<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 29, 2004

Jahhahhá.

Í dag settum við Sigga nýtt met í leiðindum í eðlisfræðitíma. Okkur leiddist svo mikið að við höfðum meira gaman af því að deila reynslu okkar af því að sjá lík náinna ættingja og minnast þeirra í okkar lífi sem hafa dáið nýlega.

Ekki ákjósanleg upprifjun, en það var langt um betra en að sitja áfanga sem var sérhannaður fyrir þá sem eru ekki í náttúrufræðibraut. Ég sé ekki tilganginn með þessu. Í rauninni erum við í þessu til þess að við getum fengið þetta metið í háskóla ef eitthvað er. Annað gæti það varla verið.

Um kvöldið var síðan fyrsti dagur tónlistarhátíðar MH; Icelandic Hairwaves og var það sett með kaffihúsakvöldi þar sem brasilískt kaffi var á boðstólum og gómsætar súkkulaðikökur. Undir spiluðu hljómsveitirnar Glymskrattarnir, yndisleg djassgrúppa skipuð MH-ingum, og Hraun, sem spiluðu eins konar pólitískt folk-rokk.......mér fannst þeir floppa. Sérstaklega vegna þess að gítarleikarinn neitaði að spila öðruvísi en falskt. Fæddist með tónheyrnina þar sem sólin aldrei skín.


|

mánudagur, september 27, 2004

Bannað að stíga á strik!


|

laugardagur, september 25, 2004

Ég kemst stundum ekki hjá því, þegar ég er í bílferð, að ímynda mér hver óhugnanlega sárt það væri ef reynt væri að stíga út úr bifreiðinni á fullri ferð eins og hún væri í kyrrstöðu. Þessar sárafáu hreyfingar sem þarf til að opna hurðina og setja fótinn út, sem eru svo gott sem meðfæddar, framkvæmdar án þess að sjá eitthvað athugavert við umhverfið. Hvernig annar fóturinn skýst út úr bílnum nánast um leið og dyrnar opnast. Það er mér óskiljanlegt hvers vegna ég pæli endilega í þessu. Reyndar gefst mér varla kostur á því vegna þess að þetta birtist mér sem skipun: „Farðu út úr bílnum!“

Þessi undarlega bón varð drifkraftur í fremur ýktum pælingum, þó sumir myndu skilgreina þær sem raunsæjar, um afleiðingar slíkrar flónsku. Ég sé fyrir mér hvernig gróft malbikið sæi til þess að fóturinn skytist aftur, sem ylli því að ég félli örlítið fram á við. Hvernig húðræmur myndu byrja að myndast þar sem fóturinn verður ekki fyrir stöðugu áreiti malarinnar. Ég uppgötva mér til skelfingar að ég er þegar búinn að gera mér í hugarlund hvernig skinnið við sköflunginn er næstum horfið og sumstaðar sést í rautt kjöt líkt og þegar skornir eru bitar af slátruðum búfénaði, áður en ég get aðhafist eitthvað til að forðast nákvæmlega þá tilhugsun.

Það sem ég er hræddastur við í augnablikinu er að ég fari eftir þessari skipun.

„Er ekki allt í lagi?“ heyri ég oft einhvern segja við mig í framhaldi af þessu. Það er alltaf gott þegar einhver kemur manni aftur niður á jörðina, eða upp á yfirborð hennar eftir atvikum. Mér tekst alltaf að muldra eitthvað svo að ekkert beri á.

Eðlislæg forvitni mannsins hlýtur að bjarga fleiri lífum en mönnum órar fyrir. Hver veit hvað hefði gerst ef þessi manneskjan hefði ekki tékkað á mér? En núna þegar hugurinn hefur sleppt mér lausum hef ég ekkert til að drepa tímann.


|

miðvikudagur, september 22, 2004

Í fyrsta sinn á minni stuttu ævi hlustaði ég á það sem við í Cynics höfðum ákveðið að yrði uppáhaldscoverlag, lag sem við tækjum á hverjum einustu tónleikum. Það er kannski svolítið erfitt að ímynda sér hvers vegna við vorum svo ákveðnir varðandi þetta lag en ég held nú að flestir séu sammála okkur í því að My Sharona með The Knack kemur manni oftast í mjög gott skap. Innan hljómsveitarinnar er þetta þó kallað Böttfökk af augljósum ástæðum. Geðveikt lag! Vá, mig grunaði aldrei að það væru svo margir kaflar aðrir en aðalmelódían sem voru svona flottar. Ég hlakka eiginlega bara meira til þess að spila þetta.

