<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 30, 2004

Nú hefjast leikarnir! Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem businn í ráði skólablaðsins Beneventum, ef ekki hefur þegar verið ráðið í það. Það er samt nokkuð tæpt hjá mér, ég hef frest til að bjóða mig fram til miðvikudags nk. en ég hef heyrt af nokkrum ráðum sem hafa ráðið til sín busa nú þegar. Ég er að vonast til þess að flest ráðin hafi beðið til miðvikudags með að ráða í stöðurnar, annars er ég svo gott sem dauðadæmdur.

Ég skil í rauninni ekkert í mér fyrir að hafa ekki talað við „yfirráðin“ fyrr. Auðvitað flæktist það svolítið fyrir mér að ég vissi ekki við hvern ég átti að tala varðandi þetta, en það er varla afsökun sem ég get komist upp með þegar ég þarf að gera upp skuldir mínar við samviskuna. Ég skulda henni ennþá fyrir að hafa verið svo óvirkur í félagslífinu öll mín þrjú ár í Hagaskóla þannig að ég ætla að bæta henni þetta upp og hafa gaman að. Ekki byrjaði þetta þó vel hjá mér núna. Ég hef verið heldur hlédrægur fyrstu dagana í MH, hef ekki verið neitt að reyna að kynnast nýju fólki að viti, í staðinn sat ég við borðið og hlustaði á tónlist og talaði við þá sem ég þekkti fyrir. Ég hef mest megins verið að mænda mæ ón bisness eins og sagt er á lélegri íslensku. Ekki sérlega gott að mínu mati. En þetta hefst á endanum.

***
Síðustu daga hef ég reynt að láta sem sem ég sæi ekki auglýsinguna sem KB bankinn hefur ákveðið að setja á flesta strætisvagna sem ég sé. Ef ég gæti stjórnað því, færi þetta ekki í mínar fínustu taugar, en svo er það nú samt. Ég á einfaldlega mjög erfitt með að skilja hvernig einhver getur hafa verið svo latur að hafa ekki nennt að finna rétta latneska yfirfærslu á málsgreininni „Nám er lífstíll“. Namus est lifstilum.

Ég sé reyndar fyrir mér þá mögulegu atburðarás að þeir höfðu alltaf ætlað að reyna að þýða þetta rétt en síðan hafði þetta alltaf mætt afgangi þar til allt í einu varð það um seinan og þetta þurfti að duga. Og til að hafa eitthvað sér til málsbóta þá á þetta greinilega að vera fyndið og allir sem sjá ekkert fyndið að þessu eru annaðhvort án greinanlegs hjartsláttar eða af vélrænu samfélagi frá framtíðinni þegar mannkyninu hefur verið eytt.

Þess vegna fundu þeir upp á því að fá Þorstein Guðmundsson til að vera ímynd auglýsingarinnar, til þess eins að redda málunum. Ef Þorsteinn segði þetta í þessu samhengi myndi það heppnast vel sem tíbísk íslensk viðvaningskímni (sem ég hef reyndar ekkert á móti, en það verður þó að viðurkennast að þetta er samt aulahúmor). En mér finnst það ekki hafa tekist hjá þeim. Þetta lítur einfaldlega betur út í sjónvarpi þar sem þetta er sagt, heldur en á pappír.

[Lokaorð]


|

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Ég biðst afsökunar á leti minni við að uppfæra þessa síðu nýlega. En margt hefur gerst síðan síðast og byrja ég að segja frá því fyrsta:

Við í Cynics erum eflaust ein af örfáum hljómsveitum í heiminum sem hafa bakað Betty Crocker köku saman. En það gerðum við í gær þegar við litum svo á að nú væri kaffipása á hljómsveitaræfingunni. Nú eru uppi pælingar um að gera þetta að mánaðarlegu dæmi innan hljómsveitarinnar þar sem við ætlum að elda eitthvað og æfa síðan pakksaddir. Hugmyndir eru uppi um að búa til Fajitas næst, veit ekki hvort það muni rætast en ég persónulega sé fram á það. Hins vegar hefur það þann gallan á sér að þetta er heldur tímafrekt og við nennum ekkert að spila eftirá. En hver segir svosem nei við afslöppun þegar hún býðst?

Síðar um kvöldið sama dag fórum við á James Brown. Mér finnst það alveg magnað hvað hann heldur sér ungum þrátt fyrir háan aldur. Ekki margir sjötugir sem geta lookað fertugir. Hljómsveitin sem spilaði undir var líka frábær. Mér fannst samt soundið úr PRS gítarnum eyðileggja pínu fyrir, mér fannst það ekki passa almennilega. Reyndar var flott solo-sound hjá honum, en cleanið var ekki alveg að gera sig. Það finnst mér mjög böggandi. Annars voru þessir tónleikar nokkuð þægilegir þegar kom að áhörfendum. Enginn meiriháttar troðningur þannig að ég þurfti aldrei að gefa upp staðinn minn fremst í stæðinu, þar sem er langbest að vera auðvitað.

Í dag fór ég síðan í berjamó uppí Heiðmörk með fjölskyldunni. Hversu leiðinlegt sem manni þykir að fara þá er nauðsynlegt að fara einu sinni á kannski 5 ára fresti, þá er gaman. Enda tíndum við nokkuð lengi og vorum komin með rúmlega kíló þegar við loksins ákváðum að hætta. En nú hef ég fengið nóg af berjatínslu næstu fimm árin þannig að ég ætla að reyna að njóta berjanna sem ég átti þátt í að tína.

