<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 28, 2004

Sá sem sagði að það væri leiðinlegt að taka strætó hefur verið nokkuð bitur. Ég var svo heppinn að eyða fimm mínútum af einni af fjölmörgum ferðum mínum í dag í að hlusta á Verzlinga baktala einhvern greinilega mjög misheppnaðan Verzling fyrir hvernig ilmvatn hann notar. Er þetta virkilega það besta sem þeir geta gert til að sporna við þeim fordómum sem MH-ingar, auk að sjálfsögðu fleiri skóla (MH er eini skólinn sem gengur það langt að segjast hata Verzló), hafa gagnvart þeim?

Ég tók þátt í forkeppni Leiktu betur áðan. Með mér í liði var góð vinkona mín hún Sigríður Láre(é)tta, Davíð sem er með mér í hljómsveit og stelpa sem heitir Gulla. Kölluðum við hópinn Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og slógum rækilega í gegn og lentum í þriðja sæti af fjórum. Ekki amalegt það. Geri aðrir betur......ehh, aðrir en þessir tveir hópar fyrir ofan okkur.....

Nú þarf ég að undirbúa mig fyrir mjög svo ógeðslega stressandi helgi. Ég uppfæri seinna ef ég lifi þetta af.


|

miðvikudagur, október 27, 2004

Ég fór á Into Eternity áðan. Fyrir ykkur sem kannist ekki við þetta nafn og haldið e.t.v. að þetta sé kvikmynd, þá er þetta kanadísk death/progmetal hljómsveit sem að margra mati gáfu út besta progmetaldisk þessa árs. Þar sem ég er mjög veikur fyrir þessari stefnu skellti ég mér niður í TÞM og svalaði forvitninni.

HVAÐ ER MÁLIÐ MEÐ AÐ SPILA BARA Í HÁLFTÍMA?

Þetta var nú meira ruglið hjá þeim. Flott tónlist og ég er ánægður með að hafa keypt þessar tvær breiðskífur sem voru til sölu. En ég bjóst við meira en hálftíma fyrir þúsundkallinn sem borgaði fyrir inngöngu.

Ég neyðist til að skrópa í Stoppspunamaraþonið mikla sem leiklistarráðið ætlar að standa fyrir. Heill sólarhringur helgaður þessari tegund spuna. Þvílík geðveiki! En ég þarf að hjálpa til við að gera allt efni tilbúið fyrir Beneventum svo við getum haldið í við tímaáætlunina. Þannig að ég fer á Beneventum-maraþon í staðinn, ekki er það nú slæmt.

Ég stend mig nokkuð vel í blogguppfærslum miðað við marga sem ég þekki. Þótt ég uppfæri ekki einu sinni til tvisvar á dag þá er þetta u.þ.b. þriðji hver dagur. Ég er ekki það latur við þetta eftir alt saman. Klapp fyrir því. Hins vegar verður að segjast að ég hef ekki hugmynd um hvað skrifa skal um. Ég sakna þess hæfileika og ég vona innilega að hann láti sýna sig von bráðar.


|

sunnudagur, október 24, 2004

Ritvinnsluforritið mitt er í tómu rugli þannig að ég hef verið óhæfur til skriftar þessa vikuna. Það leiðir af sér að ég hef ekki sett neitt skipulag í skrif mín þessa vikuna sem venjulega eru 2000 orð á viku. Leiðinlegt þegar manni tekt ekki að halda við áætlunina.

Ég fór í vinnuferð með leikfélagi MH í mjög þægilegan skála uppi í Kjós þar sem við æfðum okkur í því að setja upp lítilsháttar leiksýningar byggðar upp á næstum engu, i mesta falli ljóði. Það skemmtilega var að okkur var gefið fullt frelsi til að túlka ljóðið, meira að segja fá innblástur af einu orði í ljóðinu óháð samhengi. Margt skemmtilegt sem kom upp það kvöld. Ég komst síðan að því að leikstjóri vor ætlaði að ákveða hlutverkaskipan í þessari viku. Þannig að brátt fer að skella á þetta. Ég vona svo innilega að ég fái eitt af þessum hlutverkum, skiptir ekki beint máli hvaða þar sem þau eru öll snilldarlega geðveikisleg.

