<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Ár og aldir hafa liðið síðan ávarpaði églesendur mína síðast. Lítið hefur gerst í mínu lífi og er það aðalástæða þess að ég hef ekki séð mér fært um að skrifa minn daglega pistil því þið hefðuð eflaust aðeins áhuga á að lesa tvær fyrstu línur hvers pistils og mynduð berjast við krónískt þunglyndi það sem eftir yrði.

Samræmdu prófin fara bráðum að byrja. Þau virðast samt svo fjarlæg. Það er reyndar bara helgi í þau, en það er HEIL HELGI! (skemmtilegt hvernig áherslur af þessu tagi geta haft svo mikil áhrif).

Ég hef verið latur við að skrifa í skáldsöguna mína undanfarið. Ég sé það að það er mjög erfitt að skrifa fyrstu 10.000 orðin. Alltaf erfitt að byrja og greinilegt að því er ekki síður farið með ritlistina. En nú verður þessi hjalli brátt yfirstiginn þar sem ég á tæplega 300 orð í að vera komin upp í tíu þúsundin. Ég er mjög stoltur af þessu. Þetta byrjaði sem smásaga sem ég ætlaði að hafa í lengri kantinum en síðan fékk ég fleiri og fleiri hugmyndir um hvað ætti að koma fyrir persónuna að mér fannst tilvalið að prófa skáldsögustílinn og hentar það mér betur en smásögustíllinn. En vá, 10.000 orð! Rosalega er það lítið. Rétt rúmlega 30 blaðsíður...aðdáunarverð sú þolinmæði sem atvinnurithöfundar hafa.

En, nú ætla ég að skjótast til að skrifa þau 1500 orð sem ég þarf að bæta mér upp.

Blessbless


|

mánudagur, apríl 26, 2004

Rosalega er ég eitthvað tómur!

Hef ekki hugmynd um hvað ég á að skrifa. Sá það ekki fyrir að hugmyndabankinn minn tæmdist hálfpartinn þegar ég notaði mest af þessu í þessum langa pistli mínum. Kannski ég þurfi að taka mér góðan tíma í að endurhlaða. Kannski að maðurinn virki eins og vélmenni, en ekki öfugt eins og við höldum.


|

laugardagur, apríl 24, 2004

Stysti pistill síðunnar


|

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Komiði sælir, kæru lesendur.

Í dag er sérstakur dagur, ekki einvörðungu vegna þess að við getum loksins fagnað komu sumarsins, heldur ætla ég að skrifa lengsta bloggpistil frá upphafi opnunar þessarar síðu. Auk þess ætla ég að toppa tvo aðila sem gerðu slíkt hið sama. Annar náði að gera rúmlega 4200 orð og getiði litið á þann pistil hér og hinn náði rúmlega 1700 orðum og getiði litið á það hér. Samtals gera þetta um 5900 orð en ég ætla að bæta um betur og skrifa meira en 6000 orð. Ég get kannski varað ykkur við núna í byrjun að lesning þessa pistils tæki mjög langan tíma og er kannski ekki endilega þess virði, þar sem þetta verður kannski ekki íkja mikið sem ég mun fjalla um, þótt ég reyni vissulega að fjalla um eitthvað skemmtilegt. Góða skemmtun.

Hafiði pælt í orðinu blogg? Mér finnst þetta nokkuð sniðugt tökuorð þar sem við bætum einu g við. Eins nokkur ykkar vitið kannski þá varð enska orðið til af orðinu web log. Seinna meir breyttist það yfir í we blog og þannig varð þetta nýja orð til. Við Íslendingar höfum síðan tekið þetta beint og eins og ég áður sagði, bættum g við. Annars höfum við alltaf státað okkur af góðum nýyrðum, eins og sími (þýðir þráður), andúð og samúð og fleiri mætti nefna en ég geri það ekki hér. Hvers vegna ætti þá ekki að finna upp á góðu nafni fyrir þetta fyrirbæri fyrst það er orðið svo vinsælt? Nokkrar tillögur hafa þegar komið fram. Við þekkjum kannski best orðið vefdagbók og nota e.t.v. sumir það dags daglega fremur en blogg. Fannáll er annað orð og finnst mér það miklu sniðugra þar sem það er stutt og laggott. Þetta orð kemur af orðinu vefannáll og geta glöggir séð að ve- fremst í orðinu hefur verið sleppt.

Pæling er annað áhugavert orð. Maður hefði haldið að fyrst unglingar notuðu þetta orð í gríð og erg fyrir nokkrum árum, væri þetta tökuorð. En þetta orð á upptök sín allt aftur til víkingatímanna. Skóflur voru ekki mikið notaðir þá en pálar hins vegar miklu meira. Pæling er einmitt svo sniðugt orð vegna þess að við erum í rauninni að grafa upp einhverja hugmyndir í kollinum.

En nóg um orð að sinni. Ég hef fengið nokkra áhugaverða geisladiska undanfarið. Þeir sem ég held kannski met upp á af því eru kannski þeir sem ég fékk núna siðast. Voru það tveir diskar með hljómsveitinni Fantômas og heita þeir Fantômas og Delirium Cordia. Hljómsveitin er súpergrúppa skipuð Mike Patton (Faith no more og Dillinger escape plan), Dave Lombardo (Slayer), Buzz Osborne (Mr. Bungle og The Melvins) og og Trevor Dunn. Nafnið á hljómsveitinni fá þeir frá mjög frægri franskri anti-hetju sem var sköpuð á eftirstríðsárunum ef ég skil það rétt. Fantômas skipar sér svipaðan sess í franskri menningu og draugurinn Belphegor fyrir ykkur sem hafið áhuga. Allavega, sjálftitlaða platan með Fantômas hefur að geyma 30 lög og er hvert lag helgað blaðsíðu í myndasögu. Lag #1 heitir Book 1: Page 1, lag #2 heitir Book 1: Page 2 o.s.frv. Það sem mér finnst flott við þessa músík er að þrátt fyrir að það sé söngvari í henni þá eru engir textar. Mike Patton beitiir röddinni sinni af einskærri snilld og fer ótroðnar slóðir í söngtjáningu. Hann beitir röddinni sannlega sem hljóðfæri. Delirium Cordia sem svo skemmtilega mætti þýða sem Geðtruflun í hjarta hefur að geyma eitt lag sem heitir Svrgical sovnd specimens from the mvsevm of skin og er einkar lýsandi fyrir það sem þeir tóku fyrir. Lagið, sem er í heild rúmlega 74 mínútna langt, er þverskurður á tónlist sem gerð er í dag og í rauninni allt sem tónlist hefur skapað. Alveg hreint ótrúleg tónsmíð á alla kanta!

