<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 28, 2005

Það vakti mig til þónokkurrar umhugsunar inn á milli þess sem ég söng með kórnum á miðnæturmessunni í Dómkirkjunni á aðfangardag hvað munurinn sést glögglega á þeim trúuðu og þeim guðleysingjum sem færu ekki í kirkju nema tilneyddir.

Ég tók ekki eftir neinum í kórnum sem sýndi annað en fulla einbeitingu þegar átti að syngja hina hefðbundnu kirkjusálma auk tveggja verkja sem við æfðum sér fyrir messuna: Exultate Deo og Personent Hodie, en textinn við bæði verkin eru til mikillar dýrðar Guðs og mjög viðeigandi akkúrat á þessum hátíðarhöldum. Það þótti engum kórmeðlimi annað en sjálfsagt að syngja þessi verk, enda gerðum við fátt annað en að æfa stuttu eftir prófin.

Þegar svo kom að því að fara saman með ýmis messusvör sem sögð voru í talanda eða trúarjátninguna tóku undir þeir sem á kirkjunnar guð trúði en hinir þögðu. Bara horfðu beint fram og voru sviplausir. Eða svo virðist mér, ég get ekki fundið aðra ástæðu fyrir því af hverju þeir létu þetta fara framhjá sér, nema þá að þeir aðilar kunni ekki lengur Faðirvorið. Ég er sjálfur mjög ryðgaður í þeim efnum.

Ég reyndar gerði þetta mjög mikið sjálfur. Þegar ég fór með fjölskyldunni í messu hjá pabba á jólunum heyrðist ekki hljóð í mér því ég stóð í þeirri trú að ef ég tæki einhvern þátt í messunni væri ég ekki sannur guðleysingi og satt að segja ekkert annað en hræsnari. Ég gerði mér það meira að segja að leik að bæta ekki við alls staðar í trjúarjátningunni þannig að hún yrði að andhverfu sinni:

Ég trúi á ekki Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar....

Ég trúi ekki á Jesú Krist, hans einkason...

...Ég trúi ekki á heilagan anda...


Síðar sá ég hvað þetta var asnalegt og eiginlega hálfgerð ókurteisi.

Ég spyr: Hvaða óöryggistilfinning er þetta í fólki sem telur það skaða sig að þylja fáein orð í guðshúsi af því að það trúir ekki á þennan guð? En síðan í sömu andrá syngja með þvílíkum léttleika nákvæmlega það sem reynt var að hundsa augnabliki fyrr.

Ég þarf ekki að líta á mig sem homma þó ég sofi hjá karlmanni. Á sama hátt get ég alveg farið með Faðirvorið í messu án þess að kunngjöra að ég sé allt í einu orðinn guðs maður.


|

mánudagur, desember 26, 2005

Nú eru jólin búin fyrir flestum get ég ímyndað mér. Ég býst heldur ekki við því að fólk gæti haldið þessa tíma jafn hátíðlega yfir svo langan tíma. Þannig að það mætti segja að ég er búinn að taka það í sátt að ég þarf að byrja aftur í skólann þegar jólin eru ekki ennþá tæknilega búin.

Ég fékk margt gjafa. Reyndar hefur þróunin orðið sú að ég hef fengið fleiri gjafir með aldrinum, þrátt fyrir að fá ekki gjafir frá þónokkrum ættingjum sem gefa ekki fermdum börnum. Ástæðan er nokkuð gagnsæ. Ég gef fleirum gjafir en ég hef áður gert. Það er virkilega eitthvað varið í þá klisju. Það er sælla að gefa en þiggja.