Ég tók þátt í skemmtilegri umræðu í þessari ferð sem varðaði ytri fegurð. Ef þú sérð manneskju úti á götu en hefur engin persónuleg samskipti við hana þannig að þú verður ekki var við neina persónutöfra, er þá ekki hægt að setja út einhverja formúlu eða skala sem hæfir hverri menningu sem greinir á milli fallegra og ljótra? Skilyrðin þurfa að vera þau að maður má ekki hafa talað við manneskjuna því þá fara persónutöfrar manneskjunnar að hafa áhrif á skoðun þína, eins og ljót manneskja með ótrúlega mikið charisma vrður meira aðlaðandi vegna persónuleikans. En án þess að hafa kynnt sér persónuna, sé ég fyrir mér möguleika á því að geta farið eftir einhverjum fegurðarskala. Nánast eins og í stærðfræði, það hefur verið sannað að þeir sem hafa hlutfallslega réttari líkamsbyggingu en aðrir eru mest aðlaðandi. Þannig að ég er ekki að þvæla neitt......mikið.

Kannski ég skrifi nánar um þetta seinna, eins og með allar hugmyndir eru þær ekki fullmótaðar strax og maður hefur heyrt þær. Þetta þarf að meltast.


|

miðvikudagur, október 20, 2004

Loksins hóf ég mig í það að uppfæra Lifun síðuna eftir næstum tveggja mánaða dvöl.

Ég hef ekkert mér til málsbótar.


|

þriðjudagur, október 19, 2004

Ég hef ákveðið að taka þátt í svolítið skemmtilegu átaki sem ég sá auglýst á blogger.com síðunni. NaNoBlogMo. Þetta er smá útúrsnúningur frá NaNoWriMo sem stendur fyrir National Novel Writing Month en eins og nafnið bendir til þá er mánuðurinn helgaður því að skrifa skáldsögu. Skáldsaga er skilgreind sem saga sem fer yfir 50.000 orða múrinn, þannig að hér erum við að tala um u.þ.b. 1667 orð sem þurfa að skrifast á dag. Skriftarmánuðurinn hefst 1.nóvember og má enginn undirbúningur liggja að baki sögunni sem þú ætlar að byrja á. Alls enginn. Ekkert plott sem þú hefur bak við eyrað, ekkert sem þú hefur skrifað áður sem þig langar að halda áfram með, heldur áttu að byrja frá grunni fyrsta dag nóvembers.

NaNoBlogMo gengur út á hið sama nema átakið snýst einnig um að sýna afraksturinn daglega, frjálst öllum að sjá. Spennandi? Vonum að ég nái að halda mig við þetta. Hef ég nú nóg á minni könnu nú þegar.


|

sunnudagur, október 17, 2004

Vetrarfríið kom á hárréttum tíma. Ég get loksins veitt mér það olnbogarými sem ég þarf til að ég geti mætt endurnærður til leiks fyrir seinni helming skólaannarinnar. Á tímabili hélt ég að ég gæti ekki þolað álagið en nú lít ég bjartsýnn á framhaldið. Ekkert stress.

Verst að ég hef eytt orku minni í allt annað en að uppfæra þig, kæri fannáll. Eins og mér þykir alltaf gaman að því. Ég er kominn úr æfingu. Mér tókst alltaf áður fyrr að festa hugmyndir mínar strax inn á gluggann sama hve langur tími leið milli þess sem ég fékk hugmynd og að ég kæmist í tölvu. Núna verð ég að láta þær liggja á hakanum til að sinna öðrum skemmtunum. Kannski að þetta lagist eftir jól þegar ég hef aðlagast þessu. Það hlýtur að gera það.

