<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, september 25, 2005

Davíð náði að "klukka" mig nú á dögunum sínum gegnum bloggið sitt sem ég komst að rétt áðan að er komið upp loksins aftur. Þetta "klukk" er greinilega nýjasta fyrirbærið í óteljandi bloggtrendum. Vegna þess að ég var klukkaður þá á ég að nefna fimm staðreyndir um mig og svo á ég að klukka aðra. Ef það væri hægt að niðurhala því og hljóta tölvuvírus frá þessu þá héti þetta fyrirbæri "ruslpóstur" eða "keðjubréf" en álit mín á eftirtöldu er afskaplega keimlíkt. En ég skal láta undan í þetta eina skipti þar sem ég hef lúmskt gaman að því að greina sjálfan mig í skilgreiningar svo að fólk geti lifað áfram í þeirri trú að við höfum öll afkaplega afmarkaðan og einfaldan persónuleika. Hljóma ég bitur?

En jæja, hér kemur naflaskoðunin:

1. Ég er áhugamaður um íslenska málfræði
Frá því mér tamdist viðtengingaháttur nútíðar og framtíðar seint í níunda bekk var í rauninni ekki aftur snúið. Setningafræðin í tíunda bekk og málsagan í ÍSL203 hélt þessum blossandi áhuga jafn funheitum og hann var þá. Lengi vel fékk ég samt leiða af öllu sem við kom íslensku vegna þess hvað hún var mér auðveld en á sama tíma er mér sagt að ég hafi þérað sundlaugarvörðinn þegar þurfti að reima skóna mína (ég var 6 ára).

2. Ég er alæta á tónlist.
Ég vil benda á að ég er mjög meðvitaður um það hve margir fussi yfir þessari staðhæfingu og hef ég oft þurft að verja þetta eðli mitt. Röksemdafærslur á þá leið að ég geti ekki verið alæta því ég hafi ekki og geti ekki með nokkru móti hlustað á alla tónlist sem samin hefur verið, sé ég alæta sé öll tónlist jafngóð fyrir mér, KissFM til proggrokks, Darkthrone til Michael Bolton. Mér finnst þetta óraunhæfar kröfur og hugtakið "alæta" er ekki það mikið um sig að um eitthvað guðlegt sé að ræða þannig að enginn geti komist á þetta stig. Ég lít á mig sem alætu vegna þess að ég hlusta á það sem mér finnst best úr öllum tónlistarstefnum. Ef fólk er ósátt með að líta á mig sem "alætu" er það velkomið að líta á mig sem "áhugamann um tónlist", mér er sama. Tónlist, sem fyrirbæri, heillar mig.

3. Ég hef órökréttan huga
Ég rausa rosalega mikið þegar ég rökræði og mikið af því er endaþarmstalsmáti. Samt er ég svo þrjóskur og veit innst inni að ég hef rétt fyrir mér að ég get haldið rökræðum gangandi af miklum eldmóð svo dögum, jafnvel vikum skiptir. Málið er að ég skil hlutina fullkomlega en mér tekst aldrei að útskýra þá fyrir öðrum á sannfærandi hátt og þess vegna er auðvelt að hanka mig í algjört kjaftstopp.

4. Ég er guðleysingi
Takið eftir, GUÐ-leysingi, EKKI TRÚ-leysingi. Munurinn finnst mér aðallega liggja í því að ég hef trú á sjálfum mér og legg traust í mörg veraldleg fyrirbæri eins og sjálfan mig, foreldra mína, að strætó keyri mig í skólan á virkum dögum, hið góða í fólki. Hins vegar upplifi ég ekkert sem ég get með nokkru móti kallað guð og hversu heimskulega sem það virðist hljóma fyrir einhverjum þá er það eina ástæðan fyrir því að ég trúi ekki á guð. Trúleysingjar hins vegar, eins og nafnið bendir til kynna, hafa ENGA trú á NEINU. Engu sem ég taldi upp og miklu meira en það.

5. Ég er bældur
Ég veit ekki almennilega hvernig ég ætti að orða þetta.

