<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 14, 2006

Ég upplifði sykursjokk í fyrsta sinn á ævinni um daginn. Reyndar hefur mér áður liðið svipað við sömu aðstæður en ég hef aldrei tengt aðstæður og afleiðingu saman þau skipti. Ástæðan fyrir því að ég veit að ég fékk sykursjokk er sú að Elsa sagði mér það þegar ég var að kveinka mér yfir vanlíðan minni.

Ég hef líka einu sinni farið að skjálfa vegna of mikillar kaffidrykkju. Það var síðasta sumar þegar ég þambaði fimmtán kaffibolla á innan við klukkutíma. Ég vissi að ég skalf vegna kaffisins vegna þess að ég hafði heyrt reynslusögur vina minna af því að hafa drukkið of mikið kaffi og farið svo að skjálfa eftirá.

Ég fattaði ekki að ég væri orðinn fullur í fyrsta sinn sem ég drakk áfengi. Ég spurði sífellt hvort ég væri orðinn fullur. Ég spurði meira að segja hvernig manni liði þegar maður er orðinn fullur og þá fékk ég að vita það að ef þú ert farinn að vagga og farinn að finna fyrir þyngslum í höfðinu þá hefurðu náð takmarkinu. Nú er ég mun næmari á það hvenær ég er byrjaður að finna á mér, þökk sé þessari lexíu.

Ætli það sé ekki nokkuð til í því að fólk tengi ekki endilega aðstæður og afleiðingar saman nema af tilkomu reynslu annarra? Eða er ég kannski bara einn um þetta? Það væri mér líkt.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?