<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 31, 2004

Eins og þið sjáið þá hefur skoðanakerfið fengið á sig nýja mynd og verð ég að viðurkenna að hugmyndin að þessu kom eftir að hafa farið á mína daglegu heimsókn til bloggsíðunnar hans Magnúsar. Kannski að það hafi einhver áhrif á hverjir setja inn skoðanir sem hingað koma.

Ég hef tekið upp á þeirri iðju, eftir langt hlé vegna skóla, að lesa. Ég er búinn að slugsa þá stórskemmtilegu iðju alt of lengi og ég sé fram á að sumarið fari mikið í það að lesa. Núna er ég að halda áfram þar sem ég hætti á bókinni Stupid White Men eftir Michael Moore sem ég lít hvað mest upp til í dag. Ég mæli með því að allir lesi þessa bók, hvort sem þið veljið að lesa hana á ensku eða íslensku enda hef ég heyrt að íslenskunin hafi heppnast ágætlega.

En vegna þess að ég ætla að lesa í dag hef ég pistilinn ekki lengri að sinni.


|
Það er nokkurt gaman að þessu GarageBand forriti. Ekki beint eis og ég taki upp heila breiðskífu og gefi út með þessu en það er mjög gott að hafa þetta tiltækt til að semja og leyfa fólki að fá ágæta hugmynd um hvernig lögin eiga að hljóma.

Í gær kláraði ég lag sem við Zakki sömdum fyrir Cynics. Þetta byrjaði allt með bassalínu sem Zakki kom með og spuni okkar beggja skapaði góða byrjun að lagi. Við tókum þetta síðan upp og síðan fór ég að semja áfram þar til það varð orðið að rúmlega 11 mínútna löngu lagi. OG....ég er búinn að semja texta við þetta líka. Lagið heitir Paradise from a sinners point of view. Lýsir sér kannski sjálft. Hins vegar kemur það jafn vel mér á óvart að þetta lag er engan veginn metal lag. Smá indie keimur að þessu meira að segja :P

Kannski ég reyni að setja þetta á netið svo þið getið dloadað þessu....hver veit?


|

sunnudagur, maí 30, 2004

OMG, þúst. Það er svo mikið æði pæði að vera með þúst nafla sko!!!!!!!:D:D:D:D Alveg fríkað kúl!!!!!!:P En ég var að pæla sko...............akkurru eru kettlingar svona mikið krúttípúttíæði?????? Ég skil þa bara ekki!!!! Ojj, þar svo ömó að vera 13 ára og hafa bara átt 5 kærasta á einum mánuði ÖMÓ!!!!:(:O:S:$ Vá, síðan var ég að horfa á popptíví og þeir sýndu sama britney spears mynbandið FIMM SINNUM Í RÖÐ!!!!!!! :D:D:D:D:D:D:D:D:D:D:D Mí só happí!!!!!!! :D:D:D:D:D:D:P:P:P

Allavegana sko. Ég get ekki bloggað meira því að ég er að fara að horfa á O.C.


Nei vó. Það er mér ómögulegt að skrifa á gelgísku. Þetta er með því flóknara tungumáli sem ég hef séð á internetinu. Þetta fyrir ofan efa ég að væri samþykkt sem gelgíska af sérfræðingum.

Ps. Til að þið misskiljið þetta ekki þá var skáletraði textinn algjör uppspuni saminn af undirrituðum. Ég vona innilega að engin manneskja sé eins sorgleg og textinn bendir til.|

laugardagur, maí 29, 2004

Í dag, nánar tiltekið kl. 13:00 (eins og venjulega) hélt ég síðustu hljómsveitaræfingu sem ég mun taka þátt í í langan tíma. Ástæðan fyrir því er að ég fer til Þýskalands 8.júní og verð þar í heilar þrjár vikur.

Það merkilega er að þrátt fyrir hve seint við byrjuðum virkilega að ÆFA (við vorum eitthvað í okkar eigin heimi til fjögur) tókst okkur að semja rosalega flottar melódíur ´í glænýtt lag. Við erum þá með hvorki meira né minna en 9 lög in progress :P Auk þeirra fjögurra sem eru fullkláruð....við erum komnir með nóg í tvær plötur! Bara ef við hefðum trommara.

Ef þið þekkið góðan trommara á mínum aldri (16) endilega látið mig vita. Mér þætti mjög vænt um allar ábendingar.

Hmm....einhvern veginn hef ég komist að því að ég hef ekkert skemmtilegt fram að færa sem vert er að skrifa um.

