<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 31, 2005

Það er alveg yndislegt að vera úthvíldur á mánudegi, tilbúinn í allt og jafnvel hafa tíma til að búa sér til kjarngóðan morgunverð. Ég ákvað að fá mér beyglu með smjöri og osti og drekka kaffi með. Það er alltaf ákveðið þolinmæðisverk svona snemma morguns þegar skilningarvitin eru ekki alveg komin í gang, en þegar svo langur tími er til stefnu er ekkert annað hægt en að taka lífinu með ró og taka sér allan þann tíma sem þarf í þetta.

Þegar leið á lok þessara meistaraverks sem þessar beyglur voru að breytast í var munnvatnsframleiðslan hafin, sem blessunarlega benti til þess að lyktarskynið var í góðu lagi í dag og létu bragðlaukana vita með bros á vör að nú yrði hátíð.
Loks lagði ég lokahönd á þessa smíð og hóf ferð mína með morgunmatinn upp í herbergið mitt. Fór upp tvö sett aff tröppum og fór hægt um til að hella ekki niður kaffinu, lokaði alltaf eftir mér og gætti alltaf ýtrustu varkárni. Þegar hér var komið við sögu var ég kominn innan þriggja metra frá herbergisdyrunum og ákvað nú að haska mér svolítið , ég ætti það nú skilið að byrja sem fyrst að fylla maga minn þessu góðgæti. Sé ég þá út undan mér eina beyglusneiðina renna af disknum, og lenda, samkvæmt lögmáli Murphys, á hliðinni sem smurt var á beint á gólfið. Á sekúndubroti var þessi himnasmíð orðin að hinu mesta óæti beint fyrir framan augun á mér, án þess að ég gat gert nokkuð til að stoppa það.

Ég var kominn of langt til að svekkja mig yfir svona smáræði. Ennþá ætti ég tvær beyglur eftir. Þess vegna tók ég beygluna af gólfinu með sömu ró og ég hafði vaknað með og henti henni í ruslið. Síðan hóf ég aðra atlögu að síðustu metrunum að herberginu mínu. Mér til enn meira svekkelsis gerist það nákvæmlega sama aftur. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hafði misst tvo þriðju af morgunmatnum. Það sem eftir var nægði ekki upp í nös á ketti. Það lá við að ég gréti af mér augun, svo leiður var ég.

Með tárin í augunum tók ég beyglu #2 upp úr gólfinu og henti henni í ruslið. Nú fór ég með einstakri varkárni inn í herbergið mitt og tókst sem betur fer að halda í þessa seinustu.

Ég veit fátt gremjulega svo snemma morguns.

Öll þessi skrif um beyglur minnir mig á þegar Zakki kom með þá hugmynd að bjóða sig fram pro bono sem starfsmaður í Bagle House til þess eins að njóta þeirra tækifæra sem bjóðast fólki sem finnst mammaðín-brandarar fyndnir.

A: Hvað er beygla mánaðarins?
Zakki: MAMMAÐÍN!!!


|

laugardagur, janúar 29, 2005

Sælinú.

Beneventum er komið! Allir meðlimir NFMH geta sótt sitt eintak í Sómalíu næstu dagana. Endilega tékkið og biðst ég fyrir hönd Beneventi afsökunar á þessari klúðurslegu seinkun

Það var mjög gaman að fá loksins að sjá blaðið, klárað og ekki óbundið eins og ég þurfti að sjá það fyrir. Það munar miklu finnst mér. Eyddi góðum tíma í Sómalíu í gær við að dreifa þessu til fólksins. En í eyðum þegar færri voru á ferli las ég greinarnar og finnst mér mikið komið til þeirrra flestra. Næsta blað verður samt miklu betra, sanniði bara til. Ég er sjálfur að klára þrjú atriði sem eiga að vera í blaðinu.....við erum miklu skipulagðari núna en áður, enda veitir ekki af.