Ég hef tekið eftir því að fólk hefur sett samasem merki milli þess að vera með trefil og að vera veikur. Auðvitað er það rökrétt þar sem hitabreytingar eru á veðurfarinu á þessum tíma árs og sumir þola það verr en aðrir. Hins vegar er eins og fólk alhæfi í þessum efnum. Hver sá einstaklingur sem kom með trefil um hálsinn var spurður hvort hann væri veikur. Ég er ekki sáttur því brátt fer ég að taka upp minn trefil og ég vil ekki að fólk sé mögulega að forðast mig.

Forðist mig! Ég er stórhættulegur! Sérðu ekki að ég er með trefil?


|

mánudagur, september 20, 2004

Það er komið gat á uppáhaldssokkana mína!



|

sunnudagur, september 19, 2004

Það er ekkert eins plebbalegt og að taka sunnudagsrúnt í fullkomnu veðri. Að setjast inn í sjóðheitan bílinn og stækka ósonlagið af gömlum vana, sama hvernig aðstæður eru, þegar í staðinn væri hægt að njóta fersks loftsins og verða vitni að allri fegurðinni með eigin augum en ekki gegnum sólgleraugu inni í járnskrímsli. Enginn tilgangur og teppir umferðina. Plebbaskapur!

Næstu daga þarf ég að berjast við stórfljót heimaverkefna í takt við vikulega rútínu í félagslífi MH, en þar sem ég var nýverið tekinn inn í skólablaðið Beneventum þá hefur frítími minn minnkað þannig að það er um að gera fyrir mig að byrja að skipuleggja mig í eitt skipti fyrir öll. Einhver til í að taka mig í námskeið í svoleiðis?

Ég minnist nokkurra sjónvarpsþátta með miklum söknuði sem ég hef horft á gegnum ævina. Hver man ekki eftir Duckman þáttunum? Fyrst voru þeir um sexleytið, strax á eftir barnaefninu, síðan var þetta allt í einu um sett eftir ellefufréttir (já, það er svo langt síðan). Ég man núna helst eftir smáatriðunum sem komu þáttunum ekki rassgat við, eins og feitri dúfu á rafmagnssnúru, síðan er klippt yfir á Duckman og allt í einu fær hann þvílíkan haug af dúfnaskít yfir sig, næst þegar maður veit af er dúfan grindhoruð. Þetta er það sem ég elska við teiknimyndir. Þær eru hinn fullkomni miðill til að skila frá sér einhverju nákvæmlega eins og það er hugsað.

Síðan eru það teiknimyndirnar sem eru gerð fyrir börn en geyma líka nokkra lúmska fullorðinsbrandara. Powerpuff girls, Cow 'n' Chicken, I am Weasel.... (þess má geta að bak við rödd Weasel er enginn annar en Michael Dorn sem lék hinn litlausa Commander Worf í Star Trek þáttunum, en það eru líka þættir sem ég sakna sárt) ahhh.....nú langar mig í Cartoon Network!

Black Books eru aðrir þættir sem ég hef alltaf haft dálæti á. Ég hef ekki séð aðra eins kaldhæðni í imbanum. Persónan er svo ógeðslega mikill aumingi að það er ekki annað hægt en að dást að því. Mér finnst mjög leitt að ekki séu fleiri þættir til með þessum gaur.

Ég hljóma nú hálfsorglegur núna....


|

fimmtudagur, september 16, 2004

Nú er ég formlega orðinn nýnemi. Já, rétt er það. Tumi Ferrer (reyndar Karlsson en ég mun breyta þessu innan tíðar) hefur nú gengið í gegnum þá skemmtilegu raun sem vígslan á busadeginum er.