Ég var reyndar að heyra mjög skemmtilega og e.t.v. rökréttustu útskýringuna á tilgangi samkynhneigðar. Að mér skilst (frá bassaleikara hljómsveitarinnar) þá hefur hópur vísindamanna borið saman tvo mismunandi músahópa sem voru hvor í sínu búri. Annar hópurinn fékk nægan mat á meðan hinn fékk meira en nóg. Í þeim síðarnefnda varð samkynhneigð með tímanum algengari.

Það er hægt að draga þær ályktanir, útfrá þeirri staðreynd að ef það eru meiri lífsnauðsynjar en þarf þá er fjölgun meiri, að móðir jörð taki upp á því að hafa stjórn á fjölguninni með því að gera suma aðilana samkynhneigða.

Þannig að, það er jafn mikilvægur tilgangur með samkynhneigð í mannkyninu og gagnkynhneigð.

Ótrúlegt hvað verið er að rannsaka.


|

fimmtudagur, maí 27, 2004

Fimman sem ég tók heim var að þessu sinni einn af þessum vetnisstrætisvögnum. Verð ég nú að segja að þeir vagnar eru miklu betri en hinir. Minni hávaði. Síðan er það frábært að þetta mengar ekki neitt. Tvær flugur í einu höggi.

Ég er heldur fúll útí olíuþrjótana fyrir að hafa kæft þessa hugmynd um að nýta vetni sem eldsneyti. Möguleikinn á þessu hefur verið til staðar í marga áratugi en hefur verið kæfð af ótta við að samkeppnin yrði olíubíssnessinum að falli. Svo að núna, þegar meðalhitinn á jörðinni hefur hækkað um nokkrar gráður vegna óþarfa gróðurhúsaáhrifa fer vetnisorkan að segja til sín. Ég vona að það sé ekki of seint. Hins vegar tæki ég þessari þróun alltaf fagnandi. Það er alltof mikið af mengun í þessum heimi.


|

þriðjudagur, maí 25, 2004

Ég fékk einkunnirnar mínar í dag og eru þær alls ekki slæmar. Ég bætti mig um 0,1!

Íslenska 9,5
Stærðfræði 8,5
Danska 8
Enska 9,5
Enska IV 9,5
Franska 9
Þýska 9
Náttúrufræði 9
Þjóðfélagsfræði 9
Tónlistarsaga 9,5
Skólasókn 10

Ég fæ aldrei 10 í neinu nema skólasókn. Merkilegt það... annars er meðaleinkunnin úr þessu u.þ.b. 9,1, 9,09 til að vera nákvæmur, og er ég hæstánægður með það.

Ef valgreinarnar eru teknar frá þá gerir þetta hins vegar 9,07.

Síðan er ég að fara í heimspekipróf á eftir og vona að það gangi vel.


|

mánudagur, maí 24, 2004

Ég er óheppinn klaufi.

Ég er klaufi vegna þess að ég er stundum fremur hvatráður og barnalegur í sumum gjörðum. Ég er óheppinn vegna þess að þessi eiginleiki er oftar en ekki mjög augljós. Kannski er það heppni í óheppni að ég fæ viðbrögð sem ég nýti mér til að verða betri maður.

Þessar tilteknu gjörðir eru einkennandi fyrir fimm ára börn sem hafa enga skilningu hvernig á að hafa sér í samfélagi og láta eins og algjör fífl hvar og hvenær sem er. Ég er haldinn þessari böl. Dagurinn í dag minnti mig óþægilega á hana. Kannski ætti ég um leið að gleðjast því að hugrökk manneskja sagði mér frá mistökum mínum. Það er henni að þakka að þessi böl mín er mér fersk í minni og það hvetur mig til að sporna gegn henni.

Ég skil ekki einu sinni hvers vegna ég fann eitthvað athugavert við þetta tiltekna atriði í ónefndri persónu. Þetta atriði er líka að finna á mér og er engu eðlilegra. Og án þess að hugsa útí það sagði ég sessunauti mínum frá því þannig að það heyrðist. Ég reyndar hafði ekki hugmynd um að það heyrðist svona hátt í mér en svo var nú samt. Ég komst að því eftir skólatíma að svo hafði verið. Og nú sé ég óhemjumikið eftir að hafa gert mig að þessu fífli.