Þessa síðustu daga (reyndar alveg síðan ég byrjaði í MH) hef ég verið að nota strætó í auknum mæli til að komast þangað sem ég þarf að komast. Ég hef tekið eftir því hvað strætókerfið er ekki alveg að virka. Hverjum þótti það sniðugt að láta vagnana koma á „aðeins“ 20 mínútna fresti? Auk þess sem það er rándýrt að nota þessar almenningssamgöngur, það er nánast að við þurfum að ganga með seðla á okkur og það er ekki einu sinni námsmannaafsláttur

Alveg síðan þeir byrjuðu að einkavæða strætisvagnakerfið hefur það verið í skólpinu.


|

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

DV er svoddan lágkúrulegur bleðill, rosalega get ég ekki beðið eftir því að þeir skjóti sig það ærlega í fótinn að hægt verði að lögsækja þá. Reyndar eru öll dagblöðin á leiðinni til fjandans því ekkert þeirra skrifar á þann hátt að það einu sinni reyni að vera hlutlaust. Það veit land og þjóð fullvel. En DV hagar sér verst samkvæmt þessu. Gæti vel verið að þeir séu að sýna með mjög ýktum hætti hvernig fjölmiðlar í dag eru. Einhversskonar gjörningafyrirtæki. Það er reyndar pæling sem ég sé mig alls ekki vera hlynntan þó að það gæti allt eins verið og reyndar væri það óskandi. Hinn bitri sannleikur er sá að þeir afmynda sannleikann á svo hrottalegan hátt að það ekki lengur orðið fyndið (svipað og þegar maður kemur auga á forsíðu Séð&Heyrt) heldur blöskrar manni þetta og væri helst til í að hella sér yfir þá einhverntímann og gefa þeim kinnhest. Þykjast vera blað "litla mannsins" rétt þegar kosningar eru og eru að reyna að rakka niður þessa valdamestu, en síðan eins og hendi væri veifað eru þeir farnir að hakka í sig fólk sem hefur ekkert á samvisku sinni nema eittthvað sem hefur verið stórlega ýkt og orðum aukið til að geðjast slúðurþyrstu fólki útí bæ. Ég man þegar þeir gerðu það sér að leik að benda á kosti og galla nokkurra semi-þekktra manneskja og gerðu það að daglegum lið. Að sjálfsögðu var það ekki litið vel lagalega séð og hefði ég verið forviða hefði ekkert verið gert. En þvílík ósvífni! Hvað halda þeir í ritstjórninni að þeir séu? Í alvörunni talað! Það kæmi mér ekki á óvart þó að þeir fengju hatursbréf á hverjum degi.


|

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Það mun taka mig dágóðan tíma að venjast því að vakna svona snemma til að ná sexunni uppí MH.

Kl. 15:30 lá leið mín að Miklagarði, en það kallast samkomusalur skólans, þar sem Þorgerður Ingólfsdóttir, kórstjórnandi, kynnti Kórstarfið í skólanum fyrir okkur sem vorum að hugsa um að fara í kórinn. Á morgun verður síðan prufa og prófdómarinn er Bergþór Pálsson. Þannig að það er best að standa sig þá....

Ég er í einhverju bölvuðu veseni með sumar bækurnar, ég keypti vitlausa stærðfræðibók, þó að hún héti sama nafni. Ég meina, hvernig átti ég að vita hvor liturinn væri réttur? Það væri svo tíbískt að það hefði staðið í bókalistanum samt sem áður. En að minnsta kosti, þá neyðist ég til að skreppa í gatinu sem ég hef í stundartöflunni á morgunn til að fara í Office 1 og skipta þessari blessuðu bók.....vesen vesen vesen. Erfitt að gera svona hluti í fyrsta skiptið. Maður nær því sjaldan alveg rétt. Síðan er ég byrjaður á bókinni Kaldaljós......nokkuð áhugaverð bók, hlakka virkilega til að lesa áfram í henni.

En vá......hvern hefði grunað að það gæti verið svona þægilegt að hanga og gera ekki neitt í skólanum til lengri tíma? Þessi göt í stundartöflunni eru alveg frábær. Ég hef nægan tíma til að klára heimavinnu.....síðan bara sofa á bekknum í svona eins og korter......Myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi. Vá og aftur vá!


|

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Góða kvöldið.

Fyrstu dagarnir í nýjum skóla eru oftast best skráðir í minnum sérhvers manns. Ég held að ég viti hver aðalástæðan sé. Kennararnir. Við kynnumst nýjum kennurum og sérstaklega séreinkennum þeirra og sérvisku. Þýskukennarinn minn er þannig. Hann virkar ótrúlega feiminn þegar hann er að kenna okkur en samt hefur hann sig í það að gera sig, og smám saman okkur, að fífli. Allt í þágu kennslunnar. Hann kenndi okkur hvernig átti að bera fram hið algenga hljóð sch sem er svo ríkt í þýskri tungu. Til að við skildum þetta betur sagði hann sögu af því þegar pabbi hans var lestarstjóri í gömlu eimreiðunum og hann fékk oft að fara með honum. Náði ekki alveg öllu sem hann sagði en megin efnið var í kringum hljóðin sem kom frá útblæstrinum þar sem skiptist á sssss og sssssscccccchhhhhh og til að leggja áherslu á muninn tók hann okkur í lestarferð þar sem við sögðum öll í einum kór sssss, sssscccchhh, sssss, sssccchhh, sssss, sssscccchhh, sssss, sssccchhh Gaman að þessu.

