<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sá fyrsta svala fótboltamanninn sem ég hef séð í langan tíma í fréttum í dag. Ástæðan fyrir hve svalur hann er er sú að hann hefur fundið leið til að leika á andstæðingana með mjög áhrifaríkum hætti, en hann tekur upp á því þegar hann á við ofurefli að stríða að vippa boltanum upp og halda honum á lofti skallandi. Þetta varð til þess að sá se var á móti honum þegar það gerðist, varð svo gramur að hann sparkaði allhressilega í brjóstkassann á skallaranum mikla, sem missti loks boltann.

Þegar allt annað bregst og maður verður að játa sig sigraðan er alltaf freistandi að beita tuddaskap svona til að eiga síðasta orðið. Það sannast alltaf best í fótbolta, þar sem mannskepnan í allri sinni dýrslegu mynd tekur þátt í leik sem hægt væri að færa mjög góð rök fyrir að væri í rauninni tilraun svipuð og mennskir lífffræðingar framkvæma á ýmsum nagdýrum.


|

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Þessi jesúvika í MH hefur valdið því að ég lít á aðra öðrum augum. Margt fólk sem ég hélt að væri mjög lokað og feimið vegna þess hve lítið það tekur þátt í félagslífi skólans fékk að njóta sín í kristilegum gjörningi, hvort sem um leikrænan eða hljóðrænan var að ræða. Og auðvitað fylgir með að aðalumræðuefni vikunnar tengist jesú-fyrirbærinu á allan hátt. Sumir harðlega á móti því að þetta fólk valsi um skólann að boða erindi sitt, telja að þröngvað sé að sér en sjá svosum ekkert að því að venjulega spilar einhver rokkhljómsveit í hádegishléinu eflaust einhverjum öðrum til mikils ama. Aðrir að reyna að sjá þetta með augum annarra trúarhópa og sjá þetta sem mismunun þó að hvergi komi það fram hjá þessum trúboðum að slík sé ætlunin. Bæklingar sem endursegja og einfalda frægustu dæmisögurnar og flytja mjög steiktan boðskap (koma frá þessu útgáfufyrirtæki).

Talaði við trúboða frá Hvítasunnusöfnuðinum á Vestmannaeyjum. Hann höfðaði aðeins meira til mín en Hollendingarnir, mest megins vegna þess að hann tróð ekkii upp á fólki. Allir sem töluðu við hann höfðu haft fyrsta orðið og töluðu við hann á eigin ábyrgð á meðan Hollarnir stoppuðu fólk og vildu endilega eyða tíma þess hvort sem því líkaði það eður ei. Hann var voðalega blíður og greinilega mjög öruggur á hvað hann trúir. Smám saman tók ég eftir ýmsu sem við vorum ósammála um eins og hið klassíska dæmi um samkynhneigða. Komst líka að því að hann veit að hann lifir betra lífi en ég.

Ég hef svo gaman að svona víðsýnu fólki. Það gerir heiminn svo betri fyrir okkur hin.


Hress boðskapur. Rosalega langar mig að hafa svona rétt fyrir mér.


|

sunnudagur, apríl 17, 2005

Næsta laugardag mun pabbi minn vera með innlegg sem ber heitið „Skynsöm trú“ á ráðstefnu um vísindi og trú, en aðgangur á þá ráðstefnu er öllum heimil og kostar ekki neitt. Þannig að ef þið hafið ekkert að gera milli 10:00 til 16:30 (eða kannski bara frá 15:10 til 15:55 þegar pabbi kemur með innlegg sitt) þá mæli ég sterklega með því að mæta í sal 101 í Lögbergi, einni af háskólabyggingunum. Ég held að þið munuð síður en svo tapa á því.

Þið sem viljið og hafið prentara til afnota gætuð boðað erindið með því að prenta út og dreifa þessu plakati.


|

föstudagur, apríl 15, 2005

Var í strætó á leiðinni heim vegna þess að fyrsti tíminn féll niður og ég þarf ekki að mæta aftur fyrr en kl.13:50. Þetta er kosturinn við áfangakerfi. Í stætó hitti ég manneskju sem ég hitti nokkuð reglulega, þó með frekar miklu millibili, og vegna þess hve lítið ég þekki hana er varla hægt að segja að kominn sé grundvöllur fyrir neitt áhugavert spjall. Hins vegar togar á móti að ég er ekki alveg ókunnugur manneskjunni þannig að það væri hreinlega ókurteist af mér að hundsa hana. Ákveðinn línudans. Þekkiði ekki tilfinninguna?

