<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þetta var áhugaverður sálfræðitími í dag. Við vorum látin lesa mismunandi greinar og hópa okkur svo saman og gera grein fyrir öðrum það sem við höfðum lesið. Ég hafði lesið grein um áhrif og þýðingu drauma, sem vakti ekki alveg áhuga minn.

Svo fékk annar í hópnum orðið og fjallaði um muninn á milli sérvisku og geðsjúkdóms. Eitthvað fór að smella saman í hausnum og svo þegar ég kom heim, tók ég mig til og las greinina.

Sálfræðingur nokkur tók sig sem sagt til og gerði könnun á 1000 manns sem á einn eða annan hátt voru flokkaðir sem sérvitringar. Þessi rannsókn spannaði tíu ár. Þessum sálfræðingi tókst að finna 15 einkenni sem gæfu lesandanum hugmynd um hvort hann sé sérvitur. Þeim er raðað upp eftir mikilvægi. Fyrstu fimm atriðin eru mest lýsandi fyrir sérvitring, en hafi maður tíu eða fleiri af persónueinkennunum telst hann sérvitur.

Sérvitringur:

* hundsar viðmið, sérstaklega kirkjunnar (nonconforming, leitið þessu upp)
* er skapandi
* er mjög forvitinn
* er hugsjónalegur (idealistic, fáránleg þýðing, ég veit)
* er heltekinn af tilteknu áhugamáli (oft fleiri en einu) og er stoltur af því
* hefur tekið eftir því snemma í bernsku að hún er öðruvísi en aðrir
* er gáfaður
* hefur skoðanir og er opinskár
* er ekki kappsfullur
* hefur óvenjulegar venjur þegar kemur að mat og búsetu
* hefur ekki áhuga á skoðunum né félagsskap annarra
* hrekkvís kímni
* er einhleypur
* Elsta barn eða einbirni
* er lélegur í stafsetningu

Frægir sérvitringar nefndir í bókinni eru m.a.:

Benjamin Franklin. Hann fór í "loftböð" heilsunnar vegna, þ.e. að standa nakinn við opinn glugga. Hann er, í augum Bandaríkjamanna, þjóðhetja.

Alexander Graham Bell dró fyrir alla gluggana til að verjast geislum frá tunglinu. Hann reyndi líka að kenna hundinum sínum að tala. Hann fann líka upp á talsímanum.

Þegar ég reyndi að telja hve mörg af þessum einkennum væri hægt að heimfæra upp á mig varð ég frekar hræddur því mér fannst allt passa við mig nema þrjú atriði. Út frá þessu ætti aðal hobbíið mitt að vera eitthvað í þá leið að gala eins og hani á hverjum morgni á slaginu sex, í engu nema ballerínukjól.

En svo fór ég í aðeins nánari naflaskoðun og komst að þeirri niðurstöðu að ég er í mesta falli bara einkennilegur. Ég taldi upp á nýtt og það kom heim og saman. Það eru bara svona 9 eða 10 af þessu sem á við mig...

Eða er ég kannski bara í afneitun?


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?