Náttúrufræðin var líka svolítið sérstök. Ég hef aldrei á ævinni upplifað jafn marga jæja-tíma í röð. Alveg magnað. Oft hefur maður gert það í gríni að öskra jæja þegar enginn segir neitt, en þetta var beinlínis sársaukafullt. Mjög erfitt að sitja svona tíma af sér, sérstaklega langan.


|

mánudagur, ágúst 23, 2004

Fyrsti dagur í lífi MH busa er runninn upp. Ég þurfti bara að mæta í tvo tíma í dag, þýsku og ensku. Ég er að pæla í því að skrá mig útúr enskunni svo að ég geti tekið frönsku. Síðan tek ég bara stöðupróf næsta haust. No biggie.

Mér líður eins og skólinn hafi verið byggður fyrir mig. Svo fullkomlega hentar þessi skóli mér. Það er nánast yfirnáttúrulegt. Allt við hann er þægilegt. Auðvelt að rata um þarna, góður tími gefinn til að fara á milli skólastofa, rosalega hlakka ég til þegar félagslífið verður komið á skrið.

Horfði á Terminator 3 með Davíði eftir skóla. Hef reyndar ekki séð fyrstu tvær en það skiptir engu. Hafði engann áhuga á þessu fyrir. Það eina sem mér finnst hafa verið áhugavert við Arnold Schwarzenegger var hreimurinn. Alltaf gaman að herma eftir honum (grey Davíð, grætur sig sáran yfir að kunna það ekki).

Það greip mig þvílík löngun til að hlusta á Ayreon allt í einu. Þannig að ég verð eitthvað vakandi á meðan ég hlusta á rúmlega 100 mínútna langt konseptverk. Ég mæli eindregið með þessari plötu. Hún heitir The Human Equation og kom út í maí s.l. hægt að panta plötuna á amazon.com. Er ekki viss um að þetta finnist í plötubúðum hérlendis. Margir frábærirr tónlistarmenn sem ljá rödd sína. Mikael Åkerfeldt úr Opeth, Devin Townsend úr Strapping Young Lad, James LaBrie úr Dream Theater svo fáir séu nefndir. Læt vera að lýsa tónlistinni. Þið græðið meira á því að hlusta.


|

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Íslendingar virkar mjög ljót og leiðinleg sem þjóð þegar kemur að stórhátíðum. Það sannaðist á Menningarnótt í gær. Reyndar var þrusugaman í gær og hafði ég ekkert athugavert við neitt af þessu yfir daginn (var úti frá því um tvöleytið eftir hádegi). Skemmtileg dagskrá fyrir alla fjölskylduna og skemmtilegur fílíngur með góðum vinum. Gaman að geta skroppið milli tónleika og skoða skransölur inn á milli. Ég keypti t.d. limited útgáfu af Here Today, Tomorrow Next Week! með Sugar Cubes á vínyl á 200 kall, en platan sjálf er silfurlituð. Það er nú varla að ég þori að spila hana. Jú, kannski einu sinni.

Ég fór að sjá Jagúar sem spiluðu um níuleytið minnir mig, allir komnir í skemmtilegt stuð og voru sem leir í höndum hljómsveitarinnar eins og gerist ósjaldan. Ég þarf varla að eyða orðum í hversu frábærir þeir voru. Fáir nálægt mér stóðu kyrrir, enda er annað ekki hægt. Toppurinn á sjeikðatass-tónlistinni.

Eftir það lá leið okkar upp laugarveginn þar sem við ætluðum að hlýða á Mínus í Portinu bakvið Dillon. Tókum við upp á að klifra upp á þak á húsi við hliðina á Dillon þannig að við fengum svo gott sem VIP stæði fremst. Yndislegt. En núna var stemningin farin að segja til sín. Fólkið farið að sýna ljótleika íslensku þjóðarinnar smám saman. Ég einfaldlega skil ekki hvernig sumir nenna því að mæta á tónlistarviðburð án þess að endilega hlusta á tónlistina. Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt. En jæja, þetta var ekkert það mikið að bögga mig, flestir voru enn til friðs og langflestir sem voru að hlusta í góðum gír. Ég öskraði mig að sjálfsögðu hásan og talaði rámum rómi allt kvöldið. Þess virði.

Þegar því lauk fórum við að ganga í átt að flugeldasýningunni. Íslendingar mega eiga það að þeir eru mjög félagslyndir þegar þeir eru undir áhrifum, en auðvitað er það mismunandi eins og með allt annað. Í þessu ástandi gefst fólki færi á að tala við fólk sem það hafði aldrei tækifæri á að tala við. Gott og blessað.

Hins vegar breyttist það þegar flugeldasýningin endaði. Sumstaðar voru einstaklingar ælandi úr sér lungu og lifur á meðan einhver stelpa var að reyna við hann, fullt af fólki fyrir framan Esso-bensínstöðina gerandi ekki rassgat og eitthvað þaðan af verra. Er þetta besta leiðin til að skemmta sér? Ég get leyft mér að efast um það. Ég sé ekkert að því að drekka og það getur vissulega hjálpað til við að skemmta sér en þetta finnst mér nú fullmikið af hinu góða.