Ég upplifði það nýlega að dreyma eitt stykki melódíu. Melódían birtist mér á ógnarhraða og ég hélt að mér tækist aldrei að pikka hana upp á gítarinn. En sem betur fer var melódían svo föst í minninu á mér að mér tókst einhvern veginn að hægja á henni og reyna að spila á gítarinn þar til það passaði við melódíuna í kollinum á mér. Kannski í framtíðinni næ ég að beisla hvað sem það er sem lætur mig dreyma svona og kannski mér takist þá að semja mun heilsteyptari verk en ég geri í dag. Ég bæði hlakka til og kvíði því. Ég hef ekki hugmynd hvernig mér á að takast að finna það element sem fékk mig til að semja í svefni. Kannski er ég að gera of mikið úr þesum kvíða mínum, gæti verið. Draumar eru annars merkilegir. Mér tókst einu sinni að dreyma á þýsku. Og þetta var ekki neitt bullmál, heldur var þetta fullkomin þýska sem ég skildi eins og Þjóðverji og talaði reiprennandi sjálfur. Ég man samt ekkert hvað gerðist í draumnum en hann hlýtur að hafa fjallað um námugrafara því í lok draumsins var ég fastur í einhverjum göngum og öskraði á hjálp (að sjálfsögðu á þýsku). Ótrúlegt hvað undirmeðvitundin leynir frá okkur miklu. Samkvæmt henni þá kann ég þýsku reiprennandi, en eitthvað gerir það að verkum að ég kann heldur lítið í henni. Það finnst mér svolítið skítlegt, þótt ég reyndar hef gaman af því að læra hana í skólanum. Magga þýskukennari er alveg frábær manneskja og er eins og fædd fyrir kennarahlutverkið. Ég veit ekki hvað hefur ollið því en síðan ég kom í tíunda bekk hef ég haft meiri og meiri áhuga á tungumálum, sérstaklega íslensku. Loksins erum við farin að læra eitthvað nýtt sem í rauninni brúar bilið milli allra reglnanna svo að nú hugsar maður með meiri rökvissu hvers vegna hlutirnir eru einmitt svona. Tíundi bekkur hefur eiginlega hjálpað mér mikið í því að negla nákvæmlega það sem ég ætla að gera í framtíðinni. Vissulega er það frekar mikið sem ég ætla að taka að mér, en ég hlýt að ná því öllu.

Jæja, þúsund orð búin, bara fjögurþúsund orð eftir ;)

Þegar ég stend mig að því að vera uppi á skólabókasafni, skoða ég oftast eina tiltekna bók, ef bók skal kalla. Þetta er myndasögubók sem ber það skemmtilega heiti The valley of the far side og hefur að geyma mjög súrreal hugmyndir sem tengjast því sem við tökumst á við í hversdagsleikanum. Risahæna sem er að baka brauð en vantar egg, ótaminn hundur sem í sífellu reynir að sprengja hús eigenda sinna, kona sem fer frá manninum sínum því hann er með haus af hana...aveg hreint yndislegt að lesa þetta og ég verð aldrei leiður á því. En athugið, þetta er bara þegar ég er uppi á SKÓLAbókasafninu. Ég les líka mikið af skáldsögum og þessháttar. Það höfðar alveg jafn mikið til mín. Samt hef ég tekið eftir því að lesskilningur minn á þeim bókum sem ég les eru mjög takmarkaðar miðað við jafnaldra, held ég. Þegar ég átti að lesa Engla alheimsins tók ég mér góðan tíma og naut þess alveg hreint að lesa þessa bók og finnst mér þessi bók vera eina af þeim bestu sem ég hef lesið. Ég var mjög ánægður með að hafa lesið hana sem dægrastyttingu í staðinn fyrir að stressa mig og lesa hana með það í huga að reyna að muna nöfnin á öllum sögupersónunum og muna hvað hver gerði og þess háttar. Kannski hefði ég átt að gera það því ég fékk bara 7,5 á prófinu, þegar ég hélt að ég fengi 8,5 eða jafnvel 9. Ég er heldur fúll með árangurinn. Kannski ég þurfi að lesa allar uppáhaldsbækurnar mínar aftur bara til að tékka hvort ég hafi misskilið þær. Þvílík bölvun. Að hafa gaman af því að lesa þótt maður skilji þær ekki almennilega. Ég er ekki alveg að skilja þetta. Helvítis bögg. Kannski hefur þetta áhrif á hvernig ég skrifa almennt! Kannski legg ég of mikla orku í að útskýra smáatriði sem eru fyrir öllum augljósir......og ég veit ekki í hverju það felst.....djíses kræst!!!
En hvað með það? Ég hlýt að fatta þetta einhvern tímann, hlýtur að vera. Ég get ekki búist við því að ég taki fyrir einhverja tómstundariðju eins og ég hafi einhverja reynslu í því. Það er bara heimskulegt.

Mér tókst að redda mér miðaum á Metallica þann 4.júlí án þess að stressa mig yfir því að þurfa að bíða í biðröð. Ég ákvað að kaupa miðana sem kosta 7500 ,- í staðinn fyrir 6500,- þar sem fyrirskipulagið verður þannig að þeir sem eru með dýrari miðana eru framar og þar verður minni troðningur. Ég tel það vera auka þúsundkalls virði, er það ekki? Djöfull hlakka ég annars til. Þessi hljómsveit var eitt sinn uppáhaldshljómsveitin mín og þekkti ég ekkert betra en að slefa yfir hæfni Kirk Hammet á gítarnum. Þessi gaur er andsetinn!!! Mér er skítsama þótt einhverjir gaurar segjast hafa pikkað upp öll sólóin hans og segja honum að hann sé bara gamall kall með einhvern rembing. Ég gæti ekki verið meira ósammála. Mælikvarðinn á góð sóló er ekki hversu hratt þau eru spiluð. Hugsunin á bak við þau, framsæknin í að blanda saman ákveðnum skölum til að fá tónbil sem ekki hefur stuðst við áður í ákveðinni tónlistarstefnu, tilfinningin sem reynt er að skapa með þeim og svona get ég haldið áfram endalaust, er það sem þarf til að gera góð sóló. Jimi Hendrix t.d. gerði fullt af flottum sólóum þótt hann studdist bara við tvo skala. Það sem gerði þau flott var að hann lagði svo mikla tilfinningu í þau, spilaði algjörlega frá hjartanu. Hver sem er, sem kann pentatóníska skala bæði í dúr og moll, getur pikkað þau upp. Einfaldleiki í tónlist er bara svo rosalega vanmetið fyrirbæri að það er hreint óþolandi. Og kannski líka hættulegt þegar hugað er að tónlistarsmekk einstaklings. Ef maður hlustar of mikið á flókna tónlist, fer maður kannski að líta á einfaldari tónlist hornauga því að það er ekki eins mikil vinna lögð í hljóðfæraleik, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Svo á móti er kannski hættulegt að hlusta bara á einfalda músík, því þá kannski fer maður að fyrirlíta flóknari tónlist því þeir leggja meira upp á hljóðfæraleik en tilfinningu......báðir aðilar hafa auðvitað rangt fyrir sér.
Upphaf blaðsíðu nr. 5

En hvað sem því líður þá verð ég að halda áfram að skrifa. Ég er rétt svo kominn með þriðjunginn. Ég fór að pæla í því hvort fólk tæki eftir því ef ég copy/paste-aði þetta e.t.v. þrisvar.....nii, það væri svindl. Ég verð nú að sýna að ég get staðið við orð mín. En þá verður það ykkar verkefni að lesa þetta til að þið getið verið viss líka. Vá, ég dáist af ykkur sem hafið nennt því að lesa þetta langt. Þið reynið á öfgar þolinmæðis. Þið eruð alveg æðisleg. :D