Ég fékk eftirfarandi geisladiska:

Swallowed a Star - Daníel Ágúst Takk Þjobba og co.
The Understanding - Röyksopp Takk Regína, vona að gjöfin til þín gladdi þig.
Phrenology - The Roots Frá Bjarna (við reyndar völdum hvor sinn diskinn í „2 fyrir 2.200“ rekkanum í Skífunni en höfðum fyrir því að pakka fyrir hvor öðrum)
„Pulsaðu“ þig upp (sumarsmellir síðustu ára) - Ýmsir íslenskir sveitarballaflytjendur Jeminn, ég á ekki orð.

Ég fékk líka nokkrar bækur og ber þar fyrst að nefna Choke eftir Chuck Palahniuk frá Zakka. Við erum að byrja nýja hefð núna þar sem þetta eru önnur jólin sem við Zakki gefum hvor öðrum bók eftir þennan höfund, enda erum við báðir afskaplega hrifnir af kvikmyndinni Fight Club, sem má segja að sé kveikiþráðurinn að þessum sið. En burtséð frá því, það lítur út fyrir að þessi jól höfum við gefið hvor öðrum sömu bókina. Hefði átt að sjá það fyrir...

Ma&Pa gáfu mér ljóðabók sem ber titilinn Haiku. Ég er rosaglaður.
Marta litla systir gaf mér High Fidelity eftir Nick Hornby. Ef mér skjátlast ekki þá á ég að lesa hana í ENS403, ef svo er þá er þetta rosalega hentugt.

Svo fékk ég Söngbók Gunnars Þórðarsonar. Ég er búinn að eyða dágóðum tíma núna í að gapa yfir öllum þessum heitum yfir hljómana sem þessir gaur notar í lögunum. Í sama dúr þá fékk ég litla sæta klukku sem er í laginu eins og rafmagnsgítar. Klikkar ekki.

Síðast en ekki síst fékk ég eina þá furðulegustu gjöf sem ég hef nokkurntímann fengið á gjörvallri ævinni. Ég eiginlega get ekki tjáð þetta öðruvísi en myndrænt:

Það fyndna er að Addi (sá sem gaf mér gjöfina, en ég er aðstoðarforingi hans í skátunum (ég er svoddan lúði)) vissi það á undan mér að ég á duldan hátt langaði í exi. Hann veit það jafn vel og ég að ég hef engin not fyrir hana nema upp á grínið.

Spes.


|

föstudagur, desember 23, 2005

Ég finn fyrir einkennilegri þörf til að létta á hjarta mér. Láta virkilega allt gossa því ég veit að mér liði svo miklu miklu betur eftir á. Eitthvað andstyggilegt nagar mig innra og bæklar mig á alla vegu.

Kannski hef ég áhyggjur af því hvað er að koma fyrir mig í sambandi við þetta blogg. Ég man þá daga þegar ég bloggaði á hverjum degi án þess að svitna yfir því og alltaf kom ég með eitthvert efni sem var frábrugðið því sem var á undan, þó oft á tíðum ekki mjög. Nú gleymi ég því allt of oft og þegar mig langar að festa eitthvað í stafrænt form, dettur mér helst í hug að æfa mig í vélritun.

asdf asdf asdf asdf asdf asdf asdf asdf
jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ jklæ

Ég einhvernveginn er búinn að missa tökin á þessu tjáningarformi og ég get engum öðrum kennt um en mér. Og ég hef ekki græna glóru hvernig ég fór að þessu.

Gæti verið að jólatíðin leiki mig grátt á lúmskan hátt. Að minnsta kosti hef ég ekki tekið eftir neinni tengingu milli jólanna og gráleika í fasi en ég hef aldrei getað metið hvað í umhverfinu truflar mig. Margt við jólin gætu hafa sett strik á reikninginn hjá mér. Ég er strax búinn að snúa sólarhringnum við og vakna venjulega um tvöleytið og hef enga nennu til að aðhafast neitt.