Busadagurinn í MH í ár einkenndist af Austurlöndunum og öllu sem því tengist. Ég var látinn syngja indversk popplög í Bollywood Karaoke, borða tvenns konar ógeðsdrykk, annars vegar sítrónukjötkraftshrísgrjónamjöð, og hins vegar te með ógrynninum öllum af kanil. Seinni drykkurinn var refsing fyrir að hafa ekki dansað magadans nógu vel. Auk þess þurftum við að strjúka geirvörtu á einum gaurnum úr Listafélaginu. Það er stendur hæst í minningu minni var þegar ég þurfti að taka þátt í spurningaleik sem tengdist Austurlandi (á Íslandi). Gaurinn á undan mér þurfti að gjöra svo vel og tjá leikrænt þéttbýlismyndun á Djúpavogi.

Þegar skólinn var formlega búinn um tvöleytið vorum við síðan látin horfa á busamyndina, sem fjallaði um náunga sem fann ekki kennslustofuna fyrir NÁT 113, en áður en það gerðist þurfti hann að kjást við ljón sem var vopnað garðsláttuvél. Mjög súrt.

Síðan gengum við upp á hefðina upp í Öskjuhlíð, stað sem MH-ingar eru mjög stoltir af. Beneventum. Mjög fallegur staður líka. Þar vorum við formlega afbusuð og tókum í hendina á stjórninni sem nýnemar og fengum þennan fína bolla með merki Nemendafélagsins. Krepptur hnefi.

Næsta mál á dagskrá var að finna sér fyrirpartí. Því var þó auðreddað og allir komnir í mjög skemmtilegt stuð þegar á ballið var haldið. Mjög skemmtilegt ball líka og ég hefði skemmt mér prýðilega ef ekki hefði komið upp atvik sem ég ætla ekki að skýra frá hér.

Það merkilega var hversu marga ég vingaðist við sem voru á svipuðu reiki og ég. Bindindismenn. Skildu ekkert í fólki sem drakk sig það fullt að það man ekki eftir gærdeginum.

Ég gleymi þessum degi ekki. Alveg pottþétt.

Tumi


|

mánudagur, september 13, 2004

Líkamsræktarliðið í MH eru með þeim rotnari öngum fasisma sem ég hef kynnst. Þeir létu okkur ganga alla leið upp í Árbæ vegna þess að við erum of stutt í viku í Líkamsrækt og þurfum að bæta okkur það upp með einhveju rosalega löngu og leiðinlegu uppátæki sem þessu. Ég komst ekki heim til mín fyrr en kl. 18. Auk þess þurfti ég að fórna leiklistartímanum mínum kl.5 vegna þess að mér var skylt að mæta í göngu sem ég fékk að vita af sama daginn.

Var þriðji til að kaupa miða á mest eftirsótta ball MH. Hló að þeim sem þurftu að þola troðning og þurftu síðan að fara í tíma áður en þau gátu keypt sér miða, sem þýddi að þau þurftu að ganga í gegnum þetta sama aftur næstu frímínútur. Helsta umræðan í MH núna er hverjir ætla að halda fyrirpartí fyrir busaballið. Ein vinkona mín er búin að hætta við, sem olli miklum vonbrigðum. Vinur minn ætlar að halda mögulega eitthvert lítið og sætt vinateiti.....hljómar mjög kósý.....allt á mjög óákveðnu stigi.

Annars hafa síðustu dagar liðið án þess að hægt sé að ræða neitt sérstaklega um þá.

Skrifa næst þegar eitthvað áhugavert hefur gerst.

Og vá! Drullist til að kommentera! Ég veit að þið eruð nokkrir fastalesendurnir, hvernig væri að þið létuð vita af ykkur?


|

laugardagur, september 11, 2004

Mig dreymdi mjög asnalegan draum í nótt. Súrrealismi bókmennta og myndlistar kæmist ekki í hálfkvisti við þetta.

