<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 31, 2005

Af einhverjum undarlegum ástæðum skrifaði ég niður í minnisbókina að ég þyrfti að fræðast um þroskastig kívífuglsfósturs í eggi. Það atvik átti sér stað um tvöleytið að morgni til þegar svefnhöfgi var mér næstum að roti.

Sex tímum seinna fór ég í tölvuna og minntist þessara skrifuðu orða þegar ég fletti í hinum ótalmörgu sögum sem ég er að vinna að og loks smellti þetta allt saman.

Nú þarf ég bara að koma mér í hugarástand lífveru í lokuðu, litlu og dimmu umhverfi, án þess að vera búinn að öðlast skynjun, tilfinningu né meðvitund. En það má ekki hindra mig. Eitthvað hlýtur kívífugl að hugsa áður en það klekst út úr eggi sínu.


|

fimmtudagur, maí 26, 2005

Ég var í mjög hversdaglegu vafurs-stuði þegar ég kom inn í búðina í dag. En ég kom auga á disk sem ég hafði áhuga á og kostaði ekki of mikið þar sem ég hugðist ætla að eiga 500 kjell fyrir tónleikana í kvöld, en UHU eru að spila á Ömmukaffi kl.20:30. Ég hélt að ég hefði lagt á minnið hvar ég hafði fundið hann þannig að ég hélt áfram að vafra, e.t.v. í von um að finna eitthvað safaríkara jafnvel fyrir minni pening. Ég spjallaði í stutta stund við afgreiðslumanninn, sem er alltaf rosalega hress og mjög hjálpsamur og næmur á hvaða tónlist maður væri líklegur til að fíla. Svo fór ég aftur að disknum til að taka hann upp og á endanum kaupa.

Þá komst ég að því að í þetta skiptið hafði augnminnið brugðist mér og ég gat engan veginn fundið diskinn, þó að ég hafði verið handviss um að hann hefði fundist í tilteknum rekka. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst mér ekki að framkalla í minningunni hvaða hljómsveit eða nafnið á disknum sem ég ætlaði að kaupa mér og gerði það mér enn erfiðara fyrir. Þannig að ég hafði fyrir því að leita líka í hinum rekkunum og hreinlega fínkembdi þá.

Smám saman var ég kominn á það stig að ég skyldi sætta mig við hvað sem er sem væri undir 2000 kr. því það væru líkur á að það væri diskurinn sem ég hefði verið að leita að allan tímann. Svo gerði ég enn eina örvæntingarfulla tilraun til að leita að disknum í rekkanum sem ég byrjaði á og finn hann eftir tíu sekúndur! Ég þekkti diskinn strax aftur og það ljómaði yfir mér þegar ég tók utan um hann með það fyrir vissu að brátt yrði hann minn. Þar með tók ég aftur upp fyrri gleði og hljóp í strætó á leið heim.

Heimsóknir í Smekkleysubúðina geta verið svo spennandi.


|

mánudagur, maí 23, 2005

Dead Lift prísa sig sem fremsta í sínum flokki í heimaborg sinni New York, en þessi hljómsveit er greinilega rjóminn af Rapp/Metal fusion senunni þar um kring. Mér heyrist á öllu eins og þeir séu barasta eina rapp/metal fusion hljómsveitin í borginni því þeir hljóma ekki eins og þeir hafi nokkra samkeppni. Eða hvað? Þið getið dæmt sjálf

Hér er svo myndband við lag sem mér finnst ótrúlegt að hafi náð opinberri spilun.

Úff....þetta minnir mig svo á þá tíma þegar ég hlustaði á Linkin Park. Þegar ég minnist þeirra tíma...ojj. Auðvitað var ég ungur og heimskur þá en sumu eru ekki neinar afsakanir fyrir. Ég geri mér annars grein fyrir því að þeir sem semja þessa tónlist eru gaurar sem eru mun eldri og reyndari en ég. En einhvernveginn enda þeir á því að spila tónlist sem er hvað mest fyrirlitin? Hvað ætli vaki yfir þeim? Annað hvort gera þeir sér ekki grein fyrir því að virtari metalistar hati þá eða að þeim er alveg sama um þá. Ég held að pönkhugsjónin komi ekki til greina. Það er einfaldlega ekki hægt að vera don't-give-a-damn og ógeðslega svalur og spila síðan snargelt nümetal sem síðan er sýnt á MTV.