Síðasta sýning Matraðarinnar er í kvöld og eftir það verður haldið í Álftanesið þar sem ég þarf að sníkja far hjá einhverjum með bílpróf þar sem láðist að redda rútu fyrir liðið. Æjj, ég sé samt fram á ágætispartí. Alltaf ágætisstemning hjá hópnum. Yndislegasti hópur sem ég hef verið í, tvímælalaust. Takk kærlega fyrir allar stundirnar í Loftkastalanum. Þið vitið hver þið eruð.


|

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Ég skil ekki hvað allt þetta mál er varðandi dönsku. Ég hreinlega skil ekki hvers vegna þetta er kennt þegar jafnvel kennararnir hafa takmarkaðan áhuga á faginu.

Alla mína skólagöngu hafa 7 dönskukennarar kennt mér. Einn þeirra lagði metnað sinn í að kenna okkur dönskuna almennilega. Lét okkur glósa sama hlutinn aftur og aftur þangað til við gerðum þetta rétt. Ef við grðum stafsetningarvillu fengum við að endurtaka æfinguna þangað til við gerðum hana villulaust. En síðan fór ég í 9.bekk og þá tók við sama vitleysan.

Ég hef tekið eftir miklum mun milli dönskukennara og allra hinna tungumálakennara að því leyti hvernig þau kenna málið. Öll hin tungumálin læri ég frekar fljótt vegna þess að kennararnir sanka að sér fullt af gagnlegum æfingum til að æfa okkur í ákveðnum þáttum sem gagnast okkur við notkun málsins. Aðeins þessi eini dönskukennari fór eftir þessari formúlu. Allir hinir gengu út frá því að ef við vorum búin að glósa um eitthvað einu sinni, þá væri það okkar sök ef við höfðum ekki lært þetta. Þetta er aðalástæða þess að ég og margir aðrir nemendur finnst við hafa staðnað í tungumálinu, sem er mjög óheppilegt því alltaf þyngist danskan og okkur eru settar meiri kröfur.

Kennarar segja sér til málsbótar að við lærum ekki dönsku vegna þess að það sé svo hipp og kúl að hata hana. Má vvera að það spili svolítið inn í. En kennararnir gera ekkert til að áhuginn batni. Þeir hafa greinilega jafn lítið gaman að þessu og við nemendur.

Hver er þá tilgangurinn?


|

sunnudagur, janúar 23, 2005

Ég get vart lýst því með orðum hvað ég varr yfir mig hrifinn af myndinni Oldboy. Fór á hana í góðra vina hópi og er ennþá að n´mér eftir alla þessa snilld sem var næstum því banvæn, svo mikið magn barst mér í einu. Quentin Tarantino er sagður hafa slefað yffir þessari mynd. Skil ég það fullkomlega. Hann hefur loksins hitt ofjarl sinn. Það verður gaman að fylgjast með samkeppninni milli þeirra næstu árin.

En vá! Allar mannlegar og dýrslegar upphrópanir heimsins á öllum tungumálum, lifandi, dauðum og ekki ennþá fæddum hjálpa lítið til að skiljist hvað myndin var áhrifa mikil. Þess vegna var ég orðlaus fyrsta hálfftímann eftir að ég kom af salnum. Þessi mynd sprengir alla gæðamæla á öllum sviðum. Hún var næstum því óaðfinnanleg. Ég var sérstaklega ánægður með tónlistarvalið. Þvílík snilldarhugmynd að nota alla þessa klassík sem til hefurr verið öldum saman í staðinn fyrir að eltast við það sem er artí og trendí á þeim tíma sem myndin er gerð. Tryggir henni ennfremur sess sem sígild kvikmynd. Ætli hún sé ekki nú þegar búin að tryggja sér það? Hjartað mitt sló milljón aukaslög í hvert sinn sem tónlistin hækkaði á hárréttum augnablikum og spilaði tónverk sem pössuðu andrúmsloftinu svo óaðfinnanlega. Hver nóta var jafn óneitanlega mikilvæg og hefði einhverri verið sleppt hefði allt eyðilagst.

Plottið var líka geðveikt. Vá. Ég eyði ekki einu sinni orðum í það.

