<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 28, 2005

Ég man að um svipað leyti í fyrra fór ég á tónleika með Yes í Þýskalandi og hafði ekki heyrt svo mikið sem tón frá þessum gaurum. Það eina sem ég vissi að þeir voru samtímamenn Pink Floyd og Genesis og áttu þátt í að skilgreina bresku proggsenuna. Ég hafði heyrt um hljómborðsleikarann goðsagnakennda sem hafði hátt uppí fimmtán hljómborð og hljóðgervla og misnotaði hljóðin á skemmtilegan hátt.

Ég fór einn á tónleikana og allt í kringum mig var fólk sem var tvöfalt á við minn aldur og ég var í mjög víkjandi aldurshóp í höllinni. Allir kunnu textana utan að og það myndaðist nokkuð skemmtileg stemning. En ég tók aldrei þátt í því. Ég skapaði mína eigin stemningu byggða á því að hverja sekúndu upplifði ég sem algjörlega nýja lífsreynslu. Allt var svo flott, ögrandi, kraftmikið, súrt......svo toppaði það allt þegar horaður gamall kall með risastór gleraugu tók upp kassagítar sem virtist vera á stærð við hann og tók tryllt gítarverk eftir sig í þrjár mínútur. Steve Howe (gamli horaði gítarleikarinn) hefur upp frá því verið mér áminnig um hversu flippaðir klassískt lærðir hljóðfæraleikarar geta verið.

Sonic Youth spila um miðjan ágúst á NASA. Ég er búinn að næla mér í miða fyrir 17. þess mánaðar. Ég hef ekki heyrt neitt með þeim. Ætli ég upplifi eitthvað svipað?


|

þriðjudagur, júní 21, 2005

Það er örugglega komið ár síðan ég lauk við Brave New World eftir Aldous Huxley. Eftirstríðsárin urðu einn besti grundvöllur fyrir allskonar gagnrýni varðandi útópíu, annað eins tímabil hefur ekki komið á okkar tímum enn. Í strætóferð á leiðinni á kaffihús hlaut ég lokins betri skilning á hvers vegna útópía er ekki aðeins ómöguleg, heldur líka nokkuð sem ætti að forðast. Þetta mun líklegast verða til þess að ég taki oftar strætó, e.t.v. lengri leiðir, en það er annað mál.

Huxley skapaði útópíu byggða að miklum hluta á óaðfinnanlegu áróðurskerfi, til að móta samfélagið líkt og leir. Hann skapaði misháar vinnustéttir fólks og það var ræktað á þann hátt að starfið sem hver stétt átti að sinna hæfði þeim líkamlega. Og frá blautu barnsbeini varð fólkið fyrir skipulögðu áreiti sem hafði áhrif á hvað því líkaði, mislíkaði og hvernig það leit á sjálft sig. Hver vinnustétt var látin vera ánægð með að vera ekki ofar eða neðar, fólkið var látið hlusta á upptöku sem kom því á þá skoðun að þægilegast væri að vera t.d. Delta. Delta manneskjur eru ekki eins gáfaðar og Gamma og þurfa því ekki að sinna erfiðari vinnu sem felur í sér meiri ábyrgð, en hins vegar eru þær ofar Epsilon, sem Delta fólki er kennt að fyrirlíta. Epsilon fólk fengi þá að sama skapi upptöku sem spiluð er á næturnar sem segði þeim að best væri að vera Epsilon.......nokkuð skothelt kerfi.

Út frá þessu fór ég að pæla hvort Útópía væri nokkuð rétt markmið. Ef fullkomið samfélag felst í því að enginn sjái neitt að honum er það frekar rotið markmið.

Ég held samt að fyrst verði að gera upp við sig hversu mikilvægt það er að geta gagnrýnt samfélagið. Þessi eiginleiki held ég að sé meginhindrunin í vegi markmiðsins að fullkomnu samfélagi, en tilgangur gagnrýninnar er oftast til að færa okkur nær því.

