<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, maí 25, 2006

Ég er byrjaður að lesa Choke eftir dýrlinginn hann Chuck Palahniuk.

Enn sem komið er hefur hann réttlætt og fegrað til muna það fyrirbæri sem klám er, staðfest það sem ég hef alltaf vitað um sápuóperur og gert mér það í skilning, að söfn með visst tímabil sem þema (eins og t.d. Árbæjarsafnið), eru froðan ein ef þau sleppa því að fjalla um rónana, mellurnar og alla umkomuleysingjana, en í staðinn hampa mjaltarstúlkunum og litlu sætu kirkjunum með gras fyrir þak.

Þetta var nokkuð löng málsgrein.

Ég vinn eins og brjálæðingur. Ég verð ríkur um mánaðarmótin býst ég við. Ég sé mér meira að segja kannski ekki unnt til að kjósa á laugardaginn. Hvenær verður kjörstöðvum lokað?

Annars var ég að skoða kosningaáróðursbleðil Sjálfstæðisflokksins, nánar tiltekið frá Heimdalli. Mér finnst ekkert meira koma til þessa flokks en hinna. Kannski geri ég borginni mestan greiða með því að kjósa Framsókn eða Frjálslynda svo að það verði vonandi aðeins meira jafnvægi í borgarstjórn, mér þætti leiðinlegt ef einn flokkur réði öllu. Það viljum við ekki að gerist, er það nokkuð? Það eru allir eitthvað svo ósáttir við þá stjórnareinokun sem var við lýði núna síðustu fjögur árin, ha.......?

Mér finnst líka alveg skína í gegn, þótt sjálfstæðismenn, sérstaklega hinir ungu, munu aldrei viðurkenna það: Þetta er ennþá bara gamla Íhaldið. Heimdallur er búinn að játa, í hljóði, í bringuna á sér, með því að gefa út skítkast á aðra flokka á 12 síðum.

Kosningarloforðin eru líka frekar ruglandi. Þeir lofa m.a. „...að fjölga bílastæðum í miðborginni og bjóða hluta þeirra án endurgjalds í tiltekinn tíma í senn.“ Takið eftir „...hluta þeirra...“. Takið einnig eftir „...tiltekinn tíma í senn.“. Segið mér nú satt, er þetta virkilega loforð sem felur í sér göfgi á nokkurn hátt?

Ég segi bara, kjósum jafnt af öllu. Þetta er hvort eð er allt eins, svona í megindráttum.


|

miðvikudagur, maí 17, 2006

Elsa fer til Burgos að læra spænsku í fyrramálið. Hún verður í fjórar vikur.

Það eru 28 dagar.

672 klukkustundir!

Ég verð dáinn úr elli því tíminn verður svo lengi að líða hjá mér.


|

mánudagur, maí 15, 2006

Last.fm er sá fídus í tölvuheiminum sem ég hef komist næst að elska. Með bara fáeinum klikkum get ég valið hvers konar tónlist ég vil hlusta á og með tímanum fer tölvan að þekkja inn á mig og getur farið að spila eitthvað sem ég fíla en hef aldrei heyrt á ævinni.

Ef þið finnið árangursríkari leið til að komast í tæri við nýja tónlist, látið mig vita!

Bætt við kl. 21:19:

Ég hef ákveðið að flippa svolítið og birta á síðunni það sem ég er að hlusta á hverju sinni, það sem er tónlistarlega á döfinni. Núna er ég t.d. að hlusta á útvarpsstöð sem hefur japanskt þema. Übër töff!

P.S. Davíð: Last.fm > pandora.com = PWN!


|

föstudagur, maí 12, 2006

Ég er alveg asnalega þreyttur. Ég er búinn að hlusta á 10.000 days með Tool þrisvar í einni lotu og spila Bubble Shooter. Allan þann tíma hugsaði ég með mér að það væri kannski sniðugt að fara bara að sofa. Ég túlka það sem svo að Tool hafi haft yfirhöndina, þrisvar.

Ég er byrjaður að fíla hana soldið. Minnir mig svolítið á þegar ég hlustaði fyrst á Lateralus með sömu hljómsveit þegar ég var í 9.bekk. Tekur mjög langan tíma að melta og er í rauninni algert óæti við allra fyrstu hlustun. Kosturinn við hana samt er að hún fer aldrei úr líkamanum. Öll næring nær að meltast og ekkert fer til spillist þannig að að lokum fer ekkert út (þetta er samt alveg frekar lífræn lýsing á plötunni). Núna skemmti ég mér við það að uppgötva alltaf eitthvað nýtt sem einkennir plötuna, það er eins og hún sé óendanleg hvað varðar dýpt og tjáningu.

Nú þarf ég að fara í gegnum það sama með 10.000 days. Tekur mig örugglega þetta marga daga að meta hana almennilega.

Ef ég mætti bara lýsa Tool með einu orði þá væri það lífræn. Örugglega vegna þess hvað mér finnst eins og þeir séu í rauninni að spila á líkama sinn í gegnum hljóðfærin. Kannski finnst mér þetta einum, ég veit ekki hvort fólk tengi Tool á nokkurn hátt við lífrænt fæði...


|

sunnudagur, maí 07, 2006

Hér á eftir fer fram myndræn skrásetning á afmælisboðinu sem ég hélt fyrir hljómsveitarmeðlimi og maka þeirra. Njótið.|

fimmtudagur, maí 04, 2006

Það hefur ekki klikkað að ég blogga á afmælisdeginum mínum. Ég blogga reyndar líka alltaf þegar bloggið á afmæli en ég fattaði það ekki fyrr en seinna að ég skrifaði einhverja þvælu án þess að hafa hugmynd um að bloggið mitt var orðið þriggja ára. En nú lendi ég á þeim tímamótum að ég er sexfalt eldri en bloggsíðan mín (og veröldin verður ekki söm við sig eftir að hafa öðlast þessa vitneskju).

Ég hef eflaust einum of oft minnst á það hvað mér finnst hálfvandræðalegt að skoða uppfærslur mínar frá hinum myrku árum gelgjuskeiðsins og ég á eftir að bera sama hug til þessarar uppfærslu eftir ár (eða kannski tvö, ég hef nú ekki þroskast það mikið andlega á einu ári). En eitthvað heldur mér við það að skrifa og gera við sætu litlu síðuna mína með langa urlið sem ég fann upp á í 9.bekk. Og ég fann ekki einu sinni upp á því. Þetta er nafn á leik þar sem þú átt að kasta litlum sætum hvolpi með Súperman-skikkju sem lengst og safna stigum. Að sumu leyti er þetta líka hálfgerð þroskasaga, bara ef bloggið hefði komist í tísku fyrr....það má bæði þakka fyrir það og gráta það.


|

mánudagur, maí 01, 2006

Í ysinum og þysinum
sem einkenndi vinnuna í Melabúðinni í dag,
minntist ég þess þegar ég,
á mínu fjóra eða fimmta ári,
hugleiddi í þungum þönkum
fram og aftur
þar til ég loksins spurði móður mína:

„Eru stígvélar vélar?“


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?