Þegar klukkan var farin að nálgast eitt ákváðum við Zakki síðan að fara heim, en Davíð hafði sagt skilið við okkur stuttu fyrir það þar sem hans beið löng heimleið fyrir höndum. Þar sem ég hafði nægan tíma ákvað ég þá að fylgja Zakka heim og Diljá, sem ég var að komast að að hún er með mér í bekk, slóst í för með okkur. Það var kannski dýrmætasti tíminn á þessari Menningarnótt. Heimspekilegar umræður við góðan vin. Fullkominn endir á frábærum degi.


|

föstudagur, ágúst 20, 2004

Mótmælandi Íslands, Helgi Hósearson, birtist mér í andartak þegar ég leit til hliðar aftast í strætisvagni nr. 5 sem ég hafði tekið til að komast heim eftir skólabókakaup. Stóð hann á gangstéttinni hinn rólegasti til að ýta undir alvarleika málsins. Skiltið sem hann hafði uppi hafði þessi skilaboð: Hver skapaði sýkla?

Verður að viðurkennast að þetta er nú ekki pæling sem er ný á nálinni. Margir efahyggjumenn og fýlupúkar halda mikið upp á þessa spurningu þegar einhver talar um sanngirni Guðs. Samt sem áður þá er þetta vel spurt og umræðan sem skapast af þessu eflaust holl fyrir fólk, ef ekki er farið út í skítkast.

Ég dauðsé eftir því að hafa ekki farið á heimildarmyndina um hann. Verð að reyna að finna þetta í einhverri vídeóleigunni ef hún nær að komast svo langt. Annars verð ég að bíta í þetta súra epli þar til þetta verður vonandi sýnt við eitthvert viðeigandi tilefni.


|

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Það er varla að ég geti bundið það í orð hversu spenntur ég er yfir skólasetningunni sem verður á morgun. Daginn sem ég mun hefja skólagöngu í nýjum skóla, kynnast nýju fólki, finna (cross my fingers) nýjan trommara. Ójá! Síðan er ég alveg að klára vinnuna líka, þarf bara að fara í þessa einu útilegu og síðan fagna ég skólasetningunni almennilega á Menningarnótt.

Tekið af Rokk.is-spjallinu:

Kimono, Brúðarbandið, Skátar, Isidor, Ókind, Bacon, Glasamar, Further than far far og Mírí spila í portinu við Illgresi á laugarvegi 17. dagkráin er svohljóðandi:


16:00 – 16:20 Míri
16:25 – 16:55 Skátar
17:00 – 17:30 Ókind
17:35 – 18:05 Bacon: Live Support Unit
18:10 – 18:40 Glasamar Further Than Far Far
18:45 – 19:15 Isidor
19:20 – 19:50 Brúðarbandið
20:00 – 20:40 Kimono

Síðan var ég að frétta það að Ensími og Botnleðja myndu spila í Portinu hjá Prikinu (hehe, skemmtilegt nafn á staðsetningu gæti þess vegna verið bakvið húsið heima hjá mér :P)

Gaman gaman :D


|

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Who the f**k er PJ Harvey???


|

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Hverji ætli geti borið titilinn "Rokkgoðið" í dag? Svipað og margir myndu álíta Jim Morrison vera hippaidolið, Angus Young fyrir rock 'n' roll og annaðhvort Gene Simmons eða Axl Rose á tímum hármetalsins. Nú er kominn tími til að finna nýtt ædol. Ég er búinn að finna nokkur sem mér finnst koma til greina miðað við hvernig rokkið hefur þróast í dag. Vonandi getiði fundið eitthvað þar við ykkar hæfi, ef ekki þá komiði með tillögu í commentunum.


Thom Yorke (Radiohead)
Hann í rauninni er öfgakennt dæmi um að allir geta verið rokkgoð, það er nóg að hafa trú á það sem maður vill gera. Ekki beint kynþokkafullur, kannski að Johnny Greenwood myndi passa betur í þetta...hver veit.


Brian Molko (Placebo)
Ég býst við að hann muni hljóta flest atkvæði. Hann hefur það yfir flesta aðra sem eru tilnefndir að hann er tvíkynhneigður og nær þess vegna til allra aðdáenda sinna á meðan aðrir þurfa að láta sér nægja helminginn. Hann er held ég rökrétt framhald af David Bowie, gengur skrefinu lengra til að skilgreina sig sem kyntákn. Í rauninni tilvalinn í hlutverk rokkgoðsins.


Omar Rodriguez Lopez og/eða Cedric Bixler Zavala (The Mars Volta)
Þið megið ráða hvort þið viljið hafa þá hvor um sig eða sem dúó. Mér finnst þeir geðveikislega kúl dúó, báðir með þennan þvílíkan lubba og með augnaráð sem gæti brætt klaka. Þeir komast kannski næst því að vera næstu Jim Morrison, hvor fyrir sig. Það kemur sjaldan fyrir að fólk sjá tvö þannig eintök í sömu hljómsveitinni!


Mike Patton (Mr.Bungle, Fantômas, Tomahawk, The Melvins, Faith no more (sú hljómsveit er reyndar hætt)
Í sem fæstum orðum: Karlkyns Björk. Þessi maður er einn af þeim virkari í rokksenunni í dag, er í fjórum hljómsveitum auk ótal hlliðarverkefna með John Zorn, Björk o.fl. Einn af mínum uppáhaldssöngvurum vegna þess hve fjölhæfur hann er. Einn af þeim fáu sem er nánast ómögulegt að herma eftir án þess að líta út eins og hálfviti fyrir vikið.