En eins og ég segi þá mun þetta atvik vonandi bæta mig sem persónu. Þetta opnaði nýjar gáttir af minningum af því þegar ég gagnrýndi hina og þessa sem ég man ekki hvað heita einu sinni. Allt aftur til leikskólaáranna. Það er rosaleg þjáning að hafa grafið upp þessar minningar.

Það er samviskubitsfaraldur í meðvitund minni í dag.


|
USH er nýjasta íslenskunin í heimi tölvunördismans. Á hún að koma í staðinn fyrir hina vinsælu skammstöfun LOL, sem þýðir laughing out loud, og á að þýða upprekinn skellihlátur.

Fer þetta eflaust í safn annarra vel þýddra skammstafana á borð við VÁM (vel á minnst), sem kemur af BTW (by the way). Reyndar er það safn heldur fátæklegt því mér dettur ekkert annað í hug en þessi tvö dæmi.

Kannski ég ætti að reyna fyrir mér sem skammstafanaíslenskari.

Ég get svo til þreifað á prófgráðunni:

Prof.S.S.Í. Tumi K. Ferrer


|

sunnudagur, maí 23, 2004

Sælt veri fólkið.

Ég biðst afsökunar á skorti á uppfærslu hjá mér um helgina þar sem ég var upp í sumarbústað með vini mínum, Davíði, á langri hljómsveitaræfingu.

Með nokkrum hléum, spiluðum við stíft til tvö sunnudagsmorguninn en þá höfðum við verið að spila síðan átta um laugardagskvöld. Síðan vöknuðum við kl.9 (ekki spyrja hvers vegna, við bara vorum úthvíldir svona fljótt) og byrjuðum aftur að spila. Uppskeran af þessu er nýtt lag í bígerð sem er hálfklárað. Frábært! :D Auk þess sem ég er búinn að spila nógu mikið í Monopoly til að það endist mér næstu árin (fimm sinnum).

Blogga meira seinna (get ekki ábyrgst að það verði í dag)

Tumi


|

föstudagur, maí 21, 2004

Ég held að það sé svolítið erfitt fyrir okkur, sem höfum alist upp allt okkar líf í vestrænum heimi, að ímynda okkur guð sem er ekki almáttugur. Þau okkar sem sóttum reglulega sunnudagaskóla sem börn fengum að heyra sögur sem höfðu allar meira og minna þann boðskap að Guð væri eins konar Súperman sem gat reddað öllu og vissi allt. Þess vegna var það t.d. ekki fjarri lagi að við bjuggumst við því að Guð myndi bjarga okkur frá háska. Hinn kristni guð er líka sagður almáttugur.

Síðan eru það hinir fornu guðir, hinir grísku og rómversku (sem eru meira og minna sömu guðirnir). Kannski er hægt að bæta hinum indversku við líka en ég er tvístígandi í því vegna þess að ég er ekki nógu kunnugur þeim. Þessir guðir eru ekki almáttugir en hafa hins vegar stjórn á ákveðnu fyrirbæri, hvort sem það er náttúrufyrirbæri eða kænska á einhverju sviði. Þessir guðir, sem eru hluti af sinni fjölgyðistrúnni hver, eru miklu mannlegri. Þeir gera mistök eins venjulegar manneskjur, láta í ljós skoðanir og berjast sín á milli af tilfinningalegum orsökum.

Hinn kristni guð getur ekki lent í þessu. Kannski í besta falli getur hann lagst í skammdegisþunglyndi af og til, en lesandi hlýtur að sjá að ef eitthvað þannig hefði verið skrifað í hina heilögu ritningu væri það stílbrot.

En spáum aðeins í þessu. Eitthvernveginn hefði samfélag þar sem fjölgyðistrú þróast öðruvísi en ef eingyðistrú ríkti.

Á meðan flestir Forn-Grikkir trúðu á Seif, Heru, Aþenu og þau öll, var Grikkland vagga heimspekinnar. Var það fjölgyðistrúin sem fékk fólk til að hugsa á jarðbundnari nótunum?
Á meðan Rómverjar til forna trúðu á Júpíter, Mars, Venus, Janus og þau öll, réðu þeir yfir öllum þeim heimi sem þeir þekktu. Átti fjölgyðistrúin einhvern þátt í því?

Hver veit?

Ástæðan gæti kannski falist í því að eingýðistrúin kennir e.t.v. meiri nægjusemi. Að vera ánægður með það sem maður hefur. Þakka fyrir að guð hefur fært okkur það sem við höfum fengið.

