<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 31, 2004

Síðasta uppfærsla ársins. Margt sem gerðist. Man pottþétt ekki eftir helmingnum akkúrat núna. Áramótaskaupið var mjög gott í ár. Betra en síðustu ár, toppar samt ekki 2001 og 2002 skaupin.

Við frumsýndum Martröð á jólanótt í gær. Flestir voru ánægðir. Enginn nema við í leikhópnum tókum eftir mistökunum. Góð stemning eftir það. Fórum í sund m.a. til að þvo af okkur andlitsmálninguna og síðan röltum við, mismunandi stæð, í teiti sem ein af leikráðsstúlkukindunum var svo indæl að halda.

Allir að sprengja. Ég einhvernveginn er ekkki spenntur fyrir því. Of kalt úti og hávaðinn er leiðigjarn. Get ekki beðið eftir að fara að hitta vini mína á eftir.


|

mánudagur, desember 27, 2004

Leikæfingarnar byrjaðar aftur eftir mannúðlegt leyfi leikstjórans til að njóta jólanna án yfirvofandi streitu og geðveilu. Það hófst frekar skrautlega. Fyrst af öllu mættu tíu manns á réttum tíma og auk þess voru allir frekar þreyttir slappir (þunnir?) og engan vegi í stuði fyrir rennsli. Úr varð eitt af hræðilegustu rennslum til þessa. Margir gleymdu að fara á svið á réttum tíma, einbeitingin var á við krakka með athyglisbrest að horfa á fimm sjónvarpsþætti í einu og allir í frekar litlu stuði til að gera neitt. Ég efa samt ekki að æfingin á morgun verði öllu hressari. Við höfum náð botninum núna og hvergi hægt að stefna nema upp á við úr þessu.

Mér gengur nokkuð vel að klára Fugitives and refugeess miðað við reynslu mína af lestri. Kannski ég sé með athyglisbrest. Það gæti útskýrt margt. A.m.k. mæli ég eindregið með þessari bók þó að hér sé ekki um að ræða skáldsögu heldur það sem í fyrstu gæti virst hundleiðinleg handbók um einhverja borg í Bandaríkjunum. Mér finnst Chuck Palahniuk samt ná að skrifa að slíkri sannfæringu að Portland, Oregon, virkilega sé besti stður á jörðu. Hann vísir líka á staði sem þú fengir e.t.v. ekki að vita af úr öðrum miðli og nær þetta til allskyns áhugamála. Stærstu og minnstu hitt og þetta, undralegt fólk, undarlegir safnarar, undarlegar klámbúllur, undarlegir garðar, jafnvel vindmyllur......Inn á milli segir hann frá hans reynslu af borginni, skemmtilegar sögur af einhverju flippuðu sem gerist hverju sinni.

Geðveik bók!

Annars tekst mér að lesa sárafáar bækur. Og alltaf þegar ég segist ætla að bæta mig í þessu, rætist það fyrstu dagana, síðan fell ég í sama farið aftur. Samt veit ég fátt skemmtilegra en að lesa bækur. Það er bara svo erfitt að byrja á nýrri bók. Ég vildi að ég gæti bara byrjað á þriðja eða fjórða kafla bókarinnar án þess að það bitni á samhengi sögunnar. Í leiðinni langar mig að lögleiða ættleiðingar flóðhesta. Mig langar í eitt stykki þannig.


|

laugardagur, desember 25, 2004

Ástæðan fyrir því að jólin heppnuðust svona asskoti vel þetta árið hjá mér er örugglega náskyld því að ég hafði engar eftirvæntingar til þeirra, annað en önnur ár.

Fékk nokkuð skmmtilegar jólagjafir:

Af geisladiskum:

Chutes too narrow - The Shins
Superunknown - Soundgarden
Selected Ambient Works Vol. II - Aphex Twin
Falling to infinity - Dream Theater
Die große Stunde der Gitarre (fullt af klassísku dæmi spilað á gítar)


Ég er rosalega ánægður með alla þessa diska, enda bað ég um þá alla (þó að stundum hefði ég ekki munað eftir því að hafa beðið um þá *hóst*TakkHryssa*hóst*). Nú á ég alla stúdíódiskana með Dream Theater, ég frestaði mjög lengi að kaupa þennan því hann fékk verstu dómana vegna þess að nýr pródúser var neyddur upp á þá og allur fjandinn, varð næstum til þess að þessi frábæra hljómsveit hætti. En Útgáfufyrirtækið sá hvað þeir höfðu gert og veittu þeim 100% listrænt frelsi og þá reddaðist þetta.