Ég hef í auknum mæli síðustu daga séð kosti þess að teikna. Kannski er það ánægjan aff því að skapa eins og með tónlist og ritlist. Samt. Málið með það að teikna er að maður getur tjáð það sem erfitt er að gera öðruvísi. Svipgerðir persóna verða miklu pottþéttari þegar þeir eru teiknaðir, augljóslega. Ég hef t.d. fundið upp á því að búa til myndskeið í líki myndasögu sem ég ætla síðan að nota í Lifun projectinu. Það yrði fáránlegt ef ég segði boðskapinn fullum stöfum eins og hann gerir sig. Það er bara fáránlegt ef maður hugsar útí það. Það er engin tvíræðni í því, engin leið fyrir mann að túlka það með sínum eigin orðum og gefur þess vegna ekkert svigrúm til að pæla í þessu eftir á. En ef maður sér myndskeið þá er öldin önnur.

Hmm....hvað ætti ég að skrifa um núna? Oki, ég ætla að leita að einhverju í orðabókinni.

Nei, ekki virkaði það. En ég fann samt upp á svolitlu sniðugu. Mér hefur alltaf fundist það svolítið skrýtið að talað er um hetjur annars vegar og kvenhetjur hins vegar. Hvað sé ég svona skrýtið við það? Er þetta ekki bara málvenja. Vissulega, en mér finnstt þetta ekki málvenja sem á rétt á sér. Hetja er nafnorð í kvenkyni! Hver er tilgangurinn þá með því að bæta við forskeytinu kven-? Ég gæti husað mér svipað dæmi sem mér finnst jafn fáránlegt. Karlflugþjónn. Pæliði í því ef fólk segði það. Hvað annað gæti flugþjónn verið en karl? Einmitt. Gott að þið eruð sammála mér ;)

Rosalega finnst mér kúl að heyra spilað á gítar með fiðluboga! Úff hvað það kemur vel út. Ég veit núna um þrjár hljómsveitir sem reyna sér fyrir með svoleiðis. Reyndar er ein þeirra, Led Zeppelin, löngu hætt en hverju skiptir það? Allavega, tvær núverandi hljómsveitirr sem nota fiðluboga í gítarleik. Og báðar íslenskar!!! Coral og Sigur Rós. Þetta er einhvern veginn mjög vandað ískurhljóð sem kemur útúr þessu. Ekki eins skerandi og pönkararnir í þá daga notuðu óspart í tónlist sinni, heldur meira svona þung en milt "öskur".

Í gær lenti ég í samtali við tvær bekkjarsystur mínar, þær Kristínu Lovísu og Sif. Ég nenni venjulega ekki að tala við þessar vinkonur, sem reyndar eru venjulega þrjár en Tanja Ýr var greinilega ekki meðal þeirra á þessari stundu, vegna þess að ég lendi einfaldlega alltaf í einhverju skítkasti við hana Sif vegna þess að hún er of viðkvæm allri gagnrýni. Kanski er það ekki minn staður að gagnrýna, og reyndi ég eftir fremsta megni að gagnrýna hana ekki í þetta skiptið. Í þetta skiptið var umræðuefnið tengt útliti. Þær höfðu velt því fyrir sér hverjar afleiðingarnar yrðu ef önnur þeirra gerðist allt í einu gothari, þ.e.a.s. litaði hárið á sér svart, setti á sig svartan varalit dags daglega og e.t.v. corpsepaint, gengi um með fullt af keðjum, hlekkjum og þessháttar um hálsinn og síðast en ekki síst, síðum leðurjakka. Ég sagði í háði að þá byði ég henni út. Þetta virkaði og hlógum við að þessu um stund. Síðan spurði ég þær hvaða niðurstöðu þær höfðu fengið út úr þessari spurningu. Þær voru sammála um það að þær myndu reyna eftir fremsta megni að breyta hvor annarri aftur í sinn gamla stíl. Ég spurði þær þá hvað þær sæju svona athugavert við þetta útlit. Svar þeirra var kannski mjög í anda Verzló, en þeim fannst þetta ljótt og þetta myndi hafa þau áhrif að þær yrðu ekki eins vinsælar. Þá gat ég ekki lengur orða bundist og sakaði hana um þröngsýni, en sem betur fer vorum við að fara í tíma þannig að ég gat stoppað mig af áður en hún varð fúl útí mig. Ekki það að það skipti mig höfuðmáli hvaða álit þær hafa á mér, en einhverju máli skiptir það greinilega.......ekki spyrja mig hvers vegna (þori að veðja að einhver geri það nú samt).

Annars hlakka ég til að klára loksins grunnskólann. Ég sé fram á að ég kynnist loksins fullt af jafnöldrum sem ég get samræmt mig betur við. Ég valdi MH að hluta til vegna þess að hann hefur orð á sér fyrir að vera mjög "bohemian". Ég spái samt ennþá í því hve fyndið það væri að fara í Verzló. Ég þyrfti þó að líða það að vera hálfgerður einfari. Nei, ég fer í MH. Búinn að ákveða það fyrir löngu. Það besta er líka að margir sem mér líkar ekki neitt sérlega vel við, fara margir í aðra skóla. Þá þarf ég ekki lengur að treysta á að umburðalyndi mitt sé nógu sterkt til að þola ákveðna persónu út daginn.

Mig vantar skoðun ykkar varðandi textagerð. Ég hef ekki haft neina sértaka venju í sambandi við textagerð. Ég ríma þegar mér hentar og nenni og í sama lagi getu sem sagt bæði verið verse sem ríma og ríma ekki. Haldiði að hlustendur stæðu á sama? Ég reyndar vona það. Sumir reyndar komast upp með að skrifa texta án þess að böggast eitthvað útí bragfræði.....en tónlistin sem ég vinn við er ekki þess eðlis gruna ég. Eða er ég kannski bara vænissjúkur?

Ég rek augun í hljóðnemastandinn minn, sem er lagður upp í hornið við hliðina á dyrunum í herberginu, og velti fyrir mér hve fáránlegt það er að eiga ekki hljóðnema. Ég skil ekki hvernig ég fór að því að fá þá niðurstöðu að það væri sniðugt að kaupa hljóðnemastand en engan hljóðnema. Hvað var ég að hugsa??? Annars þá mun ég brátt leiðrétta þennan misskilning. Ég og Davíð, vinur minn og samstarfmaður í hljómsveitinni Cynics, munum í sumar kaupa okkar langþráða hljóðkerfi svo við getum loksins æfft okkur almennilega fyrir tónleika. Þolinmæði mín varðandi skort á tónleikahaldi er á þrotum. Þrjú ár á startholunum er mjög óeðlilegt þykir mér. Stundum getur það verið erfitt að vera fullkomnunarsinni. Ég er samt ánægður með að þetta ferli hefur tekið svona langan tíma. Það er bara í byrjun síðasta hausts (2003) sem við byrjuðum að semja almennilegt efni. Við vorum loksins sammála um hvað við vildum semja og hugdettur um að hætta í þessari hljómsveit þykir mér jafn fjastæðar og að verpa eggi, a.m.k. frá mínu sjónarmiði. Verst að við erum ekki ennþá komnir með trommara, þó það sé reyndar í bígerð. Annars var ég að fá góðar fréttir. Helgin eftir að samræmdu prófin eru búin munum við í hljómsveitinni helga okkur alvöru æfingum. Við tökum alla græjurnar uppí sumarbústað og æfum eins og brjálaðir. Djös stemning verður það!!! Við getum þá loksins farið að huga að tónleikahaldi.