Það sem meira er við þessháttar atburðarrásir er að oft kemur það fyrir að ég sleppi mér alveg í blaðrinu og skynja eins og ég sé að halda manneskjunni áfram í strætó þegar hún loksins þarf að fara úr honum. Mennskjan tjáir með líkamanum að nú þurfi samtalinu að ljúka. Allt frekar eðlilegt, ekki satt? Þetta verður auðvitað til þess að ég samkjafta eftir síðasta punkt í málsgrein, viðmælanda til mikils fagnaðar, býst ég við.

Væri fyndið að reyna á hversu óþolandi hægt er að vera einungis með því að hundsa þessa einföldu líkamstjáningu. Ekki að mig langi það neitt sérstaklega, en stundum leynist púki. Hversu óþolandi væri það að ákveða allt í einu að fara út á sama stoppi og viðmælandinn einungis til að halda áfram að tala um ekki neitt og jafnvel taka á sig krók frá sínum áfangastað?

Ætli þetta eigi ekki best heima í myndasögum?


|

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Mig dreymdi allfurðulega í nótt. Á einhvern hátt kom ég mér á stað úti í óbyggðum Íslands. Ég myndi þekkja staðinn í sjón aftur en held ekki að hann sé til neins staðar. Það er samt eflaust ekkert mál að skapa fjallendi með ógrynni af mosalögðu hrauni og grjóti og þar fram eftir götunum.

Þar var ég sem sagt að slappa af með vinum, í gömlu húsi og nokkur hús voru í kringum þetta hús, a.m.k. eitt. Síðan allt í einu byrjar að gjósa upp úr eldlínu, svipaðri og þeirri sem hóf eldgosið í Heimaey. Allt grjótið og hraunið skýst upp með gosinu eins og risastór ormur á hreyfingu og það endar með því að hraunið byrjar að vella allt í kring um okkur í átt að okkur. Ég dáist að þessu fyrirbrigði í stutta stund. Ranka síðan við mér og reyni að finna leið út úr þessu. Við hlaupum í átt að húsi í grennd við okkur en fólkið þar á bæ er að bisa við að gegnsósa húsið sitt af einhverjum glærum vökva, eins og bensín.

Mig langar í Stóru draumaráðningabókina. Það er ekki langt í 17 ára afmælið mitt þannig að það er ekki of snemmt að pæla í þessu...


|

laugardagur, apríl 09, 2005

Ojæja, hver sagði að það væri ekki hollt að tapa stöku sinnum? Ég er mjög sáttur við X - Bómull. Ég hef góða trú á að þau láti listalífið í MH blómstra, en ég verð samt alveg megafúll ef þau standa sig ekki. Ekki bregðast mér ;)

Mér finnst svo ömurlegt að þurfa að múta úr fólki atkvæðin. Mér finnst svo leiðinlegt að við höfðum jafnvel fengið svo mikið fylgi einungis vegna þess að við nenntum að standa í því að gefa nammi og sjá fólki fyrir afþreyingu. Hin voru bara betri í því. Ég er samt aðallega bara fúll vegna þess að við fórum að plana hvað við gætum gert sem listafélag síðan í byrjun árs, síðan fréttum við rétt fyrir páskafrí að við fáum sterkt mótframboð og þá þurftum við að fara að stressa okkur á því að þurfa að vera í kosningabaráttu. Ohh.....þetta er svo svekkjandi. Annars er kannski gott að sjá svolitla uppstokkun í stórfélaginu. Það getur alltaf leitt til einhvers góðs. Verst kannski að hún varð ekki meiri en þetta.

Ég er líka fúll yfir kosningum fyrir ritstjórn Beneventi næsta skólaár. Stefna þeirra sem unnu er að gefa út fleiri rit á skólaárinu en þessi hefðbundnu tvö og hafa þau þá minni í sniðum. Er ekki svoleiðis rit til fyrir? Halló! Fréttapési! Á að leggja það niður kannski?

