<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 28, 2005

Sigur Rós í gær. Elsa hringdi í mig klukkutímum fyrir tónleikana til að spyrja hvort það væri ekki í lagi að hún kæmi líka. Ég sagði henni auðvitað að koma. Ég meina, þetta er Sigur Rós! Ekki oft sem maður sér slíkar stórstjörnur spila þó þetta séu samlandar manns. Ég var samferða Ingibjörgu systur minni í strætó upp í Höllina. Á leiðinni kom inn þónokkur flóra af fólki sem öll var að fara á sömu tónleika. Mér fannst mjög sérstakt hversu listrænt fólk reyndi að dressa sig fyrir þessa tónleika.....ég samt reyndi ekki að skapa neina umræðu varðandi það við hana Ingibjörgu, enda var hún masandi við vinkonu sína. Þegar við komum út tók við vetrarkuldinn alla leiðina að Laugardalshöll. Það sem tók líka við og var mun eftirtektarverðara var graslyktin sem umvafði okkur síðustu metrana. Greinilegt að sumirr vildu komast í rétta ástandið fyrir tónleikana. En aftur.....reyndi ég ekki að tala um það við Ingibjörgu. Ég var ekki í neinu sérstöku málæði þetta kvöld.

Tónleikarnir voru mjög góðir. Með þeim betri sem ég hef mætt á. Ég vil ekki nefna þá tónleika sem ég tel betri af hræðslu við leiðindasvör. En til að leggja áherslu: Með þeim betri sem ég hef mætt á. Mér fannst upphitunarhljómsveitin algert æði og einmitt mjög hentug fyrir Sigur Rós. Það sem mér fannst samt hvað skrýtnast við þessa tónlistarupplifun mína var það hversu oft ég grét næstum því. Ég, undir sterkum áhrifum frá grein í enskubókinni Advanced Masterclass (ens 303) þar sem fjallað er um grátur karlpeningsins, taldi mig á þeim augnablikum beinlínis fatlaðan á geði. Ég get ekki undir neinum kringumstæðum gráið þegar mér sýnist, hvort sem er í gleði eða hryggð. Það þarf annað hvort að koma fyrir sálrænt sjokk eða beinbrot og mikið blóð og opin sár meðfylgjandi (ég hef ekki upplifað hið síðara en ég held að ég gréti pottþétt við þær aðstæður).

***

Í dag fór ég í sund með það í huga að fá staðfest að ég hafi iðkað lágmarkshreyfingu í mínum frítíma, staðfest af ákveðnum vottum, svo ég fái nú örugglega þessa einu einingu í líkamsrækt, ellegar myndi ég falla. Ég upplifa þetta sem hreina leti í íþróttakennurum enda hafa þau ekki verið gjörn á að útskýra þessa skyndilegu breytingu á áfanganum öðruvísi en að í staðinn sleppum við að taka löngu gönguna uppí Árbæ. En þetta útskýrir hvers vegna ég lagði leið mína í Vesturbæjarlaugina. Þegar út í laugina var komið hitti ég íþróttakennarana mína frá því í Melaskóla og Hagaskóla en þeir greinilega kenna saman skólasundið. Mig undraði mjög að þeir skyldu ennþá muna eftir mér það vel að þeir ávörpuðu mig og enn meira að þeir vissu að ég ynni í Melabúðinni. Svo þegar í vinnuna var komið eftir hressan sundprett (reyndar kom ég fyrst við í apótekið í leit að ilmvötnum) heilsaði ég þvínæst öðrum hverjum manni, og gekk í gegnum margar rútínur og mismunandi útfærslur af skilaðukveðjutil og biðaðheilsa díalógum. Á tímabili leið mér eins og ég væri staddur í þorpi.

Ætli ég sé ekki að breytast í Vesturbæing?


|

þriðjudagur, nóvember 22, 2005


Fróði mælti við mig fyrstur manna þegar ég mætti í skólann í morgun og sagði mér frá því að ég væri í DV. Ég gerði dauðaleit að eintaki dagsins í allan dag af einskærri forvitni. En eins og við var að búast var enginn sem ég þekkti með þeta blað til reiðu. Ég fór upp í bókasafn skólans og þar fékk ég það svar að hér væri einungis alvöru dagblöð að finna. Þannig að áfram hélt ég að leita en ákvað að bíða bara með þetta þangað til ég gæti gripið eitt eintak með mér úr Melabúðinni þar sem ég vinn. Og viti menn! Hér er engin lygi á ferð.


Ætli þetta sé taktíkin hjá svona skeinipappírum? Láta nógu stóran hluta almennings birtast einhversstaðar í blaðinu með það fyrir vissu að það kaupir blaðið til að finna sjálft sig þar.

Sá þetta ekki fyrir.....og það sem meira er, ég féll fyrir þessu lúalega bragði.


|

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Frá því ég man eftir mér hefur eitt málverk staðið uppúr í minningum mínum og meira og minna hefur það fylgt mér það sem liðið er af lífshlaupi mínu. Málverkið sýnir frægar ofurhetjur úr MARVEL batteríinu; tvo meðlimi úr The Fantastic Four, Flash, einn sem virðist vera þrumuguðinn Þór og (að ég held) Wolverine. Þessar ofurhetjur standa í hálfhring með aðra hendina fram þannig að fingurbroddar á hvers hendi snertast. Það eru talblöðrur sem bendir á hvert þeirra og eru allar brúnar (eins og ramminn) en engin orð. Ég hef alltaf lesið það á þessari mynd að þau séu að sameinast í því að gera það sem í þeirra valdi stendur til að e.t.v. vernda barnið, sem sefur vært í rúmi við fætur hetjanna, með tuskubangsa sér við hlið. Gæti líka verið að þau ætli að drepa það, veltur allt á upplifun hvers og eins.....

Málverkið heitir „Un rêve“, eða á íslensku „Draumur“. Þetta er mitt allraeftirlætismálverk í öllum himingeiminum.

Það hangir á uppá vegg í herberginu mínu. Það er eitt af þeim litlu atriðum í hversdagslífinu sem kætir lund mína.


|

föstudagur, nóvember 04, 2005

Ég man ekki hugsunina bakvið síðustu færslu.


|

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Ég held að flest okkar séum öskrandi mótsagnir í persónuleika og atferli en þorum ekki að leita í kringum okkur að fólki sem er búið að gera sér grein fyrir þessu og er jafn tilbúið að viðurkenna það og maður sjálfur.

Í staðinn gagnrýnum við fólkið í kringum okkur og þurfum að þola að það fólk gagnrýni okkur án þess að veitt sé nein sérstök eftirtekt.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?