Mér finnst það alltaf jafn fúlt hve margir metalistar líta mikið niður á ballöður, og þá er ég helst að beina þessu að karlpeningnum. Það er nú eitt að fíla þetta ekki, en að dæma alla hljómsveitina útfrá ballöðunum? Er þetta hluti af karlmennskuni sem er að veði hjá ykkur? Eruði of harðir í ykkur fyrir að fíla svona „væl“?

Úff......tæplega fjögur þúsund orð eftir. Ætli ég meiki að skrifa svona mikið? Ég er byrjaður að efast um það. Djöfull er þessi Steini sick!!! Hversu mikinn frítíma getur einn gaur haft? Ég er byrjaður að halda að ef ég skrifa þessi 7000 orð að þá verði það kannski í óþökk mannorðs míns. Ætti ég að afsanna fyrir fólkinu að ég á mér minna líf en hann og segja þetta gott í dag?

Nii....hverjum er ekki sama um mannorð? :P

Mannorð er svolítið merkilegt fyrirbæri. Það er greinilegt að manneskjan er ekki komin lengra en það í þróuninni að hún tekur ennþá mark á mannorði. Það getur vissulega verið nauðsynlegt ef tiltekin manneskja hefur verið brotleg um eitthvað, en annars þá á mannorð engan rétt á sér. Held ég. Þessi mannorðastigi sem fólk vill klífa gæti ég þess vegna best trúað að væri blekking. Blekking í þeim skilningi að hún þarf ekkert endilega að vera til. Hún er til vegna þess að við trúum á hana. Ef við tryðum ekki á þessa blekkingu þá væri hún ekki til. Fólk gæti verið óáreitt gagnvart öllu og slúður myndi ekki þekkjast, a.m.k. ekki það slúður sem þekkist í glanstímaritum. Mannorð er í rauninni til öfunda og það leiðir þá af sér að fólk vill eyðileggja þetta mannorð.

Ég stend mig oft að því að vera ekki nógu góður að mér í röksemdarfærslum. Ég skil ekki almennilega hvernig það gerist því oftast hef ég öll þau rök sem ég þarf. Ég er kannski óþarflega stressaður þegar ég þarf síðan að útskýra það því ég hef kannski aldrei tjáð það með orðum. Þess vegna kemur það oft á tíðum vitlaust út úr mér og auðvelt að snúa út úr það sem ég segi. Samt tek ég etir því að það er bara há einstaka persónum sem ég læt svona. Þegar ég rökræði við aðra þá tekst mér betur upp. Hvað ætli valdi því? Hvað ætli ég geti gert til að bæta mig í þessu? Kannski ég sofi á því í nótt og vona að ég finni svar við því.

Skemmtilegt orðtak, að sofa á einhverju. Hugsunin á bak við þetta er eflaust að dreyma lausnina og geta svo unnið úr því um morguninn, úthvíldur og hress. Skemmtilegt hvernig þessi hversdagslegu orðtök geyma svo mikil sannindi að orð fá ekkki lýst. Ég man að sem krakki lá ég yfir íslenskum orðtökum sem höfðu verið sett saman í mjög sniðugt uppflettirit. Í dag nýt ég góðs af því og er allta nokkuð pottþéttur á því hvaða orðtak þýðir hvað. Kemur sér mjög vel í íslenskutímum, sérsaklega í samræmdu prófunum sem ég er bráðum að fara að taka.

Mér finnst skondið hversu rólega ég tek þeirri staðreynd að ég er að fara að þreyta ein af mikilvægustu prófum lífsins. Nokkrir bekkjarfélagar mínir, á undarlegan hátt eru þetta allt stelpur, eru svo til að deyja úr stressi þrátt fyrir að vera með þeim efstu í bekknum. Þetta finnst mér vera nokkuð strembin gáta. Þeir sem eiga auðvelt með bóklegt nám, eru oftast þeir sem liggja yfir bókunum dagin út og inn fyrir próf og hræðast það mest af öllu að falla. Á meðan taka hinir þessu heldur léttilega. Ég hugsa mér að mögulega gætu þeir sem ég gat fyrr, stöðugt verið að reyna að bæta sig á meðan hinir hafa kannski gefist hálfpartinn upp. Þetta er þó alls ekki það sem ég held í alvörunni, bara hugdetta.

Hvar værum við án þess að fá hugdettur? Ef við settum okkur alltaf þau siðfræðilegu mörk að hugsa aldrei neinn hlut sem gæti verið umdeildur, væri þá ekki frekar skítlegt að lifa? Án vissra hugdetta væri abstrakt myndlist örugglega ekki til gæti ég ímyndað mér. Allt væri á vissu frumstigi.

Ég sé að pælingarnar mínar eru byrjaðar að vera soldið í styttri og ómerkilegri kantinum, ég vona að það komi ekki að sök. Ég hef samt uppgötvað hversu gaman það er að skrifa svona. Vá! Annars get ég sagt ykkur það að það er miklu auðveldara að skrifa 3644 orð (sem er orðafjöldi alls textans áður en ég setti þennan sviga) af bloggefni heldur en 500 orð sem á að fara í skáldsögu. Aftur vá! Merkilegt hvernig undirmeðvitundin sér svo mikinn mun á þessu. Þetta er nú einu sinni bara að skrifa. Hversu erfitt getur það verið? Ég skil það ekki sjálfur, mér finnst mjög pirrandi að geta ekki skrifað jafn mikið í skapandi stíl og ég get fyrir bloggið. Þá væri ég örugglega búinn að skrifa alla skáldsöguna.

Ég er núna u.þ.b. 500 orðum frá því að jafna Steina. Merkilegt að ég er að reyna að skrifa lengri texta heldur en gaur sem ég þekki ekki neitt, heldur hef heyrt um hjá vinkonu minni. Ástæður mínar fyrir að skrifa svona langt blogg eru mér greinilega ekki hliðhollar.

Poppkorn. Ég veit ekki betra nasl til að narta í. Ég myndi hiklaust velja popp umfram nammi. Ég skil það ekki, því venjulega myndi ég velja sykur framyfir salt. Auk þess sem mér finnst snakk yfir höfuð fremur vont. Hvað ætli það sé við popp sem gerir það betra en annað? Eigum við ekki að pæla í því í smástund? Endilega ;) Ok, hvað einkennir popp? Það er létt, auðvelt að éta það og ekkert stakt poppkorn er eins. Það gerir það að verkum að manni verður ekki illt af því að borða mikið af þessu og það er miklu meiri fjölbreytni í poppkornsáti en t.d. í nammiáti, þar sem hver gúmmíbangsi er eins í lögun....ótrúlegt. Ég hef fundið rökrétta ástæðu fyrir því hvers vegna mér líkar betur við popp en nammi. Geri aðrir betur.