Meg White (The White Stripes)
Mér blöskrar hvað það eru fáar konur í rokksenunni. Þær sem hafa komið og farið í henni hafa verið alveg brilljant svo ég fari ekki fleiri orðum um það. Vantar meira svona. Meg White er ein af þeim sem ég held mikið upp á .Mér hefur alltaf litist betur á hana heldur en Jack White. Hún lætur minna um sig fara og það er það sem heillar mig. Hún er ekki sérlega góð á trommur en það stoppar hana ekkert, hún spilar þá bara takt sem hún ræður við og fer ekkert útí neina stæla. Það er eitthvað sem ekki allir geta stært sig af.


Björk
Ég var tvístígandi um það hvort ég ætti að setja hana með eða ekki. Hún er ekki rokkari núna, en hins vegar var hún það. Ég fíla ekki tónlistina sem hún gerir núna, en hver veit, kannski breytist það. En ég kann samt að meta hvað Björk hefur gert og mér finnst hún alveg æðisleg söngkona, sem er ein af ástæðum þess að ég hlakka mjög mikið til næstu plötu hennar, Medulla.

Endilega komið með ykkar tillögur, þetta er ekki endanlegur listi.


|

laugardagur, ágúst 14, 2004

Þessir síðustu dagar hafa liðið mjög hratt einhvernveginn. Er kominn úr æfingu þegar kemur að daglegum uppfærslum. Fór í útilegu á fimmtudaginn yfir eina nótt og á föstudeginum tók ég á móti Ásgeiri vini mínum sem kom frá París. Horfðum saman á Jackie Brown þannig að nú hef ég séð allar myndir sem Quentin Tarantino hefur leikstýrt. Þessi finnst mér slöppust.

Í fyrsta sinn í fjóra mánuði hittumst við þrír, ég, Zakki og Davíð, til að æfa. Upp úr því urðu drög að nýju sýrulagi (vona að við munum það þar til a morgun). Ég slæ höfðinu endalaust upp við vegginn yfir því að við erum ekki ennþá komnir með trommara. Þetta er ekki heilbrigt. Á morgun ætlum við að reyna að halda áfram með lögin og reyna að klára mestallt.......vá hvað ég skrifa einhvernveginn leiðinlega.

Skrifa meira á morgun ;)


|

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Þið spyrjið eflaust hvers vegna slóðin á síðuna er suicidal-superpuppy.blogspot.com. Hér sjáið þið hvers vegna.


|

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Einn mjög svo góður brandari sem ég heyrði nýlega:

"Allir vita að litlir krakkar vilja láta grínast í sér" sagði Atli við félaga sína. "Um daginn fór ég til krakkanna minna og sagði við þau jæja krakkar nú förum við í tívolíið!! krakkar hoppuðu og sungu um af kæti og stukku inní bíl en í staðin fyrir að fara með þau í tívolíið þá fór ég með þau að gömlum brunarústum í nágreninu ég þóttist vera voðalega dapur þegar ég sagði við þau að tívolíið hefði brunnið og það kæmi aldrei aftur tívolí til  íslands. Krakkar grétu í tvo daga samfelt eftir þetta en innst inni held ég að þau hafi alveg fattað húmorinn".

Þetta er algjört hámark grimmdar.


|

mánudagur, ágúst 09, 2004

Ég er byrjaður að borða mjólkurafurðir í auknum mæli. Áður var ég frekar matvandur á þetta, það eina sem tengdist mjólkurvörum í mataræði mínu var osturinn í samlokunni minni og mjólkin út í kaffið. En núna háma ég þetta í mig í öll mál! Sem minnir mig á það...ég er farinn að borða morgunmat skuggalega taktfast við tíma dags, þ.e.a.s. á morgnanna. Er ég óléttur? Hvað er í gangi?

Ég væri vitur maður ef ég vissi hvað ég væri að bralla.

Í dag hyggst ég ná í gítarinn minn úr viðgerð. En einmitt í dag fer ég líka aftur í vinnuna þannig að ég kemst ekki þangað strax og búðin opnar til að geta spilað sem fyrst á þann grip sem ég get virkilega kallað "minn eigin" þar sem ég hef þurft að spila á alveg eins gítar, nema svartan, alla helgina. Minn er fallega rauðbrúnn, viðarlitaður. Dýrka þennan lit, væri flott að eiga jakka í stíl....en nóg um það. Í dag fer ég sem sagt aftur í vinnuna að sjá um litla krakkagríslinga sem daginn út og inn þrástagast á því hvers vegna ég er í "sitthvorum" skónum. Svar mitt er auðvitað "sitthvor er ekki íslenska", bara til að vera pirrandi á móti. Það er líka rosalega gaman tala um pólitík við börn. Segja þeim hvað stjórnmálamenn landsins eru miklir apar og að þeir drepa svart fólk með byssum sem gult fólk bjó til handa hvítu fólki. Reyndar sagði ég ekki nákvæmlega þessa hluti, er ekki alveg svona brútal...

Ég horfði á The League of Extraordinary Gentlemen í gær. Hlægilega hallærisleg sú mynd. Grátbrosleg á alla kanta. Það eina góða við þessa mynd var Sean Connery fannst mér, hann bregst aldrei. Síðan tók við all skemmtilegri mynd sem ber nafnið Kung Pow. Þetta er reyndar gömul kínversk kung fu mynd sem leikstjórinn hefur döbbað yfir, breytt söguþræðum þar með og "photoshoppað" sig inn í myndina. Sum atriðin voru svo brjálæðislega fyndin að það var erfitt að anda. Því miður tókst mér ekki að sjá hana alla, en þetta er mynd sem ég ætla að kaupa mér þannig að ég mun klára hana fyrr eða síðar. Mér finnst vera allt of lítið til af svona myndum. Ég veit að fyrstu myndirnar hans Woody Allen höfðu verið einhvernveginn svona, kannski að ég líti á þær.