Á einhverjum tímapunkti hættu Forn-Grikkir og Rómverjar að vera þau heimsveldi sem þau voru. Á öðrum tímapunkti tóku svæðin sem tilheyrðu þessum veldum upp eingyðistrú. Ég er ekki nógu vel að mér í sögunni, en væri það ekki magnað ef það væri ekki langt á milli þessara punkta? Þetta er í rauninni bara pæling, ég hef enga eðlisávísun fyrir þessu.

En ef svo væri...

Eru kannski einhver tengsl milli þeirra staðreynda að vestrænu veldin eru eins gráðug og þau eru og að fólk er e.t.v. ekki eins trúað núna og áður.?


|
Ég hef ekki hugmynd hvers vegna ég fer í það að blogga núna þar sem ég held ekki að ég hafi neitt fram að færa i augnablikinu.

Mig langar kannski fyrst og fremst að auglýsa nokkur blogg sem ég hef nýlega rekist á og eru þau bæði skrifuð af írökum:

Where is Raed? er blogg sem tveir menn að nafni Raed og Salaam Pax (þeir eru ekki bræður, ég bara veit ekki ættarnafnið hjá Raed) halda uppi. Ég er bara nýbyrjaður að lesa þetta blogg en mér skilst á pabba mínum að þeir eru í tvöföldum minnihlutahóp í heimalandi sínu þar sem þeir eru samkynhneigðir og hafa orðið fyrir vestrænum menningaráhrifum, þ.e.a.s. "westernized" eins og best væri að lýsa því. Þeir hafa reyndar ekki uppfært í mánuð og Raed hefur ekki uppfært í fjóra mánuði þannig að ég held að titillinn á síðunni sé pæling útfrá því. Tékkið á þessu. Eðalblogg hér á ferð, þetta er líka gefið út sem bók og verið er að huga að því að gera kvikmynd útfrá þessu. Merkilegt það.

Me vs. Myself er haldið uppi af 17 ára unglingi sem á heima í Baghdad. Ekki mikið hægt að lýsa því sem hann segir frá nema að reiðin skín alveg í gegn. Eiginlega eitthvað sem þarf að lesa til að skilja. Líka eðalblogg.

Vi ses


|
Eitthvað gengur það nú illa hjá mér að uppfæra daglega.

Ég leit við á öXe festivalinu í gær. Stoppaði ekki lengi þar því að ég var ekki í stuði fyrir neina hreyfingu. Þó er ég ánægður með að hafa mætt á tónleikana því það rann upp fyrir mér að ég hafði látið það vera í allt of langan tíma að fara á almennilega pönktónleika. Ég ætti að fara að mæta oftar. En í gær var ég ekki í miklu stuði fyrir það. Ég veit ekki hvaðan þreytan kemur en að minnsta kosti hindraði hún mig í að vera viðstaddur alla tónleikana. Ég rétt svo hélt út að fylgjast með Brothers Majere, enda vildi ég ekki missa af þeim því mér fannst þeir alveg frábærir á músíktilraunum. Aðalástæðan fyrir að ég fór á tónleikana var þó allt önnur. Ég var búinn að panta þrjá diska hjá Gaddr metal distróinu. Slaugter of the soul með hinum einu sönnu svíametalhetjum í At the gates, Marbool - The story of the three sons of Seven. með Orphaned Land, mjög áhugaverð ísraelsk proggmetalgrúppa og Mardraum með víkingmetalgoðunum í Enslaved.

Um helgina munum við í hljómsveitinni gera aðra tilraun til að fara upp í sumarbústað og æfa okkur og stefnir allt á að það mun heppnast. Allir stálhraustir og enginn upptekinn við eitthvað annað. Þá verður maður bara að vona að ekkert gerist á meðan við erum ennþá að plana þetta.

Yfir og út.


|

miðvikudagur, maí 19, 2004

Frjókornaofnæmi sýgur!


|

mánudagur, maí 17, 2004

Úbbz, hef steingleymt að uppfæra í gær.