Ég sé ekki fram á að ná að toppa Steina. Viljinn til þess er ekki fyrir hendi lengur.

Já, og aðeins eitt að lokum:

Steini, ég veit að ég þekki þig ekki persónulega, en ég mæli með því að þú leitir þér hjálpar.


|

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Ég fékk eftirminnilegt hrós í gær. Ekki það að ég fái sjaldan hrós, heldur var þetta vissulega eftirminnilegt. Marínó sagði að ég væri mesti MH-ingur sem hann veit um.

Ég veit hins vegar ekki hvort þetta hafi verið meint sem hrós, þó að ég trúi því ekki heldur að hann hafi sagt þetta í illgirni eða fyrirlitningu. Ég bara tók þessu svona :)

Annað merkilegt gerðist. Mér tókst að halda mig við 500 orða daglega markmiðið í gær, þ.e.a.s. í gerð sögunnar minnar.....ég er kominn í eins konar markmiðahóp á Rithringnum og þarf að skila frá mér a.m.k. 2000 orðum af einhverju skapandi á viku. Ekki amalegt það. Andlegt spark í rassinn. Hver ætli hinn andlegi rass sé annars?


|

sunnudagur, apríl 18, 2004

Jahhá, margt hefur gerst á stuttum tíma.

Litla systir mín fermdist í gær með frænku sinni. Samgleðst ég henni mjög mikið fyrir að hún hafi tekið þessa yfirveguðu ákvörðun sem allir taka á þessum aldri.

Mér finnst allir vanmeta krakka á þessum aldri heldur mikið. Telja að þessi aldur hafi verið ákveðinn strax við fæðingu trúarbragðanna til að reyna að hafa áhrif á börn þegar þau eru veikust fyrir því. Það eina sem börn á fermingaraldri hugsa um er að hafa gott orð á sér hjá jafnöldrum og gera ekkert skrýtið því þá verður maður útskúfaður. Að öðru leyti eru þessir krakkar með öllu hugsunarlausir og hafa enga dómgreind.

Þetta er kannski svolítið ýkt verð ég að viðurkenna en ég gruna fólk um að vera fremur dómhörð gagnvart þeim. Það er engu líkara en við tökum meira mark á 6 ára börnum en 13-14 ára. Það er ekkert skrýtið þó að krakkarnir fyllist gremju. Og hámarki gremjunar er náð þegar kemur að fermingunni. Tvær raddir heyrast mjög títt. "Krakkinn er að verða að fullorðinni manneskju", heyrist oft frá foreldrum. Síðan eru það hinir tortryggnu sem álíta að leggja ætti niður fermingar því að krakkarnir vita ekkert hvað þeir eru að staðfesta, heldur vilji þau bara fá gjafirnar. Hér kemur fram það sem ég meina með að fólk tekur meira mark á 6 ára krökkum, takið eftir.

Ég er ósammála því að fermingaraldurinn sé svona lágur til að það verði öruggt að fólk geti platað börnin til að fermast. Ég veit ekki um marga sem fermdust vegna gjafanna. Það er vissulega gaman að fá gjafir, en það er ekki aðalatriðið. Hins vegar stöndum við andspænis þeirri rimmu að við fáum gjafir þó við biðjum ekki endilega um það. Síðan fáum við gjafirnar og þá getur fólk komið með þær röksemdir að játning fermingarbarna hafi bara verið vegna gjafanna.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði fermst án þess að fá gjafir. Ég geng þó ekki það langt og segi að allar gjafir sem ég fékk ætli ég að skila aftur. Það er auðveldara að hafna gjöfunum þegar maður fékk engar til að byrja með. Þá getur maður verið sáttur.

En snúum okkur að þessari ákvörðun. Að fermast. Aldurinn er tilvalinn því flestir einstaklingar eru akkúrat byrjaðir að pæla alvarlega í hlutunum. Er guð virkilega til? Trúi ég það mikið að ég vil staðfesta skírn mína? Sumir segja já og sumir segja nei. En bara vegna þess að fleiri segja já, þýðir ekki að þetta sé hópþrýstingur. Vissulega kemur það fyrir að krakki fermist vegna fjölskyldu sinnar.....en ég trúi því síður ef vinir færu að útskúfa mann vegna ákvörðunarinnar sinnar.

Þið sem fermist/fermdust: Vegni ykkur vel í framtíðinni og megi þið vera ánægð með ykkar ákvörðun. Ekki hlusta á þá sem hafa það markmið að draga úr ímynd ykkar, þið þurfið ekki á þeim að halda ef þeir láta svona.

Haldið áfram að vera þið sjálf!!!


|

laugardagur, apríl 17, 2004

Starfsmenn á Kleppi kynna

MJALLHVÍT OG DVERGARNIR SJÖ

Leikarar eru eftirfarandi:

Mjallhvít: Bára Halldórsdóttir en hún vill vinsamlegast vera kölluð Linda Pé
Vonda drottningin: Bára Halldórsdóttir (í sjálfsmorðshugleiðingum)
Dvergarnir sjö: Jón Daníelsson (geðklofi)
Prinsinn: strokinn
Steppandi Píranafiskar: Eggert Friðrik Gunnsteinsson, Kári Páll Hreiðarsson og Steingrímur Bárðarson.

Nokkru hefur verið breytt frá upprunalegu verkinu. Þær þrjár leiðir sem áttu að drepa Mjallhvít upprunalega hafa verið breyttar örlítið. Vissulega tengist greiða fyrstu morðtilraun, en þá aðeins í því skyni að hún var notuð til að gera kókaínlínu á spegli. Og beltið færist aðeins um stað á líkamanum, í staðinn fyrir að hún kafni af völdum þess, hengir hún sig með því. Eplið hefur verið skipt út fyrir ofskynjunarsveppi.

Góða skemmtun!


|

föstudagur, apríl 16, 2004

Magnús, góður kunningi kom með mjög skemmtilega athugasemd fyrir stuttu á blogginu sínu. Love Gúrú, FMtrans-popparinn landsfrægi, er alveg frábær. Hvernig hann gerir grín að þessari tónlistarstefnu er alveg listilega gert og vel hepnað hjá honum, annað get ég ekki sagt. Nú fara eflaust einhverjir að vafast um dómgreind mína í þessu tilfelli. En málið er að hann er svo augljóslega að djóka að þú lesandi góður, sem hefur e.t.v. ekki fattað að hann er að grínast með þessum látum, hlýtur annaðhvort að búa í helli eða vera dauður.