Síðan fékk ég þrjár bækur, hvorki meira né minna:

Fugitives and refugees eftir Chuck Palahniuk
Augu þín sáu mig eftir Sjón
Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason


Nú verður aldeilis lesið. Ég er byrjaður á bókinni eftir Chuck Palahniuk, eins konar sjálfsævisaga en í leiðinni handbók og leiðarvísir um hvernig þú átt að redda þér í Portland, Oregon, allt frá slangri og framburði, til staða sem þú skalt skoða sem túristi. Allt með sjónarhorni minninga höfundar þegar hann, nýútskrifaður og lifandi lífinu til fulls (í fyllstu merkingu) leigir íbúðir út um allar trissur með mismunandi herbergisfélugum. Nokkuð skemmtilega sett upp.

Síðan fékk ég samansamfn af því besta frá Monty Python's Flying Circus og Bruce Almighty. Ég er svoleiðis að drukkna í gjöfum því ekki er þetta búið enn.

Ég fór ekki í jólaköttinn þetta árið því ég fékk tvær flíspeysur, ullarsokka og nærbuxur frá Joe Boxer frá fjölskyldunni. Svo eitt lítið sniðugt vasaljós sem hægt er að hrista til að fá hleðslu ef batteríið er tómt. Stórsniðugt.

Jæja, vona að þið hafið fengið eitthvað sniðugt. Gleðileg jól öllsömul.


|

föstudagur, desember 24, 2004

Davíð með sína milljónustu tilraun til að halda upp bloggi barst mér til augna rétt áðan. Ég vona innilega að þessi síða endist lengur en fáeina mánuði......allir að skrifa hlýtt til hans á kommentunum á síðunni hans.

Klukkan hægt og rólega að nálgast þrjú á aðfangadagsmorgun. Þetta er án efa stysta bið eftir jólum í mínu lífi síðan ég man eftir mér. Ég mæli með því að hafa eitthvað fyrir stafni alveg til 22. desembar. Tíminn líður svo hratt að þú gleymir að stressa þig. Schnilld.

Ég eyddi Þorláksmessunni aðallega í það að vera tilbúinn til að hitta fólk niðrí bæ til að skiptast á gjöfum. Ég fór fyrst til Zakka sem þarf að vera lasinn yfir hátíðarnar, vonandi að gjöfin frá mér hressi hann við. Hitti svo Bjarna í Pennanum í Austurstræti og lét hann fá gjöf frá mér og Davíði og vorum við Bjarni síðan samferða á Mokka þar sem Helga ætlaði að hitta mig.

Laugarvegur er svo óendanlega sjarmerandi á jólunum að mér finnst óskiljanleg þörf fólks að hanga inni í kringlunni á þessum tíma. Jólaljósin sem birta yfir skammdegið, fólk allstaðar í góðu stuði að kaupa inn síðustu pinklana og það sem var flottast, ísskúlptúrarnir sem voru staðsettir hinum á móti Skífunni. Geðveikt!

Jæja, ég er farinn í háttinn. Ætla samt fyrst að reyna að klára gjöfina hennar Steinunnar. Síðustu forvöð fara að nálgast!


|

miðvikudagur, desember 22, 2004

Haffi er nýjasta viðbótin á bloggaralistann minn, margt skemmtilegt sem leynist á síðunni hans, m.a. sæmilega oft uppfært myndahorn og almennt skemmtilegar myndir.

Mér tókst að kaupa allar jólagjafirnar núna þannig að nú þarf ég bara að pakka þeim inn. Ég er annars í þvílíku stressi með gjöfina hennar Steinunnar því ég er ekki kominn sérlega langt með hana. Ég vona að hún skilji hugann bak við gjöfina, sem hún á öruugglega eftira ð gera. Hún er svo yndisleg.

Ég keypti líka Return of bunny suicides handa mér þetta árið og verð ég að segja að hún olli mér ekki vonbrigðum. Hún er jafngóð ef ekki betri. Skyldugluggun fyrir húmorista.

Ég er annars of þreyttur til að aðhafast neitt. Ég freistast mest til að fara í háttinn núna og vakna snemma hress næsta dag og byrja Þorláksmessuna með látum. Nóg hef ég verið án jólaskapsins og ætla ég að reyna að bæta úr því.


|
Í dag er nokkuð merkilegur dagur því það ætti að vera haldið upp á hann vegna þess hversu sniðugur hann er. Dagurinn í dag kallast samkvæmt gömlum íslenskum sið hlakkandi og heitir þetta einfaldlega vegna þess að tilhlökkunin er komin í hámark. Minnir mig á atvik sem Steinunn sagði mér nýlega, að hún hafi einu sinni hlakkað svo mikið til jólanna að hún fékk hita og var virkilega lasin af streitu og tilhlökkun. Magnaður skítur.

