<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, október 22, 2006

Jeminn eini, alltaf kemst maður í sama gírinn þegar ekkert annað er áhugaverðara í sjónvarpinu en kristilega sjónvarpsstöðin Omega. Sú stöð er eiginlega myndrænt jafngildi Bylgjunnar (ath. ég er ekki að tala um hliðstæðurnar, sem eru sjónvarpsstöðin Omega og útvarpsstöðin Lindin).

Ástæðan fyrir því að fólk hlustar á Bylgjuna er að það vill hlusta á útvarpsstöð sem krefst ekki of mikillar einbeitingar, t.d. ef verið er að tefla, diffra eða kljúfa úran með handafli. Ef þú hins vegar reynir að einbeita þér að því að hlusta á Bylgjuna þá slokknar sjálfkrafa á þér, líkt og í baði þegar maður fær allt í einu óbilandi áhuga á sápufroðunni.

Þennan eiginleika er líka hægt að finna á Omega. Ég eyddi tíu mínútum, án þess að blikka auga, í það eitt að fylgjast með laglausum hvítasunnukántríbubba lofa Jesú á krossinum hástöfum fyrir að hafa veitt heiminum alla þá gleði sem fyrirfinnst í honum í dag. Ekki ósvipað því að stara á vegg. En þá aftur vaknar sú spurning hvort ég bregðist ekki öðruvísi við ef ég væri Gunnar í Krossinum. Væri ég ekki öskrandi Hallelúja og Amen við öllu sem falski, sveitti, frelsaði, líklega fyrrum sýrutrippaði tappi segði?

Það eru svo margar spurningar sem vert er að spyrja og hver hefur sína spurningu sem það myndi vilja leggja fyrir Guð. Margir gætu hugsað sér að lifa í eftirsjá og spyrja hana (þar sem mannleg ímynd Guðs er tónlistarkonan Alanis Morrisette) um tilgang lífsins, e.t.v. í þeim tilgangi að eyða himnesku lífi sínu í að ímynda sér hvernig lífið hefði verið á jörðu niðri hefði það haft þessa vitneskju. Ég ætla ekki að spyrja að þessu. Ég er búinn að sjá Dogma og veit allt um það.

Guð, af hverju ertu að láta okkur deyja og fara til himnaríkis? Verður ekki Gunnar á Krossinum þar líka?

Himnaríki er skrautlegt fyrirbæri.


|

fimmtudagur, október 12, 2006

Ég átti leið niður Brautarholtið áðan og rak augun á auglýsingarskilti frá AVEDA með eftirfarandi slagorði:

Prófaðu og þú vilt ekki annað

Ég veit ekki með ykkur en þetta væri persónulegt álit mitt á Euro Shopper hárvörum, ef þær eru til (vonum ekki).


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?