Ég lenti í því um daginn að söngvari Lada Sport, sem ég veit núna að heitir Stefnir, kom upp að mér og heilsaði mér með nafni. Hafði ég aldrei hitt hann áður á annan hátt en á tónleikum þegar hann var að spila og ég var áhorfandi og kom þetta mér nokkuð á óvart. Merkilegt hvernig þetta snýst svona við. Að „celebrity“ (hann er a.m.k. frægari en ég) viti hvað eitthvert „no name“ heitir.

Ég veit ekki hvað skal segja.


|

laugardagur, október 16, 2004

Ég sá í fréttunum að margar jarðir sem einu sinni höfðu að geyma lömb í haga og kýr á túni væru nú seld hæstbjóðanda, oftast nær einhverjum ríkisbubbum sem koma á þessar jarðir í þeim eina tilgangi að veiða nokkra laxa. Verð allt uppí 80 milljónir fyrir jörð nálægt einhverri gjöfulli laxá. Það kalla ég dýrt sport. Í rauninni ekki neinum bjóðandi nema háelítunni af snobburunum. Þetta finnst mér sorgleg þróun.

Terria með Devin Townsend kemur mér furðumikið á óvart. Ég bjóst engan veginn við svona góðri plötu, þó að margt gott hafði ég heyrt fyrir um hana. Sumar af þessum laglínum eru mér nánast ómögulegar í hugsun, þessi maður er svo algjörlega út úr kú að það er geðveikt. Og textarnir eru ekki af síðri sortinni, þó að það skíni í honum hversu mikill murtur hann er. En það er líka alveg ágætt.

Úff......hef ekkert að segja.


|

miðvikudagur, október 13, 2004

Tvífaraballið á næsta leyti og ég veit fullkomlega hvern ég ætla að samræma mig við.Ekki spurning.

En nú er ég farinn að læra heima. Lítið á þessa uppfærslu sem tákn um að hún er nær lífi en dauða ;)


|

sunnudagur, október 10, 2004

Þessi helgi fór í nánast algjört rúst. Hef ekki upplifað jafn mikið samansafn vonbrigða og fáránlegheita á ævinni. Vonbrigðin voru reyndar óþarfa oftúlkanir að minni hálfu á aðstæðum, tók það aðeins of persónulega þegar daman mín, búsett uppi í Breiðholti, komst ekki á eina MH skemmtun til að hitta mig og úr varð að ég hitti hana næstum því ekkert alla helgina. Tímar þegar raunsæi er á undanhaldi og rökhugsun þvættingur. En það lagaðist þegar hún kom á hljómsveitaræfingu......það er sannlega erfitt að vera unglingur.

Hljómsveitaræfingin fór annars algjörlega út um þúfur. Reyndar var ég undirbúinn fyrir það vegna þess að í dag spiluðum við ekkert, heldur elduðum Fajitas og horfðum á Die Hard III. Ég tel það nauðsynlegt í reglulegum hittingi fólks að losa um streituna með því að gera eitthvað allt annað með ágætu millibili. En auk þess þá var gítarinn hans Davíðs bilaður þannig að við spiluðum EKKERT að viti. Það hefur aldrei komið fyrir. En einhvern tímann er allt fyrst og núna náðum við botninum í skemmtanargildi æfingu. Ég vona að það verði ekki leiðinlegra en þetta.

Á morgun er tilefni til að hlakka til því þá mun ég loksins ávaxta fyrir bið mína eftir fáeinum geisladiskum. Mánudagurinn er sá dagur sem ég nota mest fyrir allt planað, eins og hárgreiðslutíma, kaupa skólabækur sem vanta upp á og allt þar inn á milli. Ég hef algjört dálæti af þessu yndislega áfangakerfi. Heiðraður verði sá maður sem fann upp á því.


|

miðvikudagur, október 06, 2004

Ég er svo drulluhræddur um að falla í dönsku að það er ekki einu sinni vert að hlæja að því. Burtséð frá leiðindunum, sem eru sem betur fer í lágmarki, þá er þetta fínt nema að ég á eftir að lesa um hundrað blaðsíður í Min ven Thomas sem ég álít að muni alltaf vera skólabókardæmi um sígildar sjoppubókmenntir, þ.e.a.s. bók sem fæst í bókabúðum sem af einskærri tilviljun selja líka pylsur með öllu og annað gúmelaði.