En nú jæja, þá er víst kominn tími fyrir mig til að klukka einhvern.....

Fyrir valinu verða:

Regína
Hílga

Ég nenni ekki að sýna fram á vinsældir mínar á bloggi.


|

föstudagur, september 23, 2005

Sumarblíðan hefur nú kvatt Frónið í ár. Hefst nú tími hetjulegrar baráttu við svefndróma snemma hvers morguns þar sem skammdegis skæða er slíkt að aldrei verður hægt að venjast því.

Mér tekst alltaf að gleyma því að klæða mig í hlý föt áður en farið er í skólann akkúrat þegar kaldast er. Enda sé ég ekki þörf í að halda mér heitum þessi fáeinu andartök sem ég bíð eftir að strætó birtist við enda Suðurgötunnar. En það breytist alltaf þegar ég er kominn út en þá er það um seinan. Ákveðin meinloka.

Meinloka = plástur?

Veturinn setur líka af stað nokkuð reglulega rútínu sem fylgir skólanum jafnt í námi sem félagslífi og finnst mér það byrja nokkuð glatt þessa helgina. Fyrsta kórpartí annarinna og auk þess fyrsta sem mér er heimilt að fara í og svo starfsmannapartí þar sem haldið er útí óvissuna með tonn af grillmat og gerjuðum kornafurðum. Sem minnir mig á það, ég þarf að redda mér hippabúning!


|

miðvikudagur, september 14, 2005

Ég fór í fyrsta skipti í langan tíma á kaffihús í þeim tilgangi að slappa af og gera e.t.v. nokkur verkefni fyrir skólann. Fyrstu vikurnar eftir sumarfrí hafa verið mér nokkuð strembnar; allir doðrantarnir sem hrannast upp hjá mér í hverjum áfanganum fyrir sig sem allir þurfa að vera kláraðir á ógnvekjandi stuttum tíma, að ég tali nú ekki um í bókmenntaáfanganum sem ég skráði mig í.

Á næstu vikum stefni ég á að vera búinn með eftirfarandi:

Det forsømte forår - Hans Scherfig 176 síður
Völundarhús einsemdarinnar - Octavio Paz 202 síður
The curious incident of the dog in night-time - Mark Haddon 268 síður
Auk reglulegs skammts af köflum úr Njálu

Ætli ég þurfi ekki að skella mér á hraðlestrarnámskeið.

Bráðum fer að líða að því að ég þurfi að nota nýju fallegu vettlingana mína.


|

sunnudagur, september 11, 2005

Frá og með deginum í dag (væri kannski réttara að skrifa „nóttinni í nótt“ en ég nenni ekki að fara út í smámunasálma) ætla ég að halda uppi draumadagbók. Ég er nokkuð bjartsýnn á að það muni gera mér gott.


|

laugardagur, september 10, 2005

Einhvern tímann horfði ég í sjónvarpinu á einhvern þátt um hvernig heilinn okkar virkar og var í það sinn fjallað um skapið og hvernig umhverfið hefði áhrif á hvernig okkur líður. Það er svosum ekki mikið til frásögu færandi nema að fyrir algera slysni og/eða heppni varð dagurinn algjörlega þannig. Upp á hverja sekúndu.

8:15: Vakna hress vegna þess að ég er búinn að láta símann minn vekja mig fimmtán sinnum og alltaf gef ég mér góða afsökun fyrir að ýta á "Snooze" takkann bara einu sinni enn.

8:16: Hárið lætur að stjórn í sturtunni.

8:30: Pabbi kominn heim frá Ameríkunni með nýja myndavél

9:00: Legg af stað í vinnuna og hlusta á Hljóma á leiðinni þangað.

10:00 - 15:00: Hressir viðskiptavinir, skemmtileg útvarpsstöð í gangi og vinnufélagarnir rosalega rólegir og ferskir.

15:15: Skoða nýju myndavélina mína til hlítar. Hún er ýkt hip og kúl.

Núna: Náði í ný podcast og fann fullt af ítalskri house-tónlist. Dúndur!|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?