni, mislukkaðar samt þa sem ég kann takmarkað á þessa vél. Ég þarf bara að fá aðstoð pabba míns við að setja þetta inn þar sem tölvan er ekki alveg viljug til að hefja samstarf með mér.

Mikið var horft á kvikmyndir á kvöldin. Ég horfði bara á tvær þeirra: The Pink Panther strikes back og The Shining. Ég var ekki mikið að horfa á Bleika pardusinn enda var ég að spila ólsenólsen ofan á sumum aðilum. En ég horfði með áhuga á The Shining þar sem sú mynd inniheldur eitt af frægustu svipum kvikmyndasögunnar (Here's Johnny!). The Shining er ein af þessum myndum sem maður sleppur ekki við að horfa á. Mér fannst flott hvernig súrrealisminn blandaðist vel við hryllinginn allan. Perrasvipirnir hjá Jack Nicholson voru vel heppnaðir, enda þurfti hann ekki mikið að reyna á sig þar sem hann er nokkuð vel afmyndaður fyrir :P Þetta var aveg listalega vel gerð mynd á alla staði.......get varla sagt annað.

Ég blogga aftur á eftir þegar ég hef meiri tíma ;)


|

miðvikudagur, mars 03, 2004

OK.......síðasti pistillinn minn fyrir ferðina.

Ég er búinn að pakka öllu sem ég tel mögulegt að geti ekki gleymst. Sem þýðir að ég mun a.m.k. gleyma þremur hlutum. En ég ætla að muna eftir: dagbókinni minni, tólfstrengjagítarnum, myndavél, tannburstanum, svefnpokanum og maltinu ;) Allt hitt er aukaatriði.

Annars leggst þessi ferð ágætlega í mig. Ég er ekkert alltof stressaður yfir skorti mínum í brettakunnáttu.......einhverntímann verður maður að læra þetta og flestir duttu í sín fyrstu skipti. Ekkert þroskaheft við það.

Mér bauðst að fá far með pabba mínum upp í skóla með allt draslið. Þessu er ég þakklátur þar sem ég væri heldur lengi með allt þetta hafurtask. Gallinn er hins vegar sá að ég þarf að fara núna, hálftíma fyrr :S

bæbæ


|
Damn......ég hef greinilega ekki verið nógu fljótur á mér. Þessi pistill á að vera fyrir gærdaginn þar sem ég lofaði ykkur tveimu pistlum. En allavega.....

Seinni partur gærdagsins var í meðallagi strembinn. Mikil hvíld þó inn á milli en álagið var aðallega á síðustu stundum dagsins. Við fjölskyldan héldum upp á 43 ára afmæli pabba míns og horfðum síðan á nýja þáttaröð á RÚV sem heitir Everwood.......ég var svolítið lengi að kveikja á perunni, en komst síðan að því að aðalgaurinn í þessum þætti er sá sem lék George Berger í Hair þegar sá frábæri söngleikur var kvikmyndaður. Mér finnst að hann ætti að vera frægari miðað við hve góður leikari hann er. Það er oft svoleiðis með þessa virkilega góðu leikara. Sumir festast í ákveðnum persónum og geta ekki breytt ímynd sinni fyrir almenningnum þess vegna. Mark Hamill gat ekki stigið hærra í metorðastigann heldur en í hlutverki Luke Skywalker. Öll hlutverk sem hann hlaut eftir Star Wars féllu ekki vel í kramið hjá fólki vegna þess að maður þekkir hann betur sem Luke Skywalker en Mark Hamill. Ég sé fyrir að það sama muni koma fyrir Elijah Wood. Ætli hann sé ekki frekar þekktur sem "gaurinn sem lék Frodo".....? Hver veit?

En vitið þið hvað? Ég held að ég fari núna að sofa svo ég verði ekki myglaður þegar ég vakna fyrir skíðaferðina sem verður eftir........11 tíma.

Eruð þið ekki ánægð að ég treysti ykkur fyrir þessari vitneskju?


|

þriðjudagur, mars 02, 2004

Sælt veri fólkið.

Núna rétt í þessu rakst ég á ógrynni nýrra bloggsíða sem allar hafa það sameiginlegt að tilheyra fyrrverandi bekkjarfélögum mínum frá Fáskrúðsfirði. Gaman? Vissulega.......alltaf gaman að sjá hvað ræst hefur úr þeim sem maður hittir sjaldan vegna fjölda kílómetra milli manns. SÉRSTAKLEGA þegar maður sér hve illa steikt bekkjarbræðurnir hafa breyst. Auðvitað hef ég ekki mjög góðan samanburð þar sem ég er örugglega steiktari en þeir. En samt...........tjokkó frá helvíti er ekkert annað en lágkúrulegt og ódýrt trikk til að fá á broddinn. Reyndar eru þeir bara 16 áa þannig að það gerist ekki hvern einasta dag.....en því fyrr sem maður verður tjokkó, því betri æfingu fær maður í því að vera úrkynjaðasti meðlimur vors þjóðfélags.

En þetta var nú bara hálfgerður reiðilestur. Ég hef ekkert á móti FM Hnökkum........ekki mikið að minnsta kosti.