Ég á kannski ekkert með að dissa hljómsveitir. Það merkilega er að maður fattar það síst sjálfur hversu góð/slæm hljómsveitin sín er. Tónlist sköpuð í góðum fílíng, lög sem gaman er að að spila því maður kann það vel því það kom frá manni sjálfum. Svo er annað mál að koma því í þannig búning að bæði sé gaman að spila það og að þetta sé virkilega áheyrendavæn tónlist (í hvaða skilningi sem það má virðast). Áheyrendavæn tónlist er samt eitthvað sem nýlega hefur orðið ágreiningsefni í hljómsveitinni. Nú allt í einu er almennur vilji fyrir hendi að henda ákveðnum pörtum af lögum sem þykja "úr samhengi" og lengja lagið. Ég er hálfsmeykur við þetta, þó að auðvitað sjái ég ekkert að því að betrumbæta lögin, en það er bara ekki hægt að gera það einhvernveginn. Svo finnst mér gaman að hafa eitthvað svolítið ögrandi í lögunum. En þetta er eitthvað sem verður að kljá úr á næstu æfingum.


|

laugardagur, maí 21, 2005

Stórfélagsferðin í gær gekk framar mínum vonum. Allt leit út fyrir að við yrðum í kringum 25 þegar mest léti sem er innan við helmingur fjöldans sem mætir venjulega í þessar ferðir og þess vegna leist fólki ekki allvel á blikuna. En greinilegt var að það var góðmennt þrátt fyrir allt og endaði þetta með því að vera sú besta af ferðunum semég hef farið. Því má sérstaklega þakka nýja Myndbandaráðinu, Megatron, sem voru alveg eiturhressir allan tímann, eða þar til farið var að sofa í kringum fimmleytið. Úff.

Svo er úrslitakeppni Júróvisjón í kvöld. Margir vilja núna byrja að kalla þetta Balkanvisjón vegna þess hve lítinn séns evrópska poppið hefur í keppnina eftir að stokkaðist almennilega upp í keppendum og fleiri þjóðir fengu að keppa. Ég sá það strax á keppninni að miðað við stemninguna kæmist Ísland ekki neitt langt með þessu lagi, hefði verið sigursælla fyrir 5 árum. Ég gæti samt ekki verið sáttari við keppnina í ár. Mér finnst hún bjóða upp á þvílíka fjölbreytni, annað eins hef ég ekki séð. Hármetall frá Noregi sem minnir á Kiss og Twisted Sister (ég held með þessu lagi, pottþétt). Þýska lagið er líka nokkuð flott, tekur mikið tillit til proggmetalhausanna sem fá aldrei nóg af Nightwish en það er mikið af þannig gaurum er mér sagt í Balkanlöndunum og þar í kring. Úkraínumenn koma með vel heppnað rapplag, reiðir og pólitískir gaurar þar á ferð og mér sýnist þeir ekki vera neitt að sýnast. Aukaplús fyrir það. Ég var samt frekar fúll yfir því að Slóvenska lagið komst ekki áfram. Ef til vill var það ekki nógu formúlerað til að það henti júró. Án efa besta lagið, fyrir utan norska lagið. Þið getið skoðað þessi lög á Eurovision.tv.

Ojæja, aðeins tveir tímar í keppnina.


|

þriðjudagur, maí 17, 2005

Síðasti prófdagur fyrir marga MH-inga rennur upp í dag á meðan minn gerði það fyrir helgi. Svo vill til að allir hinir í Cynics eru að taka próf í dag þannig að við æfum ekki neitt sérlega snemma í dag.

Ég átti erfitt með að sofna í nótt því að þegar ég átti minnst von á því fékk ég mjög skýrar hugmyndir um einhverja texta, persónusköpun og þvíumlíkt. Hefði ég ekki verið svona agalega þreyttur hefði ég hlustað á hjartað og verið vakandi alla nóttina að skrifa tölvuna mína í drasl. Núna hefur skáldagyðjan yfirgefið mig aftur.

Annars er þetta bull með skáldagyðjuna frekar þreytandi. Það er ekki hægt að reiða sig á að sú dís heimsæki mann hvenær sem maður þarf á henni að halda. Og hvað þá? Á þá bara að sleppa því að reyna á sína skapandi eiginleika? Bíða þar til hún kemur aftur? Sköpun er 90% vinna! Það þarf þvílíka vinnu til að slípa hugmyndina þannig að hún skíni sem best.