Ekkert merkilegt búið að henda mig nema sú staðreynd að ég er hálffúll yfir því að þurfa að mæta í skóla eftir samæmdu prófin. Hver er tilgangurinn með því? Vorum við ekki allt skólaárið að undirbúa okkur fyrir þessi próf og svo loksins þegar við erum búin með þau á að halda okkur aðeins lengur inni? Hverjum er það að þakka? mér finnst að Menntamálaráðuneytið megi aðeins hugsa sinn gang og endurskipuleggja þetta aðeins betur. Bara vegna þess að fáeinir foreldrar vilja að 6 ára börnin sín verði lengur í skólanum því að íslensk velferðarkerfi byggist á því að báðir foreldrar þurfa að vinna úti, sem gerir það að verkum að þau geta ekki sótt krakkann eftir skóla, þýðir það ekki að þeir nemendur, sem eru komnir á þann aldur að ekki þarf að sækja þá í skólann, þurfi að líða fyrir það. Mér er sama þótt við slöppum af í tímunum eftir samræmdu prófin. Ég vil frekar eyða þessum tíma í eitthvað annað en að vera innan veggja þess fyrirbæris sem ég hef beðið eftir með óþreyju við að losna frá hvert einasta sumar.


|

laugardagur, maí 15, 2004

Sæl veriði.

Þrátt fyrir að ég fór ekki í sumarbústað um helgina skemmti ég mér ágætlega með vini mínum. Ég gisti sem sagt hjá Davíð, hinum gítarleikaranum í Cynics, og sömdum við heilt lag. Ég samdi textann að mestu leyti og hann samdi tónlistina. Ég get öruggur sagt að textinn er með því betra sem ég hef samið. Ég ætla reyndar ekki að ljóstra honum upp því þið þurfið eiginlega að heyra lagið fyrst. Það mun þó ekki líða langt í það að þið fáið að heyra það. Ég var að fá hið langþráða forrit GarageBand og get því byrjað að taka upp með ágætis gæðum.

Ég get þó sagt ykkur soldið um lagið. Við sóttum mikinn innblástur til The Mars Volta þó ég reyndar gerði textann með At the drive-inn sem viðmið. Þetta er sem sagt eins og emopönk gerist flottast. Ekki eins og þetta "emo" sem spilað er víðsvegar.

En jæja, njótið helgarinnar


|

föstudagur, maí 14, 2004

Óheppnin eltir mig á röndum. Zakki bassaskrímsli er búinn að afboða komu sína upp í sumarbústað vegna veikinda. Grey kallinn. Ef þú, Zakki minn kæri, lest þetta, óska ég þér góðs bata.

En í allri óheppni leynist heppni. Nú er ég tiltækur í partífögnuði til að gleðjast yfir próflokum. Verst er að það er meiri eftirspurn en framboð. Það er nú líka skiljanlegt að sumir vilja ekki að neitt brotni heima hjá sér. En það er nú soldið í að þetta byrji þannig að maður veit aldrei...

Jæja, meira verður það ekki í bili.


|

fimmtudagur, maí 13, 2004

Sælt veri fólkið. Vorferðinni er lokið og nú er ég að slappa af áður en ég fer í skólann á morgun. Síðan fer ég uppí sumarbústað um helgina þar sem hljómsveitin mín mun æfa af krafti eins og ég hef sagt frá svo uppfærslum skiptir.....

Hvað sem því líður.....æ, ég ætla ekki að byrja nýja efnisgrein svona!

Ég er búinn að vera að æfa mig svolítið mikið að syngja í hljóðnema á meðan ég spila á gítar. Þetta er þó nokkur kúnst. Hvern hefði grunað...annars er ég ánægður með að hafa keypt hljóðnemann með þessum fyrirvara.

Hugsanir mínar eru mjög sundurslitnar í dag. Ég hef ekki hugmynd af hverju en að minnsta kostii sést það á þessum pistli hversu viðutan ég er. Ég biðst afsökunar á því hér og nú.

Svo var ég að frétta það að sænsku snillingarnir í Opeth munu spila hér á Íslandi í Júlí. Er það að mínu mati mikill hvalreki því sjaldan koma hingað hljómsveitir af þessum gæðaflokki. Ég á tvær plötur með þeim sem báðar eru tiltölulega nýjar og ég verð að segja að við fyrstu hlustanir var ég viss um að þetta yrði ein af uppáhalds hljómsveitunum mínum fyrr en varði.

Síðan er ég búinn að fá Metallica miðana mína. Ég er væntanlega í skýjunum vegna þess. Ég hlustaði í tilefni af því á Load og ReLoad. Þessi hljómsveit var einu sinni uppáhaldshljómsveitin mín og ég fæ alveg gæsahúð af því að hlusta á sum lögin með þeim. Þvílík riff! Þvílíkur fílíngur!

Æjj, ég er hættur núna í bili


|

þriðjudagur, maí 11, 2004

Ég næ víst að uppfæra einu sinni í viðbót þannig að einhverjir verða eflaust glaðari við þær fregnir.