Lagið 1 2 Selfoss er eitthvað sem þið öll ættuð að tékka á. Textinn einn getur haldið mér í góðu skapi, þar sem hann er meistaralega hallærislegur, að hætti Scooter að sjálfsögðu. Myndbandið samt auðvitað toppurinn!!! Allt gengur út á markaðsetninguna bölvuðu og hann meira að segja stoppar lagið til að drekka Sprite með tilheyrandi auglýsingarglotti. Ég á ekki orð yfir þessari snilld :P

Uppáhaldið mitt er þó þegar upptaka af einhverjum bút með Landi og Sonum er settur í high-pitch og notað sem viðlag. Að hætti Scooter, að sjálfsögðu.

Love Gúrú er besta eftirherma sem ég veit af í dag og mun hann halda þeim titli býsna lengi ef allt gengur vel.


|
Sæl veriði, biðst afsökunar á bloggleysi mínu undanfarið.

Ég hef komið upp nýju bloggi, eins konar "sideproject". Slóðin er http://lifun.blogspot.com og mun ég skrásetja allt sem tengist vinnu minni í að gera söngleik útfrá þeirri klassaplötu. Ég reyni að skrásetja allt sem vert er að segja frá þar.

Endilega látið þetta fréttast ;)


|

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Undanfarið hef ég verið í djúpum pælingum í sambandi við efasemdina. Hin háfleygu orð „Cogito ergo sum“ (ég hugsa, þess vegna er ég), sem René Descartes mælti, urðu að stökkpall mínum fyrir frekar skemmtilegri uppgötvun.

Ég efast um efasemdina.

Hvort ég sé fyrstur til að komast að þeirri niðurstöðu veit ég ekki. Það skiptir mig í rauninni engu máli.

Hinsvegar lendi ég í þeirri klípu að uppgötvunin er ennþá hlekkjuð í huga mér og sama hvað ég reyni þá hefur mér ekki ennþá tekist færa það yfir í orð hvernig þetta getur staðist.

Descartes efaðist um tilvist efnislega líkama síns. Skynfærin gætu allt eins verið að blekkja sig og í rauninni gæti hann efast um allt. Nema þá staðreynd að hann efaðist. Hugurinn er sem sagt það eina í fari okkar sem er ótvírætt. Það eina sem ekki er hægt að efast um.

Af hverju efast ég þá um efasemdina? Vá.....ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þetta. Ég viðurkenni að þessi pæling er á frumstigi þannig að kannski kemur bara eitthvert rugl út núna. Hins vegar er ég svo sannfærður um þetta að ég skil ekki hvernig ég gat ekki uppgötvað þetta fyrr.

Fyrst þegar ég fann upp á þessu þá fór ég að ímynda mér hugann sem klofið fyrirbæri. Annar ríkti yfir hinum. Sá hluti hugans í rauninni stjórnar því hvernig hinn hlutinn hugsar. Við getum líka þannig séð skipt þessu fyrirbæri í hugann annarsvegar og sjálfið hinsvegar. Hugurinn ræður því sem sjálfið hugsar.

Með öðrum orðum, við efumst e.t.v. vegna þess að hugurinn segir okkur að efast.

Er þetta þá virkilega efi? Efumst við fyrir alvöru ef efinn er bara hugsun sem okkur er sagt að hugsa?

Er efinn kannski ekki blekking líka?

Ég sé ekki betur en að efinn er varla minni blekking en allt annað. Að minnsta kosti útfrá þessum pælingum.

Niðurstaðan sem ég fæ útúr þessu er að við getum ekki verið viss um neitt.


|

mánudagur, apríl 12, 2004

Jæja já......þriðji pistillinn minn í dag :D

Ég lenti í mjög áhugaverðum samtölum við Elías fyrr í dag. Málið varðaði Stubbana (Teletubbies). Ég komst að ýmsu í sambandi við boðskap þáttanna. Að öllum líkindum eru höfundarnir bak við þennan hrylling kvenrembur og rasistar. Hvernig fæ ég það út þið spyrjið kannski. Ég segi þá: Tékkum aðeins á aðalhetjunum.

Tinky Winky á augljóslega að vera karl og á auk þess að vera hommi. Til stuðningar þessum fullyrðingum bendi ég á að þessi aðalhetja er fjólublá og uppáhalds hluturinn hans er budda. Ég vil líka taka það fram að eg hef ekkert á móti samkynhneigð. Ég er aðeins að setja mig inn í hugsunarhátt höfundanna og hvað þeir vildu meina með þessu.

Dipsy er annar karl og á auk þess að vera svertingi. Hann er dekkri á hörund en hinir Stubbarnir. Ég vil ítreka að ég er ekki að mismuna Stubbunum neitt, né heldur þessum minnihlutahópi yfirleitt heldur er ég að pæla í því hvernig höfundarnir hugsa þetta.

Lala og Pó eru af því sem ég best veit, kvenkyns. Hinsvegar tekstt mér ekki að sjá nein einkenni á þeim sem gefa til kynna að þau tilheyra einhverjum minnihlutahóp. Að vísu er Pó lítil, en hún gæti þess vegna verið barnið í hópnum......

Höfundarnir vilja kannski að krakkar sem horfa á þetta fari að trúa því það sé miklu betra að vera kvenkyns því þá er maður ekki einhver skrítinn karl sem kúkar kleinuhringjum eða skrítinn á litinn.

Ef það á að hafa Stubbana sem tákn fyrir minnihlutahópa......hvernig væri þá að ganga alla leið og láta ALLA Stubbana tákna minnihlutahópa? Annars brenglast boðskapurinn.

Niður með Stubbana!!!

Ps. Ég vona að þið lesið þetta frekar til gamans en alvöru. Það á ALLS EKKI að taka fullt mark á þessum pistli ;)


|
Eftir að hafa leikið þann skemmtilega leik, SPK, neyðist ég víst til að semja ástarsonnettu til Magnúsar. Ég vona að þið skiljið að þetta er eingöngu til gamans gert og ekki er endilega allt satt sem kemur fram í sonnettu þessari. Þess má geta að þetta er ítölsk sonnetta ;).

Hárið þitt fagra, geislar æ af þokka
Stolt hvers þess manns sem fegurð sína rækir.
Ó, sú löngun sem gjarnan á mig sækir
Að snerta þessa ljósbrúnu ægifögru lokka.

Brosið þitt blíða, sýnir innri hnokka
barnslegt í fasi, leynast ei hans kækir
Og viskunnar orð sem flæða líkt og lækir,
lymskufull orðin sem að um þig brokka.

Það segi ég satt og rétt, Magnús minn kæri
að hrifning mín á þér er ansi mikil.
Án efa áttu þína framtíð bjarta.

Sofnar seint sú ást, er innan ég hræri.
Sæll yrði ég ef færðir þú mér lykil
er opnar þann sterka lás að þínu hjarta.