Mig dreymdi frekar fáránlegan draum í nótt, eða reyndar í morgun. Mig dreymdi að ég væri úti í skógi að vetri til, allt fennt þannig að það hyldi skóna og allt frekar drungalegt. Síðan sé ég mér til undrunar og skelfingar þegar ég sé trjágrein eyðast í snjónum, að snjórinn er einhvers konar sýra. Reyndar upplifi ég þetta í draumnum sem eitthvað í líkingu við nifteindarsprengju en tengingin er of langsótt og í rauninni aðeins rökrétt þegar maður er ekki með réttu ráði. En akkúrat á því augnabliki sem ég geri mér grein fyrir þessu fer ég að haltra og misstíga mig á fullu og mín helsta hræðsla er að detta ofan í snjóinn. Ég þori ekki einu sinni að reyna að styja mig með höndunum því ég hef ekki sérlega háan sársaukaþröskuld í svona ástandi......reyndar tengist þetta ekki sársaukaþröskuld, það er einfaldlega ekki þægilegt að meiða sig.

Jæja, í dag er margt í gangi. Tiltekt í Loftkastalanum, hljómsveitaræfing og síðan þarf ég að reyna að kaupa afganginn af jólagjöfunum áður en þær hætta að gilda sem slíkar.


|

mánudagur, desember 20, 2004

Steffý (mun heita St-y á listanum (Stufsilon) er enn einn bloggari sem mér finnst eiga skilið að vera linkuð frá minni síðu. Stórskemmtileg stelpa sem ég kynntist í leikmunagerðinni fyrir leiksýninguna í Loftkastalanum.

Við ræddum í dag svolítið um nöfn sem hljóta auðveldlega gælunöfn, og nöfn sem draga má af þeim gælunöfnum. Dæmi:

Þorleifur - Tobbi - Tóbías
Jakob - Kobbi - Kolbeinn
Stefanía - Steffý - Fía
Hákon - Konni - Konráð
Georg - Goggi - Gorgeir

Þetta er alveg einstaklega skemmtileg iðja og mörg skemmtileg uppátæki sem hægt er að hafa upp úr þessu.

Ég er á mjög tæpum tíma með allt núna. Stressið mun ekki fara af mér þegar ég losna af leiklistaræfingunum rétt yfir jólin því þá þarf ég að kaupa jólagjafir. Sem minnir mig á það, ég þarf að fara að pakka inn jólagjöfunum sem ég er búinn að kaupa. Sem minnir mig á það að ég var búinn að lofa einhverjum heimatilbúinni gjöf (hlæið bara, þetta verður ógeðslega kúl), verð að byrja á henni.

Geisladiskarekkinn minn fyllist alltaf af diskum yfir jólin. Það gremjulega er að eftir jólin sýnist hann ekki svo fullur því mér finnst eins og þessir diskar séu mínir. Það er örugglega til dæmi um fólk sem pakkar inn geisladiskunum sínum upp úr þurru.

Oddur leikstjórinn minn minnti mig á súrustu staðreynd tilvistar minnar hér á jörðu í dag. Þannig er mál með vexti að alveg síðan ég man eftir mér þá hef ég með reglulegu millibili fengið á mig eftirfarandi „skot“ ef svo má kalla.

Tumi Tumi, Algjör Tumi! *sungið í stríðnistón (kannist við það úr teiknimyndum þegar einhver er tekinn fyrir og allir söngla „Kobbi kálhaus“ eða eitthvað álíka)*

Það sem mér finnst svo súrt er að ég hef heyrt þetta milljón sinnum, sömu línuna, orðrétt, aldrei frá sömu manneskju. Allir að reyna að segja eitthvað asnalegt en segja alltaf sama asnalega hlutinn og líkurnar á því eru svo fáránlega litlar að þetta á ekki að vera mögulegt. Þetta er eitt af eiginleikum lífsins sem fær mig til að endurhugsa það hvort til sé guð eða ekki.


|

sunnudagur, desember 19, 2004

Ég er alveg hættur þessari daglegu rútínu sem ég festist í á meðan prófin stóðu yfir. Eins og ég hræddist, þá hef ég ekki sinnt blogginu af eins mikillli alúð eftir þetta streitutímabil og finnst mér það mjög leitt.

Vínylútgáfa af Frances the mute, nýju plötunni með The Mars Volta, sem á að koma út 22.mars næstkomandi, lak á netið og hefur breiðst eins og eldur í sinu um veröld internetsins á mjög skömmum tíma. Svo skömmum reyndar að mér tókst að ná í þau án þess þó að eiga niðurhalsforrit til að ná í svoleiðis þýfi. Annars held ég að gaurunum í The Mars Volta sé slétt sama. Þetta er ekki kláruð útgáfa. Auk þess eru þeir tónlistarmenn, ekki peningamaskínur. Eða ég vona ekki. Annars hljómar platan þrusuvel. En ég þarf að hlusta á hana aftur áður en ég kveð upp lokadóm.