Kaldhæðni?


|

laugardagur, júní 18, 2005

17. júní hefur aldrei farið vel ofan í mig í þau skipti sem ég er svo óheppinn að vera innanlands. Þetta árið þjónaði þessi dagur tilgangi tólfta klukkuslagsins á áramótunum, þegar fólk strengir heiti fyrir komandi ár. En mitt mun vara ævilangt.

Ég mun aldrei aftur að vinna sjálfboðavinnu hjá skátunum á stórhátíðardegi!

Fyrst af öllu ber að nefna að ég þurfti að mæta á staðinn kl. hálf átta að morgni til og setja upp ótalmörg tjöld, færa til hoppukastala og burðast með allan fjandann þar til klukkan byrjaði að ganga tvö eftir hádegi. Þá biðu okkar herir af pirruðum foreldrum sem örguðust yfir því að ekki væri búið að blása hoppukastalana upp og gátu einfaldlega ekki sætt sig við misskilninginn hjá Mogganum, sem auglýsti að dagskrá Skátalands hæfist á slaginu eitt, þegar sannleikurinn var sá að hún byrjaði klukkan tvö. Sumir foreldranna voru greinilega vel undirbúin og mættu með eintak af Morgunblaðinu til að geta hellt sig yfir okkur skátapeyjana. Það var ekki séns að neinn þeirra jafnvel nennti að líta í kringum sig til að finna þann sem stjórnaði þessu batteríi. Í rauninni er þeim líkast til skítsama um dagskránna, þau bara grípa gæsina þegar hún gefst og hella sér yfir alla undirmenn sem þau komast yfir.

Svo loksins voru uppblásnu skemmtitækin tilbúin til almenns brúks og mynduðust geysilangar raðir fullar af krökkum sem sumir hverjir létu ekki að stjórn á meðan foreldrið leit í hina áttina. Og aldrei var þessi ókeypis skemmtun nógu góð fyrir foreldrana og þurftu sum hver að skella skuldinni á mig. Of stuttur tími í leiktækin, of langar raðir, fólk að troðast í röðum.....

Ég entist til kl.5. Eftir það rölti ég heim á leið og tók brjálæðiskast innra með mér og sagði upphátt með sjálfum mér vel valdar setningar í ímynduðum samræðum milli mín og einhvers foreldris sem hefðu gert hvern sem er algjörlega kjaftstopp.


|

miðvikudagur, júní 08, 2005

Vá. Ég verð alvarlega að passa mig betur á rituninni. Síðasta uppfærslan mín, sem aðeins innihélt eina staka málsgrein, var svoleiðis grútmygluð af villum. Jahér, og ég sem tel mig vera upprennandi rithöfund.

Ég veit samt ekki hve stæður ég væri í ritun annars ef ég hefði ekki prangað á þetta bloggdæmi fyrir rúmum tveimur árum. Ég væri a.m.k. ekki eins meðvitaður um hið skrifaða mál og hefði þá áhugi minn tengdur því líklega ekki fæðst.

*

Beneventum er loksins innan færis almennings. Við í ritstjórninni höfum þurft að bíta í það súra epli að horfa upp á keðjuverkunina sem hóft með því að skila öllu efninu til hönnuðarins ekki aaaalveg á réttum tíma. En það varð til þess að henni gafst ekki nægur tími til að klára blaðið fyrir prentun ogg þess vegna var blaðið ennþá í prentun þegar staðfestingardagur loksins rann upp. En nú efst meðlimum nemendafélagsins að sækja það uppí Norðurkjallara í dag og á morgun milli kl. 17 og 20. Þeir sem eru ekki meðlimir NFMH geta keypt það á 300 kr.

Þrátt fyrir hversu ólík skólablaðsvinnan var frá því sem ég hafði ímyndað mér þá myndi ég eflaust ekki hika við að gefa kost á mér aftur einhvern tímann seinna. Kannski á fjórða ári.

Það verður gaman að fylgjast með hvernig næsta ritstjórn plumar sig.


|

mánudagur, júní 06, 2005

Fólk sem semur lag og texta um látinn ástvin og selur það dýru verði pirrar mig.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?