Drífið ykkur að sjá hana! Núna! Skrópið í skóla ef þarf!


|

föstudagur, janúar 21, 2005

Ég vil héðan í frá vera kallaður Lofthjúpur alheimsvitundarinnar af mínum fjarlægustu kunningjum og ókunnugum sem þekkja til mín.

Einnig vil ég þakka engisprettunni Haraldi fyrir ómælda viðbragðsflýti þegar hann skaut sjálfan sig óvart með boga og örvum en greip skotið áður en það hitti litlu tána á sér sem hefði orðið honum til mikils ama.


|

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Skoðanaleiðangur minn á frönskum kvikmyndum hélt áfram í gær þar sem ég fór á Le convoyeur (Peningabíllinn) sem er flokkuð til spennumynda.

Ég veit ekki hvað skal segja um þessa mynd. Vissulega er hún mjög evrópsk. Hún er mun dýpri í persónusköpun en flestar Hollívúdd spennumyndirnar en lakari í spennunni, þó að hún hafi verið þónokkur. Hún hafði mjög hlutlaus áhrif á mig. Ég get ekki sagt til um hvort hún sé góð eður léleg. Rétta orðið sem ég get fundið á þessa mynd í augnablikinu er eflaust skrýtin. Því það var hún svo sannarlega. Þetta er án efa skrýtnasta mynd semég hef á ævinni séð og það án þess að flokkast á neinn hátt undir súrrealisma. Hún vr bara í alla staði skrýtin á eins venjulegan hátt og hægt er að ímynda sér. Ég mli með þessari mynd e.t.v. til að verða fyrir þessari reynslu (sem ég gæti verið búinn að eyðileggja fyrir ykkur núna með þessari umsögn).

Það sem mér fannst samt mjög flott við myndina er að ég komst ekki að neinu bitasttæðu um aðalpersónuna fyrr en í bláendann og ánægjan yfir því að geta loksins skilið plottið var hreinnt yndisleg. En það krefst þolinmæðis og var ég næstum búinn að missa hana þegar fór að síga í seinni helming myndarinnar.

Þetta er mynd sem ég á eftir að röfla um sjötugur.

Jahérna hér, rosalega var sú mynd skrýtin skal ég segja þér, ég barasta botna ekkert í henni ennþá
[andvaka upp í rúmi að ímynda sér samtal milli sín og barnabarns]


|

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Mánudagar eiga það til að vera mjög leiðinlegir.

Fór í gær í góðra vinahópi á A la petite semaine (sem var þýdd frekar skringilega: Frá degi til dags) sem er sýnd meðal annara franskra kvikmynda á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói. Ég sleppti mér aðeins og skellti mér á passann sem gerir mér kleift að fara á allar myndirnar einu sinni og borga ég þá tæknilega 400. krónur á hverja mynd. Ég komst líka að því að sódavatnið úr vél er miklu betra en Toppur og miklu ódýrara þó það sé meira magn......

Ég fékk netta nostalgíu við að sjá fyrstu mínútur myndarinnar. Ég man ekki hvenær ég sá síðast franska mynd......langt síðan. Ég hef alltaf heillast af hraðmælgi og hröðu samskiptaformi Fransmanna, óskandi þess að ég hefði átt heima lengur í Frakklandi til að geta haft meira vald á málinu á við innfædda. Það eina sem ég kann núna er hreimurinn. Hitt þarf ég að læra eins og hver annar og erfiða jafn mikið, því miður. Franskur húmor finnst mér líka alveg yndislegur. Greinilegt var samt að sumir bíófélaga minna voru ekki á sama máli. Besti dómurinn sem féll á þessa mynd frá vinuym mínum var í kringum "ágætt". Sjálfur var ég hálfsvekktur því ég hafði mjög mikið gaman af þessari mynd, en kannski er það sökum (þökk sé?) að ég hrjáðist af fráhvarfseinkenni.