Ég reyndar er einn af þeim sem hrífst ekki við fyrstu hlustun. Það hefur aldrei gerst. Ég hef aldrei verið alveg á tánum eða fengið gæsahúð yfir einhverri plötu eftir að hafa rennt yfir hana einu sinni. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig fólk geti upplifað svoleiðis svo snemma. Fyrsta hlustun fyrir mér er til að fanga því að eiga einhvern disk, athöfn. Næstu hlustanir byggjast síðan á því að ég byrja að muna smátt og smátt aftur flottu partana síðan af fyrstu hlustuninni og þetta verður miklu flottara. Nokkur hér sem gerir þetta líka?

Leikæfingin í dag einkenndist af miklum súrheitum og svefngalsa. Allir einstaklega hressir og lék Jón Kristján á alls oddi og sýndi öll einkenni offvirkni. Samt held ég ekki að hann sé rítalínkrakki....krakk......hmm......neeee.

Ég þoli ekki að skrifa lélegt blogg. Það er eitthvað sem ég vil ekki bjóða lesendum uppá en enda alltaf uppi með að ýta loksins á Publish takkann því þetta er betra en ekki neitt (sumt af því sem ég hef skrifað er reyndar verra þegar ég lít til baka.....). Lélegu uppfærslurnar eru samt góður mælikvarði á hversu góðar uppfærslur geta verið, loksins þegar þær koma. Þá er gaman að lifa og þá er lífið dans á rósum og súkkulaðibúðingur með rjóma.


|

miðvikudagur, desember 15, 2004

Leiklistaræfingar eru að fara byrja aftur eftir nokkuð langt hlé. Ég er búinn að sakna félagsskapsins, við erum eiginlega bara búin að hittast gegnum kommentakerfin á bloggum hver annars, og það aðeins lítill hluti hópsins. Annars er ég í stökustu vandræðum í hverju karakterinn minn ætti að klæðast. Held að ég verði samt bara frekar kasjúal vamp(sp)íra(ll) (vá hvað ég er fyndinn) og verð í svartri skyrtu og sparibuxum og þannig. Hér með auglýsi ég líka eftir skikkju ef einhver væri svo góðhjartaður að lána mér.

Nú þurfum við í Cynics að breyta svolítið til. Á meðan við Davíð erum í þessu leikriti verðum við að sætta okkur við að hafa hljómsveitaræfingar á kvöldin. Kannski er það breytingin sem við þurfum. Vá, það eru ár og aldir síðan við héldum síðustu æfingu.

Ég er svona um það bil búinn að reikna út hvenær ég byrjaði að skrifa almennilegar uppfærslur á þessari síðu. Ég sé mjög eftir fyrstu mánuðum þessa bloggs, sem er tími tilgangslausra staðhæfinga og almennum gelgjuskap á þessari síðu, en þessi síða geymir persónuleika minn síðan seinni part níunda bekkjar og alveg frá mars til júlí/ágúst 2003 (vá, mér finnst eins og það hafi verið lengra síðan) er þessi persónuleiki í rúst, ef persónuleika má kalla. Sama hversu oft ég lendi í samtölum um að maður eigi ekki að sjá eftir fortíðinni, þá geri ég það samt. Ég var frekar sorglegur karakter í den. Þið getið líkast til séð það á mínum early blogs. Þessi óhjákvæmilegi hluti gelgjunnar að vilja alltaf hafa eitthvað að segja til að láta það skína hvað maður er hugsandi, og þar af leiðandi, fullorðinn. Ég hrjáist ef til vill ennþá af þessu nema kannski fel ég það betur núna þar sem ég hef auðvitað þróað með mér betri ritsíl á þessu rúmlega einu og hálfu ári sem ég hef haldið þessari síðu uppi.

Hinn venjulegi karlkyns evrópubúi (ég þekki hann, hann heitir John Doe (hahahahahahahahahahahahahahahahahahahaha) drekkur að meðaltali níu kaffibolla á dag. Ég er náttúrulega ekki kominn með stressandi vinnu sem sýgur úr mér sálina og lætur mig rotna að innan ennþá, en ég sé ekki hvernig svona mikið kaffi getur hjálpað til við hinum vestræna vanda. Erum við komin yfir það að njóta kaffis og drekkum það bara af vana? Samt undrast ég að þetta skuli ekki vera meira, ef markmið hins vinnandi evrópubúa er að lifa af daginn á koffíninu einu. Coca Cola inniheldur sex sinnum meira koffín en sama magn af kaffi. Unglingar innbyrða sem sagt margfalt meira koffín en þeir sem þurfa á því að halda.