Eitt svolítið fyndið en á sama tíma mjög sorglegt kom uppá í kosningavökunni. Komst í ljós að hvorki meira né minna en 11% skiluðu auðu í kosningum um ritsjórn fréttapésa þrátt fyrir að aðeins eitt framboð bauð sig fram í það ráð án þess þó að nokkur ástæða væri fyrir hendi. Þetta var með mesta magni auðra seðla í kosningum þar sem eitt framboð var í kosningunum.
Framboðið lofar mjög góðu, gaf út kosningapésa í lit og ætlar að gefa fréttapésa út í því sniði allt árið, sem aldrei hefur verið gert áður. Þeir hafa sýnt það að þau eru traustsins verð, flestir frambjóðanda eru saman í einu virkasta listafélagi sem NFMH hefur haft frá upphafi auk þess sem þau hafa mörg hver sannað sig sem þokkalega penna.
Ég heyrði, og reyndar veit að þetta er engin fjarstæða, að fjöldi auðra og ógildra seðla orsakaðist að einhverju leyti af órökstuddri fýlu í garð nafni framboðsins, en þau kölluðu sig X - D. Kannski var við þessu að búast, það er mjög einkennandi fyrir mennaskólaaldurinn að vilja tjá það opinbert hversu æðislega þenkjandi maður er. Er þetta þá ekki kjörinn staður til að vekja athygli á sér? Ég býst við því. þetta er einmitt aðalþema skrifa fréttapésans næsta skólaárs. Þeir eru einfaldlega komnir með upp í kok hvað þessi póll í hæðina þykir ofboðslega trendý.

Kannski ég ætti að hætta að skrifa þegar ég er í fýlu...


|

föstudagur, apríl 08, 2005

Kosningavaka í kvöld. Viðrar vel til magasárs. Mótframboðið okkar, X - Bómull, hófu baráttuna með mikilli athyglissýki; sápukúlur, bókaupplestur og gáfu poppkorn í barnavagni. Ofsalega artí. Síðan á miðvikudaginn var þetta orðið frekar jafnt hjá okkur, en þau höfðu leigt Candy-floss vél á meðan við gáfum nammi og kók en báðu var fagna jafnmikið held ég, Auk þess sýndum við afskaplega skemmtilegt kynningarmyndband sem viðstaddir hlógu mikið að. Á fimmtudaginn gáfum við í X - Zúúúber fólkinu bollu sem innihélt Sprite, klaka, appelsínur og eitthvert greip sem fór vel í flesta, á meðan hljómsveitin UHU spilaði í hádegishléinu í bolum sem auglýsti okkur.

Það er svo stressandi að standa í kosningabaráttu. Svo er ekkert víst að við munum vinna. Ég er sjálfur skíthræddur við mótframboðið, en það er meira tengt grasrótinni og höfðar eflaust til góðs markhóps innan MH. Annars var ég að heyra að hræðslan væri gagnkvæm. Þau í X - Bómull skelfa jafn mikið og við. Merkilegt.

Svo er Beneventumhittingur um helgina. Rokk!


|

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Einhverntímann á ævinni á ég eftir að fá magasár.


|

mánudagur, apríl 04, 2005

Systir mín hin yngsta, sem verður tíu ára í nóvember, hefur komið upp bloggi með hjálp okkar sem erum reyndari í þeim málum eftir að hafa þurft að þola endalaust "plísgerðuþað". Þá er í rauninni öll fjölskyldan komin með blogg fyrir utan móður mína, a.m.k. að ég viti. Kannski ég hafi sér fjölskyldudálk fyrir linkana til hægri, ekki svo galin hugmynd.

Eitt sem ber að varast þegar þið lesið blogg yngstu systur minnar, Mörtu. Þannig er mál með vexti að sérviska fjölskyldunnar felst í því að nota önnur orð yfir hversdagslega hluti en tíðkast. Skoddi þýðir sjónvarp en orðið er dregið af skoðunarvarp. Zapp eða zapparú þýðir sjónvarpsfjarstýring og er það vegna þess að maður ímyndar sér að einskonar zapp!-hljóð komi í hvert sinn sem ýtt er á einhvern takka. Reyndar kemur svoleiðis hljóð þegar kveikt er á skoddanum en núna notum við ekki fjarstýringuna til þess þannig að ég efast að þetta sitji eins vel í Mörtu og það gerir í mér þar sem ég ólst upp við þetta hljóð.

Önnur orð sem búin hafa verið til í fjölskyldunni eru öllu venjulegri:

beygjuglaður komið af beyglaður (fólk vill meina að þaðan komi orðið (djók)
dapur þýðir hryggur (af húsdýri, tilbúið til átu sbr. lambadapur)

Hversu margar kynslóðir ætli muni erfa þessa sérvisku? Mér er spurn.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?