Það sem ég man helst eftir úr draumnum var að ég var staddur í Þýskalandi og var að fara með vinum mínum í Þjóðminjasafn Íslands (í Þýskalandi takið eftir). Þetta var samt engann veginn líkt Þjóðminjasafninu þó að þetta átti að vera það í draumnum. Vinir mínir fóru í "mammaðín" battl, ég man ekki alveg hvor vann. Brandararnir voru líka mjög súrir og maður hefði þurft að vera með mikinn svefngalsa til að finnast þetta fyndið. Samt man ég ekki orð úr þessu battli.

Það sem ég man hvað best eftir var að ég hitti Úlf, kunningja minn og skólafélaga í MH, þar sem hann spilaði úti á torgi á mjög einkennilegt hljóðfæri. Þetta hljóðfæri líktist gítarhálsi að því leyti að það voru bönd á honum, en þessi háls var þunn, þríhyrnd plata og ég hef ekki hugmynd hvernig strengirnir voru festir á. Úlfur hélt á þessu hljóðfæri líkt ofg fiðlu og ýtti fingrunum á strengina til að heyrðist hljóð, þurfti ekkert að plokka. Og hér kemur skrýtnasti parturinn. Ég spyr hann hvað þetta hljóðfæri heitir og þetta heitir greinilega splangó.

Splangó!

Gaman væri að láta einhvern ráða í þennan draum. En þangað til ætla ég að leita að mögulegu splangói á netinu.


|

fimmtudagur, september 09, 2004

Það getur verið nokkurt gaman að sleppa af sér beislinu lítillega í laugarveginum. Mér finnst alveg yndislegt hvað hægt er að finna flott föt fyrir lítinn pening. Fatabúð Rauða Krossins á sérstaklega skilið hrós. Fór líka í Illgresið. Hef aldrei farið þangað að neinu viti, ákvað loksins að tékka almennilega á þessari áhugaverðu búð.

Æ, ég veit ekki af hverju ég er að uppfæra, ég hef ekkert skemmtilegt að segja frá í dag.

Ég komst að því í dag að ég er ekki sá eini sem persónugeri hversdagslega hluti. Ég geri það ósjálfrátt þegar ég er að velja eitthvað úr þeim aragrúa sem ég er með í iPodinum mínum að velja plötu sem ég hef ekki hlustað á lengi því að annars væri ég persónulega að skilja hana út undan.

Hvað ætli valdi þessu? Ég sé það strax að iPodinn færi ekki í neitt uppnám ef ég hlusta ekki endrum og nær á eitthvað annað en það venjulega. Þetta jaðrar við sturlun. „Vélar hafa tilfinningar!“


|

miðvikudagur, september 08, 2004

Það er merkilegt oft á tíðum hvað manneskjur taka upp á því að gera þegar því hrútleiðist. Ég og vinkona mín erum saman í NÁT 133 en þar sem við höfðum lært þetta áður í 8.bekk auk þess sem kennarinn kennir þetta á svo niðurdrepandi hátt, tókum við upp á því að fara í heldur skrýtin leik. Hann var í því fólginn að við áttum að reyna að rakka hvorn annan niður og við þurftum að notast við alvöru rök, eiginleika í fari okkar sem eru okkur til trafala. Auðvitað var þetta ekki meint í fúlustu alvöru, þetta var bara einhver mjög afbrigðilegur hreinskilnisleikur.

Rökfærslur okkar fjölluðu aðallega um gáfnafar, hæfileikann til að tjá sig, félagsþroska og þess háttar. Við minntumst þess hvernig hinn aðilinn brást við mismunandi aðstæðum og hvað hefði mátt fara betur.....á tímabili vorum við það langt leidd að við ákváðum frekar að hlusta á kennarann. Eftir á komumst við að samkomulagi um að fara ekki aftur í þennan leik, frekar að reyna að byggja hvorn annan upp. Ég á erfitt með að skilja hvernig okkur tókst að leika okkur að þessu tvo náttúrufræðitíma í röð sem voru á samliggjandi dögum.