Ingibjörg systir mín fékk gullfisk í afmælisgjöf. Hann heitir Magnús.


|

mánudagur, desember 13, 2004

Ég lá andvaka í nótt vegna vindgnýsins sem hefði gert hvern sem er vitstola sem ekki gat sofið fast. Ég er svo óheppinn að búa næstum því við sjóinn þannig að ég lendi í vindinum þar sem hann er hvað sterkastur og háværastur og ég var hálfsmeykur við að fara út snemma morguns til að bera út Morgunblaðið. Ég ákvað að fara í lopapeysu innanundir massívu hermannaúlpuna sem var keypt fré þýska hernum, en ekki dugði það gegn þeim nístandi kulda sem beið mín úti. Síðan er það svo merkilegt að þegar ég fer af Suðurgötunni inn í einhverja af hliðargötunum, er eins og einhver slökkvi á blásaranum. Í skjóli húsanna er eins og það sé logn, miðað við storminn sem geisar meðfram götunni sem þessa stundina er ekki upp á sitt fegursta, auð og tóm og þakin brúnni snjóslepju.

Þess vegna tók ég upp á því að lesa undir stærðfræðiprófið. Ekki veitir af því það kom mér mjög á óvart hvað ég var ryðgaður í mörgu af því sem ég hélt að væri pottþétt. Skoðaði gömul próf á netinu. Ef prófið í dag verður einhvernveginn þessu líkt þá fæ ég prýðilega einkunn.

---

Ég komst að svolítið merkilegri uppgötvun um daginn sem ég deildi með Diljá fyrstri af öllum. Við vorum að tala um tónlist eins og svo oft áður og leiddu samræðurnar til þess að ég fór að spá hverjir höfðu mest áhrif á tónlistarsmekk okkar. Ég get persónulega ekki nefnt neinn. Ég byrjaði að fíla allt með því að hlusta á það á eigin forsendum. Það hljómar líka ansi rökrétt. Oft heyrum við samt talað um að fólk þakki foreldrum sínum fyrir tónlistarsmekk sinn. Ég persónulega ætti að standa í þakkarskuld við pabba minn fyrir að hafa látið mig hlusta á Elton John, Fleetwood Mac, Pink Floyd og fullt fleira. En ég geri það ekki. Ekki einu sinni af þeim mörgum skiptum sem pabbi settist með mér og gróf upp einhverja plötu af safninu sínu, fílaði ég það sem ég heyrði. Þessari tónlist var þvingað upp á mig og ég gat eiginlega ekkert gert við því. Ástæðan var að hann réð ferðinni. Ekki ég. Tónlist er of persónubundin til að svona lagað geti virkað. Seinna gróf ég upp plöturnar af safni pabba míns og hlustaði í mínum eigin frítíma og uppgötvaði þau undur sem lágu á bakvið hverja hljómsveit. Eitthvað sem hefði verið ómögulegt með öðrum hætti.

Þess vegna langar mig að segja eitt sem ég beini aðallega til foreldra sem vilja endilega að afkvæmin njóti þeirrar snilldar sem þau sjálf fengu að njóta áður: Látið þau hlusta sjálf. Það nægir að þið eigið plöturnar, þau geta rannsakað þetta sjálf.

Annars hljómar þessi litli pistill eitthvað í líkingu við það sem hægt væri að lesa í vikulegum dálki hjá Dr. Phil. Ekki nógu gott.


|

sunnudagur, desember 12, 2004

Bætti Jóni og Beggu við í óskiljanlegu flippkasti. Neinei, þetta eru fín blogg.

Ég á erfiðast með að byrja að læra undir próf. Það er hjalli sem ég hræðist allan daginn og nenni ekki að yfirstíga fyrr en ég neyðist til.

Proggrokk hjálpar mér best að læra undir stærðfræði. Þessi tegund tónlist ögrar mér langmest og ég er hálpartinn að sanna fyrir ópersónubundinni tónlistinni að ég get haldið einbeitingu þrátt fyrir að ég hlusti á hana. Ég veit ekki hvernig skal útskýra þetta betur, en þetta þýðir sem sagt að ef ég myndi ekki hlusta á tónlist á meðan ég reikna myndi ég skila miklu meira af mér. En svo reynist ekki vera. Tónlistin einhvernveginn kveikir í mér einhvern keppnisskap.

Ég man eftir því þegar námsráðgjafinn kom í skólastofuna þegar ég var í tíunda bekk og kom með enn einn fyrirlesturinn um það hvernig best er að læra og hvatti alla til að taka hið hrútleiðinlega valfag, námstækni. Hún tönnlaðist endalaust á því að við þyrftum alltaf að skrifa niður allt sem kennarinn sagði því hún vissi það auðvitað fyrir vissu að enginn nemandi með fullu viti skilji neitt sem hann segir þannig að við þurfum að skrifa það niður og læra utan að til að falla ekki á prófinu. Allt svona frekar dæmigert. Hún sagði líka að við ættum að forðast að hlusta á tónlist á meðan við lærðum undir próf og hún hefði haldbæra vissu fyrir því að það gagnaðist engum. En síðan þegar nemandi rétti upp hönd og kvaðst vera ósammála henni og kom með góð dæmi um að tónlist hjálpaði til, lagði hún niður vopn og faldi sig bak við þau klisjukenndu rök, "fólk er náttúrulega mismunandi".