Ég get kannski sjálfum mér um kennt. Í einhverju egóflippi tók ég alla áfanga sem ég gat tekið í hraðferð. Dönsku þar með talda. Ég held samt að ég væri í svipuðum málu þó að ég væri einum klukkutíma lengur í viku í þessu fagi, breytir ekki miklu.

Ég verð oft vís að því að segja sömu hlutina við sömu manneskjuna oftar einu sinni, oftar en tvisvar. Hvers vegna ég er svona minnislaus veit ég ei, en það fer mjög svo í taugarnar á mér og mörgum af mínum nánustu. Í fyrstu átti ég ekki við neitt svona að stríða og ég hef ekki hugmynd hver kveikjan að þessu varð. Ef einhver sjéníinn væri svo indæll og útskýrði þetta fyri mér fengi sá hinn sami klapp á höfuðið af manneskju. Mesta viðurkenning sem hugsanlega er hægt að öðlast.


|

mánudagur, október 04, 2004

Ég hef bundið enda á eyðimerkurvertíð mína í geisladiskakaupum og hef ég gert svo með stæl. Ég á von á fimm, vonandi sex, plötum frá Gaddr distroinu, allar innan metalgeirans:

Strapping young lad- City (Þeir segja mér að þessi sé frátekinn, en samt er einhver von)
Subterranean Masquerade - Tempoary Psychotic state (prog/doom/rock.....hljómar vel, hlakka til að hlusta á þetta)
Devin Townsend - Terria (Konsept diskur sem fjallar um þá pælingu ef Jörðin myndi lifna við og búa til rokktónlist.....þetta yrði greinilega niðurstaðan)
In Flames - Colony (Hef alltaf haft gaman að þeim. Þetta er einn af gömlu diskunum þeirra þannig að þetta ætti varla að vera nein vonbrigði)
Mastodon- Levathian (Nýja platan með mínum uppáhaldsíslandsvinum. Besta tónleikahljómsveit sem ég hef séð)
Pain of salvation - Be (ég held að þetta sé akústik konsept plata sem hér er á ferð. Forvitnilegt)

Animals með Pink Floyd er ótrúlega vanmetin. Annað get ég ekki sagt. Hvergi nokkurs staðar hef ég heyrt hennar getið með bestu verkum þessarar hljómsveitar, þó að ég myndi pottþétt setja hana í fyrsta sætið. Hvað ætli valdi því að sumar plötur verði vanmetnar? Hvaða stemning þarf að skapast í kringum þannig plötur? Af hverju hafa bara sumir "séð ljósið" þegar kemur að þessum plötum?


|

föstudagur, október 01, 2004

Nikkuð misheppnuð myndlíking sem mér tókst að krafsa saman í svefni:

Tennur þínar eru líkt og gimsteinar. Gimsteinar sem hafa verið prýddir öllum litum litrófsins.

Gæti virkað sem ágætis móðgun.....þetta er a.m.k. of gott til að nota þetta ekki.

Í dag tókst mér að verða að einhverju gagni í Beneventum þegar ég tók að mér að dreifa miðum til fólks þar sem það átti að skrifa niður fimm uppáhaldsplötur sínar. Niðurstöðurnar úr þessu verða síðan birtar í blaðinu. Ég komst að því að ég, sem á eftir að fylla þetta út, á mjög erfitt með að gera upp á milli.

Þetta lítur samt einhvernveginn svona út:

 • 1
 • Goodbye Yellow Brick Road - Elton John

 • 2
 • Lifun - Trúbrot

 • 3
 • Images & Words - Dream Theater

 • 4
 • Operation: Mindcrime - Queensrÿche

 • 5
 • Couldn't Stand The Weather - Stevie Ray Vaughan

  Ég held að þetta sé nokkuð endanlegur listi miðað við það sem ég hlusta á núna. Auðvitað breytist þetta eftir því hvað ég hlusta á mikið nýtt, það er augljóst.


  |

  This page is powered by Blogger. Isn't yours?