Þessi mynd virkaði á mig sem nokkurs konar feelgood mynd. Ekkert rosalegt að gerast, engin tilgerð og sá sem sá um tónlistina tók aldrei neitt rosalegt sjálfselskukast í tónlistarsköpun sinni. Leikurinn hefði mátt vera betri hjá nokkrum en mér fannst hinir bæta það stórlega upp, sérstaklega hinn spilasjúki og misheppnaði smákrimmi Didité (að mig minnir að hann hafi heitið). Flottir svipir á köflum sem bókstaflega sögðu ALLT! Gaman að því.

Eftir myndina fórum við samferða upp á Mokka þar sem við ræddum um heima og geima líkt og fyrri daginn og vorum við sammála um að þetta hafi verið einn besti mánudagur sem við höfðum upplifað. Takk kærlega fyrir samveruna í gær: Zakki, Bjarni, Ásgeir, Guðrún Stella, Dóra, Regína, Melkorka og Þórdís (Steinunn, ég saknaði þín).


|

mánudagur, janúar 17, 2005

Diskarnir hrannast upp sem ég er búinn að kaupa mér en er ekki búinn að setja í tölvuna og hef þar með ekki hlustað á þá almennilega. Þar má meðal annarra nefna Le voyage dèsirè með gítarsnillingnum Silvain Luc, sem ég sá nýverið á NASA spila með Birni Thoroddsen, og nýji Hljómar diskurinn. Bæði eru þetta diskar sem ég get ekki beðið eftir að hlusta á en greinilega hef ég ekki látið verða að því þó að nægur sé tíminn sem ég hef.

Zakki kom í skólann í dag eftir þvílíka pest sem hann náði sér í laust eftir áramótin. Vart er hægt að ímynda sér þá gleði sem heltók mig þegar ég gat loks yrt á hann í eigin persónu í stað þeirra of fáu skipta sem ég hringdi í hann. Ætla ég hálfpartinn að fagna þessu þar sem við ásamt nokkrum öðrum ætlum á frönsku kvikmyndahátíðina sem er um þessar mundir.

Við í leikhópnum sýndum núna í þriðja skiptið Martröðina og finnst mér hún loksins hafa staðið undir nafni. Hún leyndi þó á sér því við byrjuðum vel og vorum öll með hugann við þetta. Opnunaratriðið tókst fullkomlega og enginn gleymdi línu og allt leit út fyrir að þetta yrði okkar besta sýning. En sökum keðjuverkana í tæknihliðinni, lítilsháttar vandamál sem urðu stærri með tímanum og kæruleysi okkar leikaranna gagnvart snúrum sem lágu í myrkrinu bakvið, varð þetta orðið frekar klúðurslegt. Það verður fast í minni mínu nokk lengi fyrsta atriðið fyrir hlé. Venjulega á tónlistin að hefjast um leið og kviknar á sviðsljósunum en í staðinn kom ekkert og stóðum við eins og hálfvitar að reyna að halda andliti. Þegar þögnin var orðin óbærileg kom loksins bjargvættur atriðisins, Einar nokkur Aðalsteinsson í hlutverki Gylfa trúðs og sagði skemmtilegar sögur af því þegar hann var í Úkraínu með tennisliðinu sínu og allir tennisboltarnir sprungu......en ekki dugði það til, enn þurftum við að standa eins og þvörur og bölva margir sér fyrir að hafa ekki gert neitt til bjargar, líkt og Einar. En vita máttu að við stöndum í þakkarskuld við þig.

Samt. Shit. Þetta má aldrei gerast aftur. Fyrr kasta ég mér fram af bjargi.

Merkileg staðhæfing sem hún Steinunn upplýsti mig um. Greinilegt er að vísindamenn með mikinn frítíma hafi komist að þeirri niðurstöðu að ef þú þyrfti að velja milli dauðdaganna, annars vegar að drukkna og hins vegar að detta fram af bjargi, þá sé það kynbundið (sé það gefið að manneskjan hafi ekki reynslu af hvorugu).

Karlar völdu í 100% tilvika fyrri valmöguleikann, drukknun og er ég ekki undantekning.

Konur völdu í 100% tilvika hinn kostinn, að detta fram af bjargi.