Ég þoli heldur ekki kvenrembur (af báðum kynjum) sem ásaka alla karlmenn vera karlrembur.

Ég er í þvílíku pirringsstuði núna, kannski er mér hollt að hætta núna áður en ég skrifa eitthvað sem ég sé eftir.


|

laugardagur, desember 11, 2004

Endaspretturinn í prófavertíðinni blasir bráðum við mér. Ég hræðist þær mögulegu afleiðingar sem þær gætu haft í för með sér. Ég blogga sjaldan jafn mikið og þegar ég ætti að lesa undir próf. Þannig að innan nokkurra daga vverður síðan í einhverri lægð nema mér takist að halda mig við efnið.

Reyndar veit ég ekki hvað ég get skrifað um núna. Prófin gera það að verkum að það er ekki hægt að gera neitt af því sem maður myndi venjulega gera um helgar. Sérstaklega þegar ég þarf að taka próf í STÆ 103 strax á mánudegi.

Ég þoli ekki stærðfræði. Ég hreinlega hef viðurstyggð á henni. Ég geri mér grein fyrir því að hún sé nauðsynleg, ég er ekki SVO bitur. En ég hef samt reynt að feta menntaveg sem krefst ekki óraunsæs magns af stærðfræðieiningum þannig að það bitni ekki á mér í framtíðinni þó ég taki ekki neina auka stærðfræði.

Það sem fer virkilega í taugarnar á mér er samt fólk sem segir að stærðfræði sé auðskiljanleg og það sé ekkert sem hindri mann í því að skilja hana. Það eina sem þarf er þolinmæði og virkilega reyna að einbeita sér að því að gera sér grein fyrir hvernig stærðfræðin virkar. Af hverju fáum við þá ekki öll 10 í stærðfræði? Hvað veldur því að margir bera svo mikinn kala eða eru hreinlega hrædd við þessa grein?

Margir reyna að fikra sig í gegnum stærðfræðina með því að læra utanbókar reglurnar og mæta svo í prófin með gegnsteyptar aðferðir en engan skilning þrátt fyrir það. Fá e.t.v. 10 á prófinu en gætu engan veginn tengt þetta við daglegt líf. Svona er þetta með flest fögin. Við gerum þetta örugglega flest í fögunum sem við erum veikust í.

Æ, þessi uppfærsla er frekar steypukennd, ég biðst forláts.


|

föstudagur, desember 10, 2004

Hmm.....kannski það hafi ekki verið svo galið af mér að skipta yfir á Firefox eftir allt saman. Allt sem ég get gert sem ég gat ekki á Safari (ég er sem sagt Makkamaður). Þetta minnir mig samt óttalega mikið á Microsoft Word.

Hljómsveit vikunnar er Pantera. Mér finnst það meira en við hæfi þar sem "Dimebag" Darrell Abbott, gítarleikari yndislegustu suðurríkjametalsveitar okkar tíma, var skotinn til bana nú á dögunum af tannlausum kalli
í slitnum netabol með neftóbak lekandi úr nösunum sem var meira en lítið ósáttur með að Abbott-bræður enduðu starfsemi Pantera til að stofna hljómsveitina Damageplan. Þetta var einmitt á kvöldi þegar þeir voru að spila þegar þessi meinti brjálæðingur og verðandi gimp í helvíti með meiru ákvað að skjóta eins og tveimur klippum með pistólunni sinni að fólki. Drap hann fjóra og særði tvo að auki áður en lögreglunni tókst að bana honum.

Lag sem er gott dæmi um snilli Dimebags á gítarinn, sem að eilífu verður aðeins minning og getum við grátið yfir því að þessi 38 ára maður hefði geta gert svo miklu meira......ahhhh: Suicide Note, p.II af plötunni The Great Southern Trendkill

---

Ég tók þýskupróf í dag. Ég var skíthræddur um að falla og verða fjölskyldu minni til skammar þar sem ég lærði ekki nema í hálftíma. En það nægði mér greinilega því þetta var ótrúlega auðvelt próf. Greinilegt að sú er raunin með öll prófin í fyrstu áföngunum.

