<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 29, 2005

Rúmlega vika síðan ég bloggaði. Ég vildi blogga inn á milli en neyddist til að láta það vera sökum þess að ég tók vikulangt lúðakast uppi á Úlfljótsvatni ásamt óteljandi fjölda annarra skáta víðsvegar að úr heiminum og netkaffihúsið sem sett var upp í svonefndu „ráðhúsinu“ var alltaf troðið.

Á þessum tíma rifjaði ég margt upp í fari mér sem ég gleymdi næstum því. Byrjum fyrst á þeirri staðreynd að ég er harður mótmælandi alls sem kallast getur höstl (og vil ég um leið benda á að daður og höstl er ekki það sama). Bannsett skátaafstyrmi sem geta ekki fundið sér neitt betra að gera en að reyna að fá sér að ríða. Það á sjálfu landsmóti skáta sem aðeins er haldið á þriggja ára fresti. Maður hefði nú haldið að fjölbreytni í dagskrá sem skapast hefði á þeim tíma nægði öllum....og fjölbreytnin var mikil og góð.

Mér finnst milljón sinnum skemmtilegra að spila á kassagítar heldur en rafmagnsgítar. Reyndar á ég oft erfitt með að gera upp á milli vegna þess að það er margt við kassagítarinn sem heillar mig. En kassagítarinn er svo stöðugur félagi.....nánast eins og þriðji handleggur. Það fékk ég að upplifa á þessu blessaða skátamóti.

Mórallinn milli íslenskra skátafélaga er ekki eins og ég kysi að hafa hann. Þetta bitnaði helst á því fólki sem engum hafði gert neinum neitt. Þannig er það alltaf.......óvild er smitandi.

***

Þessa dagana hefur áhugi minn beinst að litum. Litir geta á nokkuð auðveldan og áreiðanlegan hátt sagt nokkuð margt um það sem undir okkur býr, hvað við stefnum að, hvað kemur okkur úr jafnvægi og hvers vegna. Hér gefur að líta lítið og sætt próf sem gæti mögulega varpað ljósi á vandræði þín, lesandi góður. Kannski ekki. Þetta virkaði mjög vel á mig, ég get ekki tryggt að þetta virki undantekningalaust. En þetta er ágætis dægrastytting.


|

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Stöku sinnum kemur fyrir að ég uppgötva að ég hef einhverja dulda og mér áður leynda hæfileika á ýmsum sviðum og verður það oft til þess að ég byrja að hafa áhuga á því sem þetta tengist. Þessir hæfileikar eru mismerkilegir en mér finnst ég alltaf geta talið mig hafa ákveðið innsæi í málið. Þetta hlýtur að koma fyrir alla, ekki spurning.

Þegar ég var sex ára var ég staðráðinn í að verða sjóari. Sú ákvörðun var tekin stuttu eftir að mér hafði tekist undir leiðsögn að veiða fyrsta þorskinn minn.
Tíu ára gamall uppgötvaði ég að ég gat sitthvað í vörn í fótbolta. Ég náði nokkuð oft að bjarga liðinu mínu fráglötun, einfaldlega með því að hafa alltaf í við sóknarmennina og skjóta boltanum fram. Ekkert flókið markmið en greinilega vafðist það fyrir öðrum varnarmönnum.
Þrettán ára gamall fékk ég áhuga á lögfræði eftir að hafa komist í tæri við The Practice. Ég reyndi að hugsa eins og lögfræðingarnir í sjónvarpinu, vera alltaf pottþéttur á öllu. Gallinn var hins vegar sá að ég gat ekkert æft þetta áhugamál neitt þannig að fljótlega dó það nú.
Íslenskutímarnir í 10.bekk urðu til þess að ég fékk miklu meiri áhuga á íslensku en áður. Ég var byrjaður að fikta við smásögur, sniðið varð alltaf stærra og stærra og ég fór að lesa skáldsögur í þeim tilgangi að fá tilfinningu fyrir stílfræðinni. Og til þessa dags hef ég stefnt að því að vera rithöfundur.


Ég var að spá í að reyna fyrir mér sem módel...

Ég væri samt að ljúga ef ég segði að ég væri algjörlega staðráðinn. Margt annað flækist inn í þetta. Á tímabilum tek ég einhverjar dellur sem vara ýmist yfir stuttan eða langan tíma og nú er svo komið að ég veit ekki í hvað ég ætti að halda. Ég fékk skyndilegan áhuga á myndlist, þ.e.a.s. að gerast myndlistamaður og allt sem því fylgir. Síðan langaði mig að ganga lengra með það og skrifa myndasögur (það var samt algjört flipp því ég heillaðist svo af American Splendor). Nýjasta dellan mín tengist sálfræðinni. Upp á síðkastið hafa samtöl mín við vini mína verið mjög opnandi í þeirra garð. Og auðvitað oftúlka ég það og kemst að þeirri niðurstöðu að ég hafi hæfileika tengda aðferðafræðinni bakvið sálfræðina. Hversu oft sér maður þetta í bíómyndum? Hversu margir í raunveruleikanum ætli falli í þá gryfju að komast að því að það hafi hæfileika og telja að málunum sé þar með reddað? Bíómyndirnar taka það ekki með í reikninginn að manneskjan hefur marga hæfileika og það væri fáránlegt að reyna að sinna þeim öllum. Við þurfum á endanum að velja.

Ég taldi mig vera genginn í gegnum þessa kreppu. Lífið lumar alltaf á nokkuð óþægilegum trompum þegar síst á von á.


|

sunnudagur, júlí 10, 2005

Ef ég kynni að tjá huglæga þögn með orðum gerði ég svo.

Þannig líður mér í augnablikinu.


|

sunnudagur, júlí 03, 2005

Föstudagurinn 1. júlí 2005 er skrásettur hjá mér sérstaklega vegna þess að þann dag fékk ég símhringingu frá pabba mínum. Ég á reyndar ekki að tala í símann á meðan ég er í vinnunni en þar sem krakkarnir á leikjanámskeiðinu voru ekki með nein læti treysti ég mér til að svara símanum. Og ekki sá ég eftir því. Pabbi bar þau skilaboð að ég hefði fengið bréf frá Hagstofu Íslands sem staðfesti bæði að ég er utan trúfélags, en síðast en ekki síst get ég réttilega skrifað mig sem Tumi Ferrer.

***

Í gær öðlaðist ég reynslu af koffínofneyslu. Eftir sjö ára reglulega kaffidrykkju (byrjaði sjö ára reyndar en ekkert alvarlega fyrr en tíu) veit ég núna takmörkin mín. Þetta uppgötvaði ég eftir tíunda kaffibollann minn á innan við klukkutíma í Kaffibrennslunni á meðan ég var að tala við vinkonur mínar. Allt í einu byrjaði ég að skjálfa eins og ég væri allt í einu haldinn sviðsskrekk og ég tuggði tyggjóið mitt í tríólu við mjög hratt teknólag.

***

Ég er ömurlegur í Singstar.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?