Vegna þess að notast var við sannleikann í leiknum opnuðust ýmsar tilfinningar sem fólk kýs að upplifa sem sjaldnast, þá sérstaklega afneitunin. Bæði ég og vinkona mín slógum um okkur afsökuninni: „Þú hefur enga hugmynd um hvernig ég er.“ Vissulega er það satt, við höfum þekkst í tæplega ár og spjöllum frekar lítið utan skóla. Þetta er réttbær afsökun. En á þeim tímapunkti sem hún var notuð var komið fullmikið af hinu góða.....

Eftir tíma ræddum við aðeins um að ég væri að spá í að fá mér dreadlocks og síðan skildust leiðir.


|

laugardagur, september 04, 2004

Ég var aldrei þessi tíbíska gelgja. Ég sóttist ekki eftir félagsskap útfyrir vinahópinn, var aldrei í samböndum sem entust í viku eða reyndi að sanna hæfileika mína til að fá einhver respect stig frá öðrum. Ekki sem hversdagslegt líf gelgju að minnsta kosti. Það kom eflaust fyrir í örfá skipti en það tek ég ekki með í umræðuna.

Gelgjuskapurinn í mér hafði það þó sameiginlegt með fólk á svipuðu stigi að ég var heldur athyglissjúkur. Bara á annan hátt. Ég lét allan heiminn vita af því að ég væri anarkisti, að hið vestræna væri rotið og allt og allir væru að mergsjúga okkur fyrir peninga og að ég ætlaði ekki að láta bugast. Þegar ég kom síðan heim settist ég við tölvuna, fór á internetið og át pizzu á meðan.

Gelgjan er tími uppgötvana. Það er óhjákvæmilegt að komast undan hræsni þegar við vitum ekki hvernig hlutirnir virka sem við erum að láta útúr okkur. Ég sagði þá hálfpartinn til að láta vita af mér. Heimsspekin og pælingarnar voru eiginlega klausur sem ég lærði utan að og þuldi fyrir fólkið sem spurði.

Þrátt fyrir gelgjuna þá var ég alltaf einhvern veginn sannfærður um það sem ég þuldi. Ég átti bara erfitt með að tjá það þannig að ég vildi fremur hljóma eins og biluð grammófónplata fremur en ónýt. Oft er það þannig að með nýjar hugmyndir sem hefja innrás í kollinn á fólki, á það oftast í erfiðleikum með að tjá það þegar þetta er nokkuð nýtt fyrir þeim. Pælingar þurfa að meltast til að hægt sé að tjá þær og lifa eftir þeim.

Sálræna hlið gelgjunnar er manni nauðsynlegur.


|

fimmtudagur, september 02, 2004

Um daginn fékk ég nokkuð skemmtilega hugdettu varðandi Kastljósið, svo sniðug þótti mér hún að það var nærri því ómögulegt annað en að bera hana undir Kastljósið, þannig að ég sendi þeim eftirfarandi rafpóst:

Komdu sæl(l)

Ég heiti Tumi Karlsson og er fyrsta árs nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Áður en ég ber upp erindi mitt vil ég taka það fram að mér finnst þið vera með gott framtak til íslenskra umræðuþátta í íslenskum ljósvakamiðli og horfi ég mjög oft á Kastljósið vegna þess hve fjölbreytileikinn höfðar mikið til mín.

Vegna ástæðunnar sem ég nefndi síðast datt mér í hug að biðja ykkur um dálítið sem gaman væri að reyna á. Þetta er reyndar frekar skrýtið og ekki nein mikil dýpt á bak við þessa hugmynd mína, heldur er þetta meira hugsað til að skemmta og athuga viðbrögð hjá áhorfendum jafnt sem þá sem talað er við í þættinum. Þetta gæti þannig séð kallast gjörningur, annars veit ég það ekki, ég leyfi ykkur að skilgreina það.

Erindi mitt er fólgið í þeirri tilraun að í staðinn fyrir þessa tvo spyrla sem oftast sitja á stólunum, mynduð þið setja tvær gínur (hvort þið klæðið þær eða ekki skiptir mig engu máli) og spyrlarnir væru hvergi í augsýn. Liti þetta þá út engu ósvipuðu en talsetningu.