Ræddi við Diljá eftir prófið hvernig við lítum allt öðruvísi á námið núna heldur en við gerðum í grunnskóla. Ég man hvað það þótti mikil keppnisgrein að fá sem hæsta meðaleinkunn, sérstaklega þegar við komum í 10.bekk og samræmdu prófin voru aðvífandi. Við höfðum ekki eins mikið fyrir því að ná prófum, mörg okkar gerðum þetta með vinstri (ég reyndar með hægri) hendinni og próflesturinn okkar einkenndist af því að éta nammi og horfa á sjónvarpið. A.m.k. í mínu tilfelli. Ég get ekki mögulega lært meira en tvo tíma fyrir hvert próf. Kannski ég verði bráðum að breyta um taktík.

Nú er öldin önnur. Nú er ég kominn í menntaskóla og nú verð ég að drullast til að læra ef ég á að hafa möguleika á að ná prófunum. Nú er kominn almennilegur þungi í námið. Einkunnir skipta ekki eins miklu máli, svo lengi sem það er ekki falleinkunn.

Jæja, kaffihús í kvöld, reyna að slappa af áður en endaspretturinn tekur við. Stærðfræði og líkamsrækt eftir.

Spakmæli dagsins: Bókleg líkamsrækt er hönnuð af djöflinum!!!


|

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ég fékk í hendurnar einkar fagra og stílhreina hefðarmannasokka, tvenna meira að segja svo að ég lendi seint í því að þurfa að klæða mig í þjófapör (ímyndið ykkur ef ég þyrfti nú að ganga í svona klassasokkum við einhverja Bónussokka sem líklegt er að þú finnir á tombólu lítilla krakka ásamt gömlum PEZ-köllum og skopparaboltum). Sokkar eru þær flíkar sem maður á aldrei nóg af. Það er eins og skrifað sé í stjörnurnar að þegar nýtt sokkapar er keypt eyðist annað nema að einstaklingur sjái ekkert að því að ganga í götóttum sokkum.

Persónulega finnst mér ekkert meira pirrandi en götóttir sokkar. Pirring á svipuðu stigi gæti ég talið upp hluti eins og gat í handarkrikanum á stuttermabolnum, gat á öllum tegundum handarflíka (vettlingar, hanskar, íkorni.....) á köldum, nístandi íslenskum vetrarkulda og e.t.v. gat á nærbuxum. Þetta því seinasta upp sem getgátu, hef ekki lent í því persónulega en get ímyndað mér að það geti verið alveg einstaklega krefjandi á sálræna heilsu dags daglega.

The Book of bunny suicides er bók dagsins í dag. Tók hana upp í dag og dustaði rykið af henni til að glugga í hana í fyrsta sinn í tæplega ár. Þetta er eins konar handbók fyrir kanínur í sálrænni nauð og inniheldur margar aðferðir fyrir þessi dýr til að fremja sjálfsmorð. Hef ég legið þessa vikuna yfir henni hlæjandi af mér óæðri endann oft og mörgum sinnum. Þetta er bók sem ég verð aldrei þreyttur á. Þess má geta, fyrir ykkur sem þekkið til þessarar bókar, þá er komið framhald af þessari bók og ber hún titilinn The return of bunny suicides og er til sölu á amazon.co.uk líka.

Hér er fyrsta blaðsíðan úr The book of bunny suicides:Fleira var það nú ekki í dag.


|

miðvikudagur, desember 08, 2004

Fróði er búinn að flytja síðuna sína yfir á annað URL þannig að þið sem gáfust upp á bloggleysi hans ættuð að tékka aftur á honum. Einnig hef ég bætt honum Haraldi við, skemmtilegir bloggarar sem og súrir. Vá, já, Fróði er súr!

Enskuprófið rann ljúft líkt ogvið var að búast. Það liggur samt sú bölvun á mér að ég fæ aldrei 10 í neinu. Samt fæ ég alltaf mjög góðar einkunnir, fékk til að mynda 8,4 í meðaleinkunn úr samræmdu prófunum og 9,1 í skólaeinkunn. Hæsta einkunn sem ég hef fengið í fögum síðan í 8.bekk er 9,5. Alltaf einhver fáein atriði sem ég sé aldrei í yfirferðum. Ég greinilega hef það ekki í mér að gera eitthvað algjörlega með fullri hugsun. Ég er frekar slakur í yfirferðum og dregur það mig oft á tíðum niður. Ég hef samt aldrei þurft að líða neitt sérstaklega fyrir þetta kæruleysi mitt. Próf eru bara ekki mín sterka hlið.

---

Ég á mjög erfitt með að vera í kringum 13-14 ára krakka. Tilhugsunin um að ég var einu sinni svo pirrandi og ýkt manneskja veldur mér klígju og viðbjóði. Sem fær mig til að hugsa út í stöðu mína núna. Nú er ég aftur í þeirri stöðu að vera busi. Hvernig ætli ég líti á sjálfan mig eftir fjögur ár?