Vá, hafiði nokkurntímann reynt við krossgátuna sem er í Morgunblaðinu á hverjum sunnudegi? Það er alveg magnað hvað fólk þarf að vera sturlað til að geta nokkuð í þessu. Þvílík kaldhæðni sem það er að afi minn er einmitt einn af þeim. Og núna hefur hann fengið alla fjölskylduna hooked á þessu. Eftirminnilegast hjá honum þetta skiptið var eftirfarandi:

Kona dregur orð drottins í efa (sjö stafir)

Svar: Guðlaug

Ég held að ég dragi geðheilsu fjölskyldunnar í efa...


|

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Finnst ykkur ekki leiðinlegt að lesa blogg hjá einhverjum sem bloggar bara af hálfgerðri skyldurækni heldur en að hafa virkilega eitthvað að segja?

Ehh...


|

laugardagur, ágúst 07, 2004

Alveg síðan ég fór á Yes í Þýskalandi hef ég dáðst mjög mikið að hæfileikum Steve Howe, gítarleikara hljómseitarinnar. Þeir eru vissulega allirhæfileikarríkir og hafa fengið margar viðurkenningar hver, en undanfarið hef ég fókusað á gítarinn eftir að ég varð hooked á laginu Mood For A Day sem er í rauninni snilldarlega samið plokk á klassískan gítar. Það kemur sjaldan fyrir að mig langar að læra einhver lög, en þetta er eitt þeirra. Ég hætti ekki fyrr en ég kann þetta 100%.

Þetta er þriðja lagið sem ég man eftir sem mig hefur langað að læra af svipaðri ákefð. Hin tvö lögin eru Tears in Heaven og Layla í flutningi Eric Clapton á Unplugged tónleikunum víðfrægu. Kann þau ekki lengur, enda meira en þrjú ár síðan égreyndi að plokka þau upp með hjálp tablature-bókar.

Ég er að verða búinn að ná fyrsta hlutanum í þessu lagi, nokkuð stoltur af því.


|

föstudagur, ágúst 06, 2004

Dagur nokkurra minnistæðra atvika rann upp í dag. Ég vaknaði um hálfþrjúleytið en þar sem klukkan mín bandvitlausa sýni hálftólf þá hélt ég að ég væri í góðum málum. Það sem vakti mig var símhringing frá Davíði þar sem hann var að bjóða mér heim til sín þar sem við ætluðum að spila soldið á nýja gítarinn minn. En þá kom upp mjög skrýtið mál. Bridge pickuppinn nam ekki neitt sama hvað við reyndum að hækka í gítarnum, þannig að við dröttumst í hellidembu alla leið í Hljóðfærahúsið þar sem við ætluðum að láta þá líta á þetta. Niðurstaðan úr þessu varð sú að ég fékk annan nákvæmlega eins, nema í lagi og annar litur, síðan kem ég eftir helgi og skila honum og næ í minn þegar þeir eru búnir að gera við hann. Einn af afgreiðslugaurunum (Davíð grunar að hann sé Jón Sigurðsson úr Idolinu, en hvorugur okkar horfði á þessa þætti þannig að við erum ekki vissir) horfði mjög forvitnislega á mig í nokkur skipti, í þónokkra stund hvert skipti, þar til hann loksins spurði mig hvort að ég væri með permanent í hárinu. Ég sagði honum að svo væri ekki. Þá höfðu þeir starfsmennirnir verið með smá veðmál í gangi og að hann hafi þá unnið veðmálið. Hann hafði trú á því að þetta væri náttúrulegt. Jess. Síðan spurði hann mig hvort þetta væri nokkuð hárígræðsla og þegar ég sagði nei við því, þá sá ég að hann hafði greinilega tapað því veðmáli. Damn.

Á leiðinni til baka ræddum við Davíð um skilgreiningunni á „Guð“. Einhvernveginn vorum við á sama máli en samt ekki. Við komumst að sömu niðurstöðu en vorum ósammála. Eða þannig upplifði ég það. Það er mér eiginlega ómögulegt að skilgreina svona nokkuð, því ég veit ekki hvað sé til staðar til að skilgreina.....very funky.

En hvað um það. Segjum það gott að sinni.


|

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Dagurinn hefur runnið upp. Í dag legg ég í gítarkaup. Sá sem ég hef augastað á í staðinn fyrir The Dot er þessi hér, Ibanez AXS32DRF. Ógeðslega skemmtilegt að spila á hann og gott hljóð, auk þess sem hann er mjög ódýr. En ég á eftir að fínkemba búðirnar í annað sinn þannig að þetta er ekki 100% ákveðið.

Ég fór á Somniferum tónleika í gærkveldi. Alltaf athyglisvert að sjá þá spila. Merkilegt nokk, ég hef aldrei séð þá spila með söngvara, þó að vissulega sé söngvari í hljómsveitinni. Annars hafa þeir breyst eilítið. Eru orðnir aðeins meira indie en áður, orðnir aðeins fjarri þessu semi-ómelódíska og (I dare to say) pönkaða stöffi sem þeir gerðu fyrst. Mér finnst samt synd að heyra þetta ekki með söngvara, því þeir greinilega leggja sig fram við að gera söngkafla, en að heyra þetta instrumental gerir það frekar þreytt. Eins og að hlusta á karaókí útgáfu af lögum. Síðan fórum við Zakki (Davíð nennti ekki, eins og oft áður, hehe) um ellefu leytið að rölta heim, slepptum því að sjá hljómsveitina Viðurstyggð, vegna þess hvað margir bölvuðu henni í þessum litla stað sem Bar 11 er. Fékk mér kaffi í Kofa Tómasar Frænda og ræddum við daginn og veginn þar til við lentum í hálfgerðri blindgötu þar sem við gleymdum því auðvitað að margar göturnar eru í rosalegum viðgerðum þessa dagana. Síðan rákumst við á nokkra kunningja úr Hagaskóla, Árnana Þór og Jón, Magnús, Gunnar Snæ og Kristin, og spjölluðum duglega við þá, sem endaði síðan í því að ég varð samferða þeim á leið minni heim en grey Zakki varð að taka stóran sveig í hina áttina til að fara heim til sín.