Ég biðst afsökunar á seinni hluta sonnettunnar. Hann er ekki alveg eftir settum reglum en það verður bara að hafa það. Geri betur næst ;)


|
Mig langar að benda ykkur á það að sumt í pistlinum hér á undan var rangt farið með, enda var sá pistill skrifaður í pirringskasti. Jim Morrison drap sig auðvitað ekki, ég ruglaðist hraparlega og dæmdi hann útfrá röngum rökum. Gerist vonandi ekki aftur í bráð :P

Ég stend mig allt of oft að því að tala um eitthvað sem ég hef svo gott sem ekkert hundsvit á. Augljóslega skaðar það trúverðugleika minn. Einhvernveginn finnst mér samt eins og hægt sé að redda sér útfrá rökfræðinni einni saman. Það er auðvitað vonlaust. Í rauninni veit ég ekki hvernig ég fer að því að beita rökfræði í svona umræðum. Vá. Þvílík uppgötvun! Ég ómeðvitað rökræði um eitthvað sem ég veit ekkert um? Hvernig hefur mér tekist að þróa með mér eins gallað kerfi og raun ber vitni?

Ég verð að fara að hætta því strax!!! Engin furða að fólk hefur verið reitt útí mig!

Hvað get ég sagt? Þetta hefur allaf verið varðandi eitthvað sem átti að vera á allra vitneskju. Hvernig gat ég gefið það út að ég vissi ekkert um tiltekið umræðuefni? Sem betur fer hef ég lært af þessu og ræði mestmegins um það sem ég veit fyrir vissu. Samt stend ég mig enn að því að tala útúr rassgatinu. Sjaldnar og sjaldnar sem betur fer......en þetta er samt ekki ásættanlegt þegar þetta er ennþá til staðar :S

Ég reyni að sýna sjálfstæði í fari mínu. Á yfirborðinu hefur það gengið vel, fólk "bítur á agnið". Ég er hinsvegar ekki viss lengur um það hvort ég fylli virkilega upp í þessa ímynd sem ég hef sett upp. Reyndar skil ég ekki hvernig ég fór að því að setja upp þessa ímynd af mér til að byrja með.

Ég þarf virkilega að fara að endurhugsa minn gang!

Ég mæli með smá einveru. Það gerir alltaf mikið gagn fyrir sjálfið ;)


|

laugardagur, apríl 10, 2004

Jæja....hér er ég kominn aftur.

Mér finnst alveg óendanlega merkilegt hvað dauði og frami tengjast mikið innbyrðis. Og hvernig það bitnar mikið á þeim sem lifandi eru og miklu hæfileikaríkari en þeir sem dauðir eru.

Jim Morrison. Vissulega góður söngvari og ágætistextar alveg hreint. En vá. Ég get ekki ímyndað mér neinn sem er sjálfhverfari en hann var í lifanda lífi. Það var algjör óþarfi hjá honum að skyggja á alla hina í The Doors, sem að mínu mati voru langt um hæfileikaríkari en hann. Síðan halda konur ekki vatni fyrir karlmennskunni sem var greinilega í fari hans. Bíddu við, var ég að missa af einhverju? Af hverju er það karlmannlegt að taka inn eiturlyf sem hafa m.a. þær aukaverkanir að maður kúkar á sig líkt og þegar maður var bleiubarn? Ekki sniðugt. Síðan til að toppa karlmennskuna þá drap hann sig. Þvílíkur macho!!! Hann hafði greinilega ekki sterkari trú á sjálfum sér en svo að hann vildi enda þjáningar sínar með svo aumingjalegum hætti. Já, mér finnst aumingjalegt að fremja sjálfsmorð. Það er vissulega mjög erfitt að lifa stundum, sérstaklega þegar allt lítur út fyrir að stefna á niðurleið. En það batnar alls ekki við það að fremja sjálfsmorð. Og Jim Morrison er engin undantekning frá því. Ég liti ekki upp til hans þó líf væri í veði.

Kurt Cobain. Þarf nú varla að eyða miklum orðum í hann. Svipað með hann og Jim Morrison nema kannski aðeins meiri sölubrella varðandi dauðann. Honum tókst að blanda ákveðnu plotti við þetta og lét kringumstæðurnar benda til þess að konan hans eftirlifandi hefði mögulega getað drepið hann.

Þessir tveir gaurar blikna í samanburði við John Lennon. Reyndar var hann á svipuðum eiturlyfjum og þykir mér það ekki sérlega sniðugt af honum. En hann var aldrei þessi óþolandi egóisti, né framdi hann sjálfsmorð. Hann var mjög samkvæmur sjálfum sér, nýtti sér frægð sína til að hjálpa öðrum og skeytti litlu um athyglina sm hann fékk út á þetta. Hann þurfti ekki að deyja til að frægð hann yrði eilíf. Hann var löngu búinn að ná þeim áfanga.

Varist eftirlíkingar!


|

föstudagur, apríl 09, 2004

Mér leiðist próflesturinn. Enginn af vinum mínum er tiltækur til að gera neitt vegna þess.

Djöfull leiðist mér!!!


|

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Mér finnst alveg merkilegt hve lítið ég get lært hverju sinni.Í dag var ég búinn að setja mig það fyrir að læra soldið í dönsku......síðan brast upp á yfirborðið einhver námsleiði og hef ég verið óhæfur til náms í allan dag. Mér þykir það heldur óheppilegt því ég er ekki bjartsýnn á að margir vinir mínir lendi á svoleiðis degi akkúrat í dag alveg eins og ég. Eða hvað? Það er nú Skírdagur, kannski einhver hafi tekið sér frí frá próflestri til að halda Skírdaginn heilagan. Hmm....látum okkur nú sjá. Hver af vinum mínum er ennþá trúaður?
*
**
***
****
*****
****
***
**
*
Jújú....þónokkrir.

En hvað sem því líður þá gengur allt sinn vanagang. Ég fór í útibú Og vodafone á Laugarvegi í þeim erindagjörðum að kaupa mér einn miða á Placebo tónleikana. Auk þess keypti ég mér tvo diska með þessum gelgjupönkurum. Sjálfnefnda platan þeirra og Black Market Music. Tveir vel heppnaðir diskar.

Ég er alveg að ærast á því hversu innihaldslausir pistlarnir mínir eru orðnir. Ég er ekki sáttur við það að þetta er einungis tímabil sem ég geng í gegnum af og til. Ég skil ekki hvers vegna ég get ekki haft stöðugt flæði af einhverju sniðugu til að hugsa um. Kannski er ég bara að gera of mikið mál úr þessu. Þetta hlýtur að lagast bráðum.

Úff.....ég læt þetta bara nægja.......endalaust blaður hvort eð er.


|

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Í gær fór ég á hina umtöluðu mynd The Passion of the Christ. Pabbi, sem var boðið á forsýningu þessarar myndar þar sem hann er prestur, var búinn að vara mig við því að þessi mynd væri léleg. Eeeeen ég ákvað samt að fara því ég var forvitinn.