Ég er núna í bleiku pilsi með mynd af kisu á. Og þessar líka fallegu palíettur á því......mjög skrýtin tilfinning. Ég er aðallega að hugsa um hvað karlpeningur 10.bekkjar Hagaskóla taki upp á að gera mér til hæðis. Ég er farinn að halda að þetta sé ekki þess virði. Af hverju sagði ég já við þessari mönun? Alveg rétt. Klukkan var 4 um morgun og ég var ekki búinn að sofa í nokkrar nætur vegna MSN samtala okkar Helgu þegar hún var útí Kanada. Helvítis tímamismunur!

Geðveikt fyndið að fara á klósettið...

En nú mun ég þreyta síðasta prófið í prófavikunni og leggja af stað til Þórsmerkur. Alltaf styttist í etta.

Mér finnst alveg merkilegt að á þeim langa tíma sem ég hef vitað af framlagi Íslendinga í hina geldu keppni Eurovision, hef ég ekki í eitt skipti heyrt lagið. Mér finnst það soldið fúlt því ég hef ekki getað tekið þátt í umræðum varðand álit fólks á laginu. Sem betur fer er ekki mikið tlað um það þannig að ég er ekki að missa af neinu. Samt spes.......keppnin er nú eftir nokkra daga.

Já..........nú er ég búinn að heyra lagið. Ágætislag. Á fyllilega skilið að keppa í Eurovision. eða ætti ég að segja.........Eurovision á skilið að fá svona lag í keppnina. Múhahahahaha Ég hef svo gaman að tvíræðni.


|

mánudagur, maí 10, 2004

Þessi pistill verður sá síðasti sem ég skrifa áður en ég fer í tveggja nátta ferð til Þórsmerkur með 130 öðrum nemendum 10.bekkjar Hagaskóla. Það þýðir að ég mun vonandi finna mér tíma til að uppfæra á fimmtudaginn. Ef ekki þá fösudaginn. Ef ég gerist svo óheppinn að vera það ógeðslega upptekinn verðið þið að bíða til mánudags eftir uppfærslu þar sem ég fer í sumarbústað með hljómsveitinni.

Ég frétti það í dag að trommarinn kemst ekki. Ég var rosalega svekktur en ég hefði verið svekktari hefði ástæðan ekki verið svona góð. Trommusettið hans er nefnilega svo til ónýtt. Það er nú varla hægt að láta hann tromma á ónýtt sett þannig að þetta er fyrirgefanlegt. Samt, ákveðinn bömmer. Annars verður þetta vonandi bráðum reddað. Ég fæ bráðum mitt langþráða forrit, Garageband, sem mun hjálpa mér að taka upp tónlist með hjálp tölvunnar minnar. Þá get ég loksins gert mér almennilega í hugarlund hvernig trommutakturinn ætti að vera í lögunum okkar. Svolítið undarlegt að við erum búnir að spila án taktgjafa í svo langan tíma. Kannski gætum við sett okkur út á það að vera trommulaus hljómsveit til að setja áherslu á framsækni. Nei, það hljómar bara steikt. Trommur eru nauðsynlegar.

Annnars hef ég ekki mikið til umræðu. Því miður.

Tumi


|

sunnudagur, maí 09, 2004

Ok. Önnur tilraun mín til að blogga í dag. Síðast tókst mér að koma með nokkuð flotta pælingu sem ég man því miður ekki hvernig var. Netið brást mér einmitt þegar ég ætlaði að senda inn þannig að hér verð ég að einbeita mér af tvíefli til að reyna að koma með eitthvað bitastætt.

Ég tók eftir því að ég er byrjaður að uppfæra annnan hvern dag. Ég verð að fara að herða mig því það skapast ró innra mér við að skrifa minn daglega pistil. En það er greinilega það orkufrekt að ég er óhæfur til slíkrar afslöppunar á meðan þessi samræmdu próf eru í gangi. Sem betur fer tekur við eitthvað sem hefur miklu meira skemmtanagildi. Ég fer í vorferðina með 130 öðrum tíundubekkingum sem nema við Hagaskóla og liggur leið okkar til Þórsmerkur. Vegna þess hversu stór hópur fer var ekki annað hægt en að fara með okkur þangað. En það sem bætir þessa skemmtan ennfremur er að ég fer með hljómsveitinni sem ég er í upp í sumarbústað lead-gítarleikarans, Davíðs. Þar munum við æfa af kappi með hugsanlegum nýjum meðlim. Hann á ennþá eftir að ákveða hvort hann vill ganga til liðs með okkur, en hann féllst á að lemja húðir fyrir okkur og ákveða svo.