Jólafríið er á marga vegu óvinur minn þegar kemur að hinu félagslega. Þá er skólinn búinn og ég þarf að leggja meira á mig til að hitta þá vini sem ég umgengst í skólanum daglega. Ég veit ekki af hverju ég gefst svo gjörla upp, af hverju þetta eina atriði hindrar mig. Þetta er svosum ekki algilt. Ég hitti mína nánustu vini eitthvað yfir jólin.....eins gott því annars væri ég sturlaður.......sem sagt sko þannig að ég þyrfti að vera lagður inn....

Ég bæði elska og hata hvernig ég haga mér í kringum fólk. Ég bæði elska og hata hversu opinn/lokaður ég er, byggt á hvaða aðila ég er í kringum.Ég bæði elska og hata að ég er ekki í föstum vinahópi, heldur vel liðin (eða a.m.k. ágætlega) innan nokkurra. Ég bæði elska og hata að vera einfari.

Ég sakna Elsu.


|

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ég held ég sé loksins kominn með einhverja nennu til að að taka þetta blessaða bílpróf. Ætli ég fari ekki að stunda ökutímana í sumar þegar ég hef ekkert annað að gera?

Ég sé mig samt ekki fyrir mér keyrandi. Akstur er varla eitthvað sem mér verður auðveldlega tamt.

Kannski ég ætti bara að bíða með þetta aðeins lengur.


|

föstudagur, desember 16, 2005

Þið sem lesið þetta í dag áður en þið hafið áætlað hvað þið ætlið að gera þetta föstudagskvöld:

Þá vil ég minna á tónleika á Bar 11 þar sem Cynics og Diego spila.

Byrja kl. 23!


Bring homies!


|

miðvikudagur, desember 14, 2005

Nú hef ég lokið prófum og svei mér þá ef ég hef ekki endað þetta með glans. Þegar ég var búinn með söguprófið síðasta fimmtudag ákvað ég að nýta mér þessa sex daga (þar sem ég hafði ekkert annað þannig séð að gera) og taka íslenskuprófið án þess að svitna yfir því. Það tókst. Reyndar jarðaði ég þetta litla próf það svakalega að niðurstaðan getur varla verið nema mér í óhag. Þegar eitthvað gengur vel og maður er montinn af því breytist það í andstæðu sína og prófið breytist í forynju sem á sér enga ósk heitari enn að naga mig inn að beini og smita mig af þeim djöfullegu vonsvikum sem eiga eftir að dynja á mér.

Þetta kenndi karma-lögmálið mér en ég gerist gjarnan Hindúi yfir prófatímabil.

Hvað væru jólin án prófa?


|

fimmtudagur, desember 08, 2005

Ég hef ekki upplifað mig uppteknari yfir neinni prófatörn en þessari. Og það sem gerir það enn súrara þá finnst mér gengi mitt í þeim prófum sem ég hef tekið núþegar (og aðeins eitt próf eftir) ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Ég vonast samt til að fá það sem ég býst við í frönsku og ensku en ég er í algjörri óvissu varðandi þýskuprófið. Okkur var gefinn klukkutími til að leysa átta blaðsíðna próf....sem olli því auðvitað að mmargir náðu ekki að klára, þ.á.m. ég. Horfurnar eru mér ekki hliðhollar.

En ég fæ sex daga til að undirbúa mig fyrir síðasta prófið, íslensku. Ég skal sko svoleiðis jarða það próf að það verður hálfsorglegt. Alveg svoleiðis....

***

Kórinn er kominn í fullt start núna býst ég við. Loksins orðið almennilega gigghæft eftir að okkur nýgræðingunum hefur tekist að læra nógu mörg jólalög. Ég fagna því. Ég er nokkuð forvitinn um hvort kórinn hljómi jafnvel öðrum og hann gerir mér. Ykkur gefst færi á að hlýða á okkur á friðargöngunni á Þorláksmessukvöld og á miðnæturmessu Dómkirkjunnar....ég hlakka sjálfur rosalega mikið til.

***

Ég þyrfti bráðum að skrifa niður jólagjafalistann minn.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?