Fyrstu senur myndarinnar litu nokkuð vel út og át ég minn ís án þess að hann leitaði aftur upp. Tilfinningaþrungin augnablik þegar Jesú er á barmi vantrausts gagnvart föður sínum og djöfullinn freistar hans sem aldrei fyrr. Þetta hefði stefnt í mjög góða Jesús mynd uppfulla af góðum pælingum sem skiluðu sér vel, ef ekki hefði verið útaf þessum tíða straumi blóðugra og ógeðslegra atriða sem fól í sér minni heimspeki en ferkantaðir hjólbarðar. Það leit út fyrir að þetta yrði eins konar Jesús splatter. Og viti menn! Spá mín rættist. Mel Gibson nægði t.d. ekki að sýna svipuhöggin 39 heldur þurfti hann að bæta við nokkrum til viðbótar með aðeins ógeðslegri pyntingartólum. Svipur með áfest rakvélarblöð og hvaðeina. Síðan var heil 5 mínútna sena sem fól í sér það þegar Rómverjarnir settu á hann þyrnikórónuna, svo mikil var þörfin hjá Mel til að sýna hve Jesú þjáðist. Og ekki átti þetta eftir að batna. Aðalfjörið var eftir. Nær dauða en lífi, átti Jesús að bera níðþungan kross sem átti síðan að negla hann fastan við. og auðvitað var það gulltryggt að við fylgdum honum við hvert fótmál, stundum lengra því það var greinilegt að einhver í myndverinu hafi verið aðeins of ofvirkur á slowmotion takkanum.....æjj, ég nenni ekki einu sinni að fara útí það hvernig hann dó.....allt of niðurdrepandi.

Ég er fúll. Ég eyddi 800 kr. í að sjá þessa mynd!!! 800 krónur sem ég mun aldrei fá aftur. Ég held að þetta hafi verið ein sú mesta tímasóun sem ég hef á ævinni keypt mig inná. Ég fór á þessa mynd í von um að öðlast nýja sýn á hvað var í gangi á meðan þessu stóð, hvað væri að gerast í hausnum á Jesú á þessum stundum en NEEEI! Í staðinn fæ ég að líta misheppnaða tilraun til að fá fólk til að líða einhvernveginn öðruvísi.......hvernig hef ég ekki hugmynd um.


|

sunnudagur, apríl 04, 2004

Nú er ég aðeins að blogga af algerri nauðsyn til að viðhalda þessu daglega flæði svo að fólk hætti nú ekki að heimsækja síðuna.....

Tvær fermingar að baki og slatti sem ég á eftir að fara í......mér leiðist hversu léleg tímasetning er á þessu fermingardæmi. Af hverju þurfa allir að ferma sig á sama tíma og eingetinn sonur þess, sem krakkarnir staðfesta trú sína á, deyr hrottalegum dauða? Á að minnast gleðistunda í sömu andrá sem minnast á sorgarstundar í kristinni trú? Annars er ég ekki alveg inn í því hvers vegna svona er farið að þessu, en ég vona fyrir hönd presta að þetta sé gert af góðri og gildri ástæðu.

Það sem er öllum fermingum eðlislægt er að þar koma margir saman sem þekkjast ekki en láta sig hafa það því langalangamma annars og langalangafi hins voru systkini. Unglingar eins og ég erum dæmd til að líta út eins og illa gerðir hlutir og erum best geymd í einhverjum hornum einangruð frá mannlegum samskiptum.........mér hundleiðist það. Fólk í þessari fjölskyldu getur ekki drattast til að hitta hvert annað utan fermingaveisla og stórafmæla. Það er ekki von nema að veislurnar verði hálfleiðinlegar fyrir vikið.

Æjj, ég hef mjög lítið merkilegt frá að segja. Ég biðst afsökunar á því.


|

laugardagur, apríl 03, 2004

Árið í ár er greinilega mjög gott hvað varðar uppskreu frægra hljómsveita. Núna í dag var það staðfest að Metallica myndu spila á Egilshöll þann 4. júlí. Vart þarf að geta þess að ég mun ekki láta mig vanta þar, sama hvert aldurstakmarkið er.

Ég hef annars núna undanfarið verið að fara enn dýpra í níhílismann og efasemdin er kannski komin aðeins of langt. Eins og Déscartes sagði: „Cogito ergo sum,“ en það þýðir „Ég hugsa, þess vegna er ég.“ Það þýðir að við getum í rauninni ekki verið viss um tilvist neins nema okkar eigin huga. Skilningarvitin okkar gætu þess vegna verið að blekkja okkur. Það eina sem við getum sagt með algjörri vissu er að við efumst.

Eða hvað? Ef við förum eftir þeim stöðlum sem hafa verið settir upp í sambandi við skilningarvitin þá getum við gengið útfrá því að við skynjum vegna þess að heilinn lætur okkur skynja. En ef skilningarvitin eru að blekkja okkur, hvað er þá í gangi í heilanum? Er hann að blekkja sjálfan sig? Er efinn þá kannski blekking? Erum við í eðli okkar með klofinn persónuleika?

Önnur pæling í sambandi í þessum dúr: Hinir geðveiku eru þeir einu sem sjá heiminn í réttu ljósi.

Hvernig fæ ég það út? Frekar einfalt. Aftur er þetta útfrá sjónarhorni níhílismans. Allt sem við skynjum er blekking. Samt sem áður getum við ekki annað en séð sömu hlutina alveg eins og þeir eru. Þrátt fyrir að við erum meðvituð af blekkingunni tekst okkur ekkki að snúa blekkingunni okkur í hag og séð aðeins það sem við viljum sjá, sjá hlutina eins og við viljum sjá þá, en ekki eins og blekkingin vill hafa þá.

Kannski er þetta náðargáfa hins "geðveika". Hann er yfir blekkinguna hafinn. Við "geðheilbrigðu" mistúlkum ástandið og setjum þau á lyf og allskonar meðferðir í þeirra þágu. En hvernig getum við vitað að við erum að hjálpa þeim? Getur verið að þau þjást vegna okkar?

Nú er ég algjörlega ringlaður.


|
Mér finnst alltaf jafn merkilegur stemmarinn sem myndast í partíum þegar flestir eru farnir. Nokkrir eftir og við getum loksins myndað litla hópa sem geta talað með fullri alvöru og rósemi um það sem liggur manni mest á hjarta. Hér skiptir engu máli hversu fullur maður er. Persónan fær að skína óháð öllu. Svo að ég vitni í handritið sem við notuðum við uppsetningu Hársins: „Alveg einstök tilfinning.“

Á þessum stundum hef ég getað opnað mig meira en alla samanlagða tímana sem ég hef farið á til sálfræðings. Ég er þó þakklátur fyrir að hafa farið til þeirra því ekki lifir maður á brauði einu saman.

Það liggur við að ég gráti. Ég er svo hrærður eftir þessi samtöl. Ég er svo glaður yfir að hafa tekið þátt í þeim því uppgötvanirnar sem ég komst að við að pæla í hlutum með þessu fólki voru með ólíkindum. Fólkið algjörlega opið fyrir öðrum skoðunum og sjálfstraustið algjörlega í hámarkisem og umburðarlyndið.

Kosturinn við það að fólk opnar sig svona er að fordómar gagnvart einstaklingum víkja. Ég sé ótæmandi lista yfir alla mannkosti hvers einstaklings þegar ég tala við þá. Og það er gagnkvæmt líka. Samtölin voru blessanlega farin í það að hrósa hver öðru fyrir allt manns ágæti og það man maður eftir til dauðadags. Mér er sama hvað hver segir. Sama hve sannfærður maður er um eigið ágæti; ef maður fær hrós frá einhverjum utanaðkomandi þá er það mikils virði. Allir eiga hrós skilið.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?