Ég er farinn að skrifa. Bæbæ


|

sunnudagur, maí 15, 2005

Ég held að loksins núna eftir óralangan tíma gefist mér tími til að lesa mér til afþreyinngar án þess að það komi skólanum neitt við. Held að loksins núna geti ég verið bjartsýnn á að klára Fight Club sem ég hef verið að bisa við að lesa í um tvo mánuði. Einstaklega hnyttin og svöl bók.

Önnur bók sem ég ætlla mér að lesa í sumar er sögubókin sem kennd er í Sag103, en ég ætla að taka þann áfanga í P þannig að ég þarf ekki að mæta í neina en þarf bara að skila verkefnum á réttum tíma og mæta í prófin. Þess vegna er kannski fínt að lesa þetta yfir sumarið og glósa og þá þarf maður ekki endalaust að bölva þessum yfir veturinn. En hvað ég er nú forsjáll. Hins vegar þarf ég að fylgja þessu eftir og oftar en ekki klikka ég á því.

Já, sumarið er í loftinu. Kaffihúsin byrjuð að raða fáeinum borðum fyrir utan svo að fólk geti reykt og andað að sér ferska loftinu í sumarlegri fílíng. Kvöldmatarleyti í kringum tíu á kvöldin því alllir halda að klukkan er sjö og grill í öll mál þannig að maður verður leiður á því í kringum kvöldkaffið. Jeee, lífið er alltaf gott á sumrin.


|

miðvikudagur, maí 11, 2005

Ég hef aldrei á ævinni tárast yfir lélegu gengi í prófi....fyrr en nú. Ég hélt að tveir dagar af próflestri, í fagi sem ég hef áhuga á, myndi duga til að tryggja mér sæmilega einkunn. Í staðinn blasti við mér erfiðasta próf sem ég hef á ævinni þurft að þreyta. Á tímabili hugsaði ég að nú væri öllu lokið, ég myndi enda sem róni á Hlemmi því að ég ann íslensku en stenst ekki lágmarksprófkröfur.

Ég einfaldlega er ekki skapaður til að taka próf. Ég þori að veðja að aðrir séu það ekki heldur sem þó kunna sitt fag jafnvel og að drekka vatn. Próf eiga ekki að skipta svona miklu máli. Það er hvort eð er fullt af litlum prófum innan annarinnar að það er ekkert annað en hrein grimmd að reyna að hanka mann á einhverju sem farið var í fyrr á önninni.

Villi á samt heilræði dagsins, sem hann veitti mér korteri eftir próf þegar ég var á barmi taugaáfalls, hræddur um orðstír minn og tilbúinn að deyja af smán. Ekki vera fúll fyrr en þú færð einkunnirnar. Takk Villi, þú ert gull af manni.

Ps. Fyrr á árinu var mér hótað í hálfkæringi af félaga mínum að mér skyldi vera Bader-Meinhoffað. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað það þýddi fyllilega fyrr en í strætó á leiðinni heim á meðan ég var að melta morðsögu frá Hólmfríði Helgu.

Pps. Schnilld!


|

föstudagur, maí 06, 2005

Ég tek meira og meira eftir því hvað tónlistin í dag er sett á ótrúlega háan hest. Talað er um hana sem byltingu sem jafnast á við bítlaárin. Þá er mikið minnst á helstu The hljómsveitir nútímans.

Ég veit nú ekki hvort þetta sé nokkuð tónlistarbylting frekar heldur en trend sem hefur gengið frekar langt....en kannski á sú skilgreining við flest tónlistartrend. Þetta trend sem er í gangi núna virkar á mig sem samanbræðingur frá fyrri tímum. Hrátt pönk sett í mjög skemmtilega poppaðan búning með mjög grípandi og ferskar melódíur blandað við eitthvað frá bítlaárunum.
Mjög skemmtilegt en ekki neitt sérlega byltingarkennt.