Annars er ekki mikið að frétta. Ég er búinn að reyna að sökkva mér niður í fræði náttúrunnar með litlum sem engum árangri. Ég er bara kominn yfir efnafræðina síðan í 8.bekk. Þetta er samt meira og minna það em ég kann þannig að ég ætla ekki að stressa mig um of. Kannski ég lesi í nótt því ég get hvort eð er ekki sofið.

Seeya later crocodile.

In a While Aligator :P


|
Þessi prófatörn er að gera útaf við mig. Þetta reynir meira á heldur en unglingavinnan. Eins og þið hafið séð hef ég ekki haft orku nema til að blogga annan hvern dag. Mér finnst það slæmt því ég sækist eftir því að blogga til að slappa af, en ég hef ekki einu sinni orku til að slappa af. Ég hef ekki einu sinni orku til að vera bjartsýnn á það að það eru bara tvö próf eftir heldur leitar hugur minn til þeirrar svartsýni að það eru HEIL TVÖ PRÓF EFTIR! Því er fjarri lagi að ég ætla að taka samræmd stúdentspróf. Ég tapa hvort eð er ekkert á því að sleppa þeim. Auk þess sem ég tel þetta fáránlega hugmynd í alla staði. Hvernig á háskólastærðfræði að gagnast mér í Máladeild Háskóla Íslands? Þetta er bara einhver fasískk leið ríkisstjórnarinnar til að fá alla til að mótast í sama farið. Gera okkur öll að sams konar vélmennum svo það verði auðveldara að stjórna okkur.

Af hverju erum við nánast einungis látin læra bóklegar greinar? Alls konar handavinna og listanám er í algjöru undanhaldi hjá menntamálaráðuneytinu. Hvers vegna? Vegna þess að það skilar ekki inn jafn miklum arði. Við nemendur erum nánast þvinguð til að læra eitthvað sem skilar inn veraldlegum auðæfum í þjóðarbúið. Þess vegna er jafnframt álitið að þau störf sem tengjast listum séu í rauninni áhugamál.

Það hefur sem betur fer fallið í góðan jarðveg hjá flestum fjölskyldumeðlimum að ég ætla að starfa sem fjöllistamaður. Nokkrar raddir hafa þó komið upp. Undrunartónn yfir því hvernig ég búist við því að ég geti framfleytt mér á áhugamáli. Hvaða alvörustarf ég ætli að fá mér......

Stundum er alveg óþolandi að þurfa að umbera ósanngjörn sjónarmið hjá sumum.


|

föstudagur, maí 07, 2004

Einhver rödd segir mér að ég hafi gleymt að gera eitthvað í prófinu. Það veldur miklu stressi því það vekur upp hugsanir sem eru e.t.v. óþarfar því að það gæti allt eins verið að ég hafi ekki gleymt neinu.

En svona til að vera andstyggilegur við ykkur sem eruð að taka samræmdu prófin:

Eruð þið alveg örugglega viss um að hafa merkt við allt sem þið áttuð að merkja?


|
Hér er ég kominn, nýbúinn að þreyta samræmt dönskupróf sem ég held að hafi takist ansi vel. Má vel vera að ég fái jafnvel 9 á því.

Suicidal Tendencies er hljómsveit sem ég er farinn að hlusta aftur á. Ég skil hreinlega ekkert í því hvers vegna ég hef vanrækt hlustun á þessum gaurum svo lengi. Ég er í augnablikinu að hlusta á The art of rebellion sem þeir gáfu út 1992. Helsta stjarnan í þessu bandi er án efa Rob Trujillo en eins og eflaust flestir vita er hann núna bassaleikari Metallica. Þið sem fílið skemmtilega blöndu af fönkuðu thrashpönki og blúsgítarrunki, endilega nælið ykkur í eintak af þessari plötu ;)

Nú er helgin að nálgast óðfluga. Í augum margra er hún komin. Málin hafa sem sagt þróast þannig að helgin er núna þriggja daga tímabil. Merkilegt hvernig helgin hefur þrefaldast. Hver ætti svosum að kvarta? Jah, eða reyndar væri ekki alveg fráleitt að koma með eins og eina athugasemd. Það er kannski fjarri sumum að ímynda sér OF marga frídaga. En ég held að svo sé. Sunnudagar hafa nefnilega það orðspor á sér að vera leiðinlegir. Föstudagar og laugardagar eru mest notaðir til að skemmta sér þannig að stemningin fyrir meiri skemmtun er öll farin á sunnudegi.