100% er of tilviljanakennt til að þetta sé tilviljun. Einhvernveginn held ég samt að einhver ætli að vekja athygli á sér og velja akkúrat vitlaust. Það endar alltaf þannig.


|

laugardagur, janúar 15, 2005

Það kviknaði í hárinu á mér!!!


|

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Ég er kuldaskræfa. Ég vil helst ekki fara út á veturnar þegar kuldaboli er sem skæðastur nema vel dúðaður í lopapeysu og úlpu utan yfir, trefil, húfu, tvö pör af vettlingum og kuldaskó svo að ég beinlínis svitni að innan. En þar sem ég hef takmarkaðan tíma til að gera mig reiðubúinn fyrir strætó sem ég er alltaf skíthræddur um að missa af á morgnana fyrir skólann, verð ég að láta nægja hefðbundin útiklæðnað og þjást af hrolli. Rosalegt borgarbarn get ég verið!

Ég var samt ekki svona sem krakki. Alveg síðan ég man eftir mér hef ég getað þolað köldustu frostbit í stuttermabol með ís í annarri hendinni. Þennan vetur hefur sannast að nú hafa einhverjar breytingar orðið á mér. Samt segist ég alltaf þola öfgar í veðurfari mjög bærilega, til að sýna machohliðina á mér þegar það er við hæfi (hvenær er það annars við hæfi?). Þannig að í þeim efnum rígheld ég mér í fortíðina.

Það er mjög gremjulegt að lifa allt í einu án þæginda sem þessara. Þetta krefst nokkuð róttækra breytinga á manni sjálfum og maður er ekki alltaf tilbúinn fyrir það.

---

Það er mjög fyndið hve viðutan hægt er að vera á morgnana. Það hefur komið fyrir að ég hafi farið út úr húsi á morgnana og fattað að ég hafði gleymt að fara í skó. Augljósasta vísbendingin var hversu kalt mér var á fótunum. Ég stend mig líka oft að því að drekka kaffið mitt með skeið og eitthvað þannig rugl. Núna síðast tók ég að mér að sjá um þá flóknu aðgerð sem liggur á bakvið að galdra fram svartbaunaseyði (kaffi). Er ég nú nokkuð laginn við það þar sem ég hef lært af þeim bestu frá blautu barnsbeini og byrjaði að drekka þetta glundur sjö ára að aldri. Mér brást þó bogalistin greinilega því þegar ég tók minn fyrsta gúlsopa lá við að ég gæti ekki haldið honum niðri. Til að þetta skiljist best: Þetta kaffi var of þunnt til að teljast te.

Ég skildi auðvitað hvorki upp né niður í þessu öllu saman og hóf að rannsaka málið en án árangurs. Ég hafði ekki gleymt neinu........þar til ég sá nýmalað kaffi ennþá í kaffikvörninni.

Kaffi runnið í gegnum korg síðan daginn áður er ekki það besta í heimi. Trúið mér.


|

mánudagur, janúar 10, 2005

Þórdís er byrjuð að blogga og er hún ferskasti hlekkur blogglistans míns. Einnig hefur pabbi minn tekið upp á því að blogga aftur eftir margra mánaða hlé og getið þið fundið það hér.

Vil líka benda á þetta, endilega takið þetta próf:

bell hooks
You are bell hooks (no capital letters)! You were
one of the first black wymyn to discuss in
public spaces the differences between being a
black womyn and being a black man or a white
womyn. You are the mother of intersectionality
and you couldn't care less about identity
politics. Thanks for making feminism accessible
and calling the white, middle class wymyn on
their bullshit!