Annars er ekki mikið að gerast.....ég þarf bráðum að drulla mér í það að pakka niður öllu draslinu fyrir skíðaferðina. Ætli ég taki ekki einhverja tónlist með? Ásgeir, vinur minn, fann upp á því snilldarráði að taka bara með sér diska sem hann var viss um að enginn myndi fíla. Þannig gæti hann verið öruggur um að enginn spyrði hann um að fá lánaða diska. Sniðugt nokk. Ég er mjög heppinn að því leyti þar sem mest af minni tónlist er annaðhvort of steikt eða of margar mínútur hvert lag til að helstu píkupoppararnir haldi sér frá þessu. Ég verð þó því miður að vera undirbúinn því að einhverjar gelgjugrýlur hyggist slökkva á græjunum ef ég set eitthvað af þessu á fóninn.....ætli maður finni ekki upp á einhverju frumlegu því til varnar. Ég er opinn fyrir hugmyndum.

Á meðan við vorum að æfa hlutverkin okkar í Hárinu, kom Magnús, bekkjarfélagi og helsti andstæðingur minn í rökræðum, og bað mig að flytja stuttan pistil um anarkisma í útvarpinu sem sett var upp fyrir Listadaga Hagaskóla. Jújú, ég sló til, enda hélt ég að þetta yrði í formi viðtals. Písofkeik. En neeeeeeeeeei.....við stjórnvölinn voru einhverjar stelpur úr 9.bekk sem höfðu hvorki áhuga á neinu sem ekki hafði að minnsta kosti fimm aðalliti í neonttónum og var troðið og fóðrað og er mögulega selt í öllum helstu dótabúðum landsins. Fór þessi yfirlýsing þá út um þúfur þar sem hún einkenndist af ákveðnu stefnuleysi þar sem ég vissi ekki hvar átti að byrja að útskýra jafn flókna hugmyndafræði. Þetta er nú ekki beint kennsla í að þvo sér með sápu!!!

Aftur lendi ég í því að stelpur misskilja mig. Reyndar þá var misskilningurinn aðeins skiljanlegri en áður hefur komið upp. Þannig var að stelpa að nafi Hera (að mig minnir), sem er með mér í leikhópnum, spurði mig í hvaða átt skólinn væri. Ykkur til útskýringar vorum við fyrir utan Frostaskjól og hún er svo til ný í skólanum. Þar sem ég var að fara sömu leið vorum við samferða. Mjög saklaust. Síðan hitti ég hana Mist (nei djók, síðan hennar er hér, fyrri linkurinn vísar til þýsku þýðingarinnar á "Mist") og hú auðvitað misskilur þatta algjörlega og kallar mig hözzler það sem eftir er af skóladeginum. Piff. Og ég sem hélt að við karlmenn ættum erfitt með að skilja konur.

Ætli ég skrifi ekki meira í dag.......er í svolitlu stuði og langar að spara það aðeins ;)


|

mánudagur, mars 01, 2004

Sælt veri fólkið. Dagurinn í dag fór að mestu í að hlusta á geisladiska sem ég endurheimti frá vini mínum. Auðvitað hefði ég getað hlustað á þá hvenær sem er þar ég hef þá alla inni í tölvunni. En það er þó nokkru erfiðara að tengja þetta við ágætisgræjur þannig að ég nýtti mér tækifærið og hlustaði á mestmegins af uppáhaldinu mínu. Dream Theater, The Mars Volta, Pink Floyd, Radiohead.......allt saman yndislegt :)

Síðan fór ég niðrí bæ með karlkyns helmingnum af gamla settinu til að finna á mig skíðaklossa sem ég hyggst taka á leigu yfir skíðaferðina. Ég vil taka það fram að ég tek líka bretti með en ég set mér það markmið að læra loksins á þetta djöfulsins........neinei.....þetta er örugglega fínt.

Þegar heim var komið hélt ég áfram að hlusta á tónlist en fór seinna upp og samdi smá glingur á gítarinn minn eins og ég stend mig oft að við (Málfræðiprófessorar, ekki hika við að leiðrétta þessa seinustu setningu).

Von bráðar fæ ég síðan sendingu frá Amazon.co.uk þar sem ég pantaði þrjár breiðskífur sem ég ætla að nýta mér í stuttan fyrirlestur sem ég á að flytja í Popppunkti eftir nokkrar vikur. Viðfangsefnið sem ég valdi mér var Progg-metal en á íslensku útfærist það best sem Framsækið þungarokk. Þessar þrjár breiðskífur eru einmitt allar úr þeim flokki og þykja með þeim fremri.

Fyrst ber að nefna Symphony X með plötuna V: The New Mythology Suite. Ég hef heyrt að þeir hljómi mjög svipað og Dream Theater og þykir mér það lofsvert þar sem sú hljómsveit er einmitt uppáhaldshljómsveitin mín.

Flight of the Migrator er plata með eins manns hljómsveitinni Ayreon sem er skipuð hollendingnum Arjen Lucassen. Hann semur á öll hljóðfæri og útsetur en spilar einungis á hin hefðbundnu hljóðfæri í stúdíóinu, hann fær síðan gestalistamenn til að hjálpa sér. Þetta hefur hann nýtt sér með góðu móti þar sem hann velur oft söngvara fyrir aðeins eitt lag til að persónugera lögin og undirstrika söguþráðinn sem hann er að setja upp með tónlistinni. Ég hlakka mjög til þess að hlusta á þessa plötu.

Og síðast en ekki síst, 12:05 með sænska eðalbandinu Pain of Salvation og hlakka ég hvað mest til að heyra í þessari plötu þar sem ég kannast mest við þessa hljómsveit af öllum hinum......en auðvitað mun ég gefa hinum séns.......ég er nú ekki það grunnur.

Ég nenni ekki að skrifa meir í bili. Ég ætla samt að reyna að skrifa ROOOOOOOOOOOOSALEGA MIKIÐ á morgunn því það verður síðasti dagurinn áður en ég legg af stað á vit ævintýranna og renn mér niður brekkur huldar snæ......bæbæ


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?