So you say life sucks? Well, 99% of life is what you make of it so if your life sucks, you suck.
Gotta kill Captain Stupid, Suicidal Tendencies

Ég er alveg hreint agndofa yfir þessari línu. Þvílíkur sannleikur!


|

fimmtudagur, maí 06, 2004

Ég held að æskilegast sé að banna samræmd próf. Þau eru ekki heilsusamleg undir neinum kringumstæðum. Ég hef ekki getað sofið nema 5 tíma síðustu tvo daga. Og hverju þakka ég því? Þið fáið að geta þrisvar.

En í öllu vondu leynist eithvað gott. Ég keypti mér loksins hljóðnema í gær til þess að það heyrist í mér á meðan ég spila á gítar og reyni að syngja á hljómsveitaræfingum. Nú verður allt miklu auðveldara. Síðan má ekki gleyma því að ég fór á Kraftwerk. Það eru tónleikar sem ég sé alls ekki eftir að hafa farið á. Eðalteknóband á alla staði. Það eru fáir tónlistarmenn innan raftónlistarinnar sem ekki hafa fengið innblástur frá þessum þýðversku frumkvöðlum. Og ekki er það skrýtið. Þetta er hreint og beint grunnurinn í allri raftónlist. En vá hvað það var gaman á tónleikunum!

Síðan keypti ég mér bol sem hefur áletrunina The Man Machine. Me likee :D

Fleira var það nú ekki. Ég er býsna tómur í hausnum vegna prófanna þannig að ég biðst afsökunar á innihaldsleysi pistilsins.

Tumi


|

þriðjudagur, maí 04, 2004

Ég á afmæli í dag :D Djöfull er maður allt í einu fullorðinn!!! 16 ára. Ekki mikið eftir af löglegum réttindum sem maður þarf að sanka að sér núna. Nema auðvitað lögræði. Tvö ár í það.

Enskuprófið gekk vel fyrir sig. Kæmi mér á óvart ef ég fengi fyrir neðan 9. Mér finnst samt alveg merkilegt hversu mikið ég stressa mig yfir þau. Ég svaf í u.þ.b. 3 klukkutíma í nótt vegna óþarfa streitu sem hefur safnast upp. Það er greinilegt að þegar maður finnur ekki fyrir stressi, að þá sé um að ræða afneitun. Ég varð a.m.k. svo þreyttur að ég lagði mig eftir prófið og vaknaði um kvöld og ekki nóg með það, ég er ennþá dauðþreyttur. Ég gæti lagst í dvala.

Foreldrar mínir gáfu mér tvær bækur í afmælisgjöf og er ég hæstánægður með þær. Dante's Inferno sem hefur verið nútímavvædd. Gefur mér tækifæri til að skilja verkið áður en ég ræðst á upprunalegu útgáfuna. Síðan fékk ég líka "Beetween Man and man" eftir Martin Buber. Hef ekki humynd um hvað það er :P

Allavega. Meira var það ekki í bili.


|

mánudagur, maí 03, 2004

Þetta er allt of ruglingslegt.

Fólk nöldrar yfir peningaplokki fyrirtækja daginn út og inn en sér ekkert athugavert við það að eyða klukkustundum fyrir framan sjónvarpið og horfa á Skjá Einn.


|

laugardagur, maí 01, 2004

Jahhá....samræmdu prófin nálgast æ.

Ég ætti að vera lesandi undir þau en einhvernveginn stjórnast ég af vilja til að gera allt annað en að. Reyndar er ég að skrifa áfram í skáldsögunni minni þannig að það getur talist æfing í ritun. Ætli ég geri ekki eitthvað gagnlegt á morgun?

Ég er annars þessa dagana að ganga fra samningi við eina bekkjarsystur mína. Hún þráir það að sjá mig í pilsi síðasta prófdaginn. Ég stakk þá upp á því að hún gerði eitthvað sem væri henni jafn erfitt og ég komst að því að hún vill ekki láta sjá sig í þröngum konubuxum. Merkilegt það. Þess vegna þykir mér sniðugt að hún gangi í þannig buxum ef hún vill endilega að ég gangi í pilsi. Svo er hún að heimta að ég setji líka á mig tíkó!!!

Annars er ekkert merkilegt að ske. Ég er nýkominn yfir 10.000 orðin í sögunni og ætla að reyna að vera kominn upp í 13.000 fyrir mánudaginn :)

Yfir og út.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?