Which Western feminist icon are you?
brought to you by Quizilla

Það er nokkuð skondið hvað mér tekst að gleyma því marga daga í röð að lána vinum mínum geisladiska. Ég hafði lofað Ölmu Peaches disknum mínum síðustu tvær vikur og lánaði ég henni hann loksins í dag. Þetta er ekkert einsdæmi, hvorki hjá mér né öðrum. Ég held samt að oftast sé ástæðan sú að samræður um að lána hvor öðrum geisladisk eru ekkert alltaf á alvarlegu nótunum. Við segjum aldrei beint: „Geturðu ekki komið með diskinn á morgunn“ að fyrra bragði út frá léttu spjalli. Hugmyndin sprettur oftast frá þeim sem ætlar að lána: „Ég skal lána þér hann einhverntímann“. Síðan er ekkert hugsað um það meir. Það er þá á valdi þess sem fær lánað að fá diskinn í hendurnar. En einhvernveginn treystir fólks sér ekki til að taka það skref. Persónulega líður mér hálfskringilega að minnast á umrætt tilboð um geisladiskalán hálfum mánuði eftir að samræður áttu sér stað. Hver gleymir ekki svona löguðu? Fólk heldur að það hafi auðveldlega á hættu að koma illa út úr þessu.

Reyndar á þetta ekki við um Ölmu og mig. Hún bað mig að fyrra bragði á nokkurs tals fyrir um að ég skyldi lána henni diskinn einhvern tímann. Ég var bara gleyminn. Mjög gleyminn.


|

sunnudagur, janúar 09, 2005

Kláraði loksins Fugitives & Refugees eftir Chuck Palahniuk. Þetta er ekki skáldsaga eins og fólk myndi halda miðað við að Chuck er frægastur fyrir þær, sérstaklega Fight Club. Þessi bók er ítarleg frásögn um Portland í Oregon, allt frá framburði innfæddra til dýragarða, frá klámbúllum og dragdrottningastaða til vistgarða og skrýtinna safnara á heimsmælikvarða. Inn á milli koma síðan sögur af honum sjálfum þar sem hann upplifir mest megins af því sem hann mælir með því að þú skulir skoða í Portland sem túristi. Mjög skemmtileg bók.

Þessa bók tók mig mjög langan tíma að lesa. Ég byrjaði á aðfangadag og kláraði hana í kvöld. Hún er 175 blaðsíðna löng. Ég er hvorki hæglesinn né lélegur í ensku og ég var lengi að pæla í því hvers vegna ég er lengi að lesa bækur því þetta er síður en svo einsdæmi um lesvenjur mínar. Ég er umkringdur fólki sem les svona bækur á einum eða tveimur dögum og fer síðan rakleitt í næstu bók. Flestir sem ég þekki lesa ákveðinn fjölda bóka á mánuði og finna sér mjög gjarnan tíma til þess að lesa auk skólabókanna. Þau lýsa því fyrir mér hvað það er ómögulegt fyrir þau að skilja við bókina fyrr en hún er lesin. Þau vaki heilu næturnar til að klára þær og þeirra fyrsta verk eftir að koma heim úr skólanum er að halda áfram með bókina.

Ég hef þetta greinilega ekki í mér. Mig vantar þennan drifkraft sem flestir hafa sem er afleiðing þess að tengjast bókinni sinni tilfinningarlegum böndum á einhvern hátt. Ég hætti þegar ég nenni ekki að lesa meir, þó að ég sé á mjög áhugaverðum kafla og ég hafi virkilega gaman að bókinni. Síðan yfirsést mér næstu vikurnar að lesa áfram í bókinni þannig að venjulega er ég einn eða tvo mánuði að lesa eina skitna bók.

Lendir einhver annar í þessu? Einhverjar ráðleggingar sem ykkur lesendum dettur í hug?


|

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Einn af helstu kostunum semég sé við að vera í málabraut sést best í nýju stundatöflunni minni. Eini áfanginn sem er ekki tungumál á vorönninni hjá mér núna er stæ203. Ég held samt að þetta bjóði hættunni heim því ég gæti auðveldlega gleymt því að velja hina áfangana, eins og sag103 og allir NAT áfangarnir. En það er fínt að taka eina önn í afslappelsi, sama hvenær á námsferlinum það gerist.

Annars þarf ég að fara að mæta aftur í skólann og hefst það formlega á morgun þegar ég þarf að mæta kl. 8:30 í frönsku. Og eins og fyrri daginn hefur mér ekki ennþá tekist að snúa sólarhringnum við. Þetta er eilíf barátta við mitt óhýðna sjálf sem ég þarf að há eftir löng frí.