Síðan kom ég inn í hús um eitt leytið eftir að hafa stoppað mörgum sinnum með strákunum í djúpu samtali um eitthvað merkilegt. Þegar heim var komið ákvað ég að taka mér bók í hönd, nánar tiltekið City Watch eftir Terry Pratchett og las til fjögur. Ég hef sagt það í einhverri af fyrri uppfærslum, en segi það þá einfaldlega aftur: Tékkið á þessum bókmenntum, þið sjáið ekki eftir því. Einstaklega skemmtilegt að lesa þetta.


|

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Það er loksins komið að því. Ég er kominn með upp í kok af sjónvarpi. Ég þoli ekki sjónvarp, ef frá eru teknar fréttir, því þær er greinilega það einlægasta og raunverulegasta sem gerst getur, þó að það sé nú ekki alltaf hreinn sannleikur.

Sjónvarpsþættirnir eru orðnir svo steingeldir að ég á erfitt með að sjá hvor er hvað. Er ég sá eini sem sé engan mun á OC og One tree hill? Eins og vitur maður sagði, það er enginn munur á kúk og skít. Og þetta á fullkomlega við hér. Reyndar, til að spara mér skriftirnar, þá er um 95% circa á Skjá Einum rusl fyrir mér, enda ókeypis. Ekki það að allt sem er ókeypis sé rusl, en ég lít á Skjá Einn sem ókeypis rusl.

RÚV er skömminni skárra. Það fær plús fyrir að hafa sýnt Radiohead tónleikana frá Montreux, en það dugar mjög skammt. Þau leggjast þó ekki eins lágt og Skjár Einn og sýna verksmiðjuvarning, en þau hafa greinilega hætt með allar þær heimilda- og náttúrulífsmyndir sem voru svo oft. Stór mínus!

Jæja, ætla ekki að velta mér upp úr þessu mikið lengur.


|

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Í kringum fréttatíma hringdi síminn til mín og gegnum hann hljóðaði bón sem ég gat ekki neitað. Fara í bíó. Þessi dagur hafði mestallur farið í skriftir þar sem ég er að reyna að flýta því að klára uppkastinu að söngleiknum um a.m.k. þrjár vikur, alltaf gott að hafa góðan tíma til að ganga frá lausum endum. Þess vegna hljómaði það alveg upplagt að ljúka deginum með upplyftingu sem þessari. Fyrst var planið að fara í Laugarrásbíó til að sjá spoof-hryllinginn Shaun of the dead en það breyttist þegar ég kom heim til Davíðs. Hann hafði þá í fórum sér miða sem gaf okkur tækifæri til að komast á forsýningu myndarinnar The Village, sem er nýja hrollvekjan frá smiðju M. Night Shyamalan, á 2 fyrir 1 tilboði á meðan húsrúm leyfði. En þar sem Davíð var endilega búinn að festa rætur við sína ástkæru tölvu, hangandi í EVE þegar hann er ekki að vinna, fórum við ekki úr húsi fyrr en þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í átta. Löngu búið að fylla salinn og ekkert annað í boði nema eitthvert rusl. Jah, nema King Arthur. Þannig að við ákváðum að fara á hana í staðinn fyrir að gera þetta að einhverri fýluferð. Og hún reyndist ágæt. Sá sem lék Arthur var reyndar byrjaður að sýna einhverja Schwarzenegger takta, talaði allt saman með mjög þýskum hreim, annars leit þetta ágætlega út. Ágætisskemmtun þar sem ekki þurfti að hugsa neitt mikið. Engan veginn eins góð og Pirates of the Carribbean þannig að ég held að honum Jerry Bruckheimer sé að fara aftur.

Tónleikar á morgun!

Somniferum munu spila á Bar 11 kl. 22. Hvet ég lesendur til að skella sér á þetta því að þetta er ókeypis. Aldrei að vita nema að eitthvað skemmtilegt verði úr þessu :P


|
Já, ég var að muna það, ég má byrja að drekka kaffi aftur á morgun :D Merkilegt að ég hafi ekki skrifað neitt um það hér....