Bylting er kannski frekar sterkt orð, tónlistin hefur alltaf þróast með minniháttar (mismunandi minniháttar) skrefum og þótt stöku sinnum hafi verið ósætti milli stefna, þá hefur á endanum alltaf náðst sátt. Djass vs. klassík, rokk vs. djass, pönk vs. popp/rokk.
Sjálfur held ég mikið upp á 80's senuna sem í sjálfu sér var rosalegt statement en ég held að það sé endalaust hægt að rífast um hvort það hafi verið bylting eða ekki. In the 80's skipti ekki máli hvort þú spilaðir popp eða metal, þú leist alltaf jafn druslulega út (nema David Bowie). Reyndar finnst mér 80's vera sú yfirlýsing innan tónlistarinnar sem bar mest á sér. Hún var svo stórt stökk yfir í eitthvað allt annað. Frá því að vera argasti hippi lengst til vinstri reykjandi óskeikulan sannleikann yfir í að vera glansandi fulltrúi auðvaldsins og mála sig eins og vændiskona (ef þú varst karl). Reyndar stoppaði tónlistin stutt við í diskóinu en staðreyndin er ennþá sú að þetta er eflaust mest áberandi umbreyting á tónlistartendi síðustu og núverandi aldar. E.t.v. vegna þess að popp, rokk og metal; meginstefnurnar á þeim tíma, stóðu saman að yfirlýsingunni.

Kannski mætti líta á þá tónlistarstefnu þá sem komst næst því að vera bylting.

Mig langar í ristað brauð. Ég held að ég fái mér ristað brauð. En hvað þetta var nú gott ristað brauð.

Góða nótt.


|

miðvikudagur, maí 04, 2005

Jahhá.....sannarlega er það nú skemmtilegt að eiga afmæli í miðri prófaviku. Reyndar er ég nokkuð heppinn því fæstir fara í næsta próf fyrr en á mánudaginn þannig að mér leyfist að gera eitthvað skemmtilegt með vinum. Annars lítur þetta út fyrir að verða ansi góður afmælisdagur. Þokkalega margir búnir að óska mér til hamingju án þess að ég þurfti að minna það á það og síðan fékk ég fínar afmælisgjafir og stendur hæst upp úr nýjasta plata hljómsveitarinnar Fantômas, Suspended Animations. Þvílík plata!

Rosalega hlakka ég til frumsýningar Hitch Hiker's Guide to the Galaxy.

(Nokkuð skondið hvernig hver bloggfærsla getur minnt mann á tilgangslausustu hluti þegar líður á tímann...)

Lag dagsins


|

mánudagur, maí 02, 2005

Eftir tvo daga gæti ég verið kominn með bílpróf hefði ég haft áhuga á því að læra á bíl. Þetta eru merkileg tímamót í lífi jafnaldra minna sem ég missi af sem leiðir til þess að 17 ára afmælið hefur sama glans yfir sér og 19 ára afmælið. Oddatölur eru ekki alltaf rosalega vinsælar. Hvergi í náttúrunni muntu rekast á þríleggja dýr sem er þannig af náttúrunnar hendi án þess að kallast fatlað. Hins vegar fæ ég fullt af drasli í herbergið til mín í kringum afmælisdagana. Má þar nefna vínilplötuspilara, magnara og skítsæmilega hátalara svo að ég geti grúskað almennilega í plötunum sem eru til heima.

Ég er alltaf svo dauður yfir vorprófin. En hvað það er nú hress tilbreyting.


|

sunnudagur, maí 01, 2005

Það hlaut að koma að því einhvern tímann. Það væri heimskulegt af mér að reyna að flýja núna. Stundum neyðist maður til að gera eitthvað leiðinlegt. Annars er ég ekkert stressaður fyrir vorprófin, ég er ágætlega stæður í öllum greinunum, þó ég vildi óska að ég hefði verið aðeins heppnari með einkunnir í íslensku svo ég þurfi nú ekki að reyna að fá 9 eða 10 á prófinu til að skríða inn í hraðferð í haust. Annars gerði ég svipað í fyrra þannig að vonandi tekst mér það aftur.

Prófvikan byrjar líka með rosalegu blasti þar sem ég er ekki með nein námsgögn til að læra undir fyrsta prófið, ÞýS203 þar sem ég skildi það eftir í bílnum hans Jónasar þegar við vorum að læra saman undir það. Hins vegar þarf ég ekki að ná nema lágmarkkseinkunn og þá verð ég með 7 í heildareinkunn. Kosturinn við þessa prófviku er annars sá að það er ekki alltof mikið af prófum í röð og auk þess tek ég ekki próf á afmælisdeginum mínum, 4.maí, en það hef ég þurft að gera of oft í röð.

Sumarið er virkilega byrjað að bera á sér þessa dagana en ég hef verið viðstaddur þrjú grillboð í röð; tvö á föstudaginn og eitt í gær. boðið í gær var einkar skrautlegt en þar skiptust flestir á því að bragða á svínshjarta sem einhver keypti í einhverju flippi. Metalhausar eru svo skemmtileg fyrirbæri.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?