Ég hef samt heyrt niðurstöður frá rannsóknum úti í hinum stóra heimi að fólk er gjarnara til að mæta á réttum tíma og skila af mér vinnu ef það mætir klukkutíma seinna en venjulega, þ.e.a.s. kl. 9 í staðinn fyrir 8. Ég svosum skil hvers vegna. Það hljómar miklu betur að vakna kl. 8 á morgnana en 7, sama hvenær háttatíminn er. Svona er nú mannskepnan skrýtin. Það er hægt að blekkja hana með svo auðveldum hætti án þess þó að það bitni á því, samt neitar hann í flestum tilfellum að láta verða af þreóun í þá átt. Ég væri alveg til í að vinna í samfélagi þar sem allir mæta kl. 9 í staðinn fyrir 8. Og þar sem það hefur sannast að það sé hagkvæmara, hví ekki að hrinda þeirri þróun í framkvæmd?

Pera er nýji uppáhaldsávöxturinn minn. *slurp*


|
Var að spá í því að uppfæra, orðið langt um liðið síðan síðast.

Eftir fjóra tíma þarf ég að vera mættur upp í MH til að ná í nýja stundartöflu. Ég held samt að margur businn sé á því að þurfa ekki að mæta fyrr en kl. 4. Sjokk.

Tvær skólasetningar á ári er eitthvað sem ég á eftir að þurfa að venjast. Ég vorkenni Rektor fyrir að þurfa að skrifa alltaf nýja ræðu fyrir hverja önn. Ætli hann sé ekki orðinn drulluleiður á því að tala alltaf um það sama; "ný önn blasir við eftir gott jólafrrí o.s.frv.o.s.frv.o.s.frv.o.s.frv.o.s.frv.o.s.frv.". Þetta gerir hvorugum gott. Nemendur nenna jafn mikið að hlusta á ræðuna og hann nennti að skrifa hana. Þess vegna legg ég til að skólinn sé formlega settur með skothvell eða þvíumlíku. Tónleikar finnst mér að væri góð hugmynd. En fyrri tillagan tekur fljótar af...

Ég hef vanmetið kosti tedrykkju alltof lengi.


|

laugardagur, janúar 01, 2005

Gegn mínum vilja drattaðist ég frekar snemma á fætur í dag þar sem fjölskyldan kom saman til að fagna því að amma mín, Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fékk Fálkaorðuna uppi á Bessastöðum fyrr um daginn. Skemmtilega súrt að sjá að nafnið hafði verið slegið inn inn vitlaust í umslagið....

Þessa dagana hef ég verið að hala niður svolítið af öðruvísi tónlist, miðað við það sem ég hlusta á í augnablikinu. Kallast stefnan chip-rock og einkennist af því að tónlistin er samin og spiluð gegnum fjórar rásir, hvorki meira né minna. Fólk heyrir þessa tónlist dags daglega þegar það spilar tölvuleiki í Gameboy. Þið sem viljið kynna ykkur þessa tónlist ættuð að fara á Þessa síðu. Margt skemmtilegt þar og mæli ég sérstaklega með tónlistinni frá Lo-Bat. Margir af tónlistarmönnunum á þessari síðu gefa alla (eða því næst) tónlistina sína ókeypis.

Ég er búinn að vera með Alone in Kyoto á heilanum í marga daga og það hefur versnað (batnað?) eftir að ég náði að plokka það upp á gítarinn. Mér finnst svo langt síðan hann kom út, samt var það bara snemma í fyrra. Alltaf margt sem gerist á hverju ári á frekar stuttum tíma finnst manni, síðan þegar árið er loks gert upp er eins og miklu lengri tími hafi liðið. Ég hef núna tekið þátt í tveimur söngleikjum, klárað einn skóla og byrjað í öðrum, keypt nýjan gítar......allt virðist svo langt síðan, nema reyndar seinni söngleikurinn sem er ennþá í gangi.

Ætli þeir sem ekkert sofa upplifi árið tvöfalt?


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?