Þannig er mál með vexti að ég var á labbi um Kringluna með tveimur bestu vinum mínum, Bjarna og Davíði. Við vorum í rauninni bara að drepa tímann áður en okkur yrði síðan skutlað upp í Egilshöll þar sem við ætluðum að sjá Metallica spila. Þegar við fórum niður á jarðhæðina greip mig löngun til að kaupa mér einn kaffibolla í Kaffitár og ég spurði þá hvort þeir nenntu ekki að hinkra aðeins á meðan ég skytist. Þá fór Davíð að hlæja að mér og sagði mér að það væri fáránlegt hvað ég væri háður kaffi. Ég auðvitað mótmælti harðlega þar sem ég hef aldrei verið háður kaffi heldur drukkið það vegna bragðsins (reyndar hljómar það fremur ótrúverðugt, eins og ég sé í afneitun). Hann stakk því upp á að ég hætti að drekka kaffi í mánuð. Ég féllst á það og sagðist byrja daginn eftir, sem sagt eftir að ég fengi þennan kaffibolla. En neeeei, hann tók það ekki í mál, ég hlyti alveg eins að geta hætt strax. Mér fannst það heldur gremjulegt en ég samþykkti þetta. Og síðan þá hef ég ekki lagt dropa af kafffi upp að vörum mér. Er ég ekki duglegur? En á morgun verður þetta allt annað. Nú byrjar mitt kaffisötr aftur, af tvíefli ef eitthvað er. Ég ætla að drekka svo mikið að ég fæ ógeð af því fyrstu vikuna, hvíli bragðlaukana í nokkra daga og fer síðan aftur að drekka kaffi í aðeins heilbrigðari skömmtum. Úúúúúújeeee, ég hlakka svo til :D

Í öðrum fréttum þá er þetta helst: Ég var að ljúka við að uppfæra Lifun bloggið mitt. Endilega skoðið það ;)


|
Ég fór í bíó með Zakka í gær á hina margumtöluðu, þýsku kvikmynd, Good bye Lenin. Ég verð að segja að hún reyndist nokkuð góð. Mjög skemmmtileg hugmynd, og fyrsta vel heppnaða þýska mynd sem ég hef séð. Ég var alveg að verða vitlaus á gæðum kvikmyndanna sem voru sýndar í Þýskalandi. En eins og hægt var að búast við, þá er vonarglæta sýnileg í næstu kynslóð kvikmyndamanna, eins og raunin er alltaf. Ferskar hugmyndir koma frá nýjum kynslóðum.

Það er orðið svolítið langt síðan ég hlustaði síðast á Type O Negative, þá skornu hljómsveit. Einstaklega skemmtileg hljómsveit, sem hefur því miður sýnt á sér heldur neikvæða hlið á sér eftir að þeir komu með heldur óferska plötu sem eiginlega sýnir að þeir eru að verða þreyttir, ef þeir eru ekki orðnir það. En þá er tekinn upp hinn mikið notaði frasi: „Gamla stöffið þeirra var gott.“

Minnir mig á gildi klisja eins og þessarar sem ég var að nota. Fólk vill endilega forðast það að nota klisjur í máli og þess háttar, sem er lofsvert þegar kemur að því að þróa málið og festast ekki í fortíðinni, en aðalástæðan fyrir því að klisjurnar lifa enn er vegna þess að þær segja oftast nær sannleikann í sem stystu máli á sem einfaldastan hátt. Þær binda saman það sem hlutir eiga sameiginlegt á hverju stigi (t.d. gamla stöffið hjá flestum hljómsveitum er álitið best) fólk man þessa frasa vegna þess hversu sammála það er því.

Ætli ég láti þessu ekki linna núna. Þarf að gera margt í dag...


|

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Tekið af mbl.is:

Prestur og nunna staðin að verki í miðjum ástaleik á bílastæði

Kaþólskur prestur og nunna voru staðin að verki er þau voru í miðjum ástaleik á bílastæði flugvallar í Malaví. Þau voru áminnt alvarlega af dómara og ef þau sleppa fram af sér beislinu á ný næstu átján mánuði verða þau send í fangelsi þar sem þeirra mun bíða erfiðisvinna.

Dómsalurinn var þétt setinn þegar réttað var í máli hins 43 ára gamla malavíska prests og nunnunnar, sem er 26 ára gömul og frá nágrannaríkinu Zambíu.

Taktfast vagg Toyota Corolla-fólksbifreiðar á bílastæði alþjóðaflugvallarins í Lilongwe í Malaví vakti athygli fólks, sem leið átti framhjá bílnum, og lét það lögreglu vita að eitthvað gruggugt væri að gerast inni í honum. Þegar lögregluþjónar opnuðu bílinn blöstu prestur og nunna við þeim í stellingum, sem þóttu, að því er dómari í málinu sagði, ósiðlegar og alls ekki við hæfi fólks af þeirra stétt.

Nunnan sagði fyrir dómnum að hún harmaði yfirsjón sína en presturinn sagðist sem maður Guðs viðurkenna að sín hefði verið freistað af kölska.

Arthur Mtalimanja dómari féllst á afsökun þeirra en áminnti þau um að sem þjónar Guðs ættu þau að vera síðust til þess að misbjóða velsæmiskennd fólks á almannafæri. Að þeim orðum loknum dæmdi hann nunnu og prest til sex mánaða erfiðisvinnu í fangelsi ... en mildaði þó strax dóminn vegna iðrunar þeirra og sleppa þau við fangelsi ef þau haga sér siðsamlega næsta eitt og hálfa árið.


Reyndar eru þetta tveggja daga fréttir og biðst ég afsökunar á því hversu óferskar þær eru. Mér fannst þetta bara svo merkilegt. Prestinum fannst greinilega mjög stórmannlegt af sér að viðurkenna að sín hefði verið freistað af djöflinum. Það hljómar auðvitað betur en að viðurkenna fyrir framan alla að þetta hefðu verið mannleg, og reyndar óafsakanleg, mistök. Auk þess sem hann átti ekki í miklum erfiðleikum með að lýsa því yfir að nunnan hafi verið andsett og að hún ætti meiri sök í þessu en hann sjálfur. Asni!


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?