Ef þið féllust á að gera (eitthvað segir mér samt að litlar líkur séu á því), þá vil ég að þið áttið ykkur á því að ykkur er frjálst að gera þetta á hvaða hátt sem ykkur sýnist. Nokkrar reglur vil ég þó að þið mynduð virða:

1. Hvað sem það er sem situr á stólnum; gína, dúkka eða vélmenni, þá má þetta ekki vera lifandi.
2. Gestirnir sem talað verður við verða að vera í sama herbergi og hlutirnir á spyrlastólunum þegar þátturinn er tekinn upp.
3. Spyrlarnir mega ekki benda á þá staðreynd að „hann verði í örlítið frábrugnu sniði en venjulega“, m.ö.o. þeir verða að láta sem þetta ástand sé fullkomlega eðlilegt.
4. Þið megið ekki auglýsa þennan Kastljóssþátt með öðruvísi sniði en aðra Kastljóssþætti.
5. Látið mig vita hvenær þið ætlið að sýna þáttinn.

Hver veit? Kannski verður þetta til aukinna vinsælda þáttarins einfaldlega vegna þess að þetta kveikti einhvern forvitnisneista í fólki.

Með von um svar.

Undirritaður.


Viðbrögðin voru heldur litlaus, ég sendi þeim annan póst til að gá hvort þeir hafi örugglega lesið póstinn og þá fékk ég eftirfarandi svar:

Við í einfeldni okkar héldum að þú værir að gera grín og nenntum því ekki að svara.

En svarið er: HA.

Kveðja,

Xxxxxx Xxxxxxxxxxx


Ég væri hálfviti ef ég byggist við öðru svari.


|

miðvikudagur, september 01, 2004

Það er alltaf gaman að pæla í hinum raunverulegu merkingum þeirra hversdagslegu frasa sem maður sem maður notar við hvaða ákveðna atburði. Hin lifandi tunga hefur pakkað merkingunum saman í setningar sem auðveldar eru í framburði og allir skilja hvað þessi dulkóði þýðir. Eitt lítið dæmi:

A: Nei blessaður.
B: Sæll, gaman að sjá þig.
A: Hvernig hefurðu það?
B: Ég hef það bara fínt, takk fyrir. Hvernig gengur með bókina? Ertu búinn að skrifa hana?

Ef ég færi út í það að afkóða samtalið kemur eitthvað út á þessa leið:

A: Ég er glaður að sjá þig.
B: Ég líka.
A: Mér er ekki sama um þig.
B: Ég er þakklátur þér fyrir að hafa spurt. Ég hef áhuga á því sem þú gerir því mér þykir vænt um þig.

Enginn færi þó að segja þetta öðruvísi en dulkóðað, annað væri of opinskátt. Ég gæti vel ímyndað mér að frumbyggjar hafi ekki séð ástæðu til að þróa kóðun sem slíka vegna þess að slíkt myndi bara orsaka misskilning.

Rökræður er annað dæmi um dulkóðun í málinu, sama hvaða rök maður notar, innst inni eru skilaboðin svohljóðandi:

Þú ert hálfviti ef þú heldur þetta.
Ég hef rétt fyrir mér, þú ekki.

Markmiðið er að reyna að sannfæra hinn aðilann um þessa staðreynd. En stundum kemur það fyrir að báðir aðilar eru orðnir óþolinmóðir vegna þess að dulkóðunin er í rauninni manni til trafala, þá byrja þeir rökræða með ókóðuðum skilaboðum sem við fyrstu sýn tengist engan veginn umræðuefninu, þó að allan tímann hafi umræðuefnið einmitt verið þetta.

Þannig að mannskepnunni hefur tekist að láta einföldustu skilaboð hljóma flókin til að sýna fram á eigið ágæti. Barsmíðar með lurkum eru ennþá við lýði, bara í annari mynd.

Það er fjarri lagi að við höfum þróast í vitlausa átt, reyndar höfum við enga þróun til að byggja útfrá til að segja nokkuð í þessum efnum.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?