Vissulega væri auðveldara að lifa án þess að spyrja sig að þessu......en er sjálfblekking af hinu góða? Fínt að vera soldið meðvitaður um þetta þó að það sé fátt sem hægt er að gera við þessu.

Fróður maður kallaði þetta "Weldschmerz" og finnst mér það lýsa því fullkomlega.


|
Ég er orðinn myrkfælinn aftur. Ég hélt að ég væri endanlega laus við þetta ellefu ára að aldri þegar hjartað hætti að slá sem andsetið væri í hvert sinn sem ég fór í háttinn. Ég man ekki einu sinni hvað ég var hræddur við þá.

Núna hefur þetta sem sagt komið aftur, sem betur fer ekki eins hræðilegt og áður. Merkilegt hvað draumar geta gert manni á svo óskiljanlegan máta. Það eina sem mig dreymdi var að ég horfði út um gluggann og ég tók eftir andliti, sem skugginn hafði hulið að hálfu, á glugga í húsi skammt hjá sem horfði til mín. Þá fékk ég allt í einu þá skelfilegu tilfinningu eins og ég hann væri að ofsækja mig og síðan þá hef ég verið skíthræddur um að hann komi askvaðandi í herbergið mitt þegar ég slekk ljósin.

Ég skrifa þetta í von um að þegar ég les þetta geri ég mér grein fyrir því hversu óraunsætt þetta er. Einskonar sjálfshjálparprógram.


|

þriðjudagur, desember 07, 2004

Bætti við enn einu blogginu í listann. Er það enginn annar en tölvunördinn elskulegi, Jón Kristján. Skemmtilegur bloggari.

Ég tók próf í dag. Kemur ekki á óvart þar sem prófavertíðin stendur sem hæst þessa dagana. Mér finnst samt að þetta próf ætti ekki að hafa neinn rétt á sér. NAT133 er sérhannaður áfangi fyrir nemendur sem eru á félagfræði- og málabraut og fer hann lauslega í grunninn í eðlisfræðinni. Eitthvað sem var til prófs í samræmdu prófinu í náttúrufræði og flest okkar lærðum í 8.bekk. Það er engu líkara en að menntamálaráðuneytinu hafi fundið til með okkur fyrir að taka svo litla náttúrufræði í menntaskóla að þeir ákváðu að skella einum í viðbót.

ÞESSI ÁFANGI ER TILGANGSLAUS!

Kennarinn gerði ekkert annað alla önnina en að velta sér upp úr sömu þvaðrinu og það í þeim tón að ekki var möguleiki að halda athygli nema í nokkrar sekúndur. Ég lærði ekki neitt í þessum tímum, ég hreinlega kom út úr skólastofunni heimskari maður. Áhrifin voru tvöföld í tvöföldum tíma og var það greinilegt því ég átti erfitt með að finna lífshamingjuna þá daga.

Ég legg til að þessi áfangi verði lagður niður. Hann er öllum til ama.


|

föstudagur, desember 03, 2004

Olgu, sem hér er um að ræða, er alltaf strítt fyrir smæð sína á leiklistaræfingum. En enginn í hópnum er í vafa um að hún leikur smástrák best af öllum.

Mæli með þessu bloggi, góður fannáll hér á ferð.


|
Ég fór í Smekkleysu plötubúðina í Kjörgarði í gær og nýtti mér tækifærið og keypti mér eitthvað allt annað en ég er vanur að kaupa. Talkie Walkie með Air, The Teaches of Peaches með Peaches og Faking the Books með Lali Puna. Allt meira og minna með snert af electronica, en ég held að ég stefni þangað smám saman næstu mánuðina, það er nauðsynlegt að snúa blaðinu við reglulega til að maður staðni ekki. Síst af öllu vil ég staðna í tónlist.

Þetta þróast samt út í það að ég kaupi fleiri diska á ári eftir því sem tónlistarsmekkur minn víkkar. Þetta er komið hátt upp í 60 diska pa. Mér sem fannst 100 diskar vera feikihátt takmark í fyrra.

Senn líður að jólum og hef ég ákveðið að biðja eingöngu um útivistarfatnað frá ættingjum. Vinir hafa meira frelsi í gjafavali sökum fátækurnámsmaður sýkinnar sem hrjáir flesta aðila minnar kynslóðar.

Cherry Blossom Girl hefur verið lag vikunnar hjá mér. Þetta er lag sem ég á eftir að hlusta á þangað til ég bókstaflega æli við tilhugsunina af því að hlusta aftur á það. Mörgum árum seinna á ég eftir að grafa upp diskinn aftur og hlusta á þetta lag á eðlilegan hátt með hinum lögunum. Ég neita að koma í veg fyrir þetta, lagið hefur einfaldlega þennan sjarma yfir sér að ég neyðist til að hlusta á það öðruvísi en allt annað. Það er ágætt að hafa stöku lög a repeat.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?